Morgunblaðið - 24.04.2002, Blaðsíða 22
ERLENT
22 MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
MEÐ því að leggja í byrjun blessun
sína yfir byltingartilraunina í Venes-
úela fyrr í mánuðinum hefur Banda-
ríkjastjórn kastað rýrð á sjálfskipaða
stöðu sína sem vörður lýðræðis og laga
í Suður-Ameríku. Ennfremur hafa við-
brögð Bandaríkjamanna við tilraun
hersins til að steypa Hugo Chavez for-
seta af stóli vakið hörð viðbrögð hjá
leiðtogum í álfunni vegna þess að
skammt er síðan Bandaríkjamenn
gripu til ráðstafana í viðskiptum og ör-
yggismálum er bentu til að þeir væru
að ganga gegn eigin grundvallar-
reglum.
Raunverulegar afleiðingar gætu
m.a. orðið þær, að dragi úr stuðningi
við stefnu Bandaríkjamanna gagnvart
Írak og í málum Miðausturlanda, að
sögn suður-amerískra stjórnarerind-
reka. Chavez nýtur reyndar ekki mikil
stuðnings í álfunni, þar sem hann hef-
ur sjálfur traðkað á fleiri en einu
grundvallaratriði lýðræðisins. En með
því að láta skína í að þeir hafi verið
fylgjandi brottvikningu lýðræðislega
kjörins forseta hafa Bandaríkjamenn
grafið undan eigin getu til að beita sið-
ferðislegum þrýstingi.
„Að minnsta kosti hefur þetta áhrif
til skemmri tíma litið. Fólk gleymir
þessu ekki,“ sagði Carlos Elizondo
Mayer-Serra, stjórnmálafræðingur og
framkvæmdastjóri Rannsóknarmið-
stöðvar í hagfræði og kennslufræði í
Mexíkóborg. „Þetta er á skjön við ná-
kvæmlega þau markmið sem Banda-
ríkjamenn eru að leita eftir.“
Eftir að Chavez var settur af 12.
apríl lýsti Ari Fleischer, fréttafulltrúi
Hvíta hússins, því yfir að Bandaríkja-
stjórn væri því fylgjandi að nýjar
kosningar færu fram. Condoleezza
Rice, þjóðaröryggisráðgjafi George
W. Bush forseta, sagði í sjónvarpi að
tveim dögum síðar að stefna Chavez
virkaði ekki í Venesúela. En Banda-
ríkjastjórn hefur fullyrt að hún hafi
ekki aðhafst neitt til að ýta undir bylt-
ingu eða tryggja að hún tækist.
Þrátt fyrir allt það sem Bandaríkja-
menn hafa sagt um stuðning sinn við
lýðræðisríki og opna markaði virtust
viðbrögð þeirra sýna fram á að þeir
styddu í sumum tilvikum byltingar og
að farið væri framhjá vilja kjósenda,
að mati ýmissa fréttaskýrenda vest-
anhafs. Eitt helsta dagblað Brasilíu, O
Globo, sagði: „Óþolinmæði Banda-
ríkjastjórnar, meintur stuðningur
þeirra við byltingarleiðtogana og flýtir
þeirra við að samþykkja bráðabirgða-
stjórnina vekja minningar um fortíð
sem lýðræðríki í álfunni vilja alls ekki
að endurtaki sig.“
Flestir leiðtogar Mið- og Suður-
Ameríku – með forseta Mexíkó, Bras-
ilíu og Argentínu fremsta í flokki –
voru fljótir að fordæma byltingartil-
raunina. Þegar Chavez tók aftur við
völdum eftir að hafa verið frá í þrjá
daga nefndi hann sérstaklega Vicente
Fox, forseta Mexíkó, og þakkaði hon-
um fyrir að hafa neitað að viðurkenna
stjórn byltingarleiðtoganna. Ríkis-
stjórn Brasilíu brást „ánægð við er
stjórnarskráin og lýðræðið urðu aftur
ráðandi í Venesúela ... Það var mik-
ilvægt skref til staðfestingar lýðræð-
islegum gildum í Suður-Ameríku.“
Forseti Chile gagnrýndur
Ricardo Lagos, forseti Chile, hefur
aftur á móti sætt harðri gagnrýni
heima fyrir vegna meintra tvíbentra
viðbragða sinna við fyrstu fregnum af
byltingartilrauninni í Venesúela.
Flokksbræður Lagosar á vinstri
vængnum segja chileska leiðtoga bera
skyldu til að fordæma byltingartil-
raunir, í ljósi þess að Salvador Allende
var steypt af stóli í Chile í blóðugri
byltingu 1973. Í Kólombíu gat Andres
Pastrana forseti ekki fengið af sér að
fordæma brottvikningu Chavez.
Pastrana hefur ásakað Chavez um að
skjóta skjólshúsi yfir kólombíska
hryðjuverkamenn í landamærahéruð-
um Venesúela, og segja aðrir leiðtogar
í S-Ameríku að þeir telji Pastrana hafa
nokkuð til síns máls.
En það voru viðbrögð Bandaríkja-
manna sem vöktu samstundis við-
brögð á vettvangi Sameinuðu þjóð-
anna (SÞ), og héldu fulltrúar
S-Ameríku sérstakan fund og þróun-
arríkin skipuðu sér samstundis að baki
Chavez og risu þar með í rauninni
gegn Bandaríkjastjórn. Voru menn
sammála um, að byltingarleiðtogarnir
hefðu látið til skarar skríða einungis
vegna þess að þeir hafi talið – með
réttu eða ekki – að Bandaríkjastjórn
hefði veitt þeim leyfi.
„Bandaríkjamenn klúðruðu þessu
algerlega,“ sagði háttsettur s-amerísk-
ur diplómati hjá SÞ, fulltrúi ríkis sem
alla jafna er hliðhollt Bandaríkja-
mönnum. „Núna eru þeir að reyna að
komast frá þessu á sem bestan máta.
En skaðinn er tvímælalaust skeður.“
Reuters
Stuðningsmenn Chavez forseta í Caracas halda á lofti veggspjaldi með mynd af honum.
Bandaríkjastjórn bíður
álitshnekki í S-Ameríku
Mexíkó. Los Angeles Times.
Þrátt fyrir allt það sem
Bandaríkjamenn hafa
sagt um stuðning sinn við
lýðræðisríki og opna
markaði virtust viðbrögð
þeirra við byltingartil-
rauninni í Venesúela
sýna fram á að þeir
styddu í sumum tilvikum
byltingar og að farið væri
framhjá vilja kjósenda.
’ Bandaríkjamennklúðruðu þessu al-
gerlega ‘
TONINO Picula, utanríkisráðherra
Króatíu, átti í gær fund með serbn-
eskum starfsbróður sínum, Goran
Svilanovic, (t.v.) í Belgrad en þetta
er fyrsta heimsókn utanrík-
isráðherra Króatíu til Júgóslavíu
frá því að Króatar sögðu skilið við
sambandslýðveldið gamla fyrir tíu
árum.
Breytingar í lýðræðisátt hafa átt
sér stað í hvoru landinu fyrir sig á
undanförnum árum, með falli Slob-
odans Milosevics, forseta Júgó-
slavíu, fyrir tveimur árum, og
dauða Franjos Tudjmans, forseta
Króatíu, árið áður. Er heimsókn
Piculas til Belgrad liður í viðleitni
til að bæta samskipti þjóðanna sem
bárust á banaspjót í Króatíustríðinu
1991–1992 og í Bosníu 1992–1995.
AP
Sögulegur fundur í Belgrad
HÆTTA er á að fjármálakerfið í
Argentínu hrynji ef almenningur
heldur áfram að taka sparifé sitt út
af bankareikningum, segir Eduardo
Duhalde forseti. „Við vitum öll
hvernig staðan er. Það sem fólk vill
taka út er meira en nemur þeim pen-
ingum sem til eru í bönkunum,“
sagði hann við fréttamenn.
Stjórn Duhaldes hefur sent
þinginu tillögu um endurskipulagn-
ingu ríkisbankakerfisins og fela m.a.
í sér sameiningu banka og reglur um
að þeir sem vilja taka út sparifé sitt
fái það greitt í langtímaskuldabréf-
um, en ekki í reiðufé.
Af ótta við þær afleiðingar sem
miklar úttektir kynnu að hafa á fjár-
málakerfið hafði stjórn Duhaldes
ákveðið að hámarksúttekt skyldi
nema 50 þúsund krónum á mánuði.
en höfðað var dómsmál vegna þess-
arar ákvörðunar, og úrskurðaði
hæstiréttur að sparifjáreigendur
skyldu hafa ótakmarkaðan aðgang
að sparifé sínu, að því tilskildu að
þeir fengju heimild undirréttar.
„Við eigum á hættu að fjármála-
kerfið springi ef dómarar halda
áfram að gefa fólki leyfi til að taka út
peninga,“ sagði Duhalde í útvarps-
viðtali sl. sunnudag.
Afleiðingar úrskurðar hæstarétt-
ar hafa einmitt orðið þær sem stjórn-
in óttaðist. Fyrstu tíu dagana í apríl
fengu einstaklingar leyfi dómstóla til
að taka út sjö milljarða króna, sem
var 35% meira en í mars. Og bara sl.
föstudag tóku sparifjáreigendur út
sem svarar 20 milljörðum króna.
Duhalde segir
fjármálakerfið
að hruni komið
Buenos Aires. AFP, AP.
Argentínustjórn grípur til
frekari efnahagsráðstafana
SEX Serbar, sem stríðsglæpadóm-
stóll Sameinuðu þjóðanna hefur
ákært, eru reiðubúnir að gefa sig
fram við dómstólinn. Frestur sem
Serbíustjórn gaf 23 meintum stríðs-
glæpamönnum til að gefa sig fram
hefur runnið út, og munu verða gefn-
ar út handtökuskipanir á hendur
þeim 17 sem ekki hafa gefið sig fram,
að því er serbneska dómsmálaráðu-
neytið greindi frá í gær.
Þeir sex sem hafa lýst sig tilbúna til
að gefa sig fram eru fyrrverandi yf-
irmaður júgóslavneska hersins, Dra-
goljub Ojdanic, Nikola Sainovic, fyrr-
verandi aðstoðarforsætisráðherra
Júgóslavíu, Milan Martic, fyrrverandi
leiðtogi serbókróatískra uppreisnar-
manna, Mile Mrksic og Vladimir Kov-
acevic, sem voru yfirmenn í hernum,
og Momcilo Gruban, sem var fanga-
búðavörður í liði Bosníu-Serba.
Meðal annarra á lista dómstóls SÞ
eru Radovan Karadzic, sem var æðsti
maður Bosníu-Serba og hershöfðingi
hans, Radko Mladic. Vegna hótana
um efnahagslegar refsiaðgerðir af
hálfu Bandaríkjanna samþykkti júgó-
slavneska sambandsþingið fyrr í
mánuðinum lög um framsal og annað
samstarf við dómstól SÞ, og að þeim
sem gefi sig fram skuli tryggð tiltekin
réttindi, þ. á m. að þeir skuli fá að fara
frjálsir ferða sinna þar til réttarhöld
hefjist í máli þeirra.
Júgóslavía
Sex gefa
sig fram
Belgrad. AP, AFP.
FJÓRTÁN manns fórust og einn
slasaðist alvarlega þegar gufuvaltari
féll ofan á fólksflutningabifreið í
Bashkiriu í Mið-Rússlandi í gær, að
því er fréttastofan Interfax greindi
frá. Bíll sem var að flytja gufuvalt-
arann var að fara framúr fólksflutn-
ingabílnum á þjóðvegi um 120 km
norður af borginni Ufa þegar slysið
varð.
Neyðarástandsráðuneyti Rúss-
lands sagði að 14 lík væru fundin, en
fleiri kynnu að finnast í flaki fólks-
flutningabílsins, sem hefði lagst al-
gerlega saman þegar gufuvaltarinn
lenti á honum.
14 urðu undir
gufuvaltara
Moskvu. AFP.
♦ ♦ ♦
ÖLLUM skólum í Grikklandi var
lokað í gær fram yfir helgi til að
draga úr hættu á smiti og út-
breiðslu ókunnrar veiru. Veldur
hún bólgu í hjarta og getur leitt til
dauða.
Alekos Papadopoulos, heilbrigð-
isráðherra Grikklands, sagði, að all-
ir skólar, allt frá leikskólum upp í
háskóla, yrðu lokaðir næstu daga í
öryggisskyni en tilkynnt var um 13
ný sjúkdómstilfelli í gær. Er þá vit-
að um alls 32 tilfelli en þrír, allt
fullorðið fólk, hafa látist.
Læknar og sjúkdómafræðingar
vita ekki fyrir víst um hvaða veiru
er að ræða en telja líklegast, að hún
sé svokölluð Coxsackie-veira. Eru
einkenni sjúkdómsins lík flensu, út-
brot og hiti, og veiran getur eins og
fyrr segir lagst á hjartað.
Papadopoulos sagði, að ekki væri
ástæða til að óttast meiriháttar far-
aldur en hvatti fólk til að forðast
samkomur í þröngum húsakynnum.
Eftir að fréttir bárust af sjúk-
dómnum hefur verið mikil ös á
heilsugæslustöðvum í Grikklandi en
sjúkdómurinn virðist fremur leggj-
ast á fullorðið fólk en börn.
Ókunn
veirusýking
í Grikklandi
Aþenu. AP.
♦ ♦ ♦