Morgunblaðið - 24.04.2002, Síða 26
LISTIR
26 MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FYRIR hartnær 30 árum leik-
stýrði átakamyndameistarinn Ro-
bert Aldrich spennandi og skemmti-
legri fangelsismynd sem nefnist The
Longest Yard (The Mean Machine,
á Englandi). Nú hafa breskir gert
nýja útgáfu eftir sínum kokkabókum
og árangurinn þolir illa samanburð-
inn.
Í fyrsta lagi breyta þeir íþróttinni
sem allt snýst um úr ruðningi í fót-
bolta. Ofur eðlileg tilhögun, en þar
með er búið að draga framtennurnar
úr útliti og inntaki myndarinnar því
ruðningur er ólíkt ofbeldisfyllri en
fótboltinn og búningarnir endur-
spegla karlmennsku eða karlrembu;
hjálmar og herðapúðar gefa íþrótt-
inni og keppendunum ábúðarmikinn
stríðssvip í samanburði við mein-
leysislegan fótboltabúninginn. Ekki
þar fyrir, fótbolti getur verið nógu
harðskeyttur og vissulega mikið lagt
upp úr þeirri staðreynd. En heildar-
útlitið verður í allt öðrum þyngd-
arflokki.
Í Mean Machine leikur fyrrver-
andi varnarjaxlinn og núverandi
hasarmyndaleikarinn Vinnie Jones
fyrrverandi þjóðhetjuna og fyrirliða
enska landsliðsins, Danny Meehan.
Það er margt líkt með þeim Jones
og Meehan, báðir groddaleikmenn
með spjaldafjöld og margar og ljót-
ar tæklingar á samviskunni. Jones
náði því þó aldrei að verða fyrirliði
(er Walesbúi, ef ég man rétt) og
gerðist ekki sekur um að hagræða
úrslitum, líkt og söguhetja Mean
Machine. Meehan hættir með
skömm, leggst í drykkju og er fang-
elsaður í upphafi myndarinnar og
varpað í miður geðugan hóp afbrota-
manna innan einkar óyndislegra
múra. Samfangarnir sýna honum
fullkomna lítilsvirðingu, ekki aðeins
fyrir að vera staðinn að svikum í
landsleik, heldur öllu frekar fyrir að
hafa átt allt af öllu en fleygt því frá
sér.
Annað og meira en afplánun veld-
ur því að Meehan lendir í þessu til-
tekna fangelsi. Stjórinn (David
Hemmings) er forfallinn spilafíkill
og hyggst notfæra sér hæfileika
Meehans í vafasömum tilgangi. Set-
ur hann þjálfara fangaliðsins og
kemur honum síðan í gamalkunna
aðstöðu þegar dregur að úrslitaleik
fanganna og varðanna … Meehan á
að „hagræða“ leikslokunum.
Fyrir utan áðurnefnt ungskáta-
legt yfirbragð stuttbuxnabúning-
anna, ræður Jones engan veginn við
aðalhlutverkið. Hann var heppinn
með fyrstu hlutverkin, þar sem hann
var nánast einn sviðsmunanna,
ásamt haglabyssum, kjötöxum,
hnúajárnum og bareflum, og small
inní hópinn. Hér reynir örlítið á leik-
hæfileika – sem greinilega eru ekki
fyrir hendi. Þá er leikhópurinn yf-
irhöfuð ófullnægjandi og sviplaus.
David Hemmings afkáralegur í hlut-
verki fangelsisstjórans og fangarnir
viktarlitlir, minna um of á aukaleik-
ara í meðalsjónvarpsþáttum. Skást-
ur er David Kelly í hlutverki gamals,
iðrandi morðingja og Robbie Gee
sem bandóður sprengifíkill og upp-
ljóstrari. Svo aftur sé vikið að frum-
myndinni, þá eru þeir enn minnis-
stæðir, Eddie Albert og Ed Lauter
sem fangelsisstjórinn og yfirfanga-
vörðurinn, í allt öðrum gæðaflokki
en breskir arftakar þeirra. Sama er
uppi á teningnum hvað snertir leik-
stjórn, klippingu og tónlist.
Mean Machine virkar örugglega
best á þá sem ekki sáu forvera Ald-
rich frá ’74 og hafa ekki samanburð-
inn. Þeir geta örugglega haft nokkra
ánægju af inntakinu, manngerðun-
um og umhverfinu. Hjá okkur hin-
um vekur eftiröpunin fyrst og
fremst eftirsjá og sterka löngun til
að leita uppi frummyndina, enda
báðar byggðar á sama handritinu.
KVIKMYNDIR
Háskólabíó
Leikstjóri: Barry Skolnick. Handrit: Charl-
ie Fletcher o.fl., byggt á kvikmyndinni
The Longest Yard e. Tracy Keenan Wynn.
Kvikmyndatökustjóri: Alex Barber. Tón-
list: John Murphy. Aðalleikendur: Vinnie
Jones, Jason Statham, David Kelly, David
Hemmings. Sýningartími 100 mín. Bret-
land 2001.
MEAN MACHINE (MULNINGSVÉLIN) Fangar og fótbolti
Sæbjörn Valdimarsson
„ÉG hef alla tíð heillast af höndum
fólks og margbreytilegu formi
þeirra… Hendurnar endurspegla
svo margt úr karakter okkar og lífi
enda um eitt helsta tjáningartæki
okkar að ræða.“ Þannig segir Re-
bekka Rán frá sýningu sinni í Sævari
Karli. Þetta er vissulega rétt hjá Re-
bekku en eitt og sér ekki nóg til að
stilla upp myndlistarsýningu um
efnið. Nauðsynlegt er að þekkja til
alls þess fjölda listamanna og ljós-
myndara sem hefur unnið svipuð
verkefni í gegnum tíðina, huga þarf
að uppsetningu verkanna, þ.e.
hvernig kemst hugmyndin best til
skila og hvað hef ég nýtt fram að
færa til viðbótar við það sem áður
hefur verið gert í þessum flokki
myndlistar, þ.e. í hugmyndalist.
Því miður er eitt og annað sem
mér finnst að betur mætti fara á sýn-
ingunni. Í fyrsta lagi styður fram-
setning myndanna ekki við inntak
þeirra. Í stað þess að láta myndirnar
sjálfar njóta sín án athyglisfrekra
umbúða velur listamaðurinn þá leið
að líma þær flatar ofan á fyrirferð-
armikil járnpúlt sem verða eins og
óþægilegir skúlptúrar upp um alla
veggi og draga þannig athyglina frá
innihaldi verkanna sjálfra. Í öðru
lagi hefur hún stillt upp stóru stand-
púlti úr járni á gólfinu þar sem á eru
bæklingar og gestabók.
Venjulega er látið nægja að hafa
þetta við innganginn og hefði það
verið skárra í þessu tilfelli einnig. Í
þriðja lagi hefði ég sem sýningar-
gestur kosið að fá upplýsingar um
það hverjir af hinum þjóðþekktu ein-
staklingum eiga hvaða hendur. Af
hverju að hafa fyrir því að mynda
frægt nafngreint fólk ef maður fær
ekkert að vita hver er hvað? Það er í
raun óskiljanlegt af hverju hún velur
þá leið, ekki síst vegna þess að hún
brá einmitt á þann leik í Frétta-
blaðinu nýlega. Og að endingu
fannst mér vanta skýringu á því af
hverju einstaklingarnir sem hend-
urnar eiga eru átta en myndirnar
tólf.
Af einstökum myndum er mynd af
höndum Ólafs Ragnars Grímssonar
forseta áberandi best og áhrifamest.
(Veit hverjar hans hendur eru vegna
nafnbirtingar í Fréttablaðinu.) Hún
er sterk í myndbyggingu og ber vitni
manni sem býr yfir afar þjálfuðum
handahreyfingum og vel mótuðum
handstöðum. Aðrar hendur búa ekki
yfir persónuleika í líkingu við forset-
ans, þótt lesa megi úr þeim hitt og
þetta sýnist manni svo; dramatík,
kæruleysi, elli, ungdóm, slit, nag og
þar fram eftir götunum.
Sýningin hefði þurft meiri yfirlegu
og hugsun og Rebekka þurft að huga
meira að innihaldi en útliti.
Hendur
á púltum
Frá ljósmyndasýningu Rebekku Ránar Samper.
Þóroddur Bjarnason
MYNDLIST
Gallerí Sævars Karls
Opið á verslunartíma til 24. apríl.
LJÓSMYNDIR
REBEKKA RÁN SAMPER
LEIKHÓPURINN Á
senunni sýnir leik-
dagskrá í Kaffileikhús-
inu í kvöld kl. 21. Dag-
skráin nefnist Ég býð
þér dús mín elskulega
þjóð og er byggð á ljóð-
um Halldórs Laxness.
Leikdagskráin var
frumsýnd á kaffihús-
inu Við árbakkann á
Blönduósi í desember.
Fyrri hlutinn er að
mestu tileinkaður
Kvæðakverinu og þá
verða m.a. flutt ljóðin
Únglingurinn í skóg-
inum, Rhodymenia
Palmata, SS Montclare og Barna-
gæla frá Nýa Íslandi. Í síðari hlut-
anum er áherslan lögð á skáldsög-
urnar og kveðskapur helstu
höfuðpersóna í stærri skáldsögum
Halldórs fluttur. Þar koma m.a. við
sögu ljóðskáldin Ólafur Kárason og
Bjartur í Sumarhúsum. Þá verða
einnig sungin nokkur af lögunum
við ljóð Halldórs Laxness, t.d.
Hvert örstutt spor,
Hjá lygnri móðu og
Vögguljóð á Hörpu,
auk þess sem rifjuð
eru upp atvik úr ævi
skáldsins. Flytjendur
eru leikararnir Jakob
Þór Einarsson og Fel-
ix Bergsson, og tón-
listarmaðurinn Davíð
Þór Jónsson.
Hluti af dagskránni
var sýndur í Kaffi-
leikhúsinu á Vetr-
arhátíð Reykjavík-
urborgar og í
Þjóðarbókhlöðunni
23. mars við opnun
sýningar í tilefni af 100 ára fæðing-
arafmæli skáldsins.
Hjá leikhópnum er ýmislegt á
prjónunum, t.d. æfingar á nýju
verki eftir Felix Bergsson, Stóri
bróðir, Le Maison Suspendue eftir
Michael Tremblay og Ljóða-
dagskrá byggð á ljóðum J. Prévert
og fljótlega fer Kvetch eftir Steph-
en Berkoff í æfingu.
Leik- og söng-
skemmtun byggð
á ljóðlist Laxness
Felix Bergsson
SESSELJA Kristjánsdóttir messó-
sópransöngkona heldur í kvöld ein-
söngstónleika ásamt Jónasi Ingi-
mundarsyni píanóleikara. Þeir
hefjast kl. 20 og á efnisskrá eru
frönsk og ítölsk söngljóð og aríur.
Sesselja Kristjánsdóttir hefur búið
í Þýskalandi við nám og störf und-
anfarið en flutti heim á nýliðnu ári.
Hún hefur verið fastráðin við Ís-
lensku óperuna frá komandi hausti en
í fyrra söng hún hlutverk þar í Töfra-
flautu Mozarts. Tónleikarnir í kvöld
eru í Tíbrá-röð Salarins og segir Sess-
elja efnisskrána samanstanda bæði af
þekktum verkum og sjaldheyrðari.
„Meðal verkanna eru nokkrar
ítalskar antikaríur og ljóð eftir Doni-
zetti. Þá flytjum við aríur úr Brúð-
kaupi Fígarós eftir Mozart og Ítölsku
stúlkunni í Alsír eftir Rossini. Eftir
hlé færum við okkur yfir í frönsku
deildina og byrjum á fjórum ljóðum
eftir franska konu, Pauline Viardot,
sem er ekki mikið þekkt en samdi
yndislega músík. Hún var sjálf mikil
söngkona og afkastamikið tónskáld.
Þá flytjum við lög eftir Ravel sem
samin eru í þjóðlagastíl og flutt á
spænsku, frönsku, ítölsku og hebr-
esku og tvær franskar aríur eftir
Massenet og Saint-Saëns,“ segir
Sesselja.
Tónleikarnir í Salnum í kvöld eru
fyrstu einsöngstónleikar Sesselju hér
á landi og segist hún hafa vandað
mjög til valsins á verkunum í efnis-
skrána. „Ég lagði áherslu á lög sem
ég hef yndi af því að syngja og safnaði
nokkuð mörgum saman sem við Jón-
as völdum síðan í sameiningu úr. Við
leituðumst við að búa til heilsteypta
efnisskrá sem á heildina litið saman-
stendur af mjög fallegri og aðgengi-
legri tónlist,“ segir Sesselja að lokum.
Sesselja stundaði framhaldsnám
við Hochschule für Musik „Hanns
Eislar“ í Berlín og lauk þar diploma-
prófi með hæstu einkunn haustið
2000. Ári síðar lauk hún framhalds-
námi við sama skóla. Sesselja hlaut
jafnframt Bayreuth-styrk þýsku
Richard Wagner samtakanna og hef-
ur komið fram á tónleikum hérlendis
og erlendis. Tónleikarnir í Salnum
hefjast sem fyrr segir kl. 20 í kvöld.
Morgunblaðið/Golli
Jónas Ingimundarson píanóleikari og Sesselja Kristjánsdóttir messó-
sópransöngkona við æfingar fyrir Tíbrár-tónleika Salarins í kvöld.
„Áhersla á lög
sem ég hef yndi
af að syngja“
Miðvikudagur
Höfði. Kl. 16: Fræðsluráð
Reykjavíkur veitir Barnabóka-
verðlaunin.
Kaffi Viktor, Hafnarstræti.
Kl. 20: Stofnfundur Félags af-
greiðslufólks bókaverslana.
Kastljós RÚV. Kl. 20:30:
Félag afgreiðslufólks
bókaverslana veitir verðlaunin
Lóð á vogarskál íslenskra bók-
mennta 2002.
Bókasafn Reykjanesbæjar.
Kl. 10.30 og 14.30:
Sögustundir í barnadeildinni.
Þjóðleikhússkjallarinn. Kl. 22:
Bókafólkið skemmtir sér sam-
an. Opnað með kokkteil. Uppi-
stand: Jón Gnarr. Óvæntar
uppákomur. Dansað fram eftir
nóttu. Hljómsveitin Snilling-
arnir ásamt Berglindi Björk.
Laxnesshátíð í Mosfellsbæ
Kaffihúsið Álafossföt best.
Kl. 20: Flutningur í höndum
Atla Heimis Sveinssonar,
Eddu Heiðrúnar Backman og
Arnars Jónssonar
Vika bókarinnar
Skagfirska
söngsveitin í
Langholts-
kirkju
VORTÓNLEIKAR Skagfirsku söng-
sveitarinnar í Reykjavík verða tvenn-
ir að þessu sinni. Þeir fyrri á morgun,
fimmtudag, og hinir síðari á laugar-
dag, báðir í Langholtskirkju kl. 17.
Á fyrri hluta tónleikanna mun kór-
inn flytja íslensk og erlend lög, m.a.
frumflytja lagið Ó, fagra land eftir
söngstjóra kórsins, Björgvin Þ. Valdi-
marsson, við ljóð Bjarna Stefáns Kon-
ráðssonar. Eftir hlé flytur kórinn at-
riði úr nokkrum óperettum, m.a.
Leðurblökunni eftir Johann Strauss,
Kátu ekkjunni eftir Frans Lehár og
dúett úr Sardasfurstynjunni eftir
Kalmann. Þá mun kórinn flytja sjö
valda kafla úr verkinu Gloria eftir
Antonio Vivaldi (1669-1741). Kamm-
erkór Skagfirsku söngsveitarinnar
mun einnig flytja nokkur lög á tón-
leikunum.
Einsöngvarar með kórnum að
þessu sinni eru fimm: Kristín R. Sig-
urðardóttir, sópran, og kórfélagarnir
Ragna Bjarnadóttir, sópran, Lára
Hrönn Pétursdóttir, alt, Guðmundur
Sigurðsson, tenór, og Magnús Sigur-
jónsson, tenór. Undirleikari er Sig-
urður Marteinsson.