Morgunblaðið - 24.04.2002, Blaðsíða 39
síns, Ásgeirs Guðbjartssonar, sem
býr yfir nær óþrjótandi þekkingu á
stangveiði og oft var hringt til hans í
veiðiferðum og hann spurður ráða.
Fyrir allmörgum árum gekkst
Baddi ásamt Bjarna Hafsteini, vini
sínum, fyrir stofnun fámenns veiði-
klúbbs innan Knattspyrnufélagsins
Hauka. Við félagarnir í „Haukar á
stöng“ fórum saman í fjölmargar
veiðiferðir víða um land og reyndar
tvisvar á erlenda grund. Guðbjartur
var sjálfkjörinn formaður klúbbsins
og hrókur alls fagnaðar í þessum
ferðum. Einn úr veiðihópnum, Olav
Ballesager, sem búsettur er í Dan-
mörku, biður fyrir samúðarkveðjur
til fjölskyldunnar.
Á sl. sumri var Baddi orðinn mjög
veikur en hugurinn sá sami. Hann
var ótrúlega fiskinn og það var
stundum blóðugt þegar enginn fékk
fisk nema hann. Ekki stóð þó á því að
hann skipti um stað við okkur eða
lánaði veiðisækna flugu.
Eina sérstaka gáfu hafði hann um-
fram alla sem ég hef kynnst. Hann
átti ótrúlega gott með að kynnast
fólki og lagði sig fram um að tala við
t.d. bændur sem hann hitti í veiði-
ferðum okkar. Við félagarnir nutum
þess, því hann gat alltaf útvegað dag
og dag ef því var að skipta. Ófáar
ferðir voru farnar í Meðallandið og
ég veit að Hávarður Ólafsson, bóndi í
Fljótakróki, og fjölskylda hans sakn-
ar nú vinar í stað. Þessi ár með
Badda í „Haukar á stöng“ hafa verið
ógleymanlegar stundir sem við veiði-
félagarnir munum varðveita og
minnast. Segja má að hann hafi tekið
mig að sér varðandi veiðina og oft
lagði hann frá sér stöngina til þess
að segja mér til og leiðrétta vitleys-
urnar.
Enn betur kynntist ég Badda þeg-
ar hann réðst til starfa hjá Hjúkr-
unarheimilinu Skjóli árið 2000. Hann
lífgaði svo sannarlega þar eins og
annars staðar upp á tilveruna. Hann
var ósérhlífinn og vildi hvers manns
vanda leysa. Hann var afar úrræða-
góður og taldi öll vandamál þess eðl-
is að þau mætti leysa. Hann hafði
frábæra frásagnargáfu og honum lét
vel að segja sögur. Glaðlyndi og
skemmtilegar sögur kunna bæði
ungir og aldnir að meta. Hann náði
góðum tengslum við margt eldra
fólkið og umræðan við matarborðið
var alltaf lífleg. Við erum mörg hér
sem söknum þeirra stunda. Starfs-
fólk í Skjóli biður fyrir innilegar
samúðarkveðjur til fjölskyldu hans.
Við sem þekktum til fylgdumst
með því þegar fjölskylda Badda
þurfti að takast á við mjög erfið veik-
indi hjá dóttursyni hans. Það var
aðdáunarvert hvernig tekist var á
við þann erfiða tíma og fylgjast síðan
með gleðinni þegar kraftaverkið
gerðist og batinn náði yfirhöndinni
hjá litla drengnum. Og enn hefur
reynt mikið á þessa fjölskyldu og við
höfum fyllst aðdáun á Margréti, eig-
inkonu Guðbjarts, hvernig hún og
fjölskyldan öll hefur staðið óbuguð
við sjúkrabeð hans svo vikum og
mánuðum skiptir.
Við gerum okkur grein fyrir því að
honum var þörf á hvíld og lausn frá
kvalafullum sjúkdómi en tilveran er
sannarlega fátæklegri eftir fráfall
hans.
Við sendum Margréti, Rósu og
Ásgeiri og fjölskyldum þeirra, móð-
ur hans og systkinum okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Við vinirnir munum sakna hans og
minnast hans um ókomna tíð.
Fyrir hönd félaganna í „Haukar á
stöng“,
Rúnar Brynjólfsson.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Vinur minn og frændi, Guðbjartur
Jónsson, er látinn 57 ára að aldri.
Baddi, eins og hann var ávallt nefnd-
ur, var að eðlisfari lífsglaður og gam-
ansamur í vina hópi. Hann var ákaf-
ur og fylginn sér og lá ekki á
skoðunum sínum. Einlægari Hauka-
manni hef ég ekki kynnst. Fram á
það síðasta fylgdist hann með fram-
gangi og sigrum sinna manna og ef-
aðist ekki um, að Haukar væru best-
ir.
Baddi barðist til síðustu stundar
við illskeyttan sjúkdóm, sem hann
greindist með á sl. ári. Eins og marg-
ir fleiri varð hann að lokum að játa
sig sigraðan í þeirri baráttu.
Guðbjartur systursonur minn átti
góða vini og hann beið með eftir-
væntingu eftir að fara með þeim í
veiðitúr á hverju sumri. Á komandi
sumri hafði hann ásamt vinum og
veiðifélögum, Ásgeiri syni sínum og
Ásgeiri móðurbróður hans, þegar
ákveðið að nú yrði ekki slegið slöku
við og voru þeir þegar búnir að festa
sér góða daga til laxveiða. Bróðir
minn Ásgeir og Baddi náðu ákaflega
vel saman með veiðiáhugann sem
sérstakt áhugamál og fór hann iðu-
lega á fund Ásgeirs til þess að skegg-
ræða um næstu skref í veiðinni og
rifja upp eftirminnileg atvik úr ótal
veiðiferðum.
Baddi hafði skemmtilega frásagn-
arhæfileika þegar hann ræddi um
sín áhugamál þannig að aðrir hrifust
með honum þegar stórlaxasögur og
svaðilfarir ýmiskonar voru tíundað-
ar. Hláturinn og glettnin eru mér
ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.
Frændi minn elskulegur talaði ávallt
vel um vini sína og kunni af þeim
margar frægðarsögur. Hann var
sannarlega vinur vina sinna.
Samheldni fjölskyldunnar var ein-
stök og fráfall Badda er því mikið
áfall. Bið ég almáttugan Guð að
styrkja fjölskyldu og vini og leiða út
úr sal sorgarinnar til birtu hins
hæsta höfuðsmiðs.
Fyrir ári kvaddi systursonur
minn, Elías Hjörleifsson, jafnaldri
og vinur Badda, sem barðist eins og
hann til síðustu stundar. En enginn
má sköpum renna. Ég hef þá trú að
samfundir verði handan við móðuna
miklu. Við Svanhildur kveðjum að
lokum góðan dreng sem lokið hefur
göngu sinni á þessu tilverustigi.
Drottinn blessi og varðveiti Möggu,
Ásgeir, Rósu og Gullu, fjölskyldu,
frændfólk og vini.
Sveinn.
Kveðja
frá Haukum
Knattspyrnufélagið Haukar kveð-
ur í dag traustan og góðan vin og fé-
laga, Guðbjart A. Jónsson. Það var
ekki aðeins rauði hárliturinn sem var
eitt af aðalsmerkjum og sérkennum
Badda rauða eins og hann var jafnan
nefndur, heldur ekki síður sá rauði
og heiti baráttueldur sem logaði í
hjarta hans alla tíð fyrir félagið sitt,
Haukana í Hafnarfirði.
Það er ekki lítils virði að hafa átt
slíkan félaga og baráttumann og
Baddi var alla tíð. Í hans huga var
ekkert ómögulegt, það var bara að
ganga í verkin, hvort heldur var í
uppbyggingu og félagsstarfi eða inni
á íþróttavellinum sjálfum. Haukarn-
ir kláruðu sín verk og það með sóma,
og oftar en ekki fór Baddi þar
fremstur í flokki.
Guðbjartur var ekki hár í loftinu
þegar hann kom á sína fyrstu æfingu
í handknattleik hjá gamla lærimeist-
aranum og foringjanum Guðsveini
Þorbjörnssyni. Þetta var á miðjum
sjötta áratugnum og strákarnir hans
Guðsveins sem flestir voru þá á
fermingaraldri, áttu eftir að lyfta
grettistaki í að endurreisa félagið.
Þeir báru ekki aðeins uppi íþrótta-
starfið í félaginu, heldur voru þeir
líka í forystu fyrir félagsstarfinu.
Handknattleiksdeildin var endur-
reist og Guðbjartur var sjálfskipað-
ur í stjórnina ásamt öðrum góðum
félögum. Hann átti eftir að koma
víða við í starfi fyrir deildina og fé-
lagið sitt á næstu árum og áratugum.
Baddi var prentari að mennt og sú
verkþekking hans átti ekki lítinn
þátt í því að efla allt útgáfu- og kynn-
ingarstarf hjá Haukum. Hann lagði
mikla vinnu í útgáfu og prentun
Haukasögunnar og sá meira og
minna um alla prentun á blöðum og
kynningarefni félagsins. Í þeirri
vinnu var aldrei spurt um tíma eða
verðskulduð laun.
Hann unni sínu félagi af heilum
hug og sjaldan sá ég hann glaðari en
þegar hann var mættur með barna-
börnin á karate-æfingu og í leikja-
skóla barnanna í Haukahúsinu. Það
var stoltur afi sem fylgdi sínum litlu
strákum á Ásvellina. Félagið hans
var líka félagið þeirra og allrar fjöl-
skyldunnar.
Vinirnir og gömlu félagarnir voru
líka sannir og traustir þegar á
reyndi. Það fór ekki fram hjá neinum
sem fylgdust með. Í erfiðum veik-
indum í allan vetur átti hann ætíð
góðan heim að sækja til Bjarna Haf-
steins æskufélaga síns og annarra
vina á Ásvöllum. Þangað kom Baddi
svo oft sem hann hafði þrek til og
lagði á ráðin um næstu kappleiki,
frekari uppbyggingu og fram-
kvæmdir. Og þegar fór að birta á ný
eftir dimman og kaldan vetur, þá
voru það veiðiferðir sumarsins sem
voru undirbúnar og skipulagaðar.
Haukafélagar sakna góðs og mik-
ils metins félaga og vinar. Það er svo
sannarlega sjónarsviptir að honum
Badda og það verður vandfyllt það
rúm sem hann skilur eftir hjá fjöl-
skyldu og stórum vinahóp. Haukar
senda fjölskyldu og ættingjum djúp-
ar samúðarkveðjur og þakka um leið
fyrir þann góða tíma sem við áttum
öll með sönnum Haukafélaga.
Lúðvík Geirsson, form.
Knattspyrnufélagsins Hauka.
✝ Ragnar Þórðar-son fæddist í
Reykjavík 18 júní
1920. Hann lést þar
17. þ.m. Foreldrar
hans voru Þórður
Jónsson úrsmiður
(1884-1950) og Guð-
rún Aðalheiður
Sveinsdóttir (1896-
1977). Hálfsystur
hans eru þær Rut
Guðmundsdóttir
Barker og Margrét
Guðmundsdóttir.
Ragnar lauk stúd-
entsprófi frá Mennta-
skólanum í Reykjavík 1939 og lög-
fræðiprófi frá Háskóla Íslands
1945. Hann rak um
tíma lögfræðistofu
ásamt skólabræðr-
um sínum, en sneri
sér brátt að kaup-
sýslu. Um áratuga
skeið rak hann
ásamt Rut systur
sinni margar tísku-
verslanir í Reykja-
vík, á Akureyri og í
Vestmannaeyjum og
einnig veitingahús
um skeið, eða þar til
heilsan brast fyrir
allmörgum árum.
Útför Ragnars fer
fram frá Dómkirkjunni í dag og
hefst athöfnin klukkan 15.
Með Ragnari Þórðarsyni er til
moldar borinn á 82. aldursári eftir
löng og erfið veikindi litríkur maður,
sem um áratugi setti mark sitt mjög
á miðborg Reykjavíkur meðan hún
var og hét. Hann lét sér annt um
borgina og voru verslanir hans og
veitingahús til fyrirmyndar. Hófst
hnignunartímabil borgarhlutans um
það leyti er Ragnar hætti rekstri
stórfyrirtækja.
Ragnar var sannarlega heims-
borgari, ferðaðist víða og bjó á
stundum bæði í London og New
York. Hann var á sínum tíma einn
þeirra sárafáu, sem maður kunni að
hitta tilfallandi á Lundúnagötum.
Ragnar lagði mikið upp úr versl-
unarmenningu og lét innrétta fjölda
smekklegra tískuverslana og veit-
ingahúsa á skemmri tíma en áður
þekktist. Áhugavert var að hitta
hann ásamt Alexander Jóhannes-
syni, þáverandi háskólarektor, í
London krýningarárið 1952 þegar
stórborgin var fagurlega skrýdd
ljósum. Þessir stórhuga fram-
kvæmdamenn ræddu hvernig Ís-
lendingar gætu lýst kaupstaði sína í
skammdeginu með allri þeirr raf-
orku, sem afla mætti hér á landi, en
Bretar urðu að keyra ljósabúnaðinn
með innfluttri olíu. Norðursjávarol-
ían var þá ekki orðin að veruleika.
Ragnar Þórðarson var hugljúfur
maður og hvergi deilugjarn þótt
hann stæði sífellt í stórframkvæmd-
um og reyndist honum mjög auðvelt
að hafa samstarf við innlenda menn
sem erlenda. Hann átti fjölda vina
og kunningja og er ljúft að minnast
manna eins og Eggerts Stefánsson-
ar söngvara, Jóns Pálmasonar á
Akri og annarra ágætismanna, sem
Ragnar heiðraði gjarnan með
skemmtilegum samkvæmum á
heimili sínu.
Saga Ragnars Þórðarsonar er nú
öll, en þeir sem áttu því láni að fagna
að kynnast honum eru þakklátir fyr-
ir að hafa átt þennan ágæta dreng
að samferðamanni.
Hilmar Foss.
Best munum við eftir frænda ræð-
andi viðskiptahugmyndir miðbæjar-
ins og uppbyggingu hans. Máttum
við stika með honum um miðbæinn
þveran og endilangan og hlusta á
hans hugmyndir.
Frændi elskaði að fara í matvöru-
verslanir, bæði til að hitta fólk og
prútta um verð. Var hann hinn
ánægðasti þegar hann fékk lægst
verð og smá meira í kaupbæti, t.d.
keypti hann aldrei meira en 25–50 g
í einu í matinn. Ekki var þessi aðferð
í matarinnkaupum nauðsynleg held-
ur bara ánægjunnar vegna. Mela-
búðin í Vesturbænum fékk góða
reynslu af þessum kaupháttum.
Frændi var ekki sá besti kokkur
og tilraunir hans til matargerðar
enduðu oft með slökkviliðinu á hans
heimili. Hann var vel með á nótun-
um um verðlag og ef upp komst að of
mikið hefði verið greitt kom það í
okkar hlut að rölta af stað með góð-
gætið og skila því tafarlaust.
Frændi hafði gaman af að segja
okkur og öllum sem hann hitti, sög-
ur af því sem á daga hans hafði drif-
ið og því merkilega fólki sem hann
hitti. Efst í huga hans var m.a. sagan
af boðinu í París þar sem hann var
með tískuhönnuðinum Dior og var
Dior klæddur í „baby doll“.
Af öllum þeim stöðum í heiminum
sem frændi dvaldi á var London í
mestu uppáhaldi þar sem hann átti
íbúð árum saman. Var hann þar okk-
ar leiðsögumaður og sýndi alla bestu
pöbbana en verslun hélt hann okkur
frá.
Aldrei var hann í vondu skapi eða
talaði illa um fólk. Minnti hann okk-
ur stöðugt á að vera ánægð því fólk í
fýlu væri leiðinlegasta fólk. Frændi
var þekktur fyrir óvenjulegar uppá-
komur.
Frændi gat ekki talist áhugamað-
ur um tónlist og talaði um hana sem
leiðinda hávaða... nema sjálfur syngi
Kokkurinn við kabyssuna stóð fall-
era.
Frændi var aldrei mikill bílstjóri.
Eftir að hafa velt bíl á leiðinni til
Hafnarfjarðar og keyrt niður tvo
menn á Laugaveginum í sömu vik-
unni hætti hann að keyra og sem
betur fer hafði hann lengst af bíl og
bílstjóra. Eftir það tókum við við bíl-
stjórastörfunum.
Árlegur viðburður hjá frænda á
aðfangadag var að fara til vina og
fyrrverandi starfsfólks og á gaml-
ársdag var opið hús hjá honum þar
sem margir komu við.
Eitt af okkar daglegu verkefnum
á seinni árum frænda var að keyra
hann í Vesturbæjarlaugina þar sem
hann elskaði að eyða góðum stund-
um í samræðum við samborgara
sína um hin ýmsu málefni.
Með þessu litla broti af þeim
skemmtilegu minningum sem við
eigum um frænda og hans uppákom-
ur kveðjum við hann með söknuði.
Guð geymi þig, elsku frændi.
Sigrún C. Barker,
Guðmundur R.C. Barker.
Þegar ég kveð Ragnar Þórðarson
fyllist hugur minn af ótal ljúfum og
skemmtilegum minningum. Það var
árið 1952 sem ég réðst til fyrirtæk-
isins Ragnar Þórðarson hf. Hann
var þá þegar orðinn þekktur í at-
hafnalífi Reykjavíkur. Eftir langvar-
andi innflutningshöft og vöruþurrð
hafði hann ungur að árum þá þegar
stofnað fyrsta flokks veitingahús,
Gildaskálann, tískuverslunina Gull-
foss og saumastofuna Gullfoss. En
athafnaþráin var óþrjótandi. Á
stuttum tíma voru komnar þrjár
nýjar verslanir sem lífguðu upp á
drungalega ásýnd Reykjavíkur.
Þetta var aðeins byrjunin. Saga at-
hafnamannsins Ragnars Þórðarson-
ar er svo yfirgripsmikil og merki-
legur þáttur í sögu Reykjavíkur að
kunnáttumann þarf til að rekja þá
sögu. Ragnar var einstakur vinnu-
veitandi. Við stelpurnar, sem unnum
við afgreiðslu og daglegan rekstur í
verslununum, skemmtum okkur
konunglega. Það var aldrei vitað
hverju tekið var upp á næsta dag.
Einhvern veginn tókst Ragnari að
gera vinnuna að leik. Hann tók sjálf-
an sig ekkert hátíðlegan og tók þátt í
öllu starfi okkar. Hann bar mikla
umhyggju fyrir sínu fólki. Mér er
minnisstætt hvernig á aðfangadag
hann lét það ekki bregðast að keyra
heim til stúlknanna á saumastofunni
til að færa þeim glaðning. Þennan
jólasið hefur hann haldið gagnvart
mér og fleirum allt þar til heilsa
hans brást fyrir fáum árum.
Elsku Rut, ég votta þér og fjöl-
skyldu þinni samúð mína.
Blessuð sé minning Ragnars
Þórðarsonar.
Þórunn Egilson.
Nú er Ragnar frændi farinn og
dagar hans taldir hér á jörð en dán-
arstund hans mun aldrei líða mér úr
minni. Ragnar var ekki með rænu
síðustu dagana og hafði engan lík-
amlegan kraft, en á andartaki dán-
arstundar þegar ég sat við höfuð-
gaflinn fékk frændi eins og
yfirnáttúrulegan kraft og kom, að
mér fannst, til fullrar meðvitundar.
Augun opnuðust og horfðu rétt fram
án þess að reika. Við frændi horfð-
umst í augu og vissum báðir að þetta
var hin hinsta stund. Í augum hans
fannst mér endurspeglast þeir ævi-
dagar sem hann átti hér á jörð.
Hans gleði og sorg, sigrar og ósigr-
ar, vinir og óvinir, auður og fátækt,
vellíðan og þjáning. Margt hafði á
daga hans drifið og deildi ég með
honum þeim hluta ævi hans þegar
meira á hallaði.
Ragnar frændi hafði margt til að
bera og var sá hugmyndaríkasti
maður sem ég hef hitt og var hann
langt á undan sinni samtíð í mörgum
þeirra. Hann hafði mikla atorku og
var alltaf eitthvað að hugsa og að-
hafast og var auðvelt að sogast inn í
hans atburðarás og vilja. Eitt er víst
að ekki er gæfa sama og gjörvileiki
enda segir ritningin að „maðurinn
upphugsar veg sinn en Drottinn
stjórnar skrefum hans“. Það var ein-
mitt hugsunin um Drottin og þá von
sem þeir eiga sem á Hann trúa sem
flæddi um huga minn þegar við
horfðumst í augu á þessu hinsta
andartaki. Það var alvara en friður í
augum hans þegar hann kvaddi mig
og þennan heim og gekk á vit hins
eilífa lífs í Drottni Jesú Kristi. Ragn-
ar frændi lokaði augunum og gaf
upp andann.
Drottinn blessi þig og varðveiti
þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yf-
ir þig og sé þér náðugur. Drottinn
upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi
þér frið.
Eins og Guðrún amma mín og
móðir þín, frændi minn, kenndi okk-
ur:
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Ég kveð þig, frændi minn, með
trega og fel þig í hendur Guðs.
Skúli Bruce Barker.
RAGNAR
ÞÓRÐARSON
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. APRÍL 2002 39