Morgunblaðið - 24.11.2002, Side 12

Morgunblaðið - 24.11.2002, Side 12
12 B SUNNUDAGUR 24. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ ferðalög Ferð til Kína í maí Kínaklúbbur Unnar stendur fyrir 24 daga ferð til Kína frá 8. maí til 31. maí. Flogið er til Stokkhólms og þaðan til Peking með flugfélaginu Air China. Ferðast verður um landið og m.a. far- ið í skemmtisiglingu niður eftir Jang- Tse-Kiang-fljótinu og siglt um gljúfrin þrjú. Einnig verður siglt í minna skipi eftir Shennong-þveránni. Síðar í ferð- inni verður siglt á Lí-ánni og einnig á Keisaraskurðinum. Í fréttatilkynningu frá Kínaklúbbi Unnar kemur fram að í Peking verði m.a. farið á Torg hins himneska friðar og Forboðna borgin skoðuð. Einnig verður farið í sum- arhöllina og Hof hins himneska friðar. Þá fá farþegar tækifæri til að skoða Kínamúrinn og Ming-grafarsvæðið. Heildarverð ferðarinnar er 350.000 krónur og við bætast 70.000 krónur ef um einstaklingsherbergi er að ræða. Innifalið er auk flugs gisting, dagskrá og allur aðgangseyrir, fullt fæði auk skatta og gjalda. Þá er inni- falinn kostnaður við leiðsögn. Nýr áfangastaður fyrir kylfinga Í vor mun golfdeild Úrvals-Útsýnar bjóða íslenskum kylfingum og þeirra nánustu upp á nýjan stað til að spila golf á í Portúgal. Er það golfsvæðið Quinta Da Marinha, sem er skammt frá einu þekktasta golfsvæði Portu- gals, Estoril. Í fréttatilkynningu frá Úrvali-Útsýn kemur fram að svæðið sé þekkt fyrir náttúrufegurð og aðeins sé um hálf- tíma akstur til Lissabon frá hótelinu. Þá er stutt í fiskimannabæinn Cascais með sínum þröngu götum, fjölda veit- ingastaða og verslana. Eitt stærsta spilavíti Evrópu, Casino Estoril, er skammt frá og í fjöllunum fyrir ofan hótelið er þorpið Sintra, sem þúsundir ferðamanna heimsækja á hverju ári. Golfvöllurinn, Quinta Da Marinha, er beint fyrir utan hótelið. Völlurinn er hannaður af þekktum golfvallahönn- uði, Robert Trent Jones. Völlurinn er viðráðanlegur fyrir kylfinga í öllum gæðaflokkum. Hann er par 71 og er rétt um 5.800 metrar að lengd af gulum teigum, 4.600 af rauðum og 6.300 metrar af hvítum teigum. Í næsta nágrenni við hótelið eru fimm aðrir golfvellir, t.d. Penha Longa og Oitavos Golfe, sem er á Quinta Da Marinha-svæðinu, eða rétt hjá hót- elinu. Hótelið sem boðið er upp á, Quinta Da Marinha, er með 200 her- bergi og bíll hótelsins ekur fólki til Cascais og á aðra staði í nágrenninu endurgjaldslaust. Boðið verður upp á skoðunarferðir með fararstjóranum, Kjartani L. Páls- syni.  Nánari upplýsingar um Kína- ferðina fást hjá Unni Guðjóns- dóttur í síma 5512596 og í síma 8682726.  Nánari upplýsingar um golf- svæðið í Portúgal fást hjá Úr- vali-Útsýn í síma 5854000. Þ AÐ besta við að búa í Lund- únum er að geta horfið í fjöldann. Ég get hagað mér alveg eftir skapferlinu, verið tilhöfð og fín einn daginn og eins og umrenningur þann næsta án þess að það veki nokkra athygli,“ segir Sig- ríður Dögg Auðunsdóttir sem hefur verið búsett, ásamt eiginmanninum Edward og dótturinni Diljá, í Lond- on undanfarin ár. Þar starfar hún sem fjölmiðlaráðgjafi hjá stærsta al- mannatengslafyrirtæki í heimi, Weber Shandwick. Á vespu í vinnuna „Það sem kom mér einna mest á óvart hér er hversu hjálplegt og vina- legt fólk er í þessari stóru borg þar sem búa milli sjö og átta milljónir manna. Stærsti ókosturinn við að búa hérna er á hinn bóginn samgöng- urnar. Litlar endurbætur hafa verið gerðar á samgöngukerfinu frá því á fimmta áratugnum og stór hluti af strætisvagnaflotanum er svokallaðir routemaster-strætóar sem eru frá fimmta áratugnum og neðanjarðar- lestakerfið samanstendur aðallega af yfir 40 ára gömlum búnaði. Eftir að hafa kynnst samgöngu- kerfinu í borginni sá ég að það væri fljótlegast fyrir mig að komast ferða minna á vespu og núna er ég korter á henni í vinnuna í staðinn fyrir að vera um klukkustund með strætó. Ég spara mér eina og hálfa klukkustund á degi hverjum með þessu móti.“ Þegar ég spyr hvort það sé ekkert hættulegt að vera á vespu í stórborg eins og London segir hún að umferð- in sé hæg og hún fikri sig bara á milli bílanna og komist hjá því að lenda í umferðarhnútum eins og þeir. Sig- ríður Dögg segir að sinn borgarhluti í Lundúnum sé austurhluti hennar eða East End, sér hafi eiginlega strax fundist hún eiga heima þar. Römbuðu á yndislegt hús „Til að byrja með bjuggum við í hverfi sem heitir Islington. Þar býr tiltölulega vel stætt fólk og húsnæð- iskostnaður er ógurlega hár. Þegar við ákváðum að fjárfesta í eigin hús- næði urðum við hreinlega að leita annað. Við vildum þó ekki að fimm ára dóttir okkar, Diljá, þyrfti að skipta um skóla og skoðuðum okkur um í næsta hverfi, Hackney, sem er í austurenda borgarinnar. Við römb- uðum síðan á yndislegt hús frá Vikt- oríutímabilinu sem við keyptum og þar hef ég nú fest rætur. Það er þó mikil fátækt í þessum borgarhluta og glæpatíðnin hefur oft verið há. Mér finnst ég samt ekkert síður örugg þar en í Islington. Framfarirnar hafa í raun verið litlar í austurenda Lond- on sem þýðir að þetta er eins og að búa í gömlu London. Sömu fjölskyld- urnar hafa búið hér mann fram af manni og fólk er mjög tryggt sínu hverfi. Hér þekkist fólk og þegar það hittist á götu er spjallað um daginn og veginn. Ef ég er til dæmis að koma heim úr búðinni með nokkra innkaupapoka býður fólk undantekn- ingarlaust fram aðstoð sína við að koma pokunum heim.“ Hún segir að fram til þessa hafi verið hægt að kaupa hús á tiltölulega góðu verði í Hackney, hús sem í öðr- um og fínni hverfum væru þrefalt til fjórfalt dýrari. „Ken Livingstone borgarstjóri hefur reyndar lýst því yfir að það sé kominn tími til að gera endurbætur á austurhluta borgar- innar og hefur ríkisstjórnin þegar lýst stuðningi við þær áætlanir svo húsnæðisverð er þegar farið að hækka. Húsið okkar, sem var byggt árið 1860, er í lítilli göngugötu og það liggur að gömlu, fallegu torgi. Við hliðina á okkur býr yndisleg kona á áttræðisaldri sem alla sína ævi hefur búið í hverfinu og hefur nánast ætt- leitt okkur sem barnabörnin sín. Dóttir mín fylgist með henni þar sem hún gefur íkornunum hnetur á hverj- um degi í bakgarðinum.“ Markaður sem Lundúnabúar sækja Þegar ég spyr Sigríði Dögg hvort hún eigi uppáhaldsstaði í borginni sem hún vilji deila með lesendum segir hún að þeir séu nokkrir. „Ef ég ætti að mæla með góðum sunnudegi í Lundúnum væri hann á þessa leið: Ég myndi byrja á því að fara á blómamarkaðinn í East End sem er á Colombia Road. Þetta er elsti blómamarkaður Lundúna og hann er opinn á sunnudögum frá morgni og fram til klukkan tvö. Þangað kemur fólk úr hverfinu og reyndar víðar að til að kaupa sér blóm í húsið eða garðinn á frábæru verði og stemmn- ingin er mögnuð. Sölumenn keppast um að fá fólk til að kaupa blóm og hægt er að setjast niður á kaffi- eða veitingahús og borða morgunverð eða hádegismat og fylgjast með líf- inu á markaðnum. Síðan myndi ég fá mér göngutúr á annan markað, Spitalfield-markað- inn. Þar er selt allt milli himins og jarðar; listaverk, smámunir og fatn- aður. Þessi markaður er haldinn í geysilega stórri vöruskemmu og hann minnir á Portobello-markaðinn í Notting Hill sem Lundúnabúar forðast nú eins og heitan eldinn. Á Spitalfield-markaðnum eru nánast engir ferðamenn og verð á öllu er miklu sanngjarnara en á Portobello. Þetta er markaður sem Lundúnabú- ar sækja sjálfir. Þarna er opið fram til klukkan sex á kvöldin og mest er um að vera á sunnudögum. Þegar búið er að ganga um markaðinn er tilvalið að bregða sér á götuna Brick Lane en þar eru tugir af indverskum veitingahúsum og verslunum, maturinn er næstum undantekningarlaust frábær og verðið sanngjarnt. Götuheitin eru bæði á ensku og indversku og and- rúmsloftið magnað. Arkitektúrinn er líka athyglisverður og á sér ekki hlið- stæðu í Bretlandi. Húsin voru flest byggð af húgenottainnflytjendum á átjándu öld. Þetta er orðið mikið listamannahverfi og er sagt að það líkist því sem Covent Garden var áð- ur en það varð að túristagildru.“ Er uppáhaldsveitingastaður þinn semsagt þarna á Brick Lane? „Nei reyndar ekki. Hann heitir Rasa og er í Stoke Newington sem er í Hackney, hverfinu mínu, í götu sem heitir Stoke Newington Church street. Þessi suður-indverski staður býð- ur upp á alveg dásamlegan mat. Staðirnir eru tveir, hvor á móti öðr- um, annar er kjötstaður og hinn grænmetisstaður. Ég mæli með grænmetisstaðnum og þá sérstak- lega naslinu sem þeir bjóða upp á á undan forréttum.“ Óviðjafnanlegt útsýni yfir borgina Alla virka daga fer Sigríður Dögg á vespunni í fjármálahverfið, City of London, en þar er fyrirtækið sem hún starfar hjá, Weber Shandwick, til húsa. „Það er einmitt tilvalið fyrir fólk að taka einn dag í að skoða sig þarna um í fjármálahverfinu og næsta ná- grenni. Ég mæli með að fólk fari þangað á virkum degi því það er ótrúleg upp- lifun að vera umluktur þúsundum af jakkafataklæddu fólki að flýta sér á milli staða og dálítið eins og að vera í miðju maurabúi. Ég vara samt við því að ferðast um London á háanna- tíma, sem er frá 7–10 á morgnana og frá 17–19 seinnipartinn, og forðast þá neðanjarðarlestirnar sem eru yf- irfullar. Fólk gæti byrjað á því að fara og skoða St. Paul-dómkirkjuna sem er mjög falleg. Að því loknu er hægt að ganga yfir nýju Millennium-brúna og yfir í Tate Modern, sem er nútíma- listasafn. Byggingin sem hýsir safnið er einstök; gömul raforkustöð sem búið er að gera upp. Að loknu safnarölti er hægt að ganga meðfram suðurbakkanum í vesturátt og fara í Lundúnaaugað eða London Eye. Þó svo að biðröðin kunni að vera löng borgar sig að bíða, biðin tekur sjaldnast lengri tíma en 20 mínútur. Ferðin tekur hálftíma og útsýnið yfir borgina er stórfenglegt.“ Eftir útsýnisferðina í Auganu er tilvalið að halda áfram í vesturátt yfir Westminster-brúna og skoða þar Big Ben og Westminster, sem er skyldu- verk allra ferðamanna. Nýja fjármálahverfið Að lokum mælir Sigríður Dögg með bátsferð til Greenwich, sem er fallegur bæjarhluti með stórum al- menningsgarði. Á leiðinni gefst fólki kostur á að skoða suður- og norður- bakkann en þar hefur gífurleg upp- bygging átt sér stað. „Það eru marg- ir góðir pöbbar í Greenwich og eftir að hafa sest niður með enskan bjór ætti fólk endilega að taka DLR til baka en það eru litlar rafmagns- knúnar lestir sem eru tiltölulega ný viðbót við samgöngukerfi Lundúna. Á leiðinni er hægt að virða fyrir sér nýja fjármálahverfið í Lundúnum, Canary Wharf, en þar er verið að reisa hvern skýjakljúfinn á fætur öðrum. Ferðin með DLR endar í Bank-neðanjarðarlestarstöðinni en þaðan er auðvelt að komast áfram í allar áttir.“ Uppáhaldsstaðir Sigríðar Daggar Auðunsdóttur í Lundúnum Markaðir, listasafn og dásamlegur matur Edward og Diljá á vespunni sem Sigríður Dögg fer á í vinnuna á morgnana. Sigríður mælir með því að gestir borg- arinnar fari í Lundúnaaugað, útsýnið segir hún að sé hreint stórkostlegt. Hackney er hverfið í Lund- únum sem heillaði Sigríði Dögg Auðunsdóttur. Þar líður henni eins og heima hjá sér. Sigríður Dögg Auðunsdóttir ásamt dóttur sinni Diljá og lítilli vinkonu, Elvu Cailin.  Colombia Road, Bethnal Green London E2  Rasa 55 Stoke Newington Church Street London N16 020 7249 0344  Spitalfield Market, Á horni Commercial St. and Brushfield Street London E1  Brick Lane London E1  Tate Modern Bankside London SE1 020 7887 8000 www.tate.org.uk

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.