Morgunblaðið - 29.06.2003, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 29.06.2003, Blaðsíða 8
8 SUNNUDAGUR 29. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ R INGULREIÐIN er það fyrsta sem slær okkur þegar komið er til Bagdad í byrjun maí, rétt eftir að stríðinu er lokið. Við sjáum þjófa skunda eftir götunum með feng sinn, allt er skítugt og rykugt og hús og götur á mörgum stöðum eru rústir einar. Hér ríkir stjórnleysi, menn geta gert allt sem þeim dettur í hug. Það er sérstaklega sláandi þegar haft er í huga hvernig andrúms- loftið var áður en stjórn Saddams féll. Þegar ég kom til Bagdad árið 1995 var röð og regla á öllu. Aðkomumaður gat gengið um götur með fullar hendur fjár án þess að nokkrum dytti í hug að þora að ræna hann. Fólk passaði vandlega hvað það sagði, jafnvel við vini sína, af ótta við refsingu, en hús manna, vinnustaðir og símar voru gjarnan búnir hlerunartækjum. Ég komst einmitt að því í þessari ferð að hótelherbergið sem ég gisti í árið 1995 hafði verið tryggi- lega hlerað. Írakar voru á árum áður vel efnuð menningarþjóð þar sem menntunarstigið var hátt. Núna eru land og þjóð í rúst eftir að hafa lotið harðstjóra síðan árið 1979, þolað viðskiptabann í 12 ár og barist í þremur stríðum: við Írani á níunda áratugnum, í Persaflóastríðinu 1991 og nú síðast við Bandaríkin og bandamenn þeirra í vor. Fyrir stríðið núna var fólk orðið svo dofið af þeim hörmungum sem yfir höfðu dunið, að sumir hugsuðu sem svo um innrás Bandaríkjamanna: Það getur varla orðið verra en það er í dag. Flestir fögnuðu falli Saddams og stjórnar hans en þó eru afar skiptar skoðanir á veru erlenda herliðsins í landinu. Sumir eru ánægðir með hana en þó virðist andstaðan vera að aukast. Mörg- um finnst að erlendu hermennirnir hafi ekki skilning á menningu araba en hjá þeim þykir afar mikilvægt að menn komi fram af kurteisi og virðingu. Togstreita skapast því sumum Írökum finnst herliðið koma fram af hroka og sýna íbúunum vanvirðingu. Óánægjan endurspeglast m.a. í mótmælum almennings í borgum og bæjum en einnig í fjölda árása sem gerðar hafa verið á herliðið. Ekki er vitað hvort þar er á ferð skipulögð andspyrna. Öryggi er það sem almenningur þráir heitast en einnig vantar sárlega drykkjarvatn, mat og lyf. Bandaríkjamenn hafa komið á útgöngubanni í borginni eftir klukkan ellefu á kvöldin enda hættir venjulegt fólk sér ekki út fyrir hússins dyr eftir að skyggja tekur. Þá breytist Bagdad í einhvers konar ribbaldaborg þar sem glæpamenn ráða lögum og lofum. Ekkert gengur að hemja glæpagengin þrátt fyrir að Bandaríkjamenn sendi hermenn sína í tvö þúsund eftirlits- ferðir um borgina á dag. Föngum og ósakhæfum glæpamönnum sleppt úr haldi Opinberar byggingar urðu fyrst fyrir barðinu á ræningjum eftir að stjórnin féll, því næst húsnæði fyrrverandi stjórnarmeðlima og þingmanna en síðar hafa árásirnar í auknum mæli beinst gegn óbreyttum borgurum, til dæmis þeim sem áður voru skráðir í Baath-flokkinn. Skothvellir og háreysti heyrast í borginni á hverri nóttu og eru þar oftast á ferð glæpagengi í ránsferðum. Þjónusta eins og læknishjálp er óhugsandi á nóttunni því heilbrigðisstarfsfólk kemst ekki á milli staða. Talið er að uppistaðan í glæpahópunum sé fyrrverandi fangar en öll fangelsi voru opnuð og föngum sleppt út áður en stríðið byrjaði. Þá var líka nokkur hundruð ósakhæfum afbrotamönnum hleypt út af geðsjúkrahúsi í útjaðri borgarinnar. Hátt í 200 starfsmenn eru í Írak á vegum Alþjóða-Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Mikill hluti starfseminnar gengur út á að hjálpa fólki að verða sér úti um hreint neysluvatn, einkum í Bagdad og Suður-Írak, en einnig er reynt að leysa brýnustu þörfina í heilbrigðis- málum, með því t.d. að útvega lyf og lækningatæki svo spítalar verði starfhæfir. Einnig er unnið við að safna saman líkum sem liggja á víðavangi, reynt að bera kennsl á þau, ættingjar leitaðir uppi og hinir látnu grafnir. Þá vinna samtökin að því að sameina fjölskyldur sem hafa sundrast vegna stríðsins. Við erum tveir saman sem förum um borgina á vegum Rauða krossins, ég sem ljósmyndari og spænskur blaðamaður frá Madrid að nafni Miguel Ángel Rodriguez. Auk þess er Amar hinn íraski samstarfsmaður okkar og túlkur með í för. Fólk tekur okkur alltaf mjög vel og Írakar eru sérstaklega kurteisir og gestrisnir. Reyndar er starfsmönnum Rauða krossins jafnan vel tekið í Írak en þau voru stærstu samtökin sem veittu neyðaraðstoð í landinu á meðan á stríðinu stóð. Einn daginn liggur leið okkar í stærsta líkhús borgarinnar, sem stendur við hliðina á heil- brigðisráðuneytinu. Þar segir læknirinn Asan Feinal Lazim okkur að þangað sé komið með um 30 lík á dag, fólk sem hefur fallið fyrir hendi ræningja. Rétt í því er komið með lík af manni sem virðist vera um fimmtugt, hann er klæddur í hvíta skyrtu en enginn veit hvað hann heitir eða hvað kom fyrir hann. „Kannski var reynt að ræna hann og hann streittist á móti,“ segir Lazim. Hann var eini læknirinn sem vann í líkhúsinu á meðan á stríðinu stóð. Vopnaður pabbi í skólanum Krakkarnir í Al Quaeid Al Mua’ases-skólanum í Bagdad hrópa og klappa þegar teknar eru myndir af þeim. „Meira, meira,“ hrópa þau á okkur á arabísku. Maður vopnaður AK-47 hríð- skotariffli stendur í krakkaskaranum og reynir að róa þau. „Hafið ekki áhyggjur, þetta er pabbi eins barnanna sem er að hjálpa okkur með öryggisgæsl- una í skólanum,“ útskýrir Leila Khadum skólastjóri fyrir okkur. Skólinn var rændur þegar stjórnin féll en þó var ekki allt tekið. Ræningjarnir tættu aðallega niður myndir og eyðilögðu styttur af Saddam Hussein, að sögn Leilu. Í skólunum voru börnin vön því að syngja í hverjum tíma sálm um „Föður“ Saddam Hussein, sem var dýrlingur í huga þeirra. Nú spyrja þau stans- laust hvar „Faðir“ Saddam sé eiginlega. Yfirgefin vopn og sprengjur eru stórt vandamál í Bagdad en á hverjum degi slasast fjöldi manns eða deyr af völdum sprengna sem eru á víðavangi. Stundum er um að ræða sprengju- gildrur sem herinn kom fyrir til varnar áður en Bandaríkjamenn komu til borgarinnar. Mjög lítið rask þarf til að þær springi. Í flugskeytastöð númer 576 í Al Baladiat hafast við yfir 60 heimilislausar fjölskyldur innan um fjöldann allan af ýmis konar vopnum. Þar höfðu þjóðvarðliðssveitir Saddams Husseins að- setur áður en þær yfirgáfu stöðina í stríðinu. Fjölskyldurnar búa í herbergjum sem áður voru skrifstofur og í skotbyrgjum þar sem vopn af ýmsu tagi og í mismunandi ástandi eru um allt, sprengjur og eldflaugar. Þegar við komum fyrst inn í geymsluna sjáum við einn húsráðenda, Ahmed Khudier, beygja sig niður og taka upp flugskeyti sem er um metri á lengd. Okkur til mikillar undrunar brýtur hann oddinn á skeytinu í spað og fleygir því síðan þvert yfir herbergið. Okkur bregður heil- mikið en hann fullvissar okkur um það sé ekkert að óttast, hann sé „sérfræðingur“ í flug- skeytum. Khudier, sem er gullsmiður að mennt, hefur gert fjölmargar sprengjur óvirkar. Hann var einn hinna fyrstu sem flutti með fjölskyldu sína í vopnageymsluna eftir stríðið. Hann fer með okkur að húsakynnum sínum til að kynna okkur fyrir fjölskyldu sinni. Okkur rekur í rogastans þegar við sjáum að nokkur skref frá eldhúsglugganum er 12 metra löng eldflaug, svokölluð „Volga“, rússnesk að gerð og gríðarlega öflug. Börnin hans tíu talsins koma eitt af öðru og heilsa okkur og nágrannar slást í hópinn. Lucibi Hmood, einn elstu íbúanna í vopnageymslunni, segir að Bandaríkjamenn hafi nokkr- um sinnum sent hermenn í vopnageymsluna til að finna og fjarlægja hættulegustu vopnin sem eru þar en þeim er skylt að safna saman vopnum til að tryggja öryggi borgaranna. Engin deyfing notuð Sjúkrahús borgarinnar eru yfirfull og aðstæður eftir því. Þar vantar vatn, mat og lyf en mörg þeirra voru rænd þegar gripdeildirnar í borginni hófust. Við heimsóttum Al Noor sjúkrahúsið sem er eitt þeirra fáu sem ekki var rænt því læknar, hjúkrunarfræðingar, og nágrannar vörðu það vopnaðir skammbyssum og Kalashnikov-vélbyssum. Þeir standa ennþá vopnaðan vörð. Sjúkrahúsið er á rauðu svæði, sem þýðir að þar er mikil hætta á ránum og árásum og það hindrar að hjálparstarfsmenn komist á staðinn. Á einni stofunni fylgdumst við með þegar saumað var fyrir opið sár þvert yfir ennið á konu. Bróðir konunnar hélt henni fastri á meðan, hún var ekki deyfð. Deyfing er einungis notuð í allra alvarlegustu tilvikum því deyfilyf eru af skornum skammti. „Smáræði“ eins og að sauma saman sár er gert án deyfingar. „Guði sé lof að við erum ekki líka með þennan fræga sjúkdóm HABL,“ segir Al Yasi skurð- læknir, en bætir svo við í gríni, „en þá fengjum við kannski meiri athygli og hjálp.“ En hvar er „faðir“ Saddam? „Taktu mynd af mér“ Krakkarnir í Al Quaeid Al Mua’ases-skólanum í Bagdad voru ákaflega spenntir fyrir myndavélinni en kipptu sé voru vanir að syngja sálm honum til dýrðar í hverjum tíma eru mjög hissa á að allt sem minnir á „föður“ Sadd Bað í Tígris Vegna skorts á hreinu vatni er fólk í auknum mæli farið að þvo sér í ám eins og þessi maður hér sem var að ba sig í Tígrisfljóti. Fyrr á tímum var fljótið lífæð Bagdad, notað til flutninga auk þess sem fólk baðaði sig þar. Nú segja að fljótið hafi að nokkru leyti endurheimt sitt fyrra hlutverk þar sem borgarbúar nota það til þvotta. Eit meginverkefnum Rauða krossins í Írak er að aðstoða fólk við að verða sér úti um hreint neysluvatn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.