Morgunblaðið - 12.01.2004, Side 16
LISTIR
16 MÁNUDAGUR 12. JANÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
HÖFUNDUR Eldað með Elvis,
Bretinn Lee Hall, er þekktastur fyr-
ir handrit sitt að kvikmyndinni góðu
Billy Elliot þar sem ellefu ára dreng-
ur vill læra ballett en aðstæður hans
leyfa það ekki. Lee Hall samdi einnig
hinn stórgóða útvarpseinleik Ausa
Steinberg sem Brynhildur Guðjóns-
dóttir flutti svo eftirminnilega á Rás
1fyrir um það bil tveimur árum. Ein-
leikurinn er um einhverfa níu ára
stelpu sem er að deyja úr krabba-
meini en hún kemur úr nöturlegum
aðstæðum eins og Billy Elliot. Í Eld-
að með Elvis fjallar Lee Hall einnig
um fólk sem komið er í öngstræti
nöturlegra aðstæðna sinna og nú af
sama næmi og fyrr. Sýn höfundar er
þó ekki myrk að öllu leyti því hann
sýnir alltaf vonarglætu í manneskj-
unni sjálfri sem á von um að snúa
hlutunum sér í hag. Það sem skilur
Eldað með Elvis frá hinum tveimur
er húmorinn en farsaformið tekur
öðru hvoru yfir raunsæisformið, oft
ágætlega, auk þess sem stokkið er
fimlega yfir í ólíkindahátt sem kalla
má absúrdisma í formi og efni þegar
minnst varir. Leikritið fjallar um
fjölskyldu þar sem pabbinn er fyrr-
verandi Elviseftirherma en er nú í
hjólastól, lamaður eftir bílslys.
Mamman á erfitt með að sætta sig
við slysið og þjáist hún af átröskun.
Dóttirin er fjórtán ára gömul, með
byrðar heimilishaldsins á sínum
herðum. Hún er raunsæ og þannig
kjölfesta heimilishaldsins upp að
vissu marki en er heltekin af mat og
matreiðslu. Mamman dregur svo inn
á heimilið ungan mann sem á eftir að
hafa mikil áhrif á líf fjölskyldunnar.
Hallgrímur Helgason virðist hafa
þýtt verkið ágætlega og hefur stað-
fært það líka. Staðfærsla orkar alltaf
tvímælis og hér hefði mátt sleppa
henni þar sem það er svo augljóst að
þetta verk gerist í milljónasamfélagi
en ekki á Íslandi. Þó verða til nokkrir
góðir brandarar við staðfærsluna,
einkum þegar minnst er á þekkt fyr-
irtæki.
Ein aðferð höfundar til að segja
söguna minnir á aðferð Bertolds
Brechts sem fjarlægði áhorfendur
markvisst frá því að lifa sig inn í
raunveruleika leikrita með sögu-
mönnum, spjöldum og fleiru til þess
að áhorfendur tæku frekar afstöðu.
Álfrún í hlutverki dótturinnar til-
kynnir hvert atriði en þau eru yfir
tuttugu allt í allt. Önnur og ekki síðri
aðferð til þess að fjarlægja áhorfend-
ur frá innlifun eru atriðin þar sem
Steinn Ármann sprettur upp úr
hjólastólnum öðru hvoru til að leika
heimilisföðurinn að leika Elvis Pres-
ley. Hann birtist í hverjum Elvisgall-
anum af öðrum, syngur og spjallar
við áhorfendur. Þessi atriði voru
ákaflega vel unnin í sýningunni. Þau
eru í raun á tveimur plönum; við
sjáum pabbann upp á sitt besta eins
og hann var áður fyrr en við sjáum
líka það sem er einkennandi fyrir
Elviseftirhermur um allan heim:
Eftirherman breytist í Elvis. Við
fáum sterklega á tilfinninguna að
Elvis Presley sé mættur en þar
hjálpar líka mjög flott lýsingarhönn-
un og magnþrungin tónleikaáhrif
tónlistarinnar. Hluti leikritsins er
nefnilega um Elvis sjálfan; hvernig
hann í lágkúrulegri sjálfsdýrkun og
viðbjóðslegum öfgum í mat og drykk
trúði því að hann hefði hlutverk
kóngsins. Hlutverk velgjörðarmanns
og frelsara sem færði fjöldanum
gleði og von. Um leið og mikið grín er
gert að þessu í verkinu eru okkur
sýnd þau miklu áhrif sem kóngurinn
hafði á fólk sem gleymir stað og
stund í augnabliksdýrkun og glans-
andi ljóma á sviðinu. Áhrif og töfrar
leikritsins felast fyrst og fremst í
þessum tengslum við vonlitla stöðu
persóna verksins en þetta er ákaf-
lega vel gert hjá leikstjóra og öðrum
sem koma að sýningunni. Það var
áhrifamikið hvernig hægt var að
breyta hrárri og fátæklegri íbúð í
stórkostlega upplýst svið í lokaatrið-
inu sem var vægast sagt sláandi þeg-
ar Steinn söng Glory Hallelúja!
Verkið og sýningin öll hafa áðurnefnt
yfirbragð absúrdverks, og það sér-
staklega þegar endirinn er skoðaður.
Eins og einkennir oft góð absúrdleik-
rit gera hér raunsæislegar persónur
í raunsæislegu umhverfi fáránlega
hluti sem þó standast veruleikann.
Leið leikstjórans er að gera þessa
fjarstæðukenndu hluti sem eðlileg-
asta en spurning er hvort ekki hefði
mátt fara leikrænt með þá út á ystu
brún. Þá hefði hinn óvænti endir orð-
ið eðlilegri en því miður var leiðin að
honum of brött í þessari annars
heildstæðu sýningu.
Það mæðir mikið á hverjum leik-
ara í þessu verki en Magnús Geir
hefur fengið mjög sterkan hóp til liðs
við sig. Steinn Ármann var alveg
ótrúlega góður sem Elvis og sem
pabbinn. Eins og kemur fram hér á
undan breyttist hann í Elvis Presley
á köflum en var líka þessi ólánlegi
miðaldra maður; fullkomin steríó-
týpa af eftirhermu með útlitið með
sér þar sem maginn þrýstist út í gall-
ann. Hann náði auðveldlega þeim eft-
irsóknarverðu áhrifum að kalla fram
hlátur svo tárin streymdu en um leið
að hræra áhorfendur til meðaumk-
unar. Meðaumkunin er vegna Pres-
leys, vegna eftirhermunnar og ekki
síst vegna mannsins í hjólastólnum
en það erfiða hlutverk að leika lam-
aðan og mállausan mann en sýna
samt viðbrögð og tilfinningar leysti
Steinn Ármann líka mjög vel.
Eiginkonuna lék Halldóra Björns-
dóttir sem sýndi vel hvernig örvænt-
ing teprulegrar konu yfir óhamingju
sinni brýst út í áhyggjum af aldri og
aukakílóum ásamt ásókn í flöskuna
og unga menn. Það var flott hvernig
hún var alltaf stödd annars staðar en
í núinu, alltaf á flótta undan tilfinn-
ingum sínum og aðstæðum. Álfrún
Örnólfsdóttir virkaði aldrei degi
eldri en fjórtán ára, þó svo að unga
stúlkan Kolla væri að ýmsu leyti
þroskaðri en gengur og gerist, en
datt líka niður í að vera tíu ára og
mótþróafull. Mótleikur Álfrúnar við
Friðrik Friðriksson í hlutverki Stef-
áns var einnig mjög næmur og ein-
ræður hennar þegar hún talar við
mállausan föður sinn voru vel gerð-
ar. Gervi Álfrúnar var henni þó til
trafala; það hlýtur að vera til betri
leið til að fita leikara en að klæða þá í
ólánleg föt.
Ungi maðurinn Stefán sem flytur
inn á heimilið sem friðill mömmunn-
ar var mjög vel leikinn af Friðriki;
hann hvíldi áberandi vel í hlutverki
hins einfalda manns sem hefur
staðnað á unglingsárunum. Þó að
Stefán sé í raun vitgrönn gunga úr
„vernduðu umhverfi“, eins og hann
segir sjálfur, sem dregst inn í að-
stæður sem hann hefur enga stjórn
á, þá á hann stóran þátt í hvernig
leikar fara að lokum en skýlir sér bak
við einfeldningsháttinn. Stefán er
ótrúlega einfaldur og ótrúlegur ving-
ull en samt persóna sem allir kannast
við. Persónan er flóknari en virðist í
fyrstu en Friðrik er einkar fær í að
vinna með undirtexta og hefur þess
vegna vel á valdi sínu að vera harm-
rænn og óstjórnlega fyndinn í senn.
Eldað með Elvis er góð sýning þar
sem auðvelt er að hlæja og gráta í
senn. Það er þakkarvert að fá til
landsins verk eftir Lee Hall þar sem
vandað er til verka á flestum sviðum.
Upp úr standa sterkar myndir af öm-
urlegum aðstæðum venjulegs fólks
og af kónginum Elvis sem þrátt fyrir
viðbjóðslegar nautnir og ömurlegan
dauðdaga lifir enn góðu lífi um allan
heim vegna töfrum líkra áhrifa sinna.
Kóngurinn
kemur til
bjargar!
LEIKLIST
Menningarfélagið Eilífur
og Leikfélag Akureyrar:
Höfundur: Lee Hall. Þýðandi: Hallgrímur
Helgason. Leikstjóri: Magnús Geir Þórð-
arson. Lýsing: Björn Bergsteinn Guð-
mundsson. Leikmynd og búningar: Þór-
arinn Blöndal. Hljóðmynd og tónlist:
Hjörtur Howser. Aðstoð við hreyfingar:
Ástrós Gunnarsdóttir. Leikendur: Álfrún
Helga Örnólfsdóttir, Friðrik Friðriksson,
Halldóra Björnsdóttir, Steinn Ármann
Magnússon.
Frumsýning í Loftkastalanum 9. janúar
2004.
ELDAÐ MEÐ ELVIS
Hrund Ólafsdóttir
Morgunblaðið/Eggert
Álfrún Örnólfsdóttir sýnir góðan leik í hlutverki hinnar 14 ára Kollu.
Friðrik Friðriksson, Halldóra Björnsdóttir og Steinn Ármann Magnússon eiga öll góðan leik í Eldað með Elvis.
KARLAKÓR Keflavíkur gaf út
geisladiskinn Tónaberg nýlega í til-
efni af því að 1. des. sl. voru 50 ár lið-
in frá stofnun kórsins. Á plötunni eru
15 söngvar, þar af ellefu innlendir og
fjórir erlendir. Um helmingur lag-
anna er tekinn upp árið 1999 í Fella-
og Hólakirkju og ein fimm á síðasta
ári í Víðistaðakirkju af Sigurði
Rúnari Jónssyni hjá Stemmu. Auk
þess tók Páll Bj. Hilmarsson þrjá
söngva upp á tónleikum árið 2000.
Heitið Tónaberg er jafnframt heiti á
ljóði Þorsteins Eggertssonar, sem
Siguróli Geirsson hefur samið við
sönglag og flutt er af kórnum á disk-
inum. Tónaberg er hressilegur vals
sem er um leið lof á áhrifamátt sam-
nefnds bergs og áhrif þess á grósku í
lífi stórathafnabæjarins. Gæti sómt
sér vel sem einkennislag kórs og
byggðarlags. Þannig er söngur
Karlakórs Keflavíkur á plötunni
staðfesting á þeim verðuga sessi sem
kórinn hefur jafnan skipað í menn-
ingarlífi og sögu Keflavíkur og bend-
ir þróttmikill söngur vel mannaðs
kórs á þessum nýja geisladiski til
þess að svo geti orðið áfram. Þetta er
þriðja platan sem kórinn gefur út.
Platan Tónaberg er að öðrum þræði
söguleg heimild og ánægjulegur
vitnisburður um árangursríkt fé-
lagsstarf í Reykjanesbæ og hlýtur að
vera velunnurum og áhugafólki kær-
komin. Fyrsti stjórnandi kórsins var
tónlistarfrömuðurinn Guðmundur
Norðdahl, en nú er Vilberg Viggós-
son stjórnandi. Sjómannasöngur eft-
ir Oddgeir Kristjánsson, nr. 7 á plöt-
unni, er gott lag, sem kórinn fer vel
með bæði hvað túlkun og blæbrigði
áhrærir, einnig nýtur söngurinn
Heima eftir sama tónskáld ljúfrar og
mjúkrar túlkunar kórs og stjórn-
anda. Sum laganna verða of marker-
uð, þannig að áherslur stakra tóna
rjúfa flæði laglínunnar. Steinn Erl-
ingsson hefur hrífandi tónhæð, sem
naut sín einkar vel í laginu „Þú ert
aldrei einn á ferð“ úr söngleik Ro-
gers og Hammerstein, Carousel, en
þar var dýpra sviðið erfiðara fyrir
hann. Upptökugæði og hljóðvinnsla
er í góðu lagi. Enda þótt söngurinn
verði fjarlægari í tónleikaupptökum
á þremur lögum, þá er samt mikils
virði að heyra það að kór, einsöngv-
ara og píanóundirleikara tekst vel í
„hita augnabliksins“. Umslag og
hönnun þess er mjög venjubundin og
hefði gjarnan mátt vera ögn nýstár-
legri. Einnig hefði ég kosið ýtarlegri
upplýsingar um sögu kórsins í með-
fylgjandi hefti. En að lokum vona ég
að Tónabergið haldi áfram að seiða
Suðurnesjamenn til öflugs söng- og
mannlífs.
Tónabergið seiðirTÓNLIST Tónaberg
Safn íslenskra og erlendra söngva.
Stjórnandi: Vilberg Viggósson.
Píanóleikur: Ágota Joó og Ester Ólafs-
dóttir. Harmonika: Ásgeir Gunnarsson.
Bassi: Þórólfur Ingi Þórsson. Annar undir-
leikur á strokhljóðfæri ónafngreindur.
Einsöngur: Steinn Erlingsson, tenór. Staf-
ræn upptaka: Stereo Stemma 1999 og
2003. Upptökumaður: Sigurður Rúnar
Jónsson. Upptökur á tónleikum: Páll Bj.
Hilmarsson. Ljósmynd á umslagi: Odd-
geir Karlsson. Kórmynd: Pétur Ingi
Björnsson. Hönnun: Finnbogi Kjart-
ansson.
Aðrar myndir: Ýmsar ljósmyndastofur.
GEISLADISKUR KARLAKÓRS KEFLAVÍKUR
Jón Hlöðver Askelsson
Listaháskóli Íslands, Laug-
arnesi kl. 11 Cel Crabeels (1958)
myndlistarmaður búsettur og
starfandi í Antwerpen heldur fyr-
irlestur sem hann nefnir „In the
Line of Work“. Þar er brugðið
upp sýnishornum úr myndbands-
verkum, innsetningum og „per-
formönsum“ sem Cel hefur unnið
á síðustu árum.
Verkin einkennast af einfaldleika
þar sem hann leikur sér að hug-
myndinni um tómið sem andríki
þar sem margir túlkunarmögu-
leikar opnast. Cel Crabeels er um
þessar mundir gestakennari við
LHÍ. Fyrirlesturinn verður fluttur
á ensku.
Á MORGUN
AUGLÝSINGADEILD
netfang: augl@mbl.is eða sími 569 1111