Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2001, Síða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JANÚAR 2001 11
Halldór útgerðarmann í Háteigi, til að kaupa
Húsið og gera við það. Halldór og kona hans,
Ragnhildur Pétursdóttir, gengu í það umsvifa-
laust.
Listinn í bókinni yfir hús sem nú eru í umsjá
Þjóðminjasafnsins er langur og nær fram til 1990.
Til fróðleiks má geta þess að frá því eina ári eru
Klausturhólar í Flatey, tilhöggvið timburhús frá
Noregi, Kolfreyjustaðarkirkja í Suður-Múla-
sýslu, Landlist, elzta timburhús í Vestmannaeyj-
um, Læknishúsið á Fáskrúðsfirði, Róaldsbrakki á
Siglufirði, Sveinatunga í Borgarfirði, sem er elzta
steinsteypuhús landsins, Þuríðarbúð á Stokks-
eyri, sem gerð hefur verið upp, Aðalstræti 17 á
Akureyri, Apótekið í Stykkishólmi, Berghóll, sem
er timburhús í Stykkishólmi, Fitjakirkja í Skorra-
dal, Hjaltastaðakirkja í Norður-Múlasýslu,
Hjarðarholtskirkja í Dölum og Húsavíkurkirkja;
báðar eftir Rögnvald Ólafsson, Hvammskirkja í
Laxárdal í Skagafjarðarsýslu, Sigurhæðir, hús
Matthíasar Jochumssonar á Akureyri, Vertshús í
Flatey á Breiðafirði, gamla timburhúsið á Laxa-
mýri í Suður- Þingeyjarsýslu, Þórshamar á Seyð-
isfirði og Þrúðvangur við Laufásveg í Reykjavík.
Húsakannanir og endurgerving
Húsakannanir hafa farið fram um allt land á
vegum húsfriðunarnefndar, en hvað er húsakönn-
un? Í bókinni segir Hörður svo: „Í stuttu máli má
segja að hún sé byggingarlistarleg, byggingar-
söguleg, byggingarumhverfisleg og jafnvel þjóð-
háttaleg rannsókn á húsaþyrpingum í bæjum og
borgum.“
Segir Hörður að telja megi Þorstein Gunnars-
son arkitekt frumkvöðul húsakönnunarvísinda
hérlendis. Í bókinni er rakið hvar þessar kannanir
hafa farið fram.
Endurgervingu nefnir Hörður það sem á er-
lendum málum heitir „restauration“. Þessi fræði
eiga sér ekki langa sögu á Íslandi og Hörður vitn-
ar í Kristján Eldjárn í upphafi kaflans um endur-
gervingu gamalla húsa: „Leiðarljósið á að vera
þetta: Ég er að gera við gamlan hlut, ekki að
smíða nýjan.“ Hörður segir ennfremur: „Með
varúð, opnum huga, og fordómalaust á að nálgast
hús er endurgera skal. Afla þarf upplýsinga um
byggingarsögu þess, sjá það í gerðþróunar- eða
stílsögulegu samhengi, kanna uppsmíð, efnis-
notkun, virða fyrir sér sjáanlegar breytingar að
utan sem innan, ljósmynda, mæla.“ Það sem hér
er nefnt er þó aðeins fyrsta stigið. Hörður vitnar í
Þorstein Gunnarsson, sem fyrstur manna kynnti
svonefnda Feneyjaskrá hér, alþjóðlegan vegvísi
við endurgervingavinnu. Þorsteinn spyr: „Á að
færa húsið í upprunalega mynd sína?– Á að varð-
veita það í einhverri samræmdri mynd frá síðasta
tímaskeiði þess?– Eða á að varðveita það ná-
kvæmlega í þeirri mynd sem það birtist okkur
þegar við tökum við því?“
Nátengdar spurningunni um endurgervingu
eru viðbyggingar, sem oft eru nauðsynlegar þeg-
ar hús fær nýtt hlutverk. Hörður segir að Fen-
eyjaskráin fallist ekki á viðbætur „nema þær séu í
samræmi við mikilvægustu hluta byggingarinnar,
heildarmyndin eins og við höfum tekið hana í
arf…“ Nefnir Hörður dæmi um viðbyggingar
sem vel hafa tekizt: Viðbætur Gunnlaugs Hall-
dórssonar á Bessastöðum, stækkun Þóris Bald-
vinssonar á Elliheimilinu Grund, endurbyggingar
brunarústa á Torfunni eftir Stefán Örn Stefáns-
son og Grétar Markússon, turninngang að baki
Bjarnaborgar eftir Guðrúnu Jónsdóttur og Knut
Jeppesen, viðbótarhús við Lyfjafræðisafnið í Nesi
eftir Þorstein Gunnarsson og Listasafn Íslands
eftir Garðar Halldórsson.
Ekki er minnst í þessum síðari hluta verksins á
viðbyggingu Gunnlaugs Halldórssonar við
Landsbanka Íslands í Austurstræti frá 1938.
Hörður hafði fjallað um hana í fyrri bókinni (á bls.
379), segir að hún hafi vakið hörð viðbrögð líkt og
abstraktmálverkin og atómkveðskapurinn en
leggur engan dóm á þetta sjálfur, sem kemur
spánskt fyrir sjónir þar sem þessi viðbygging get-
ur ekki talizt vera neitt annað en sjónrænt slys og
í algeru ósamræmi við þau boðorð um viðbygg-
ingar sem hér hafa verið tíunduð.
Varðveizlustaða
og verndunaróskir
Í þessum kafla, aftast í bókinni, segir Hörður:
„Sú er sérstaða torfhúsanna að í þeim er hætt að
búa, þjóðin hafnaði þeim.“ Margt hefur alveg far-
ið forgörðum, til dæmis er ekki lengur hægt að
benda á uppistandandi torfbæ af Forngerð. Ekk-
ert er til af Mælifellsgerð og heldur ekki af Norð-
lenzkugerð. Til er enn framhúsabær af Marbæl-
isgerð og Sunnlenzkugerð, sem varðveitt er í
Eystra-Meðalholti í Flóa. Margir þekkja bæinn
Tannastaði undir Ingólfsfjalli, sem er af seinasta
stigi Sunnlenzkugerðar.
Mörg eru þau hús sem Hörður nefnir og óskar
eftir að verði friðuð. Þar á meðal eru timburhús af
Gaflsneiddugerð, nokkur úr Timburklassíkinni,
svokallaður Mansard eða alþýðu-Mansard, ís-
lenzki sveiserinn og þar á meðal öll átta timb-
urhúsin við Miðstræti í Reykjavík, níu við Stýri-
mannastíg, átta við Þingholtsstræti, sjö við
Laufásveg og Laugaveg, fimm við Suðurgötu,
fjögur við Tjarnargötu, svo fáein dæmi séu nefnd,
einungis úr Reykjavík.
Af steinsteypuhúsum hafa tíu verið friðuð og
eitt steinasteypuhús. Nokkur frumkvöðlaverk frá
upphafi steinsteypualdar þarf að friða, segir í
bókinni, og þar á meðal er þau elztu, Sveinatunga
í Borgarfirði frá 1903, Sólgata 5 á Ísafirði og
Garðarsbraut 5 á Húsavík, svo og nokkur hús í
Reykjavík.
Brautryðjendur í steinsteypuklassík voru
Rögnvaldur Ólafsson, sem fengið hefur sæmd-
arheitið fyrsti íslenzki arkitektinn og starfsbróðir
hans Einar Erlendsson. Fyrsta stórvirki Rögn-
valdar var Vífilsstaðahælið, en því hefur verið
spillt. Fyrsta stórverk Einars var Herkastalinn,
sem búið er að augnstinga til mikilla lýta. Annað
verk Einars og dæmi um nýgotík er Guðspeki-
félagshúsið, sem einnig hefur fengið herfilega
meðferð. Sama má segja um Edinborgarverzl-
unina gömlu í Hafnarstræti. Hörður nefnir mörg
fleiri slæm dæmi, en einstaka hús hefur sloppið;
Gamla Bíó við Ingólfstræti þar á meðal. Að mati
Harðar á Einar heiðurinn af því að hafa fyrstur
manna aðhæft steinsteypt íbúðarhús að báru-
járnssveiser með því að halda ytra formi hans.
Hann steypir útveggi en lætur þakstíl og innra
timburverk standa.
Sumum húsum Guðjóns Samúelssonar hefur
verið spillt þegar breytingar voru gerðar. Húsið
Austurstræti 7 hefur verið augnstungið og við-
bætur við sjúkrahúsin hafa orðið til lýta. Hörður
er ekki sáttur við „óþarfa og misskilda breytingu“
á áhorfendasal Þjóðleikhússins og Hótel Borg tel-
ur hann að hafi fengið slæma meðferð innandyra.
Lofsvert finnst honum að stórverkefni Guðjóns,
verkamannabústaðirnir við Hringbraut, sé
óskemmt og þess þurfi vel að gæta. Í burstastíln-
um er Laugarvatnsskólinn einn án skemmda og
sé aðkallandi að friða hann. Þá þurfi að vaka yfir
Háskólanum, sérstaklega fordyri, kapellu og há-
tíðarsal.
Sum byggingarsögulega merk hús hafa þegar
verið friðuð; þar á meðal er það hús eftir Jens
Eyjólfsson, sem Reykvíkingar þekktu löngum
sem Verzlun Egils Jacobsen í Austurstræti. Ann-
að merkilegt steinsteypuhús, en ófriðað, er Bók-
hlaðan á Ísafirði eftir Jón H.Sigmundsson. Það
þyrfti að fá aftur sína upprunalegu glugga með
sveigðu gleri. Einnig þarf að friða verzlunarhús
KEA á Akureyri, prýðilegt verk Sveinbjarnar
Jónssonar sem löngum var kenndur við Ofna-
smiðjuna.
Hér er ekki hægt að minnast á öll þau hús sem
Hörður telur upp og þyrfti að friða. Ástæða er þó
til að benda á áfangaskilin í íslenzkri bygging-
arlist sem urðu með komu Sigurðar Guðmunds-
sonar frá námi 1925. Fyrsta verk hans var Aust-
urbæjarskólinn og er hann friðaður. Annað
prýðilegt verk Sigurðar, Ljósafossstöðin, er enn í
upprunalegri mynd og er það vel. Sigurður teikn-
aði fjölda íbúðarhúsa sem mörkuðu tímamót í ís-
lenzkri byggingarsögu. Því elzta, húsi Ólafs
Thors við Garðastræti, hefur verið gjörspillt með
viðbótum og „stundum er svo að sjá“, sagði Hörð-
ur þegar við ræddum saman um bókina við út-
komu hennar, „að steinsteyptu húsin hafi jafnvel
farið enn verr en timburhúsin út úr ýmsum breyt-
ingum og viðbótum“.
Víða hefur vel til tekizt
Í viðauka bókarinnar er afar fróðleg húsaskrá
og flokkað eftir sýslum, kaupstöðum, bygging-
arefni og gerðum. Á ferð um landið væri gagnlegt
að hafa með sér ljósrit af þessari skrá, en sjálf er
bókin fullþung til þess að henti til notkunar á
ferðalögum. Á ferð um Suðurland mætti þá huga
að kirkjunni á Breiðabólstað í Fljótshlíð, sem er
af krosskirkjugerð, en kirkjan á Hlíðarenda er
aftur á móti af forkirkjugerð. Tungufellskirkja á
efsta bæ í Hrunamannahreppi er af turnlausu-
gerð eldri, en Bræðratungukirkja og kirkjan á
Stóra-Núpi eru af turngerð yngri. Þessar gerðir
koma fyrir um allt land. Eftirtektarvert er, að hin
svartbikaða timburkirkja sem svo víða mátti sjá,
hefur átt erfitt uppdráttar og mörgum þótti hún
líklega ekki falleg. Til dæmis má nefna að ein slík
var á Þingvöllum, en fékk ekki framhaldslíf og
þar að auki var settur á hana skrautlegur turn í
tilefni konungskomu.
Verulegur fengur er einnig að fjölda mynda
sem prýða bókina og auka á gagnsemi hennar.
Myndirnar sýna margt sem aðdáunarlega vel hef-
ur tekizt. Til að mynda safnbæinn á Skógum og
sýslumannshúsið frá Holti á Síðu, einnig í Skóga-
safni. Viðeyjarstofa og Bessastaðastofa eru í
þessum úrvalsflokki, Neðstikaupstaður á Ísafirði,
Egilshús í Stykkishólmi, Bjarnaborg í Reykjavík,
húsin á Bernhöftstorfu, Sívertsenhús í Hafnar-
firði og að sjálfsögðu allmörg fleiri.
En þarna eru líka nokkrar hryggðarmyndir:
Skólastræti 1 í Reykjavík, sem búið er að stór-
skemma, Guðspekihúsið við Ingólfsstræti, en
átakanlegast er að sjá hvernig farið hefur verið
með glæsileg tímamótahús, Garðastræti 37 og 41.
Spurning er hvort þarna hefðu átt að vera sem
víti til varnaðar myndir af merkum húsum sem
búið er að eyða að óþörfu, til að mynda gistihúsinu
á Kolviðarhóli sem Guðjón Samúelsson teiknaði í
burstastíl, og Lefolii-verzlun á Eyrarbakka sem
skammsýnir menn rifu niður.
Verk Harðar Ágústssonar, Íslensk byggingar-
arfleifð I og II, markar tímamót. Í fyrsta lagi ættu
augu okkar að hafa opnast fyrir því að íslenzk
byggingararfleifð er stórmerkileg. Í annan stað
ætti það ekki að gerast hér eftir, að prýðilegri
byggingarlist sé spillt eða hún jöfnuð við jörðu að
ástæðulausu. Þakklæti og aðdáun er mér efst í
huga að bókarlokum.
Gísl i Sigurðsson
Auðkúlukirkja eftir viðgerð.
Garðastræti 41 í upprunalegum búningi og eftir að húsinu hefur verið stórspillt með stækkun og breytingu.
byggt í Byggðasafninu í Skógum.