Lesbók Morgunblaðsins

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Saqqummersitaq pingaarneq:

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Qupperneq 11

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2001, Qupperneq 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 3. FEBRÚAR 2001 11 syllu. Sjálf hefur miðsyllan verið greypt í stoð- irnar og rúmstæðin hafa verið þar fyrir neðan. Elztu gólflögin í skálanum sýna að á þeim stóðu svokallaðir innstafir, tvær stoðaraðir sín hvoru megin við miðju hússins. Þar var gang- vegur milli þeirra, en set á bak við stoðirnar, uppi við veggina. Stafverk frá miðöldum Burðargrind Keldnaskála er með því lagi sem nefnt er stafverk; það er mjög fornt og tíðkaðist víða í Norðvestur Evrópu á miðöld- um; til að mynda eru norsku stafkirkjurnar með þesskonar stafverki. Á þjóðveldisöld og allt frá landnámi tíðkaðist burðargrind, sem nefnd hefur verið ásagerð. Í Keldnaskála var sú gerð með mæniás og brúnásum, vaglbita og dverg. Slíkar nafngiftir segja nútímafólki ugg- laust ekki mikið. Ragnheiður Traustadóttir telur að í skál- anum megi greina fjögur breytingaskeið og eiga eftir að fást aldursgreiningar sem gefa vísbendingar um hvenær þau urðu. Hægt er að byggja á smámunum sem fundizt hafa í gólf- skáninni, svo sem keramikbrotum og leifum af ofni eða þró sem notuð hefur verið til járn- smíða; einnig er þar smíðagjall. Kemur á óvart að járnsmíðar hafi einhvern tíma farið fram í skálanum, en er þó ekki einsdæmi. Stærsta breytingin á skálanum hefur orðið um 1500, segir Ragnheiður, en þá var horfið frá innstöf- unum og komu sperrur í stað ása. Þessi breyt- ing er vísbending um að núverandi skáli gæti einmitt verið frá þeim tíma. Sperrur hafa þó ekki verið nýjung þá, því orðið „höggsperra“ kemur fyrst fyrir í forn- bréfi á 14. öld. En frá því þessi breyting varð hefur Keldnaskáli verið með sperruþaki. Ása- gerðin hefur hinsvegar varðveizt í fjósinu. Yfir bæjardyrum er skarsúð, en klætt með reisi- fjölum í búri og skála. Burðarvirki Keldnaskálans eru traustleg tré; síberíulerki sem á sínum tíma hefur rekið á Landeyjasand. Hét spilda á sandinum „Keldnafjara“ og þar áttu Keldur rekaítök. Síberíulerki er ríkt af trjákvoðu og þéttleiki þess er meiri en annarra barrtrjáa. Hvort- tveggja stuðlar að styrkleika og endingu. Stórviðarsagir voru ekki komnar til sögu þegar þeim burðarvirkjum og þiljum var kom- ið fyrir í Keldnaskála sem enn má sjá. Fyrst hefur orðið að draga trjábolina á ís eða á sleð- um neðan af Landeyjasandi, en til þess að fá úr þeim hæfilega þykkt efni í þiljur og burð- arvirki höfðu menn einungis þá frumstæðu tækni að klúfa trjábolina með fleigum. Ugg- laust hefur mikið efni farið í súginn, en þó er aðdáunarvert hversu vel þetta hefur tekizt. Til þess að slétta áferðina höfðu menn axir og sköfujárn. Hér hafa menn byggt á ævafornri verkkunnáttu. Til fegurðarauka tíðkaðist fyrr á öldum að skafa skreytistrik í húsaviði með sérstökum hefli, sem kallaður var lokar, og hefur það verið gert í Keldnaskála. Það elzta er svokallað rómanskt kílstrik sem hægt er að rekja aftur á 11. öld; þesskonar kílstrik er al- gengt á norskum stafkirkjum. Víða má sjá í Keldnaskála, að skreytistrik hafa verið skafin í viðinn. Ártalið 1641 hefur verið rist í norð- ursyllu skálans, en það sannar ekki neitt um aldur syllunnar; hún gæti alveg eins verið eitt- hvað eldri. Ómögulegt er að fullyrða að neitt sé eftir af elztu trjám skálans og verður að teljast afar ólíklegt að eitthvað af þeim sé til. Aldursgreining trjáhringa hefur verið reynd, en niðurstaða fékkst ekki. Keldnaskáli er talinn í aðalatriðum eins og hann var í byrjun 19. aldar, en honum er hvergi lýst nákvæmlega í fornbréfum. Lang- veggir hafa verið hlaðnir úr grjóti; „grjót í grjót“ eins og það var kallað þegar torf var ekki notað með. Hraungrjót var nærtækt, bezta hleðslugrjót sem hægt var að ná í. Gafl- hlöðin til beggja enda voru hlaðin á sama hátt, þó lítið eitt hærri og reft af þeim á næstu sperrur. Lengd grindarinnar er 13,6 m og skiptu tvö þverþil skálanum í þrennt. Sjálfur skálinn í vestasta hluta hússins er 5,50 m á lengd og 3,50 m á breidd milli stafa. Lofthæð upp að bitum er 180 cm. Enda þótt gólfskánin sé 140 cm merkir það ekki að lofthæðin hafi með tímanum minnkað sem því nemur. Hún hefur trúlega haldizt svipuð. Öld fram af öld hefur bærinn hækkað jafnframt því sem jarðvegurinn í næsta um- hverfi bæjarins hefur þykknað. Við hverja við- gerð hefur grindin farið á nýtt undirlag og stoðirnar sem standa á stoðasteinum. Burðarstoðirnar eða stafirnir, fjórir á hvora hlið, eru gild tré, 63–75 cm í ummál. Grópar á hliðum elztu stafanna sýna, að þeir hafa verið notaðir til þess að spara þiljur. Stafirnir hafa verið reistir á steinum og enginn undirstokkur notaður, nema þilstafir og dyrastafir, sem standa á gerðarlegum þröskuldum. Af ein- hverjum ástæðum eru burðarbitar undir kistu- loftinu ekki eins gerðarlegir og annað; þeir eru á rönd, breiddin 13 cm og þykktin 6–8 cm. Aft- ur á móti eru sperrurnar viðameiri; 20x8 cm og langbönd stölluð ofan í þær til þess að reisi- fjölin gæti legið slétt á þeim og sperrukjálk- unum. Yfir skálanum er loft, nefnt kistuloft vegna þess að þar var raðað ýmiss konar kistum sem voru ígildi skápa. Gólf kistuloftsins er úr breiðum borðum, loftið lítið meira en mann- gengt. Elztu viðirnir þekkjast á því að þeir hafa verið strikaðir fríhendis með lokar nærri brúnum, bæði að neðan og til hliðar. Vigfús Guðmundsson getur sér þess til í bók sinni um Keldur, að þessir viðir kunni að vera úr klaust- urhúsi Jóns Loftssonar á Keldum, sem vísast hafi verið á sama stað og skálinn. En sú tilgáta stenzt ekki: fornleifarannsóknin 1998 leiddi í ljós, að á dögum Jóns Loftssonar hefur Keldnaskáli verið með ásaþaki. Þessar strik- uðu sperrur eru því yngri. Merkilegar hurðir Ástæða er til að minnast sérstaklega á hurð- ir í Keldnaskála sem eiga sér ólíkan aldur og uppruna. Merkilegust þeirra er búrhurðin og jafnframt þeirra elzt. Hún er úr samskonar timbri og elztu viðirnir í skálanum og strikuð á sama hátt. Það sérkennilegasta við dyrnar í skála og búri eru dróttir sem svo voru nefndar; bogadregið form sem venjulega er tengt róm- önskum stíl. Búrdyrnar eru vel manngengar, breiddin 76 cm. Á hurðinni eru járnlamir með rósabeygjum og hefur Gunnar Bjarnason end- ursmíðað þær. Hann hefur einnig af alkunnum hagleik aukið nýjum viði í hurðina þar sem skemmd var í henni neðantil og þykir ekki ástæða til að fela þá viðgerð. Hringur var í miðri hurðinni, líklegast sá sami og Brynjólfur biskup getur um í vísitasíu 1641. Hann hékk þá á hurð Keldnakirkju. Um hana segir Vigfús Guðmundsson svo í Keldnabók sinni: „Þó eru þar (í búrinu) líka þessir gömlu viðir og hurð, læst og á hjörum, eldri en núverandi skálahurð. Hún er úr sama efni með sömu strikum og elstu viðirnir, 76 cm á breidd, boga- dregin að ofan, eins og dyrnar, sem eru vel manngengar. Járnlamir (að sjálfsögðu endur- nýjaðar, ásamt skránni) með rósabeygjum til endanna, liggja þvert yfir hurðina og tapparöð úr dökkumm viði er til prýðis um þvera hurð ofan- og neðanverða. – En að „búrluklarnir, sem Steinvör vildi fá Hálfdáni, hafi gengið að hurð þessari, þykir ef til vill ekki trúlegt.“ Hér vísar Vigfús til frásagnar Sturlungu af liðsbón Þórðar kakala til Steinvarar systur sinnar á Keldum og eiginmanns hennar, Hálf- dánar Sæmundssonar. Hann var mun friðsam- ari en flestir höfðingjar á Sturlungaöld, en Steinvör þeim mun herskárri. Þegar henni þótti bóndi sinn taka liðsbón Þórðar kakala dauflega, talaði hún ótæpilega yfir hausamót- unum á honum og lauk svo ræðunni: „að eg mun taka vopnin og vita ef nokkurir menn vilji fylgja mér, en eg mun fá þér af hendi búrlukl- ana“. Útihurð Keldnaskála á sér einnig sögu og hefur hún verið endurbætt á verkstæði. Um hana segir Skúli Guðmundsson í Smæsta smátt: „1912 smíðaði ég bæjardyrahurð úr Stað- arkirkju, keypt 22. maí með karmi, skrá og lömum á 5 kr. líklega frá 1853= 59 ára, ófúin, minkaði hana, setti sirkil rúðu á hana, hring, lokuklinku (úttekt 88). Hin hurðin fúin frá 1888 = 72 ára. Ég smíðaði hana einnig upp 19. júlí 1886 úr gömlu kirkjunni.“ Vorið 1997 hafði þessi hurð látið mjög á sjá og kostaði töluverða viðgerð. Í skýrslu Gunn- Ljósmynd/Þjóðminjasafnið, Þór Hjaltalín Loftið yfir skálanum er nefnt kistuloft, enda var þar geymslustaður fyrir kistur. Sperrur eru gerð- arlegar, en þær komu ekki til sögu í Keldnaskála fyrr en um 1500–1600. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið, Þór Hjaltalín Í bæjardyrum. Dyr til vinstri eru inn í skálann, en dyrnar hægra megin eru inn í hlóðaeldhús. Hér sést stafverkið vel, elztu viðir í húsi á Íslandi. Ljósmyndari ókunnur Ljósmynd/Þjóðminjasafnið, Þór Hjaltalín Skálinn á Keldum að innanverðu. Hér er horft í austurátt til bæjardyranna, en skáladyrnar eru með drótt, þ.e. bogadregnar að ofan. Á neðri myndinni er horft í gagnstæða átt.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.