Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2001, Page 15
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. FEBRÚAR 2001 15
isbókum. 6 Menn hafa eftir þessu að dæma get-
að leyst sig undan marki eða hýðingu með því
að gerast böðlar jafningja sinna. Í Eyrarannál
er þess til dæmis getið að tveir strákar hafi
verið strýktir fyrir þjófnað úr Dönskuhúsum á
Hofsósi; fékk annar sextíu vandarhögg, en
hinn varð böðull. 7 Í sama annál stendur við ár-
ið 1681: „Var hengdur á alþingi Þorkell Sig-
urðsson, er oft hafði hér um Vestfjörður stel-
andi og ljúgandi flakkað, sem og annars staðar,
ættaður úr Eyjafirði og fimm ár böðull Hrólfs
Sigurðssonar, fangaður í Skaptafellssýslu og
með dómi til Alþingis fluttur. 8 Í alþingisdóm-
inum er rætt um „þá langvaranlegu þjófnaðar
og ránsaðferðar umgengni Þorkels sem kunn-
ur var, bæði á Norðurlandi og um Vestfirði, að
flækingi, „stórkostlegum lygum“ og „marg-
brotnum þjófnaði“. Hafði hann meðal annars
logið um nafn sitt og var auk þess utan heilags
sakramentis um fimm ára skeið. Rakin eru
sakarefni úr héraðsdómi, m.a. um stuldi á
klæðissvuntu, þremur tröfum, tveimur linda-
böndum, einni vaðmálsalin, einskiptupeysu,
trafi af sex fiska lérefti, vaðmálspeysu, nýjum
buxnaklút, fornu handklæði, spæni, flosnuðum
vettlingum, litarbandi, tveimur steinbrýnum
og þremur fiskum, fimm sauðum hér og hvar,
kýrbógi, sauðarkrofi, kníf og vatnshandklæði.
Sagt er jafnframt að Þorkell hafi stolið fjórum
ám frá Hrólfi sýslumanni og gengið „í þjófn-
aðarmarks stað undir böðulsstétt“, en verið
refsað í Múlaþingi sumarið áður fyrir „aðskilj-
anlega lygimælgi.“ 9 Var lífsstraffið lagt á
þennan hvinnska flæking 6. júlí í viðurvist
margra þingmanna. „Hengdur á alþingi Lyga-
Þorkell“, stendur skrifað í Vallaannál, „illfræg-
ur umhleypingur, fyrir margfaldan þjófnað all-
víða.“ 10
Saga Þorkels sýnir að íslenskt réttarfar hef-
ur ekki greint sig frá norður-evrópskum hátt-
um hvað böðla varðar. Þeir voru holdi klæddar
mótsagnir, enda voru þess mörg dæmi, svo
sem í Danmörku, að glæpamenn tækjust á
hendur böðulsembætti. 11 Margir erkiþrjótar
björguðu með því lífi sínu: gálgafugl varð í einu
vetfangi að refsandi hönd samfélagslegs rétt-
lætis, verkfæri félagslegrar samvisku. Böð-
ullinn var í þessum skilningi hneyksli því hann
braut í bága við félagslega flokkun og tilheyrði
hvorki borgaralegu samfélagi né samfélagi
glæpamanna. Hann var í senn embættismaður
og utangarðsvera, samblöndun góðs og ills,
reglu og glæps, – enda var ævisaga Þorkels
Sigurðssonar ekki einstök: maður sem leitar út
fyrir skipulegt samfélag, í heim flækings og
smáglæpa, hlýtur refsingu og tekur við böð-
ulsembætti, en fremur að nýju glæp og er tek-
inn af lífi. Slík dæmi eru mörg í evrópskum
heimildum eftir riti Matthiessens (1910) að
dæma. „Að baki þessara mörgu og dreifðu
drátta greinir maður hina gömlu ásjónu böð-
ulsins,“ ritaði hann. „Sérlega viðkunnanleg er
hún ekki: klúr, rustaleg og glæpum rist; en
hvernig mátti annað vera?“ 12
Böðullinn var eftir framansögðu að dæma
fyrirlitinn utangarðsmaður líkt og hinn
dæmdi, hluti af refsihátíð, tákn í heimi
grimmdar, holdtekja ofbeldis sem menn töldu
nauðsynlegt en hryllti samt við, enda smitaði
það þá sem að því stóðu, eða eins og stendur í
alþekktum húsgangi: „Berja, gelda, bíta, slá,/
blinda, klóra, fleingja,/ brenna, reka útlegð á,/
aflífa og heingja.“ 13 Embættið sem slíkt hefur
einangrað böðulinn úr samfélagi manna enda
voru fáir fúsir að taka að sér starfið, eins og
bréfið 1781 ber vitni um. Þjóðsögur gefa jafn-
framt til kynna viðhorf almennings, en í þeim
er niðurrífandi háði stefnt gegn valdi sem vak-
ið hefur ugg. Í þeim er dregin upp mynd af
stétt undirmálsmanna sem stjórnaðist af
græðgi og fordild, eins og Oddur hundsbarki
er dæmi um. Hann mun hafa verið alþingisböð-
ull, sótti hvert þing eins og höfðingjar og fékk
kaup fyrir starfa sinn, en mælt er að hann hafi
eitt sinn sagt heimkominn: „Magurt þing hjá
oss valdamönnunum, enginn flengdur, enginn
hengdur og enginn tekinn af. Skitna fimmtán
dali fékk ég fyrir ferðina.“ 14
Aðrar sagnir hníga í sömu átt. Böðullinn var
öðrum þræði trúður; fífl með svipu. Frá því er
greint að Bjarni sýslumaður Halldórsson
(1728–1773) hafi haft fátækan mann af nálæg-
um bæ fyrir böðul og lét vera með sér í þinga-
ferðum til að hýða þegar við þurfti. Eitt sinn
þegar þeir höfðu verið nokkra stund í burtu
kom böðulskonan að máli við konu sýslumanns
og spurði hvort henni leiddist ekki eftir manni
sínum: „Ekki svo mikið,“ segir hin, „mér þarf
ekki að bregða við það, þó honum dveljist, ég
er því alvön.“ „Ég trúi það,“ segir böddakonan,
„við megum tíðum reyna þetta embættis-
mannakonurnar.“ 15 Sami sýslumaður mun
hafa haldið heimafólki sínu jólagleði mikla á
hverjum vetri. Tók hann þátt í henni með börn-
um sínum og féll eitt sinn svo til að Þorbjörg,
dóttir hans, skyldi leika með böðlinum er Sig-
urður hét. Hraut henni þá vísa þessi af munni:
Mitt þá ekki mótkast dvín,
má það sannast þarna,
Ef hann skal verða heillin mín,
helvítið að tarna.16
Í annarri sögn er sagt frá böðlum tveimur á
Barðaströnd á átjándu öld, Skafta og Jóni, en
um þá var þetta kveðið:
Bræður tveir á Barðaströnd
Búnir eru að strýkja;
Skafti og Jón með skálkahönd,
Skulu þeir lengi ríkja? 17
Hér má enn sjá tengsl böðuls og skálks,
valds og glæps, enda lék orð á að dóttir Skafta,
almennt kölluð Gunna Skafta, hefði borið út
þrjú börn sín hvert af öðru.
Lýsing Sigurðar Snorrasonar í Íslands-
klukku Halldórs Laxness á sér rætur í þessari
túlkunarhefð, enda hafa fáir hlotið óvirðulegri
dauðdaga í íslenskum skáldskap en maður
þessi sem um er sagt að hafi haft „feitar hend-
ur bláar og hreistraðar, með annöglum“ og var
aukheldur „smátentur og gleitt milli, en mikið
tannhold bert.“ 18
Blóðskurðir og valdavélar
Örlagasaga Þorkels Sigurðssonar sýnir að
mörkin voru óljós milli böðuls og þjófs. Fleiri
dæmi má tilgreina sem benda til að böðullinn
hafi yfirleitt verið sóttur í hóp ærulausra smá-
þjófa og misindismanna, jafnt á sautjándu sem
átjándu öld, enda stendur í Kansellíbréfi 28.
apríl 1781 að hvinnskir menn hafi venjulega
verið ráðnir til starfans. Í bréfi þessu, sem
skrifað var Thodal stiftamtmanni, er rætt um
erfiðleika þess að fá menn til að „refsa þeim
sem sökum illvirkja eru dæmdir til húðláts eða
annars líkamlegs straffs“; vitnað er í lagavenju
og landsið, „en uafbrudt Praxi“, um að sýslu-
menn sæki böðla í hóp þeirra sem ekki var
hægt að dæma til húðstrýkingar þótt þeir
hefðu á sér orð fyrir hvinnsku. Sýslumenn hafa
í tímans rás haft slíka menn til böðulsverka,
stendur í bréfinu, en sjá þeim á móti fyrir við-
urværi og dálitlum árslaunum auk þess sem
greiddar voru 4–6 merkur fyrir hverja aftöku.
Vildi einhver, sem sýslumaður fól slíkt emb-
ætti með löglegum hætti, ekki undir það gang-
ast þá skyldi beita hann nauðung. 19
Heimildir sem þessar leiða í ljós mótsögn
böðulsins sem lýst var að framan. Í Þýskalandi
mun til dæmis hafa tíðkast að bæjarböðlar
færu á milli húsa og tækju við ljósi eða fé á
stórhátíðum, auk þess sem þeir birtust í dyra-
gættinni líkt og óheillafugl eða illsviti, sár-
svartur skuggi, við brúðkaup heldra fólks,
brjótandi hátíðarskapið með ásjónu sinni og
návist. 20 Böðlinum var jafnframt, á sextándu
öld, ætlað að verja götur, torg og kirkjugarða
fyrir sæg hálfvilltra hunda og svína sem í trássi
við lagaboð og kóngsbréf rótuðu upp gröfum
og mykjuhaugum. Pest var með öðrum orðum
stefnt gegn pest. Böðullinn tengdist eftir þessu
að dæma félagslegum mörkum sem virðast lít-
ið hafa breyst í tímans rás. Honum var gert að
verja andstæðukerfi reglu og glæps, hreins-
unar og saurgunar, en var sjálfur undarleg
blanda af hvoru tveggja, óflokkanlegt
hneyksli. Hann stóð undir refsihátíð þar sem
laskað allsherjarvald var endurreist með lík-
amlegu afli, táknrænu og hrollvekjandi einvígi
sem ætlað var að leiða í ljós smánina, valda-
leysið, sannleika glæpsins, því hinn dæmdi var
sviptur öllu á kerfisbundinn hátt. Hlutverk
hans var að sýna að starfi valdavél þar sem
manneskjan er ekki annað en tákn um mátt og
dýrð valdhafans.21
En vera og táknfræði, blóðskurðir og valda-
vélar, falla ekki alltaf saman. Frá aftöku Jóns
Arasonar í Skálholti 1550 til síðustu aftöku á
Austfjörðum um 1790 líða meira en tvær aldir,
en samt mætir okkur sama mynd eftir seinni
tíma frásögn að dæma. Sagt er að fórnarlamb-
ið, Eiríkur að nafni, hafi tryllst og beðið sér lífs
með miklum fjálgleik, en hreppstjórinn, Oddur
á Krossanesi, lét hann kenna aflsmunar. Síðan
segir:
„Eiríkur hafði hár mikið á höfði; tók Oddur
þar í báðum höndum og hélt höfðinu niðri.
Skipaði hann síðan Þorsteini úr Norðfirði að
vinna sitt verk. Þorsteinn brá við hart, en svo
illa tókst til, að fyrsta höggið kom á herðar Ei-
ríki og sakaði hann lítt. Þá reið af annað höggið
og hið þriðja, og enn var fanginn með lífs-
marki. Oddur hreppstjóri skipaði nú böðlinum
að láta hér staðar numið, „eða hvað skal nú
gera,“ mælti hann, „samkvæmt lögum má ekki
höggva oftar en þrisvar.“ Þá gekk fram skip-
stjórinn danski, leit á fangann, sem var að
dauða kominn, og skipaði að binda skyldi endi
á kvalir hans án frekari tafar. Hjó þá Þorsteinn
ótt og títt, og fór af höfuðið í sjöunda höggi.“ 22
Í sömu heimild er þess getið að Þorsteinn
böðull hafi flakkað víða og verið nokkuð við
aldur þegar þetta bar við, en um aftökuna var
ort eftirfarandi vísa:
Með öxinni hjó hann ótt og títt
sem óður skollinn,
Herra Oddur hélt í kollinn,
Hinir litu blóðs í pollinn. 23
Þessi ófagri atburður ber ekki vitni um öfl-
uga valdstjórn. Höfum hugfast að í evrópskum
einvaldsríkjum voru aftökur sýning, pólitískt
og réttarfarslegt rítúal, sem birti rétt valdhaf-
ans til að heyja stríð gegn óvinum sínum. Þeim
var ætlað að gera alla vitandi um ótakmarkað
vald með því að þenja og skerpa andstæður:
annars vegar er böðullinn með sín sárbeittu
píslartæki, öxi, hnífa, tengur og reipi, en hins
vegar nakinn kroppur sem stundum var sundr-
að og hann huslaður í óvígðri mold. Þetta mis-
ræmi fullkomins máttar og algjörs getuleysis
var kjarni sýningarinnar, enda var henni ætlað
að reisa við valdakerfi sem hafði verið raskað.
Þetta var sigurhátíð, sem fyrr greinir, en há-
mark hennar fólst í árás böðulsins gegn hinum
dæmda, aðgerð sem var kóðuð, skipt í þrep og
stig, en minnti samt á óreiðu stríðsins þar sem
margt gat farið úrskeiðis. Böðullinn hlaut að
líkja eftir og yfirstíga ofbeldi glæpsins, en mis-
tækist honum að aflífa sakamanninn eftir sett-
um reglum þá leystist aðgerðin upp í andstæðu
sína, bleikt varð svart, enda voru margir evr-
ópskir böðlar drepnir af æstum múg þegar svo
bar við. Vanhæfnin skerti enn frekar það vald
sem reisa átti við. Hér verður enn að hafa í
huga mótsögn böðulsins því þótt hann væri í
ákveðnum skilningi píslartæki konungs, sverð
hans og réttlæti, þá tengdist hann svívirðu hins
dæmda órofa böndum; embætti hans var nauð-
synlegt og ónáttúrlegt í senn, valdið sem bauð
honum að drepa, og sem drap fyrir tilstilli
hans, var ekki til staðar í honum; það samsam-
aði sig ekki til fulls eigin hrottaskap.24
Niðurlag
Saga íslenskra dauðahátíða einkennist af at-
burðum sem þessum. Táknmál aftökunnar
kann að hafa festst í sessi frá tímum Jóns bisk-
ups Arasonar, en sjálfur veruleiki hennar um
1790 grefur undan táknatimbri, því böðullinn,
lítilsigldur og aldurhniginn flækingur, veldur
tæplega embætti sínu. Böðulspersóna þessi
sýnir kannski, líkt og Jón Ólafsson og Þorkell
Sigurðsson áður, skil eða takmörk sem kon-
ungsvaldinu tókst aldrei að yfirstíga til fulls,
þ.e. vilji menn leggja táknræn tengsl í einstaka
atburði. Skeifhögg Þorsteins og allra hinna jók
ekki aðeins sársauka hinna dæmdu heldur op-
inberaði það vanmátt skipulags sem eignaði
sér algjört vald yfir lífi og dauða. Höggið hafn-
ar á valdinu sjálfu, ef svo má að orði kveða, líkt
og sagt er að hent hafi Guðmund Sigurðsson,
sýslumann á Ingjaldshóli, sem í skapofsakasti
skammaði böðul sinn, Greip að nafni, fyrir lina
og dáðlausa hýðingu. „Gjörirðu háð að lögun-
um, fanturinn þinn?“ sagði hann hvass, en í
stað þess að herða refsinguna reiddist böddi og
lét vöndinn dynja á sýslumanni þremur sinn-
um og sagði með þjósti: „Hafi þið, piltar,
nokkru sinni séð slíka smán að sýslumaðurinn
ykkar skuli vera böðulflengdur?“ Snautaði þá
sýsli undan og sagði um leið: „Leysi[ð] þið
manninn, piltar.“ 25
Heimildir:
1 Alþingisbækur Íslands XI, 1969.
2 Michel Foucault, 1975.
3 Jafnvel klæðaburður sakamannsins skipti máli í
þessu sambandi: „. . . og má enginn morðingi eður
slíkur ódáðamaður færast frá fangelsi sínu til rétt-
arstaðarins með neinni viðhöfn eður í neinum
skartklæðum, heldur í ígangsfötum sínum eður
fangaklæðum, án hatts á höfði eður húfu, og þann-
ig berhöfðaður skal hann hafa reipi um hálsinn og
hendurnar samanbundnar, sjálfum sér til þess
meiri háðungar og öðrum til ótta og aðvörunar, og
svoleiðis flytjast frá þingstað til aftökupláss ins á
böðulsins börum.“
4 Páll Sigurðsson, 1971.
5 Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri IV.
Ný útgáfa, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík
MCMLVI.
6 Alþingisbækur Íslands V, 1922, 1925–1932.
7 Sama heimild.
8 [Eyrarannáll] Annálar 1400–1800 III, 3, 1935.
9 Alþingisbækur Íslands VII, 1944–1948.
10 [Vallaannáll] Annálar 1400–1800 I, 4. Sjá sams
konar frásögn í Fitjaannál, en þar er Þorkell kall-
aður Lyga Keli (Ann. 1400–1800 II, 3).
11 Hugo Matthiessen, 1910.
12 Sama heimild.
13 Blanda I.
14 Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri IV.
Nýtt safn.
15 Sama heimild.
16 Ólafur Davíðsson: Íslenzkar þjóðsögur I.
17 Sama heimild.
18 Halldór Laxness, 1999.
19 Lovsamling for Island 4. Universitets-Boghandl-
er, Kaupmannahöfn, 1854.
20 Hugo Matthiessen, 1910.
21 „. . . þá skal slíkur grófur ódæðis maður utan allrar
miskunnar, sjálfum sér til velforþéntrar refsingar
og öðrum lyndislíkum til ótta og viðurstyggðar,
klípast af böðlinum með glóandi töngum, fyrst fyr-
ir utan húsið eða hjá staðnum þar sem ódæðið var
framið, en síðan, sé það í kaupstað, á öllum torgum
og almennum plássum bæjarins, en sé það uppi í
sveit, þá þremur sinnum milli gjörnings- og þing-
staðarins, og síðast á sjálfum aftökustaðnum. Þar
næst skal hægri hönd sakamannsins af höggvast
með öxi að honum lifandi, og síðan höfuðið í sama
máta, hvar eftir líkaminn skal leggjast á steglu, en
höndin festast á stjaka yfir líkamanum.“
22 Eftir handriti Einþórs Stefánssonar frá Mýrum í
Skriðdal. Þorsteinn M. Jónsson: Gríma hin nýja.
Safn þjóðlegra fræða íslenzkra II. Bókaútgáfan
Þjóðsaga, Reykjavík, 1964.
23 Sama heimild.
24 Sjá Michel Foucault, 1975.
25 Jón Árnason: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri.
Nýtt safn. IV.
Grein þessi er byggð á fyrirlestri sem hald-
inn var á ráðstefnu í Skálholti 5. apríl 2000.
Frumgerð hennar birtist í Kistunni. Vefriti um
hugvísindi. Reykjavík 2000.
„Innan þess var dauðinn pynding svo fremi hann væri ekki aðeins líflát heldur hámark útreikn-
aðs sársauka sem náði frá afhöfðun er dregið gat þrautina saman í örskotsstund, um hengingu,
tangarklip og afhöggningu útlima til sundurhlutunar.“
Höfundur er dósent í íslenskum bókmenntum við
Háskóla Íslands.