Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2001, Blaðsíða 20

Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2001, Blaðsíða 20
20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. FEBRÚAR 2001 S ÝNINGIN í Kanada var þátt- ur í hátíðahöldum í tilefni þúsund ára afmælis landa- fundanna og skartaði tólf olíumálverkum, jafnmörgum olíukrítarmyndum og tíu teikningum, sem eru í eigu Gagnfræðaskólans á Sauðár- króki. Verkin voru fyrst sett upp á sýningu þar nyrðra árið 1994, þegar Sauðárkróks- bær, fæðingarbær Jóhannesar keypti verkin handa gagnfræðaskólanum um leið og nýtt húsnæði hans var tekið í notkun. Þegar Jó- hannes vann að myndröðinni fyrir gagn- fræðaskólann fæddust fleiri myndir hjá hon- um í framhjáhlaupi. „Ég gerði nokkrar olíuíkrítarmyndir af hverdagslegu lífi fólks í Skagafirði á Sturlungaöld, m.a. eina af Guð- mundi góða með lautarveislu fyrir flökkufólk og fátæklinga í Sæmundarhlíð,“ segir Jó- hannes. „Heimildir herma að hann hafi gert þetta. Á myndinni er hann að opna malpoka sinn og fólkið streymir að honum og situr í kringum hann. Umhverfis hann standa síðan hermenn eða biskupssveinar og gæta hans, enda gat hann átt á hættu að verða tekinn fastur af fjandmönnum sínum hvenær sem var, eins og raunin varð nú. Ég hafði mikla ánægja af því að mála þessa mynd og hafði upplifað ákveðna birtu í Sæmundarhlíðinni, í þessari fallegu sveit. Það var sólfar í skýjum og ljósfingur komu frá vestri og teiknuðu upp heilu hreppana og böðuðu þá í ljósi, en þar fyrir utan var myrkur af völdum rign- ingarskúra. Þá ímyndaði ég mér að Guð- mundur sæti þarna í sólskininu og opnaði malpokann fyrir körlum og kerlingum, sem voru að þvælast þarna.“ Hreifst af lýsingum Friðriks Hansen barnakennara Jóhannesi er minnisstætt þegar hann fór til Sauðárkróks til að undirbúa opnun Sturl- ungu sýningarinnar, enda kviknaði áhugi hans á Sturlungu fyrst í skólastofu barna- skólans á Króknum á fjórða áratugnum sem seinna var tekin undir prentsmiðjuna á Sauðárkróki, sem prentaði sýningarskrána. Svo skemmtilega vildi til að þangað, þ.e. í prentsmiðjuna, lá leið Jóhannesar einmitt fyrst þegar hann fór norður með verkin. Það voru því margar minningar sem streymdu fram þegar hann stóð fyrir tilviljun á gólfinu í gömlu skólastofunni sinni með mikla myndaröð úr Sturlungu í farteskinu meira en hálfri öld eftir ógleymanlegar Sturlungu kennslustundir. „Ég las ekki mikið af forn- sögunum í æsku en hreifst hins vegar ákaf- lega mikið af því þegar Friðrik Hansen, kennari minn í barnaskólanum, lýsti sögunni fyrir okkur krökkunum,“ segir Jóhannes. Og hugsið ykkur bara hvernig mönnunum hefur liðið! „Friðrik bjó í næsta húsi við hliðina á mér og ég vissi að Sturlunga lá á náttborðinu hjá honum og líklega hefur hann kunnað hana utanað. Ef ég þekki einhvern sem hefur haft djúpstæð áhrif á mig gagnvart Sturlungu, þá var það Friðrik – og hann gerði það á mjög skrautlegan hátt. Hann hélt fyrirlestra yfir okkur í barnaskólanum um Sturlungu og það svo stórkostlega og innblásið að það varð okkur nemendunum ógleymanlegt. Það gekk svo langt að við hættum að berjast með sverðum og potthlemmum, því við vorkennd- um svo mikið þessum mönnum sem voru drepnir í Skagafirði. Við fórum að átta okkur á því að bardagarnir í Sturlungu voru engir leikir eða skemmtun. Friðrik klifaði nefni- lega á sömu setningunni í þessum fyrirlestr- um sínum og sagði með jöfnu millibili: „Og hugsið ykkur bara hvernig mönnunum hefur liðið!“ Friðrik var svo tilfinninganæmur að hann setti sig auðveldlega inn í sálarástand sögupersóna og hélt einatt tvær ræður í hvert skipti, þar sem hann rakti söguþráðinn í annarri og kom með tilfinningaþrungnar athugasemdir í þeirri seinni. Þarna í barna- skólanum heyrði maður því frásagnir sem maður hafði aldrei kynnst áður. Stundum sló hann í kennarapúltið, gerði síðan krítarstrik á töfluna og sagði við okkur með hljómmikilli rödd sinni: „Hér er Reykjalaug, Víðimýri, Víðivellir og hér eru Örlygsstaðir. Hér kem- ur Gissur með tólf hundruð menn og hér er Miklibær og hér bíður Sturla með átta hundruð menn.“ Það var dauðaþögn í bekkn- um og svo vissum við ekki fyrr en frásögnin rann upp úr Friðriki og alltaf sagði hann inn á milli: „Og hugsið ykkur bara hvernig mönnunum hefur liðið!“ Í eitt skiptið fór Friðrik langt fram úr tímanum og skólabjall- an hringdi í miðri frásögn en við heyrðum rétt óminn af henni og héldum áfram að hlusta. Þegar Friðrik lauk frásögninni og við komumst til meðvitundar á ný, varð okkur litið við og þá stóð Magnús Bjarnason reikn- ingskennari steinþegjandi við dyrnar. Hann hafði þá hlustað agndofa þótt reikningstím- inn hans væri hálfnaður. Friðrik kenndi okk- ur að bera saman okkar eigið hlutskipti og hlutskipti fólks á Sturlungaöld, eins og það að eiga það sífellt á hættu að vera rifinn upp úr rúmi sínu um miðjar nætur og horfa upp á sumt af heimilisfólkinu drepið, vera mis- þyrmt sjálfum eða tekinn til fanga. Þetta gat vel gerst. Sturla Sighvatsson óð til að mynda inn í önnur goðorð en þau sem tilheyrðu hon- um til að heimta liðveislu og var með heil- mikinn yfirgang.“ Ómetanlegt að fá sýninguna til Kanada Sturlungusýningin í Kanada stóð yfir frá 3. ágúst og var haldin í boði New Iceland Heritage Museum í Gimli og á vegum Manit- oba háskóla í Winnipeg. Listanefndin í Gimli var afar ánægð með sýninguna og taldi að auki ómetanlegt að fá verk Jóhannesar til sýninga sem tengdust hátíðahöldum á árþús- undamótum „og ekki síður er þess var minnst að 125 ár voru liðin frá komu fyrstu Íslendinganna til Gimli og landnámi í Nýja Íslandi,“ eins og Leo Frímann Kristjánsson, formaður nefndarinnar skrifaði í þakkar- bréfi sínu til Jóhannesar í nóvember sl. Hann giskaði á að á þriðja þúsund manns hefðu séð sýninguna og von væri á 1000 til viðbótar þegar sýningin kæmi aftur frá Há- skólanum í Winnipeg. Leo gat þess í sama bréfi að listaverk af slíkum gæðum sem verk Jóhannesar væru skiptu miklu máli í sam- félaginu þar vestra. „Auk þess að vekja hrifningu og ánægju þeirra sem þau skoða, hafa þau varanleg áhrif á margan hátt,“ sagði Leo og gat þess m.a. að eftirleiðis yrðu gerðar meiri kröfur til sýningarefnis og að sýningin hefði gert íbúum Gimli og gestum þeirra meðvitaðri um gildi þess að fá að njóta listar á heimsmælikvarða, eða „world class“ listar eins og hann orðaði það. Málverkin vöktu einnig mikla athygli ráð- stefnugesta á ráðstefnunni Kanada-Ísland 2000, en Svavar Gestsson, sendiherra í Kan- ada, kynnti sýninguna og Guðrún Ágústs- dóttir sendiherrafrú hélt ræðu um þann mik- ilvæga sess sem Jóhannes Geir skipaði í íslensku listalífi og persónulega aðdáun sína á verkum hans. Kanadíski skurðlæknirinn dr. Ken Thorlaksson, sem er mikilsmetinn einstaklingur á lista- og menningarsviðinu í Winnipeg og skipuleggjandi ráðstefnunnar, fór einnig fögrum orðum um verkin og vitn- aði um að ráðstefnugestir hefðu notið þess að sjá sýninguna, sem jafnframt rak glæsi- legan endahnút á setningardag ráðstefnunn- ar. „Myndirnar eru fallega gerðar; þetta er hreint stórmerkileg myndröð,“ varð honum að orði. Gagnrýnandi blaðsins the Manitoban, Kevin Matthews, sagði í dómi sínum sem birtist í blaðinu 1. nóvember sl., að mynd- irnar væru áhrifamiklar og blésu nýju lífi í Sturlunga sögu. Þó að myndirnar væru sam- viskusamlega unnar upp úr sögunni, bæru þær ímyndunarafli Jóhannesar skýrt vitni. Hafði hann á orði að sig hefði langað til að njóta myndanna sem slíkra og gleyma Sturl- ungu um stund, þótt framsetning sögunnar sjálfrar væri þó forgangsatriði sýningarinn- ar. „Þessi sýning opnar manni á aðlaðandi hátt dyr að heimi spennandi sögu með mikilli sýn. Þessi spenna kemur að hluta til upp úr kafinu í verkum Jóhannesar, sem jafnframt gera hinar dýrmætu sögur frá miðöldum Ís- lands aðgengilegar,“ sagði í dómnum. Heilmikill tími í heimildarvinnuna Þegar Jóhannes vann að myndröðinni kom upp áður óþekkt staða hjá honum sem lista- manni, en það var að vinna nákvæmt upp úr heimildum, ekki eingöngu upp úr aðalheim- ildinni, sjálfri Sturlungu, heldur ýmsum öðr- um heimildum um þjóðhætti og atvinnulíf á þrettándu öld. Spurningunni um hvort heim- ildarvinnan hafi verið þreytandi og hvort hann hefði jafnvel viljað sleppa henni svarar hann strax neitandi. „Ég gat ekki hugsað mér það, nema ég vissi hvað ég ætlaði að gera og ég varð ég að afla mér upplýsinga í þeim tilvikum þar sem svo var ekki,“ segir hann. „Það fór annars heilmikill tími í heim- ildarvinnu og allskonar lestur. Hnakkar á Sturlungaöld voru til dæmis allt öðruvísi en nú á dögum og reiðver reyndar öll. Þetta þarf að endurspegla, sérstaklega ef söðluð hross eru í nærmynd og sama er að segja um verkfæri og vopn, einkum spjót, sverð og skildi. Bogar voru búnir að renna sitt skeið á enda á Sturlungaöld, enda held ég að Gunn- ar á Hlíðarenda hafi lokað því máli með Hallgerði,“ bætir hann við og kímir. „Annars er landslag í myndunum áberandi og minna af bardagaatriðum, enda var ég beðinn um að sýna þessa atburði í Skagafirði og þá varð ekki hjá því komist að sýna landslagið – þessar myndir eru gerðar fyrir skólafólk og því skipti fræðslugildið máli. Ég hafði ótal hugmyndir um útfærslur á átakaatriðum þar sem menn stóðu hver um annan þveran með spjót í gegnum sig og klofnir í herðar niður en þær voru hugsaðar sem teikningar. Svona myndir hætta smám saman að hafa tilætluð áhrif og þá verða þær leiðinlegar. Dramatík- in kemst hins vegar best til skila ef myndin gefur til kynna einhvern hrylling og þannig verkar myndin ógnvekjandi. Fólk ímyndar sér strax eitthvað meira en myndin sýnir. Þessa leið valdi ég og það virðist hafa tekist vel,“ segir Jóhannes Geir. MÁLARALIST Á HEIMS- MÆLIKVARÐA Hólabardagi 1209. Olía á striga. Sighvatur gengur fram með öxina Stjörnu. Teikning. Ræða Gissurar við Reykjalaug. Teikning. Sturlungumyndir Jóhannesar Geirs Jónssonar eru nú komnar heim frá Kanada eftir að hafa vakið mikla athygli á sýningu í tilefni þúsund ára afmælis landa- fundanna. ÖRLYGUR STEINN SIGURJÓNSSON heyrði af kynnum Jóhannesar af Sturlungu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.