Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. FEBRÚAR 2001 Í RAUNINNI ætti ég ekki að skrifa rit- gerð um skáldið Gunnar Gunnarsson heldur sögu, stóra og breiða skáldsögu með ævintýrablæ, sögu sem hefst í ein- faldleik hinnar óbrotnu sveitar en end- ar í þeirri gleymsku sem tíminn kallar yfir menn. Fyrst sjáum við fátæka bóndasoninn hverfa úr fásinni fjarlægrar sveitar, halda út í heim til að svelta og sigra. Hann minnir á vík- ing úr gamalli sögu, nema tíminn er okkar öld og hafnirnar því með nokkuð öðru sniði. Veröldin er ein stór krefjandi spurning og það er barist með penna við tungumál ann- arrar þjóðar; sigur unninn, en það sem sig- urvegarinn státar af lendir í höndum illmenna. Þegar upp er staðið er veröldin rústir einar. Þessi stórhuga maður, karlsonurinn sem lagði af stað út í heim, snýr við og hverfur inn í þögnina. Það blása kaldir vindar og stjarnan sem skein svo skært er hröpuð úr hnattkerfi menningarlífsins. Eins fer með draumsýnirnar sem fram- kvæma átti við heimkomuna. Þær reynast óframkvæmanlegar, því fátæki bóndasonur- inn, drengurinn sem hélt út í heim á miðöldum kemur heim í nútímann. Samt er hann kóngur og ríki hans stórt. En landið er hernumið, vinnufólkið flúið til borg- arinnar og komið í spariföt. Eftir situr höfðinginn í tómri höll. Það sem hófst sem leikur að stráum og endaði sem kirkja á fjalli, fýkur um á öræfum aðventunn- ar. Hann steitist við um hríð en svo fer hann sjálfur. Karl Marx segir í ritsmíð sinni Launa-vinna og auðmagn: „Svertingi ersvertingi. Undir vissum skilyrðumverður hann að þræl.“ Við getum með sama hljómfalli sagt: Rithöf- undur er rithöfundur. Undir vissum skilyrðum verður hann gleymskunni að bráð. En hver eru lögmál gleymskunnar? Gleymast rithöfundar af bókmenntalegum ástæðum, gleymast þeir af pólitískum ástæð- um eða er það bara eðli mannanna að gleyma? Er til eitthvað sem heitir bókmenntalegt black out? Mér þykja þessar spurningar áhugaverðar varðandi rithöfundinn Gunnar Gunnarsson sem á árunum á milli 1920 og 1940 var einn af vinsælustu höfundum Norðurlanda, þýddur á allar evrópskar höfuðtungur og einn söluhæsti höfundur í Þýskalandi. Ég bað vin minn á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn að senda mér símbréf með lista yfir útgefin verk Gunnars Gunnarssonar í Danmörku. Listinn var langur og í ljós kom að upplögin á bókum hans voru ekki eitt, tvö eða þrjú heldur skiptu þau tugum. Er saga Gunnars Gunnarssonar saga skáldsins sem skrifaði eina til tvær bækur á ári í næstum þrjátíu ár en þagnaði síðan á hátindi ferils síns? Er saga Gunnars Gunnarssonar saga skáldsins sem lagði skipi sínu að háskalegri strönd og gleymdi sér við veisluborð vondra manna? Er hún saga skáldsins sem eitt sinn var á allra vörum en nú reka menn upp stór augu þegar nafn hans er nefnt? Kannski er hún þetta allt, kannski ekki neitt. En hvað sem öðru líður er hún að minnsta kosti saga skáldsins sem „vissi að maður verð- ur listamaður af því einu að gera strangari kröfur til sín en aðrir menn, og lifði eftir því,“ einsog Halldór Laxness segir í eftirmælum sínum um Gunnar Gunnarsson. Sveinn Skorri Höskuldsson, sérfræðing-ur í verkum Gunnars Gunnarssonar,segir í ritgerð sinni Gegn straumi ald-ar: „Enn er á þessum árum og fram til loka dvalar hans í Danmörku aragrúi viðtala við hann af ólíkustu tilefnum. Auk úrklippu- safns hans sjálfs og úrklippusafns Gyldendals- forlagsins hef ég farið í gegnum skjalasöfn Politikens og Berlingske-samsteypunnar, og ég get ekki líkt stöðu Gunnars á þessum árum í Danmörku við neitt nema þá stöðu sem stjörnugengi nútímans hefur. Við hann eru löng og stutt viðtöl og enda- lausar myndbirtingar af honum sjálfum, fjöl- skyldu hans og heimili. Það er látið við hann eins og leikara, knattspyrnuhetjur, stjórn- málamenn og poppstjörnur nú. Maður spyr: Hvenær fékk maðurinn frið til að semja bækur?“ Engu að síður eru afköst Gunnars Gunn- arssonar með ólíkindum. Hann virtist varla þurfa að snúa sér við þá var hann búinn að semja bók. Um leið er hann ötull þátttakandi í opinberri umræðu, skrifar ferðalýsingar úr ýmsum heimshornum og kynnir Ísland og ís- lenska menningu. Gunnar Gunnarsson hafði forgöngu um nýj- ar þýðingar og glæsilega útgáfu á helstu Ís- lendingasögunum. Hann hafði skrifað kjallara- grein í Politiken þar sem hann sagðist hafa reynt að fá útgefanda að nýrri þýðingu Íslend- ingasagna en ekki tekist og nú hefði hann ákveðið að gefast upp. Þá fékk hann bréf frá Johannes V. Jensen. „Nej, nu begynder vi,“ sagði danska skáldið. Sögurnar komu út í þremur myndskreyttum bindum. Gunnar Gunnarsson þýddi sjálfur Grettissögu, Johannes V. Jensen Egilssögu. Meðal annarra þýðenda má nefna Tom Krist- ensen og ráðunautur útgáfunnar var Jón Helgason. Ég lagði saman alla reynslu mína hingaðtil, en hún var sú, að ég, fátækurbóndasonur, ætti mér engrar hjálparað vænta frá neinni mannlegri veru í öllum heiminum, ef ég vildi stefna aðrar braut- ir en þá sem mér var mörkuð fyrirfram sam- kvæmt fæðingu og umhverfi, – ekki frá nokk- urri lifandi sál á allri þessari veltandi hnattkúlu nema sjálfum mér. Hin nakta og miskunnarlausa spurning var sú, til hvers ég dygði, á hvað ég þyrði að hætta og hvað ég gæti lagt á mig. Þeirri spurn var hægt að svara fljótt og greinilega: ég dugði til hvers sem var, þorði að hætta jafnvel á það ókleifa, gat lagt alt á mig. Ég ákvað sem sagt að taka mér þegar fyrir hendur að keppa að því eina er hugur minn stóð til: verða rithöfundur.“ Þannig segir undir lok bókarinnar Nótt og draumur, sem er þriðja bindi Fjallkirkjunnar. Einsog aðrar sögur Gunnars skrifaði hann Fjallkirkjuna á dönsku og kom hún út í Dan- mörku á árunum 1923–1928, alls fimm bindi. Rúmum áratug síðar þýddi Halldór Laxness þau öll á íslensku og sagði hann síðar hve þakk- látur hann var fyrir að hafa fengið að þreifa á hverju orði þeirrar sögu. Halldór Laxness var einnig að launa Gunnari þann greiða að hafa þýtt Sölku Völku á dönsku og þannig komið Halldóri á framfæri erlendis, fyrstur manna að ég held. Og enn liðu nokkrir áratugir, en þá settist Gunnar Gunnarsson sjálfur niður og endur- samdi verk sín eða þýddi þau yfir á sitt eigið móðurmál. Sem sé; Gunnar ritaði verk sín á dönsku. Þau voru þýdd yfir á íslensku af málsmetandi mönnum í menningarlífinu. Löngu síðar undi Gunnar Gunnarsson ekki við þá staðreynd að hans eigið handbragð var ekki á verkunum og skráði þau upp á nýtt. Þetta er afar sérstök staða og má með viss- um rétti segja að til séu þrjár frumgerðir af verkum Gunnars Gunnarssonar: dönsku frum- gerðirnar, íslenskar þýðingar og íslenskar út- gáfur Gunnars sjálfs. Síðan er það eilíft deilumál. Hver gerðin er best? Gunnar Gunnarsson á dönsku eða Gunn- ar Gunnarsson í íslenskum þýðingum sjálfs sín og annarra. Nær til að mynda Halldór Laxness stíl Gunnars Gunnarssonar betur en Gunnar sjálfur? Spurning sem er ómögulegt að spyrja en raunhæf í þessu dæmi. Gunnar Gunnarsson fæddist 18. maíárið 1889 á Valþjófsstað á austur-horni Íslands, í heimi stórbrotinnafjalla, við dularfullt fljót. Gunnar gerði hinu hrjóstruga landslagi fjarðanna og heiðanna skil í verkum sínum, en úr þeirri fjar- lægð sem láglendi Sjálands er, en árið 1907 fluttist hann til Danmerkur, staðráðinn í að sigra heiminn með orðlist sinni. Gunnar Gunnarsson dreymdi um að njóta menntunar. Því varð ekki viðkomið sakir fá- tæktar. Þó tókst honum að lesa talsvert af bók- menntum: Íslendinga sögur, Konunga sögur og Fornalda sögur Norðurlanda, bækur eftir Björnstjerne Björnson og Hinn guðdómlega gleðileik Dantes í sænskri þýðingu, svo eitt- hvað sé nefnt, en Gunnar Gunnarsson lagði sig snemma eftir norrænum tungumálum. Árið 1906 komu út eftir hann tvö ljóðakver. Þá var hann sautján ára. Og nú var að leggjast í víking, andlegan bar- daga til að leggja að fótum sér höfuðvígi bók- menntanna. Krafturinn og ákafinn eru strax til staðar. Hann er staðráðinn í að sigra; og hann kom, sá og sigraði. Í íslensku tímariti hafði Gunnar Gunnarsson lesið grein um dönsku lýðháskólana. Hann sótti um lýðháskólann í Askov á Jótlandi og fékk þar inni. Áður en Gunnar Gunnarsson hélt frá Íslandi dreymdi hann draum: Hann gekk eftir götu og sá að handan hennar lágu ótal bækur. Þetta voru hans verk. Hann ætlaði að læra þau utan að en vaknaði og mundi ekki orð af því sem í þeim stóð. Árin í Askov voru afdrifarík fyrir rit-höfundinn Gunnar Gunnarsson.Bókasafn skólans varð honum nota-drjúgt. Þarna las hann sænsku RÁÐGÁTAN GUNNAR GUNNARSSON Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Gunnar Gunnarsson E F T I R E I N A R M Á G U Ð M U N D S S O N „Er saga Gunnars Gunnarssonar saga skáldsins sem skrifaði eina til tvær bækur á ári í næstum þrjátíu ár en þagnaði síðan á hátindi ferils síns? Er saga Gunn- ars Gunnarssonar saga skáldsins sem lagði skipi sínu að háskalegri strönd og gleymdi sér við veisluborð vondra manna? Er hún saga skáldsins sem eitt sinn var á allra vörum en nú reka menn upp stór augu þegar nafn hans er nefnt? Kannski er hún þetta allt, kannski ekki neitt.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.