Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. FEBRÚAR 2001 5 skáldin August Strindberg, Gustav Fröding og Selmu Lagerlöf og Rússana Dostojevskí, Tur- genjev, Tolstoj og Maxim Gorkí og var sískrif- andi og staðráðinn í því að reyna fyrir sér á dönsku. Þótti með ólíkindum hve fljótt hann náði að skrifa á öðru máli en sínu eigin. Á þessum árum freistaði þetta fleiri ís- lenskra höfunda. Þeir trúðu því að Norður- löndin og þá sérstaklega Danmörk væru stökkpallur út í hinn stóra heim. Auk Gunnars má nefna Jóhann Sigurjónsson, Jónas Guð- laugsson og Guðmund Kamban. Íslendingarnir mynduðu áhrifamikinn hóp og hikuðu ekki við að gerast hirðmenn annarra tungumála mætti það verða til að auka mögu- leikana á að þeir gætu komið sér á framfæri og lifað af list sinni. Á þeim tíma var bókamarkaður á Íslandi það vanþróaður að lítil von var um að komast af sem atvinnuhöfundur, en Íslendingarnir sem skrifuðu á dönsku virtust hitta á einhverja strengi sem gerði að verkum að bókum þeirra var vel tekið og þeim hampað, til að mynda af Georg Brandes. Í Askovskólanum sveif andi skandinavism-ans yfir vötnunum. Bæði átti skólinn sérnokkuð þjóðernissinnaða hefð, sem áttirætur að rekja til yfirgangs hins volduga granna í suðri, auk þess sem námsmenn frá öll- um Norðurlöndum stunduðu nám við skólann. Í Askov urðu hugsjónir skandinavismans Gunnari Gunnarssyni afar hjartfólgnar en þær áttu sér að einhverju leyti rætur í hugarheimi 19. aldar rómantíkur sem sótti efnivið sinn í fornaldarheiminn. Löngu seinna, eftir að Gunnar Gunnarsson var orðinn málsmetandi höfundur, skrifaði hann greinar í blöðin þar sem hann boðaði sameiningu Norðurlanda og endurreisn Kal- marsambandsins. Í hans augum voru Norðurlandabúar í raun ein þjóð, miklu fremur en til að mynda Banda- ríkjamenn. Með sameiningu þjóðanna áleit Gunnar að þær gætu talað einni röddu og lifað óáreittar í átökum stórveldanna í álfunni. Að hans mati streymdi frumlind hins norræna menningararfs frá íslenskum fornsögum. Þessar hugmyndir Gunnars Gunnarssonar, eða að minnsta kosti hinn þjóðfélagslegi angi þeirra, þóttu draumórakenndar og höfðuðu helst til ungra menntamanna. Annars er dálítið skrýtið hvernig tímarnir breyta inntaki orðanna. Nú á dögum þykir ekki tiltökumál að tala um skyldleika Norðulandabúa og þá eru menn með hugann við svipuð viðhorf til velferðar- mála, skyld tungumál, viðlíka kímnigáfu og huglæg atriði sem birtast í bókmenntum þjóð- anna, tónlist, kvikmyndum og svo framvegis. En dyggð á einum tíma er glæpur á öðrum, harmleikir breytast í skrípaleiki og skrípaleik- ir í harmleiki; þannig er með þær hugmyndir sem Gunnar Gunnarsson setti fram og birtust í greina- og ræðusafninu Det nordiske rige sem kom út 1927 og sem einnig má finna í skáldsög- um hans frá sama tíma. Í suðri beið örn, tilbúinn að festa klær sínar í orð hans, en ritferill Gunnars Gunnarssonar í Þýskalandi hófst löngu áður en nasistar kom- ust til valda og nasistum var lagið að draga eitt fram í bókum norrænna höfunda en horfa framhjá öðru. Í sögulegum skáldsögum Gunn- ars Gunnarssonar sáu þeir heiðinn anda, upp- hafningu hefndarskyldunnar, stoltsins og óbil- girninnar en horfðu framhjá hinu kristilega mótvægi, mildinni og mannúðinni. Vorið 1910 flutti Gunnar Gunnarsson tilKaupmannahafnar eftir að hafa búið íÁrósum. Árið í Árósum og fyrstu áriní Kaupmannahöfn voru ár sults og seyru. Í Árósum fékk hann birt nokkur ljóð í blöðunum og flutti fyrirlestra. Hann sat eins mikið á bókasafninu og hann gat og nú opn- aðist honum heimur franskra bókmennta Bal- zac, Zola, Maupassant og Anatole France. Þegar til Kaupmannahafnar kom hélt hann áfram að mennta sig og las ekki síður heim- spekirit en skáldskap: Nietzsche, Schopen- hauer og Platon. Fyrsta bók Gunnars Gunn- arssonar á dönsku var ljóðasafn sem kom út árið 1911, en það vakti enga athygli. Um þetta leyti kynntist Gunnar konu sinni, sem hét fullu nafni Franzisca Antonia Joseph- ine Jörgensen, fædd 4. apríl 1891 í Fredericia á Jótlandi; og urðu þau hjón og lífsförunautar um langa ævi. Þau eignuðust tvo syni, Gunnar Gunnarsson listmálara, fæddan 1914 og Úlf Gunnarsson, síðar yfirlækni á Ísafirði, fæddan 1919. Árið 1929 var Gunnari kenndur sonur sem hann gekkst við, Grímur Gunnarsson, vel þekktur blaðamaður í Danmörku sem skrifaði undir höfundarheitinu Grimme. Móðir hans hét Ruth Lange, fædd 15. apríl 1899, dóttir Svens Langes skálds. Hún var gift rithöfund- inum Tom Kristensen 1921–1927, en eftir skilnað þeirra hófust náin kynni með henni og Gunnari. Það er með bókmenntir einsog kaffi: þær eru góðar þegar þær eru góðar. Höfundaverk Gunnars Gunnarssonar er afar fjölbreytilegt. Árið 1912 kemur út fyrsta bindið af Sögu Borg- arættarinnar og strax með þeim sagnabálki tryggir hann stöðu sína en hneigðin í sögum hans liggur frá hinu hefðbundna til hins tilvist- arlega með verkunum sem sigla í kjölfar Sögu Borgarættarinnar en þau eru Ströndin, Varg- ur í véum og Sælir eru einfaldir. Hinar tilvistarlegu sögur Gunnars Gunnars- sonar verða til í skugga heimsstyrjaldarinnar fyrri. Um styrjöldina notaði Gunnar sjálfur þau orð að sér hefði blætt inn en ekki út. Þetta eru sögur fullar af brennivíni, eldgos- um og brjálæði. Örlagahyggja Gunnars og lífstrú vega salt við mikla bölsýni. En þessi verk varða leiðina til hinna þroskaðri verka, stórvirkjanna: Fjallkirkjunnar, Svartfugls, Aðventu, Vikivaka og Blindhúss. Fjallkirkjan kom út einsog áður segir á ár- unum 1923–28 og enn verða kaflaskipti í skáld- skapnum. Lítum á hvaða mun Halldór Lax- ness, þýðandi Fjallkirkjunnar, sér á henni og fyrri bókum Gunnars: „Í fyrri bókunum sér maður höfundinn stríð- andi og leitandi. Hann berst í senn við örð- ugleika listar sinnar og fyrir daglegu brauði, ásamt þjóðfélagslegri viðurkenningu, án þess að hafa nokkurt vopn nema villtan, ósáttfúsan sigurþorsta, og spyrnir einsog berserkur við öllum þeim broddum, sem hið samúðarlausa umhverfi lætur standa á hverjum umkomu- lausum einstaklingi, sem hefur sett sér erfitt takmark. Hann svífst einskis til þess að rödd hans megi heyrast, og hættir ekki að slaungva þrumuveðri sinnar eldólmu skáldgáfu yfir landslýðinn fyren danskurinn er orðinn drep- skelkaður og bíður með lotningu og hryllingi eftir því, sem kann að koma næst. En þegar þjóðin er farin að hlusta, þá yfirgefur hann vinnubrögð hinna þungu, dramatísku drátta og tekur að leggja rækt við hin smágervari og hugðnæmari blæbrigði meistarastílsins. En að sama skapi sem aukin viðurkenning breytir af- stöðu hans í þjóðfélaginu og fjárhagsraunir hverfa, þá veitist honum það frjálsræði og næði, sem útheimtist til að afkasta jafnvægu, þroskaríku, forkláruðu verki, og slíkt verk er Kirkjan á fjallinu.“ Bókmenntirnar koma ekki til okkar íréttri tímaröð. Við byrjum á því semnæst okkur stendur í tíma, þótt þaðelsta sé kannski nýjast ef út í það er farið. Þegar ég las Svartfugl eftir Gunnar Gunn- arsson minnti hún mig stöðugt á eina af mínum eftirlætis bókum, Kött og mús eftir Günter Grass. Í báðum þessum verkum er það hin sak- bitna rödd sem talar. Svartfugl kom út árið 1929 og er glæpasaga byggð á frægu sakamáli við upphaf 19. aldar. Á afskekktum stað vestur á fjörðum búa tvenn hjón. Bjarni bóndi og Steinunn fella hugi sam- an og myrða maka sína. Þetta er æsileg saga en hún er sögð af sókn- arprestinum sem sjálfur stendur í þeim spor- um að hafa orðið ástfanginn af konu bróður síns og náð henni til sín. Þaðan sprettur hin sakbitna rödd einsog hjá sögumanninum í Ketti og mús sem finnst eins- og hann hafi att Jóakim Mahlke út í fífldirfsku styrjaldarinnar. Ég veit ekki hvort það er annað samband á milli þessara verka en það sem ég er að mynda nú. Samt er ekki útilokað að Günter Grass hafi kynnst Svartfugli Gunnars Gunnarssonar og öðrum verkum Gunnars, því á uppvaxtarárum Günters Grass í Þýskalandi var Gunnar Gunn- arsson einn vinsælasti höfundurinn af erlendu bergi brotinn. Ég held mest upp á Svartfulgl af bókum Gunnars Gunnarssonar. Þetta er bara per- sónulegt mat. Aðrir myndu nefna Fjallkirkj- una, enn aðrir Aðventu. Aðventa er líklega það verk Gunnars Gunn- arssonar sem mesta útbreiðslu hefur hlotið. Hún var Book of the month í stærsta bóka- klúbbi Bandaríkjanna og hafa sumir viljað leiða að því líkum að hún sé einn af áhrifavöld- um að hinni frægu sögu Hemmingways, The old Man and the Sea. Aðventa er lítil saga að vöxtum og sú síðasta sem Gunnar Gunnarsson sendi frá sér áður en hann flutti aftur til Íslands. Sögusviðið er hin hvíta auðn öræfanna og persónurnar hundur- inn Leo, hrúturinn Eitill og bóndinn Benedikt. Sagan er full af trúarlegum táknum sem sóttar eru í frásagnir Biblíunnar, svo sem sag- an af góða hirðinum. Á ensku heitir hún The good shepard. Benedikt leggur líf sitt að veði til að bjarga nokkrum sauðum og kemur að lokum af fjalli með fimm slíka. Hann hefur unnið í þágu lífsins og öðlast sátt við guð og menn. Aðventa tjáir hið brýna erindi höfundar við samtíð sína. Myrkrið sem er að hellast yfir heimsbyggðina túlkar Gunnar Gunnarsson sem aðventu, biðina eftir ljósinu í skammdeg- inu. Nú erum við komin að því viðkvæmamáli sem er samband GunnarsGunnarssonar við Þýskaland nas-ismans. Tengsl Gunnars við þýskt menningarlíf, bókmenntamenn, þýðendur og útgefendur voru tveggja áratuga gömul þegar nasistar komust til valda. Gunnar kemst mjög fljótt í samband við þýska þýðendur. Árið 1913 hefj- ast þýðingar á verkum Gunnars. Sælir eru einfaldir var þýdd úr dönsku um leið og hún kom út og síðan héldu bækur Gunn- ars að koma út á þriðja áratugnum í Þýska- landi þar sem hann var einhver söluhæsti rit- höfundur á bókamarkaðnum. Mikilvægasti tengiliður í Þýskalandi við rit- höfunda og listamenn á Norðurlöndum var Norræna félagið í Lübeck, Die nordische Geschellschaft, stofnað 1921. Tilgangur þess var að efla tengslin við menningarlíf á Norð- urlöndum og gaf það út frekar yfirlætislaust tímarit og fór ekki mikinn. Við valdatöku nasista verður hins vegar breyting á. Norræna félaginu er breytt í áróð- ursmiðstöð fyrir ímynd nasista af Norðurlönd- um, starfsemi þess var margefld og verksvið þess víkkað. Því er ætlað að efla norrænan anda og norræna hugsun í Þýskalandi. Vernd- ari félagsins – Schirmherr – varð Alfred Ros- enberg. Hið áður yfirlætislausa tímarit, sem enginn man lengur hvað heitir, fær nafnið Der Norden þar sem norrænir rithöfundar og listamenn, ekki síst Gunnar Gunnarsson og Knut Hams- un, eru lofaðir í bak og fyrir. Þótt hvergi finnist jafn afgerandi stuðnings- yfirlýsingar frá Gunnari Gunnarssyni og Knut Hamsun við Þýskaland Hitlers er heldur ekki hægt að segja að hann hafi rokið út í fússi úr samkvæmi hinna steigurlátu stígvélakatta; og enn eru þessi mál viðkvæm og umdeild og allt of flókin fyrir þann sem hér heldur á penna til að hann geti sest í dómarasæti og kveðið upp úrskuð. Ég get þó fullyrt að villimennska nasismans er í mikilli andstöðu við þann boðskap sem finna má í verkum Gunnars Gunnarssonar. Einstaklingshyggja hans er lituð húmanisma og mildi. Nasistar misnotuðu höfunda einsog Gunnar Gunnarsson, en slíkir höfundar voru líka barnalegir tækifærissinnar sem hljóta að hafa þurft að loka augunum ansi oft eða blind- ast af dýrðarljómanum. Á þessum árum tóku að leika kaldirvindar um Gunnar Gunnarsson íDanmörku. Gunnar átti litla samleið með vinstrisinnum og sósíalistum sem settu meg- insvip á bókmenntir fjórða áratugarins á Norðurlöndum. Þjóðfélagsleg gagnrýni og krafa um pólitíska afstöðu í skáldskap var í andstöðu við þá trúarlegu og sálfræðilegu dul- úð sem hvíldi yfir tilvistarlegri glímu hans. Bóndinn í Aðventu heldur til fjalla og stend- ur úti í snjóhvítri auðn myrkursins, en Gunnar er ekki á nokkurn hátt að fjalla um landbún- aðarmál. Landi hans Halldór Laxness hafði gert bóndanum eftirminnileg skil í Sjálfstæðu fólki og í mótsögn við þá upphafningu bóndans sem finna mátti í verkum Gunnars Gunnars- sonar og Knuts Hamsuns. Sjálfstætt fólk er með vissum hætti svar við Gróðri jarðar, bara allar forsendur þveröfugar, upphafningin eymdarlegt basl, vonlaust og óskynsamlegt. Við getum lengi rætt um viðhorf skálda og mistök þeirra á hinu hála svelli stjórnmálanna, en þeim verður víst ekki breytt héðan í frá. Hitt er eins víst að verkin standa og spyrja hverja stund sem líður: Á ég erindi við þig? Og þar vandast málið þegar mælikvarðar erind- isins eru grundaðir. Það er einnig ráðgáta hvað vakti fyrirGunnari Gunnarssyni með því aðhverfa úr hringiðunni og flytjast áæskuslóðir sínar og hefja stórbúskap. Var víkingurinn að snúa heim með frægð og fjársjóði í höndunum eða flýði undan gjörn- ingaveðrum spjótanna sem nú stóðu úr öllum áttum? „Ég þykist þess fullviss að þeir köldu vindar sem stundum blésu um Gunnar í Danmörku á síðari helmingi fjórða áratugarins ýttu enn undir heimferð hans,“ segir Sveinn Skorri Höskuldsson í áður ívitnaðri grein, Gegn straumi aldar. Halldór Laxness nefndi þetta framtak skáldbróður síns „investeringu í róm- antíkina“. En höllin var reist. Skriðuklaustur í Fljóts- dal tók við af Fredsholm í Bistrup á Sjálandi. Húsið kostaði 200 þúsund krónur en það jafn- gilti byggingarkostnaði tíu einbýlishúsa í Reykjavík. Jafnframt lagði Gunnar drög að stórbúskap á jörð sinni, en þá skall stríðið á og grundvöllur sveitalífs í bændahöfðingjastíl var ekki lengur fyrir hendi. Nútíminn í öllu sínu veldi var kom- inn til Íslands. Kannski stóð Gunnar einsog Lér konungur yfir rústum síns konungsríkis. Þó vil ég segja um Gunnar einsog Albert Camus um Sísífos: Ég sé hann fyrir mér sem hamingjusaman mann. Ég man eftir honum sem lítill drengur. Hann var í sjónvarpinu að tala um hundinn sinn. Halldór Laxness þýddi öll bindi Fjallkirkjunnar á íslensku í byrjun fimmta áratugarins og sagði hann síðar hve þakklátur hann var fyrir að hafa fengið að þreifa á hverju orði þeirrar sögu. Myndin er tekin við Skriðuklaustur sumarið 1947. Höfundur er rithöfundur. Heimildir: Halla Kjartansdóttir: Trú í sögum. Um heiðni og kristni í sögum og samtíma Gunnars Gunnarssonar. Studia Islandica, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 1999. Matthías Johannessen: „Um Gunnar Gunnarsson“. Bókmenntaþættir, Almenna bókafélagið 1985. Sveinn Skorri Höskuldsson: „Gegn straumi aldar“. Tímarit Máls og menningar, 4. hefti 1988. Dönsk þýðing þessarar greinar birtist í Weekend- avisen á síðasta ári.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.