Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. FEBRÚAR 2001 Í TUNGUMÁLINU er ætíð fólgið vald, að tala afhjúpar löngun í vald; á sviði orðræðunnar er hvorki til sakleysi né öryggi,“ sagði einn helsti hugmynda- fræðingur tuttugustu aldar, Roland Barthes, árið 1971. Það vald sem Bart- hes er að tala um er í rauninni mátt- urinn til að láta í sér heyra og eiga sam- skipti við umheiminn og marka þar með tilvist sína. Valdið sem orðræðan felur í sér, tjáning- arfrelsið sjálft, er hornsteinn þeirra mannrétt- inda sem flestir telja sjálfsögð í dag. Enda hef- ur stór hluti hugmyndafræðilegrar umræðu síðustu aldar snúist um rétt ólíkra hópa til að tjá sig, skýra heimsmynd sína og sjónarhorn. Allt frá því á sjöunda áratugnum hefur þessi þróun meðal annars birst í baráttu kvenna fyr- ir jöfnum rétti á við karla, kröfum ólíkra kyn- þátta um jafnræði á öllum sviðum þjóðfélags- ins og í kröfum þeirra sem ekki eru gagnkynhneigðir um fulla viðurkenningu sam- félagsins á þeim lífsmáta sem þeim er eðlis- lægur. Allar eru þessar kröfur hluti marg- radda orðræðu sem hefur sífellt meiri hljómgrunn en margröddun gengur þvert á allar fyrri hefðir um aðgreiningu, flokkun, teg- undir og stílbrigði. Hin margraddaða orðræða er því ef til vill mikilvægasti þátturinn í fjöl- breytileika þeirrar menningar sem ráðið hefur ríkjum undanfarna áratugi. Í upphafi síðustu aldar var allt annað uppi á teningnum. Módernisminn, sem þá var að ryðja sér rúms byggðist á öðrum forsendum; forsendum flokkunar þar sem sum sjónarhorn, ákveðin orðræða og fagurfræði voru álitin öðr- um æðri. Fjöldamenning átti því ekki upp á pallborðið hjá módernistunum, þeir báru í brjósti ákveðna framtíðarsýn, sem þeim fannst fela í sér óumdeilanlega framför frá fyrri tíðaranda. Og ef litið er til baka yfir um- fangsmiklar hræringar tuttugustu aldar má ekki gleyma því að módernisminn var andsvar við ótrúlegum félagslegum, pólitískum og tæknilegum breytingum sem byltu vestrænu samfélagi á þeim tíma. Sviptingarnar mörk- uðust ekki síst af flótta úr dreifbýli til þéttbýlis og af heimsvaldastefnunni sem náði til allra heimsins horna. Í kjölfarið fylgdi aukin áhersla á hið veraldlega sem hafði í för með sér hrun ákveðinna trúkerfa og kennisetninga. Aukin áhersla á iðnvæðingu, tæknivæðingu og fjöldaframleiðslu var það sem setti tóninn fyr- ir framtíðina. Sú áhersla breytti lífsháttum og viðhorfum manna næstu áratugi og náði há- marki í kringum heimsstyrjöldina síðari. Þrátt fyrir það hve meðvitaðir módernist- arnir voru um óreiðu og tvístrun í sinni hug- myndafræði, stóðu þeir samt sem áður vörð um gömul gildi varðandi einingu. Þeir litu á sig sem frumkvöðla á sínu sviði, álitu að vélmenn- ingin og alþjóðavæðingin gæti fært heiminn á áður óþekktan áfangastað á ferðalagi sínu til betra mannlífs – og því var hugmyndin um framtíð mannkyns ákaflega sterk í listum þessa tíma. Öðru máli gegndi um þær kyn- slóðir sem fæddust eftir 1945, eftir að fyrstu kjarnorkusprengjunni var beitt til að binda enda á hildarleik heimsstyrjaldarinnar. Firr- ing þeirrar styrjaldar leiddi til þess að ekkert gat nokkru sinni orðið sem áður, mannkynið hafði lokið upp nýrri og ógnvænlegri vídd. Þær kynslóðir sem ólust upp í kjölfarið bjuggu við nýjan raunveruleika þar sem vissan um hugs- anlega tortímingu mannkynsins var óaðskilj- anlegur hluti af skilningi þeirra á umhverfi sínu. Andspænis þeim raunveruleika var saga mannsins, tæknilegir ávinningar og uppfinn- ingar, byggingar og list, skyndilega bæði óendanleg áleitin og mikilvæg, – en um leið lít- ilsgild í því samhengi er ógnaði sjálfri tilvist- inni. Sú grundvallarbreyting sem þessi bitra reynsla eftirstríðskynslóðanna hafði á ríkjandi hugmyndafræði sýndi sig einna greinilegast í róttækum kröfum ’68 kynslóðarinnar um breyttar áherslur. Þeir sem ólust upp bæði við kalda stríðið og kjarnorkuvána kröfðust frið- samlegri úrræða í stjórnskipulagi og umbylt- ingu hefðarinnar. ’68 hreyfingin átti því eftir að móta hugmyndir manna um samfélagið til framtíðar og hafði líklega meiri áhrif en nokk- urn óraði fyrir, þótt það hafi ef til vill verið með öðrum hætti gert var ráð fyrir í upphafi. Módernisminn kom að hluta til fram sem andsvar við þungu og ósveigjanlegu embætt- iskerfi nítjándu aldar þar sem ábyrgð og verð- mæti einstaklingsins skipti litlu. Andóf ’68 kynslóðarinnar var á líkum nótum hvað það varðar, og í beinu framhaldi af því sem á undan hafði gengið þrátt fyrir breyttar áherslur í málflutningi. Sú breyting sem næst mótar hugmyndafræði tuttugustu aldar á afgerandi hátt, tengist kúvendingu hins vestræna heims þar sem sagt er skilið við vélmenningu iðnvæð- ingarinnar í hugmyndafræðilegum skilningi og upplýsingamiðlunin tekur við. Þessi þróun markaði sterk skil þar sem hin vélræna heims- sýn var nokkuð sem hægt var að einangra sem hlutlægt fyrirbrigði og skilja á þeim forsend- um, en upplýsingamiðlun er hins vegar í eðli sínu ósýnileg – huglæg miðað við hið vélræna og þjónar þannig ólíku hlutverki í tíðarand- anum. Með tilkomu tölvu- eða upplýsingaald- arinnar, er í raun ekkert til að rísa gegn annað en sértekningin, – sértekning hugans frá að- stæðum sem lýsa má sem ópersónulegu afli er stöðugt vex með framförum á sviði tölvuvís- inda. Í samræmi við þetta ólíka eðli upplýsing- araldarinnar, hefur lítið borið á andófi eða höfnun á upplýsingaöldinni, samtíminn hefur þvert á móti tekið henni fagnandi og talið sér trú um að „upplýsingin“ leysi allan vanda og dragi heiminn saman í hnotskurn sem auðvelt verði að greina mannkyninu til hagsbóta. Ekki má gleyma þætti sjónvarpsins í þess- ari þróun, en sjónvarpið átti vissulega sinn þátt í breytingum hins póstmóderníska heims – þótt mótandi hlutverk þess í tíðaranda síð- ustu aldar sé iðulega vanmetið. Því þótt heim- ur módernistanna hafi aðeins verið farinn að skreppa saman vegna þeirrar þekkingar sem mannkynið bjó yfir var heimsmynd þeirra enn háð takmörkunum fjarlægða og ólíkra sjón- arhorna. Þeir buggu í heimi sem enn var hægt að álíta ógnarstóran og dularfullan. Þegar sjónvarpið kom til sögunnar afmáði það öll landamæri og menningarmörk því það var ekki nóg með að búið væri að grafa undan hug- myndinni um fjarlægðir og ögra henni sem sálrænni upplifun, heldur varð tilfinningin fyr- ir framandleika ólíkra heimshluta og menning- arheilda mun veikari. Þegar mörk hins fram- andi og þess kunnuglega tóku að skarast varð hvers kyns „jaðarmenning“ áberandi í um- skiptum hinnar póstmódernísku hefðar, allt þar til menn gerðu sér grein fyrir þeim hroka sem fólst í slíkum skilgreiningum er byggðust á forsendum ríkjandi vitundarmiðju. Allt hefur þetta leitt til þess að á síðasta hluta aldarinnar hefur mönnum reynst sífellt erfiðara að þróa með sér greinagóða og sam- hangandi tilfinningu fyrir fortíðinni og sög- unni. Tíðarandinn hefur því markast af áleit- inni tilfinningu fyrir eilífri nútíð þar sem það sem kalla mætti „menningarlegt minni“ er tal- ið fara hverfandi. Þessu ástandi bregst fólk við með því að leita sér þekkingar á sem breið- ustum vettvangi í gegnum upplýsingamiðlana, þvert á svið hinnar menningarlegu samtíðar – frekar en að teygja sig aftur í sagnfræðilegu samhengi. Mynd okkar af heiminum ber því sterk merki sundrungar, þar sem samheng- islausar raddir fortíðarinnar – sumar afar af- stæðar eða jafnvel falsaðar samkvæmt ríkjandi söguskoðun – blandast röddum sam- tímans. Einn þeirra hugsuða tuttugustu aldar sem einna best gátu lýst þeim tíðaranda sem varð ríkjandi eftir því sem lengra leið á öldina var argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borg- es. Síendurtekið minni í sögum hans er völund- arhúsið, táknrænt fyrir þá þversögn sem felst í samhverfum hugans, sögunnar og tímans, sem aðeins getur leitt til tilfinninga tendum glund- roða eða leyndardómum. Borges trúði ekki frumleika sköpunarinnar, hann hélt því fram að allt sem kemur fram í orðræðu okkar hefði verið hugsað eða skrifað áður. Og í þeim (skáldskapar) heimi þar sem allt hefur þegar verið skrifað eða tjáð, er um leið ekkert til vegna þess hve orðin eru orðin mörg og hafa lítið vægi. Í samræmi við það er tíðarandi sam- tímans mótaður af uppsöfnuðum brotum skáldskapar fortíðarinnar, sem umlykur okk- ur eins og völundarhús – „þar sem maður týnir sjálfum sér“ eins og Borges orðaði það. Breski rithöfundurinn Jeanette Winterson færir áþekka hugmynd í skáldlegan búning í einni sögu sinna. Hún segir frá borg þar sem lífið er þeirrar náttúru að allt sem fólk segir hlutgerist í orðum sem svífa um yfir borginni. Sérstakar hreinsunardeildir sjá um að sópa orðunum saman og fjarlægja þau svo hægt sé að sjá til sólar. Orðræða liðins tíma er því stöð- ugt sýnileg, en hún er óþörf, orðin að eins kon- ar samhengislausri orðamengun. Og í takti við samtíma sinn lætur Winterson orðræðu hins liðna víkja svo hún kæfi ekki það sem mönnum liggur á hjarta á líðandi stundu. Þannig verður hlutskipti þessarar hlutgerðu orðræðu fortíð- arinnar táknmynd fyrir áframhaldandi frelsi til tjáningar. Af reynslu ’68 hreyfingarinnar má ráða að vægi orðræðunnar kemur berlegast í ljós þeg- ar ógn steðjar að henni – þegar hún velgir valdhöfum og stofnunum samfélagsins undir uggum og er hvað umdeildust. Í menningar- heimi okkar þar sem orðræðan er orðin svo mikil að vöxtum að hún gæti byrgt samtím- anum sýn, eins og í bók Jeanette Winterson, óttast margir að gleymskan ein taki við eins og drepið var á hér að ofan. Nú þegar hugmyndir um minnið hafa verið færðar yfir á kísilkubba og tölvur er auðvelt að mikla fyrir sér hættur menningarlegs minnisleysis. Andreas Huyssen, einn atkvæðamesti menningarfræðingur samtímans, hefur gert tilraun til að skilgreina ótta samtímans við gleymskuna í bók sem hann nefnir „Twilight Memories – Marking time in a Culture of Am- nesia“ sem útleggja mætti sem „Minningar húmsins – tilvist í menningu minnisleysisins“. Hann leggur áherslu á þá hugmynd að minnið, bæði minni einstaklinga og menningarlegt minni samfélaga, sé ávallt óáreiðanlegt enda mótað af gleymsku, afneitun og bælingu. Meira að segja opinber minnismerki eru byggð á sandi óminnisins enda fljót að hverfa eða missa merkingu sína þegar samfélagið breytist. Við höfum því uppgötvað að samtím- inn hefur óhjákvæmilega áhrif á fortíðina og það hvað við leggjum á minnið. Þrátt fyrir ótta okkar við minnisleysi síðustu tíma, erum við því ákaflega upptekin af fortíðinni og þeim minningum sem við eigum þaðan, hvort heldur þær minningar rata inn á söfn (sem sjaldan hafa notið meiri vinsælda), í minnismerki um ákveðna viðburði (t.d. styrjaldir) eða eru „end- urunnar“ í listsköpun samtímans. (Þennan aukna áhuga á söfnum má ef til vill að hluta rekja til takmarka sjónvarpsins og tölvunnar, þar sem einungis er hægt að virða fyrir sér eft- irmyndina og hlutlægni veruleikans er máð út.) Hugtakið minni hefur því fengið nýja merk- ingu í samtímanum samkvæmt skilgreiningum Huyssen. Minnið er ekki lengur álitið óbrigð- ult, það er ekki lykill samtíðarinnar að óbreyt- anlegri og stöðugri fortíð, heldur miklu fremur teygjanlegt hugtak sem býr í húminu, þessari óræðu vídd á mörkum dags og nætur – eða for- tíðar og framtíðar. Í þessum skilningi verður minnið sá efniviður sem er uppspretta allrar orðræðu samtímans, drifkraftur hennar og vald. T ÍÐARANDI Í ALDARBYRJUN Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson „Minnið er ekki lengur álitið óbrigðult, það er ekki lykill samtíðarinnar að óbreytanlegri og stöðugri fortíð, heldur miklu fremur teygjanlegt hugtak sem býr í húminu, þessari óræðu vídd á mörkum dags og nætur – eða fortíðar og framtíðar.“ ORÐRÆÐAN OG MENNING GLEYMSKUNNAR Höfundur er bókmenntafræðingur og blaðamaður á Morgunblaðinu. E F T I R F R Í Ð U B J Ö R K I N G VA R S D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.