Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 17

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2001, Blaðsíða 17
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. FEBRÚAR 2001 17 Þ AÐ ER bágt ástandið í Bretaníu. Stríð geisar. Pierre bóndi hokrar í koti sínu ásamt tengdadóttur- inni Noelle. Sonurinn, Paul, er á vígvellinum. Pierre þraukar, hans vegna. Þá ríður áfallið yfir – Paul er fallinn. Það þyrmir yfir. Pierre og Noelle snúa bökum saman í harmi sínum og viti menn, það rofar til. Ástin kviknar – og ber ávöxt. Þau sjá ljósið. Þá fellur sprengjan, Paul er á lífi. Fregnir af andláti hans voru stórlega ýktar. Hann er þó ekki nema hálfur maður, illa farinn á geði og minnislaus í þokkabót. Faðir hans ræður hann til starfa, sem vinnumann, en segir honum ekk- ert. Allt leikur í lyndi uns Paul finnur spiladós- ina, þá man hann allt. Hann hyggur á hefndir og svo fer að hann fleygir föður sínum fyrir björg. Reynir svo að endurheimta ást Noelle – án ár- angurs. Paul myrðir hana þá líka með hrotta- legum hætti. Bugaður af ódæði sínu gengst hann svo við morði á þýskum hermanni, sem hann hefur ekki framið, og er líflátinn. Eftir stendur barn þeirra Pierres og Noelle, hálf- systkin Pauls – vandalaust. „Þetta er hádramatísk ópera og atriðið þar sem Paul myrðir fyrrverandi ástkonu sína það hrottafengnasta sem ég hef séð í óperu,“ segir Jóhann Smári Sævarsson bassasöngvari sem fer með hlutverk föðurins, Pierres, í sýningu óperuhússins í Saarbrücken á óperunni sem á undan er lýst, Spiladósinni eftir þýsk-tékk- neska tónskáldið Robert Hanell. Svo mikið fyrir gagnsæ nöfn, Spiladósin gæti hæglega verið heiti á óperu fyrir börn. Óperan var frumsýnd 2. febrúar síðastliðinn og fyrirhugaðar eru sjö sýningar til viðbótar í þessum mánuði og þeim næsta. Jóhann Smári hefur fengið góða dóma í þýskum fjölmiðlum, eins og uppfærslan í heild. Líður eins og tenór Jóhann Smári segir Pierre persónu sem hann hafði aldrei reiknað með að leika. „Við bassarnir erum ýmist vondi karlinn, prestur- inn, kóngurinn eða gamli maðurinn en Pierre er klárlega góði maðurinn í þessari sögu. Ég leik meira að segja í ástarsenum sem ég bjóst aldrei við að gera. Manni líður eins og tenór,“ segir Jó- hann Smári og hlær út um voldugt skeggið. „Ég og sá sem leikur son minn erum jafn gamlir, þess vegna er ég með þetta framan í mér,“ heldur hann áfram og á við skeggið. Pól- faralegur, bassinn. Sá sem syngur soninn heitir Stefan Röttig, eftirsóttur barítonsöngvari í Þýskalandi, sem hafnaði í öðru sæti í Wagner-keppninni í fyrra. Stefanie Krahnenfeld sópran fer með hlutverk konunnar sem kemst upp á milli þeirra feðga. Hún státar einnig af nýfengnum verðlaunum, bar sigur úr býtum í keppni þýska útvarpsins, ARD, á liðnu ári. Fjórði söngvarinn í sýning- unni er síðan bassinn Manfred Bertram sem leikur borgarstjórann sem flytur fréttirnar af falli og „upprisu“ Pauls. Tveir bassar en enginn tenór, er það ekki óvenjulegt í óperu? „Jú, mjög svo,“ svarar Jóhann Smári. „Raun- ar er mitt hlutverk skrifað fyrir barítón en ekki bassa. Þeir voru hins vegar svo elskulegir að breyta einni nótu fyrir mig. Þannig gengur þetta upp. Annað sem vekur athygli við þessa óperu er að þar er enginn kór. Bara fjórir ein- söngvarar.“ Leikstjóri sýningarinnar er 28 ára þýsk kona, Helen Malkowsky. „Hún er barn í þess- um bransa en mikil leikhúsmanneskja og vinn- an við sýninguna var sú besta og þéttasta sem ég hef tekið þátt í í leikhúsi. Þetta hafa verið skemmtilegir mánuðir.“ Áttrætt tónskáld Robert Hanell er áttræður, af tékknesku bergi brotinn en bjó lengst af í Austur-Þýska- landi. Þar rís nafn hans hæst. Hann starfaði meðal annars lengi við óperuhúsin í Leipzig og Berlín. Spiladósina samdi hann á sjötta ára- tugnum og var óperan frumsýnd 1957. Upp- færslan í Saarbrücken er sú 48. í röðinni. Verk- ið er byggt á samnefndu leikriti eftir Georg Keiser. „Hanell er ekki einn af þessum þekktu höf- undum í Evrópu en prýðilegt tónskáld og virtur hljómsveitarstjóri sem lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir háan aldur,“ segir Jóhann Smári. Hanell var viðstaddur lokaæfingar og bauð öllum söngvurunum út að borða fyrir frumsýn- ingu, þar sem hann skýrði það meðal annars út hvers vegna hann samdi Spiladósina. „Hann barðist sjálfur í seinna stríði og varð ásamt öðr- um manni vitni að því þegar félagi þeirra var sprengdur í tætlur. Hinn látni var mikill vinur mannsins sem var með Hanell og hafði atburð- urinn djúpstæð áhrif á hann. Hann tapaði geð- heilsunni. Hanell sá þennan mann í Paul, eins og Kaiser lýsir honum í leikritinu. Þá sagði hann okkur að stúlkunni, Noelle, svipaði mjög til fyrstu ástarinnar í lífi sínu. Þannig tengdi hann sig leikritinu og því má segja að tónlistin sé innblásin af lífsreynslu sem hann varð fyrir sjálfur.“ Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd gæti sviðsmynd sýningarinnar allt eins verið byggð á íslensku sjávarþorpi. Við æfingar kviknaði líka hugmynd hjá Jóhanni Smára. „Það væri gaman að koma með þessa sýningu hingað heim og ég ætla að kanna hvort það sé möguleiki. Kannski getum við komið á næstu Listahátíð?“ Þarf að kynna sig upp á nýtt Undanfarin tvö og hálft ár hefur Jóhann Smári verið deildarstjóri söng- og óperudeildar Tónlistarskólans á Akureyri en flutti nýverið suður um heiðar til Reykjavíkur. Hyggst hann nú leggja rækt við söngferilinn, taka upp þráð- inn þar sem frá var horfið í Þýskalandi. „Þeir í Saarbrücken útveguðu mér íbúð meðan á sýn- ingum stendur, þannig að ég ætla að nýta tæki- færið meðan ég er ytra og fara í söngprufur í nálægum borgum. Eftir fjarveruna þarf ég að kynna mig upp á nýtt þarna úti. Draumurinn er að vera í lausamennsku og búa hérna heima en ef rétti fasti samningurinn býðst tek ég hon- um.“ Tækifærið í Saarbrücken kom í kjölfar prufusöngs og Jóhann Smári neitar því ekki að þar á bæ séu menn farnir að spyrja hann um áform. „Þeir hafa rætt við mig um fleiri verk- efni næsta vetur en ekkert er undirskrifað.“ Annars er næsta mál á dagskrá að taka upp geislaplötu með íslenskum og rússneskum sönglögum í apríl við undirleik píanós. „Ég hef lagt mikla vinnu í lög eftir Rakhmanínov, Múss- orgskíj og Tsjajkovskíj og það væri synd að taka þau ekki upp. Síðan bæti ég væntanlega við nokkrum íslenskum perlum sem ég hef ver- ið að syngja.“ Stefnt er að því að platan komi út fyrir næstu jól. Jóhann Smári Sævarsson í upphafsatriði Spiladósarinnar, þar sem Pierre hugleiðir sjálfsvíg. ÁSTARÆVINTÝRI BASSANS Jóhann Smári Sævarsson Jóhann Smári Sævarsson bassasöngvari syngur um þessar mundir eitt af aðalhlutverkunum í óperunni Spiladósinni eftir Robert Hanell við óperuhúsið í Saarbrücken í Þýskalandi. Í samtali við ORRA PÁL ORMARSSON segir hann sýninguna ævintýri líkasta enda fær hann aldrei þessu vant að leika góða karlinn – og taka þátt í ástarsenum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.