Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. MARS 2001 5 færist undan. Þegar sá síðarnefndi rifjar upp frelsun sína kannast hún lengi ekkert við hann og viðurkennir treg að þau hafi hist áður. Þeg- ar hann síðar minnist á „hans velbyrðugheit“ og á greinilega við Arnas Arnæus segir hús- freyjan á Bræðratungu: „Um hvern ertu að tala?“ (211) Snæfríður snýr útúr og spyr í stað þess að koma til móts við viðmælandann. Þetta er hennar vörn andspænis hörku veruleikans: að þykjast ekki kannast við neitt og fallast ekki á neitt sem við hana er sagt fyrr en eftir langa mæðu. Frost, háð og undanfærslur Rétt eins og hinar ágengu spurningar Snæ- fríðar móta orðræðu hennar er áherslan í lýs- ingu hennar á kulda og fjarska sem styðja þá mynd sem spurningar hennar skapa, af konu sem með öllu fasi sínu andmælir heiminum og sannleikanum. Í fyrstu samræðum hennar í sögunni, við móður Jóns Hreggviðssonar, er hún ekki aðeins þögul, spyr og snýr út úr og er fjarlæg heldur er „frost í svipnum“ (59). Seinna er minnst á frosna örvæntingu og þurr augu (69). Í öðru bindi lítur húsfreyjan á Bræðra- tungu ekki upp þegar komið er heim með bónda hennar drukkinn (158). Þegar hún fær heimsóknir brosir hún annarshugar (202), and- litið fær svip af „algerðum tómleik“ (207) og því er ítrekað lýst að hún horfir á menn úr fjarska (m.a. 211, 216, 231, 249, 414 og 418). Þegar þau Arnas Arnæus hittast að lokum horfir hún „útí bláinn einsog hún hefði gleymt erindi sínu. Í svip hennar ríkti þesskonar upphafin tómlát kyrð sem hefur meiri svip af lofti en jörð.“ (251) Snæfríður þykist ekkert vita, kannast ekki við neitt og spyr eins og barn. Hún er líka köld og frosin, í fjarska, í loftinu og síðast en ekki síst heyrir hún ekki til deginum heldur nóttunni: „Vettvángur dagsins er ekki minn staður, þar ríkja sterkir menn, sumir með vopn, aðrir með bækur … Þeir kalla mig hið ljósa man og segja þitt ríki er nóttin.“ (58) Snæfríður er hæðnasta persóna Íslands- klukkunnar. Þegar henni er sagt að Magnús í Bræðratungu hafi selt jörðina undan þeim seg- ir hún: „Bóndi minn hefur laungum verið fram- kvæmdamaður.“ (169) Mesta útrás fær hæðni hennar þegar hún er andspænis dómkirkju- prestinum, frá og með fyrsta fundi þeirra í sög- unni þegar hann kemur í heimsókn og hún seg- ist ekki búin að setja upp hárkolluna (66). Í öðru bindi sækir hann hana heim í Bræðra- tungu og þá eru fyrst orð Snæfríðar: „Óvænt æra“ (199) og skömmu síðar kallar hún Sigurð dómkirkjuprest: „doktor angelicus endurbor- inn“ (201). Þegar hann fer með biblíutilvitnanir kallar Snæfríður þær „skemmtilega klámsögu“ (286). Sérstaklega hæðir hún áhuga Sigurðar á sjálfri sér. Þegar hann færir henni sannanir fyrir að Magnús hafi selt konu sína fyrir brennivín spyr hún hvort hann vilji ganga í kaupin: „Að öðrum kosti hlýtur manið að bíða þess uns réttir herrar gefa sig fram.“ (208) Seinna segist hún gruna hann um afbrýðisemi „(e)f ég vissi ekki að þér eruð einn af dýrling- unum“ (283). Þegar hann biður hennar í fyrsta bindi segir Snæfríður: „Já ég hef aldrei getað ímyndað mér neitt eins hlægilegt og ástfánginn dómkirkjuprest.“ (68) Háð Snæfríðar er napurt og neikvætt. Það er liður í uppreisnargirni hennar gagnvart sam- félaginu og orðræðunni. Henni finnst „hlægi- legt að kónglegrar maiestatis böðull skyldi vera myrtur af ótíndum skálki“ (70). Það sem er hlægilegt að fulltrúi valdsins, sá einn maður sem hefur opinbert leyfi til að drepa menn, hafi sjálfur verið drepinn af einum hinna kúguðu. Eins grefur háð Snæfríðar undan hátíðlegu orðfæri dómkirkjuprestsins og afhjúpar áhuga hans á hinu veraldlega og holdlega; í hennar augum er hann engu betri en aðrir sem girnast hana þó að fas hans sé hátíðlegt og hann þykist vera séntilmaður. Orðræða Snæfríðar er hvöss og ágeng en einkennist samt af undanfærslum og ólíkinda- látum. Sérstaklega vill hún ekkert kannast við eigin stöðu í samfélaginu og að hún hafi völd og áhrif. Því neitar hún aftur og aftur. Þegar aldin móðir Jóns Hreggviðssonar biður hana og þær systur um ásjá segir Snæfríður: „Hvernig dett- ur manneskjunni í hug að við systur, tvær fá- ráðar kvenpersónur, fáum nokkru ráðið um lög og dóma.“ (58) Við hinn lærða dómkirkjuprest segir hið ljósa man: „Æ tímið þér að sólunda látínu á stúlkukind?“ (67) Samt beitir hún skömmu síðar áhrifum sínum til að leysa Jón Hreggviðsson úr prísundinni. Næst sjáum við hana á Bræðratungu og þegar dómkirkjuprest- urinn kemur í heimsókn segir hún: „Æ er nú Kristí brúður líka farin að skipta sér af jafn- vesölu meinleysisskrimti og mínu lífi.“ (202) Þegar Jón Hreggviðsson kemur og biður um hjálp segir Snæfríður: „Það er hvergi hlustað á það sem ég segi, enda segi ég ekki neitt.“ (213) Slíkar tvöfaldar neitanir hafa þveröfug áhrif; það er engu líkara en hinar áköfu undanfærslur Snæfríður styrki tilfinningu bæði viðmælenda hennar og lesenda sögunnar fyrir miklu valdi hennar. Við trúum henni ekki þegar hún segir við Jón Hreggviðsson: „Þú hefur farið manna- vilt … Ég kann ekki að tala við stórmenni. Það er ekki siður að hlusta á kvennaslaður nú á dögum.“ (218) Eftir stendur þó að Snæfríður skilgreinir sjálfa sig ekki sem drottningu eða gyðju heldur klifar hún á áhrifaleysi sínu og vesæld. Aðrir kalla hana álfkonu og hina sönnu drottningu alls Norðurheims. Sjálf velur hún sér önnur nöfn. Hún er „fátæk kvenmanns- væfla“ (221), „breiðfirsk stelpukind“ (266–67) og að lokum „gömul bólugrafin ekkja“ (390). Þannig skilgreinir sjálf Íslandssólin sig og þar skilur á milli þeirra Guðrúnar Ósvífursdóttur. Þrá eftir refsingu Um leið og Snæfríður gerir lítið úr eigin völdum og áhrifum kallar hún ítrekað á nið- urlægingu og refsingu. Þegar hið ljósa man er fyrst beðið um að bjarga Jóni Hreggviðssyni segir hún: „Jafnvel syni mínum myndi ekki verða þyrmt sekum þó hann væri fríðastur allra íslendínga. Mér sjálfri ekki heldur. Eða var ekki drotníng skota höggvin?“ Þetta er í fyrsta sinn sem hún virðist daðra við refsingu og bætir raunar við: „Ég er sú kona sem mun verða lofuð þá brend er.“ (58) Skömmu síðar krefst hún þess að sér sé drekkt: „Ef ég er hóra, þá heimta ég að þér látið drekkja mér í Öxará“ (69). Þá spyr hún föður sinn hvort hann myndi láta höggva sig (74). Hún manar Jón Hreggviðsson til að láta höggva sig (218) og dómkirkjuprestinn að fá sér drekkt (389). Tvisvar segist hún vilja verða flökkukona (169, 200) og hvað eftir annað kallar hún sjálfa sig seka konu eða hórkonu. Strax þegar hún birtist snemma í sögunni ögrar hún dómkirkjuprest- inum með því að segjast kunna að beygja amo (67) og beygir þessa ágætu sögn seinna þegar faðir hennar vill vita hvað hún hafi lært (74). Hún segist vera fær um að drýgja hór (74) og býður undir lok annars bindis sögunnar föður sínum síðar að játa á sig hór (315). Í seinasta bindi Íslandsklukkunnar segist hún vera hór- kona Árna Árnasonar þegar Jón Hreggviðsson kallar hana álfkonu vísindamannsins (380). Kannski birtist þversögnin skýrast þar. Aðrir kalla hana álfkonu en sjálf kallar hún sig hór- konu. Snæfríður vill ekki kannast við eigin stórfengleik og er með hórkonur og refsingar þeirra á heilanum. Ólíkindalæti Snæfríðar eru með eindæmum. Það á ekki síst við samræður hennar við dóm- kirkjuprestinn og byskupsfrúna en þeirri síð- astnefndu þykir á köflum nóg um „dularfull orðtök“ systur sinnar (180). Einkum á það við um skipti þeirra Árna Árnasonar en hún fer jafnan undan í flæmingi þegar minnst er á þau. Hún neitar þess í einu orðinu að milli þeirra hafa verið stórkostlegt ástarævintýri. Hún seg- ist ekkert vilja heyra um grillur sínar ungrar: „fátt vekur manni innilegri hlátur stálpuðum: og saklausari.“ (204) Síðar segir hún: „Maður hlær og roðnar í senn að minnast þess maður var úngur.“ (250) Og þegar Arnas heldur áfram að minnast á ævintýri þeirra segir hún: „Ég veit ég er skopleg … En það er óþarfi af yður herra að láta mig finna það.“ (253) Í hinu orðinu brjótast heitar tilfinningar fram og örvænting þegar hún segist elska einn mann (69), talar um ágæta og góða menn (78) og lofar að giftast prestinum ef Arnas bregst (182). Hún játar ást sína í orði og æði (255, 273–74 og 417) og að lok- um eiga þau saman draum um að vera saman höfðingjar á Íslandi (421–23). En nálægt lokum verksins segist hún ekki þekkja Arnam Arn- æum (404) og þegar hún sést seinast neitar hún því að Arnas hafi komið í heimsókn (423–24). Þannig lyktar skiptum þeirra í afneitun. Kuldi, hæðni og undanfærslur Snæfríðar ríma við samfélagsmynd Íslandsklukkunnar. Snæfríður er í vörn og sú vörn felst í að hafna orðinu, skylmast stöðugt við hina réttu merk- ingu. Tal hennar um refsingu virðist benda til masókisma og með því blekkir hún lesendur sem álykta að Snæfríður sé masókisti sem gift- ist versta manninum og lifi í sjálfs-pyntingu út af stoltinu einu. Það er auðvitað fjarri lagi. Fyr- ir Snæfríði er Magnús í Bræðratungu næst- besti kosturinn og sá besti sem býðst og felur í sér uppreisn gegn föðurvaldinu. Með því að gefast þessu ómenni verður hún manneskja sem skammtar sér sjálf örlög og allt tal hennar í sögunni sýnir sömu viðleitni, mótþróa gegn því að taka við því hlutverki sem aðrir hafa sett hana í. Hún vill ekki vera Íslandssól, fjallkona eða drottning og vill aðeins stundum kannast við ást sína á professor antiquitatum. Fúlilækur Fjallkonur og gyðjur eru ímyndir sem fólk í sjálfstæðisbaráttu býr til, sér til styrkingar. En þó að höfundi Íslandsklukkunnar sé umhugað um sjálfstæði landsins fjallar sagan einnig um sama efni og fyrri sögur skáldsins, um fátækt og stéttaandstæður og líf þjóðar sem lifir nán- ast við hungurmörk án þess að eiga sér von. Snæfríður lifir í vonleysi. Í fyrsta bindi sög- unnar er hún ung og ástfangin af handritasafn- aranum mikla, í öðru bindi segist hún vera hamingjukona drykkjumanns sem saumar hetjusögur af Völsungum en kallar eigið líf „meinleysiskrimt“. Í þriðja bindi er hún refs- inorn og að lokum snýst líf hennar um auð, völd og jarðeignir; hún er orðin að systur sinni byskupsfrúnni og hefur gifst þeim sem hún fyr- irleit mest. Í lífi Snæfríðar voma yfir hetjusögur af Sig- urði Fáfnisbana og Laxdælum og goðsagan um álfkonuna sem á alla penínga Íslands, silfur og gull framanúr öldum, öll höfuðból og hjáleigur (sbr. 412–13). En hún er ekki álfkona heldur ungmey sem var svikin fyrir skinnhandrit, eig- inkona drykkjumanns, geðstirð ekkja í leit að hefnd fyrir niðurlægingu ættar sinnar. Í þeirri leit kemur hún að lokum til hins gamla vonbið- ils, dómkirkjuprestsins að leita liðs. Í honum togast á skinhelgi og afbrýðisemi og hann spyr: Forlátið … að óumbreytanlegur elskari yðar sálarheillar fyrir guðs drottins vors heilaga nafn spyr einnar spurníngar á undan öðru: Hafið þér nokkurt sinn í yðar lífi kyst Arnam Arnæum hinum svonefnda Þriðja Kossi, þeim kossi sem höfundar nefna suavium? Viðbrögð Snæfríðar eru á þessa leið: Hún leit á hann með þeirri uppgjöf sem verð- ur hjá manni komnum lángan veg um sanda, og þar verður þá loks fyrir honum sjálfur Fúlilækur. (393) Erindi þetta var flutt á skáldsagnaþingi Bók- menntafræðistofnunar Háskóla Íslands 24. mars og lengri gerð þess verður gefin út á bók í haust ásamt öðrum erindum á þinginu. Tilvís- anir í blaðsíðutöl eru í 5. útgáfu Íslandsklukk- unnar sem kom út árið 1991. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson „Er Magnús í Bræðratungu sá versti? Í sögunni er honum lýst sem myndarlegum manni, stórætt- uðum og auðugum. Hann er sagður hár og herðabreiður (59), sléttur og fríður og „konur sögðu að hann væri manna best eygur“ (164).“ Sigrún Edda Björnsdóttir í hlutverki Snæfríðar og Þröst- ur Leó Gunnarsson í hlutverki Magnúsar í Bræðratungu í sýningu Borgarleikhússins 1996. Ljósmynd frá Vöku-Helgafelli Úr handriti Halldórs Laxness að Íslandsklukkunni. Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.