Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2001, Blaðsíða 12
12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. MARS 2001 arhólinn. Fyrir það fékk hann smáþóknun hjá Suðuramtinu „með eftirtölum og ónotum“. Til hvers fjárans þurfti maðurinn að grafa brunn? Sesselja kona Ebenesers sagði síðar, að á Kol- viðarhóli hefði hún upplifað bæði hungur og kulda. Ebeneser var vandaður maður, listræn og leitandi sál, fjölfróður og víðlesinn þrátt fyrir fátæktina. Hann lék á langspil sem hann hafði sjálfur smíðað og skrifaði með fagurri rithönd, enda lærður gull- og silfursmiður og talinn „dverghagur“. Ebeneser gafst upp á Kolviðarhóli eftir tvö erfið ár og húsið var án umsjónarmanns til vors 1880. Af því varð mið- ur góð reynsla; svo til strax voru framin spell- virki, rúður brotnar og jafnvel hurðir. Þá skrifaði ferðamaður svofellda lýsingu í Ísafold: „Regn og snjór eiga þar betra hæli en ferða- menn.“ Gestgjafi án matbjargar Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlut- verkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu þrjú árin. Í manntalinu 1880, því fyrsta sem tekið er á Kolviðarhóli, er Ólafur kallaður bók- bindari. Með honum er þá „bústýra hans“, Málfríður Jónsdóttir. Í hönd fóru þá mestu harðindaár 19. aldarinnar og jafnframt ein- hver þau verstu í Íslandssögunni, þar sem há- marki var náð 1881–82. Ólafur var bláfátækur og sama átti við um flesta þá sem viðkomu höfðu á Hólnum. Af þeim var engar tekjur að hafa. Hinn 16. febrú- ar skrifar ferðamaður grein í Þjóðólf og lýsir neyðarástandi á Kolviðarhóli. Gestgjafinn hafi litla matbjörg, ekkert hey handa hestum ferðamanna og segja megi að þar ríki allsleysi. Samskot fóru fram í Reykjavík og fyrir það fé sem aflaðist var keyptur ofn í húsið, kol til eldsneytis og steinolía til ljósa. Í apríl 1881 fæddist þeim Ólafi og Málfríði sonur sem skírður var Búi Kolviður eftir köppunum tveimur úr Kjalnesingasögu. En þetta fyrsta barn sem fæddist á Hólnum dó aðeins 5 vikna. Vorið 1883 gáfust þau Ólafur og Málfríður upp og fluttu litlu síðar til Ameríku. Þar búnaðist þeim vel; eignuðust 10 börn og komu aldrei aftur til Íslands. Jón og Kristín gera garðinn frægan Vorið 1883, þegar Ólafur og Málfríður gáf- ust upp, fluttu að Kolviðarhóli hjónin Jón Jónsson og Kristín Daníelsdóttir ásamt tveim- ur yngstu dætrum sínum, Margréti, 17 ára, og Jarðþrúði Rósu, 16 ára. Þau voru úr Gríms- nesinu; Jón fæddur á Minna-Mosfelli og Krist- ín á Hæðarenda. Þau höfðu búið á Neðra- Apavatni og fleiri jörðum (langafi og langamma greinarhöfundar). Með komu þeirra á Kolviðarhól verða í rauninni í fyrsta sinn þau umskipti, að hægt sé að tala um gest- gjafa. Í sögu Kolviðarhóls segir Skúli Helga- son fræðimaður frá Svínavatni, að með Jóni sé kominn á staðinn sá maður sem fyrst kveður verulega að. Gestgjafahlutverkinu sinntu þau hjón í 12 ár og þóttu bæði dugleg og útsjón- arsöm. Jón á Kolviðarhóli þótti hjálpsamur, alúð- legur og ræðinn, en drukknum ferðamönnum með ofstopa og frekju sýndi hann hver væri húsráðandi á Hólnum. Vegna staðfestu sinnar og stjórnsemi varð Jón ómaklega fyrir barðinu á rógi. Var því logið upp að hann seldi ferða- mönnum lítið annað en brennivín og væri oft drukkinn sjálfur. Hvorttveggja var fjarri sanni. Þessar gróusögur heyrðu sveitarstjórnar- menn í Ölfusi og án þess að málið væri kannað, eða reynt að komast að hinu sanna, var Jóni og Kristínu gert að víkja úr húsinu og trésmiður af Snæfellsnesi, Sigurbjörn Guðleifsson, sem þá bjó á Lækjarbotnum, var ráðinn sem gest- gjafi. Jón fór hinsvegar ekki langt, heldur byggði hann baðstofu framan í bæjarhólnum með leyfi Ölfushrepps. Þar hélt hann áfram að taka á móti gestum og hýsa þá. Vegna þess urðu ýfingar með Jóni og Sigurbirni, en ferða- menn þekktu Jón að góðu einu og varð lítið um greiðasölu hjá Sigurbirni. Fór svo að hann gafst upp eftir 13 mánuði og dvöl hans á Kol- viðarhóli markaði engin spor. Hann barðist þar við fátækt og húskulda og hvarf þaðan jafn slyppur og hann kom. Jóni var að nýju falið hlutverk staðarhald- ara og gestgjafa. Þau hjón fluttu aftur í húsið á Hólnum, en hýstu áfram ferðamenn í baðstof- unni. Á þessum tímum lestaferðanna var mik- ilvægt að menn gætu fengið heytuggu í klár- ana í næturstað. Þar var vissulega úr vöndu að ráða því ekkert tún var á Kolviðarhóli, engar engjar og naumast neinar útslægjur. Jón tók á þessu vandamáli, hóf hleðslu á túngarði og lagði drög að túni þar sem sæmilega grasgefið valllendi var fyrir. Heyja aflaði Jón austur í Ölfusi, en það var handleggur að reiða heyið vestur yfir Hellisheiði. Annað og ekki minna vandamál gestgjafans var það, að flestir ferðamenn voru auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Næturgisting kostaði þá 25–50 aura, kaffibolli 10 aura og 25 með brauði. Hey var dýrast, enda erfitt að afla þess. Í árslok 1890, eftir nærri 7 ára veru á Kol- viðarhóli, skrifar Jón hreppsnefndinni í Ölfusi og fer fram á að reglur verði settar um vínveit- ingar. Jón rekur ýmis vandræði sem orðið hafa af drykkjuskap og segir svo í bréfinu: „…næstliðinn vetur voru 3 menn sóttir nið- ur í Svínahraun á hestum, af sér komnir og meira og minna drukknir. Ég óska þar sem hreppsnefndinni er falið á hendur umsjá á Hólnum að hún áminni ferðamenn að haga sér svo að engin ástæða sé fyrir sæluhúsvörðinn að kvarta undan framferði þeirra, svo sem að brúka ekki óþrifnað, skemma ekki hluti, heimta ekki það sem þeir geta ekki borgað, falsi ekki út undir sínu eða annarra nafni, brúki ekki ósæmileg orð, steli ekki, gjöri ekki þarfir sínar innanhúss eins og átt hefur sér stað.“ Ef þetta var það sem gestgjafinn þurfti að glíma við í starfi sínu má ímynda sér að í hinu íslenzka bændaþjóðfélagi á 19. öld hafi verið talsvert af ótrúlegum rumpulýð. Jón á Kolviðarhóli var meira en meðalmað- ur á hæð og þrekvaxinn. Hann var hinn gervi- legasti maður í sjón, segir Skúli Helgason, „svipmikill og karlmannlegur, jarpur á hár og skegg, með bartaskegg að hætti sinnar tíðar. Hann var þrekmaður, góður smiður, en í fram- komu var hann jafnan stilltur og prúður; sner- ist þó hart til varnar væri illa að honum farið, greindur vel og orðheppinn og gerði sér ekki mannamun. Þess má geta, að knattspyrnu- kappinn Helgi Kolviðsson er 5. liður frá Jóni. Hestvagnaöldin – tímabil Guðna og Margrétar Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna Margréti og í manntalinu 1890 eru 5 taldir til heimilis á Kol- viðarhóli: Gestgjafahjónin Jón og Kristín, ungu hjónin Guðni og Margrét, svo og ung telpa, Ingibjörg Jónsdóttir, kölluð sveitar- ómagi. Um tveggja ára skeið bjuggu Guðni og Margrét á Lækjarbotnum, en fluttust aftur á Hólinn þar sem Guðni varð önnur hönd tengdaföður síns. En við búsforráðum og gestgjafastarfi tóku þau Guðni og Margrét 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutn- ingatækni hafið: Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð. Ekki varð þá lengur komizt upp úr Hellisskarði; fyrir hestvagna var þar alltof bratt og stíg- urinn þar að auki mjór. Nýr vagnvegur var þá lagður suður með Reykjafelli eins og áður var sagt. Umferð á þessum síðasta áratugi ald- arinnar óx til muna og kom í ljós að Guðni var réttur maður á réttum stað og sama mátti segja um Margréti konu hans. Þau þóttu bæði fyrirhyggjusöm og stjórnsöm og höfðu jafnan til reiðu það sem ferðamenn vanhagaði um. Guðni jók við túnið og sléttaði það og girti; sumpart með grjótgarði sem enn stendur. Gamla húsið á Hólnum frá 1877 varð nú alltof lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík og sýnir þetta að Guðni var vel vak- andi fyrir nýjungum. Hinsvegar var líklega farið yfir lækinn eftir vatni þegar steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið austur á hestvögnum. Nýja húsið var um 50 fermetrar að flat- armáli, eldhús í kjallara, en baðstofa fyrir heimilisfólk uppi á loftinu. Þetta hús stóð til 1925 þegar Sigurður Daníelsson byggði sitt glæsilega gistihús. Á ljósmynd frá 1907 má sjá stórt ferðamannahesthús sem Guðni hafði byggt, hlaðið úr tilhöggnu móbergi. Þegar Guðni var kominn með laglegt bú á Kolviðarhóli og hafði hlotið styrki til að stækka gripahús fyrir hesta og geldneyti, leit- aði hann eftir því við ráðamenn í Ölfusi, að staðurinn fengi útmælt land. Guðni vildi líta á Kolviðarhólinn sem bújörð. Um þá beiðni varð talsvert þóf og þótti sumum Ölfusbændum hálf súrt að klipið yrði stykki innan úr afrétti þeirra. En Guðni sótti málið fast og úr varð að nýbýli var stofnað og landamerki ákveðin eftir að tilkvaddir „áreiðarmenn úr Ölfusi“ höfðu mætt á staðinn og verið látnir sverja þess eið að fara að lögum í einu og öllu. Þarmeð var Kolviðarhóll orðin bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936. Eitt var það sem ekki breyttist á hestvagna- öldinni: Menn komu úr kaupstað að Kolvið- arhóli meira og minna ölvaðir; keyptu sér gist- ingu og mat og áttu svo ekki grænan eyri til að borga fyrir sig. Guðni tók á því með meiri þol- inmæði en hægt var að ætlast til og ekki urðu allar nætur svefnsamar á Hólnum þegar menn komu þangað illa til reika í myrkri og ófærð. Eftirfarandi saga sýnir vel nærgætni Guðna: Eitt sinn bar við um vetur í harðindum og ófærð að bóndi einn úr uppsveitum Árnessýslu kom ríðandi úr Reykjavík með tvo bagga- hesta. Þetta var vel látinn myndarbóndi, en drakk ótæpilega á ferðalögum. Hann hafði týnt höfuðfati sínu og komizt við illan leik upp að Kolviðarhóli þar sem hann gisti. Um morguninn sagði hann Guðna að hann ætti enga peninga til að greiða fyrir gist- inguna, en hinsvegar vanhagaði sig ákaflega um brennivín. Falaði hann flösku af Guðna og vildi jafnvel leysa upp bagga sína og borga fyr- ir flöskuna með bankabyggi, grjónum og öðru sem hann hafði keypt til heimilisins. Guðni þvertók fyrir slík viðskipti, en féllst á að lána honum flösku með því skilyrði að tveir áreið- anlegir menn, sem ætluðu að verða bónda samferða austur yfir Hellisheiði, tækju að sér að sjá til þess að flaskan yrði ekki opnuð fyrr en á Kambabrún. Bóndinn gekk að því og fékk enga brennivínsvökvun fyrr en sýnt var að hann kæmist leiðar sinnar til byggða. Árið 1905 urðu kaflaskipti á Kolviðarhóli þegar Guðni og Margrét fluttu þaðan. Mikið mæddi á húsmóðurinni þegar húsfyllir var af næturgestum og Margrét var farin að gefa sig. Henni er svo lýst segir Skúli Helgason, „að hún hafi verið með fremstu konum sinnar tíð- ar“. Þau Guðni og Margrét fluttu þá vestur að Leirá í Leirársveit og birtist eftirfarandi frétt í Þjóðólfi 3. nóvember 1905: „Kaupandi Leirár er Guðni Þorbergsson sæluhúsvörður á Kolviðarhóli og flytur hann þangað næsta vor. Hefur hann selt Kolvið- arhól og hús þau sem hann á á jörðinni Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum fyrir 7.500 krónur og fær hann að líkindum til af- nota hús landsjóðs þar og leyfi til að halda þar uppi greiðasölu. En margir munu sakna Guðna af Hólnum, því hann hefur staðið mæta vel í stöðu sinni, þrátt fyrir marga erfiðleika. Hefur hann notið almenningshylli fyrir lipurð og nærgætni við ferðamenn, svo skarð hans verður að því leyti vandfyllt.“ Á Leirá gerðust þau Guðni og Margrét fóst- urforeldrar Sigurðar föður míns, síðar bónda í Úthlíð. Þau fluttu í skamman tíma til Reykja- víkur en bjuggu síðast á Akranesi þar sem Guðni lézt 1920 en Margrét 1931. Höfundur er blaðamaður. Morgunblaðið/Gísli Sig. Á Kolviðarhóli. Af fáu sem ekki hefur alveg tekizt að eyða eru kjallaraveggir, hlaðnir úr móbergi. Það er eins og mannvirkin hér hafi verið smánarblettur sem þurfti að afmá. M IG langar að byrja á því að segja ykkur tvær stuttar ástarsögur þar sem íslensk tunga er í hlutverki hinnar elsk- uðu, en elskhugarnir tveir norðlenskir bræð- ur sem nú eru báðir látnir. Fyrir fjórum áratugum eða svo var ég að lesa frumútgáfu af skáldsögunni Brasilíuförunum eftir vesturíslenska rithöfundinn Jóhann Magn- ús Bjarnason. Strax á fyrstu blaðsíðu gat að líta þessa setn- ingu: „Við vorum fjórir farþegjarnir, allir ís- lenskir, allir einhleypir, ungir og heilsugóðir.“ Allt gaf þetta að sjálfsögðu mikil fyrirheit um framhaldið, sem reyndar áttu eftir að rætast mjög ríkulega í þessari ágætu bók, en það sem einkum vakti athygli mína í bili var beygingin á nafnorðinu farþegi sem staðfestist fljótlega að var ekki prentvilla heldur var virkilegt „system i galskabet“, þ.e. í aukaföllum eintölu talar höf- undur ævinlega um farþegja og í fleirtölu um farþegja frá farþegjum. Mér fannst þetta sérkennileg villa og bar undir föður minn eins og margt annað í samb- andi við málfar. Trúlega hef ég vonast eftir því að fá hól fyrir skarpskyggni og málsnilld. En um leið og ég minntist á villuna og sýndi honum setti hann hljóðan, sælubros færðist yfir andlitið og svo sagði hann: „Já, svona talaði fólk, svona talaði fólk í mínu ungdæmi. Æ, mikið óskaplega er ég þér þakklátur fyrir að minna mig á þetta.“ Samskonar ást varð ég einnig oft var við hjá Hirti föðurbróður mínum norður í Svarfaðardal og skal nefna eitt dæmi. Þannig er að þar um slóðir var alllengi við lýði sérkennilegt mála- fbrigði sem kynni jafnvel að bregða fyrir enn þann dag í dag ef gerð yrði rannsókn á elliheim- ilinu Dalbæ á Dalvík. Þetta lýsir sér í því að veikar sagnir í framsöguhætti nútíðar í fyrstu persónu fá ekki endinguna a, heldur i rétt eins og í viðtengingarhætti. Í stað þess að segja ég tala, ég borða, ég hugsa o.s.frv. er sagt ég tali, ég borði, ég hugsi. Fræg varð saga af konu framan úr dal sem gjarna gekk að því af miklum dugnaði að undirbúa og bera fram kirkjukaffi þegar messað var á Tjörn. Eitt sinn hafði hún verið að verki lengi án þess að unna sér hvíldar og var þá spurð hvort hún vildi nú ekki varpa að- eins mæðinni og tylla sér á koll og fá sér sjálf þó ekki væri nema einn kaffibolla. Það var þá sem hún mælti þau orð sem síðan urðu fleyg: „Nei, ég smakki það aldrei þegar ég lagi það sjálf.“ Löngu síðar var ég staddur um hríð þar nyrðra og kom að máli við Hjört frænda minn einu sinni sem oftar einhvern sumarmorguninn. Tók ég þá strax eftir því að það var alveg óvenjulega létt yfir honum, eins og hann hefði nýlega orðið fyrir miklu happi, eða heyrt gleði- fregnir. Og þegar ég innti hann eftir því hvað hefði gerst, varð ljóst að það var ekkert smá- ræði. Hann hafði kvöldið áður komið á bæinn Skeið sem er allmiklu framar í dalnum (ég vek athygli á því að framar merkir innar í norð- lenskum dölum). Þar hafði hann rætt alllengi við gamlan mann og einhverntíma í viðræðum þeirra hafði hann spurt öldunginn einhvers sem ég man nú ekki lengur hvað var, enda er það svarið sem skiptir öllu: Gamli maðurinn svaraði spurningunni svona: „Ja, ég voni það.“ Mjög langt var þá liðið síðan Hjörtur hafði heyrt nokkurn mann tala svona og viðbrögðum sínum lýsti hann þannig að sér hefði hitnað öll- um. Og þessi undursamlega tilfinning sat síðan í honum lengi á eftir. Þessar sögur tvær eru dæmi um sanna ást. Ég hef tilfært þessi dæmi til að undirstrika að einmitt þannig ættu allir að elska móðurmálið sitt, hvort sem það er íslenska eða eitthvert ann- að mál. Ef mér yrði falið að semja einhvers kon- ar handbók ástarinnar gagnvart tungunni mundi ég leggja út af því viðhorfi sem þarna birtist og mæla með því. Og eitt er alveg víst, slík ást er ávallt ríkulega endurgoldin, það sann- aðist á þessum bræðrum sem hér voru nefndir til sögu, báðir voru miklir mál- og ritsnillingar. Ég hef hinsvegar engan skilning á þeirri ást sem hefur mál vort á stall, gortar sífellt af því eins og það hafi orðið til fyrir okkar dyggð, og telur það fullkomnasta og fegursta tungumál heimsins. Slíkt er raunar dýrkun en ekki ást og leiðir mjög oft til hættulegrar og hvimleiðrar málrembu og fyrirlitningar á öðrum tungumál- um. Íslendingar eru til dæmis mjög gjarnir á að fyrirlíta tungumál annarra Norðurlandaþjóða á þessum forsendum. Segjum við þá að þar búi einhverjir vesalingar sem hafi týnt niður móð- urmálinu. Reyndar segjum við slíkt af einhverj- um ástæðum aldrei um Englendinga og Frakka, svo dæmi séu nefnd, þó tungumál þeirra hafi að sjálfsögðu breyst alveg jafnmikið ef ekki meira en Norðurlandamálin síðan á þrettándu öld. En minnimáttarkennd Íslendinga gagnvart frænd- þjóðunum er víst ekki til umræðu hér, svo ég fer ekki nánar út í þá sálma. Íslenskt mál hefur að sjálfsögðu eins og öll önnur tungumál bæði sína kosti og einnig sína galla. En það er íslenskt og við erum Íslend- ingar og þess vegna látum við okkur annt um það, elskum það og ræktum. Ekki af því að það

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.