Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.2001, Page 14

Lesbók Morgunblaðsins - 28.04.2001, Page 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. APRÍL 2001 V IÐ dyr St. James leikhússins á 42. stræti er biðröðin fyrir hornið og dágóðan spöl upp eftir Broadway. Nýr smellur í uppsiglingu og altalað í leikhúsheiminum þar vestra að langt sé síðan söngleikur hafi farið svo vel af stað. Um er að ræða „The Producers“ sem gamla brýnið Mel Brooks á allan heiður af, bæði tónlist og texta, enda er fyrirmyndin ein hans besta kvik- mynd frá 1968 sem Zero Mostel og Gene Wild- er gerðu svo ógleymanlega. Ekki langt frá biðröðinni á Broadway standa 20 norrænir leikritahöfundar á stéttinni utan við Norræna húsið í New York og velta vöng- um yfir því hvernig þeir eigi að sigra vest- urheim með leikritum sínum. Tilefni veru þeirra á þessum stað á þessum tíma (19.-20. apríl) er ráðstefnan Scandinavia on Stage sem er sameiginlegt kynningarátak norrænu ræð- ismannsskrifstofanna í New York á norrænni samtímaleikritun. Mættir fyrir Íslands hönd eru Árni Ibsen, Hrafnhildur Hagalín, Ólafur Haukur Símonarson, Ólafur Jóhann Ólafsson og Þorvaldur Þorsteinsson. Fyrstur á mælendaskrá er Todd London, „Ég verð að byrja á því að biðjast afsökunar á veru minni hér því ég veit ekkert um norræna samtímaleikritun og er algjörlega vanhæfur til að fjalla hlutlægt um bandaríska leikritun. Það sem ég hef mér til málsbóta er að ég er sann- færður um að þið sem hingað eru komin frá Norðurlöndum vitið lítið sem ekkert um bandaríska samtímaleikritahöfunda. Staða okkar er því mjög svipuð. Það sem þið vitið um bandarískt leikhús nær sennilega skammt út fyrir Broadway og þekking ykkar á höfundum og leikurum takmarkast að líkindum við hand- ritshöfunda og leikara Hollywoodkvikmynda.“ Fer héðan hlaðinn upplýsingum Eftir að hafa varpað þessari fullyrðingu fram í salinn hélt Todd London frábært erindi en hann er stjórnandi stofnunarinnar New Dramatists, sem sérhæfir sig í að velja leikrit til kynningar og koma höfundum þeirra á framfæri við leikhús í Bandaríkjunum. Fyrir hina norrænu höfunda og leikhúsfólk sem fylgdi þeim á ráðstefnuna var erindi hans mik- ilvægt landabréf yfir það leikhúslandslag sem ætlunin er að sækja inn á. Fyrir leikritahöfunda skiptir í raun aðeins ein spurning máli. Hvernig kem ég leikritun- um mínum á leiksvið í þessu umhverfi? Gagn- semi ráðstefnunnar var ekki hvað síst fólgin í því hversu hagnýtar upplýsingar fengust þar um bandarískt leikhúslíf. Jafnframt var höf- uðáhersla lögð á að kynna hin 20 norrænu leik- rit efnislega fyrir þeim 130 bandarísku leik- hússtjórum, umboðsmönnum, leiklistar- ráðunautum, leikurum og leikstjórum sem sóttu ráðstefnuna. „Ég fer héðan hlaðinn upp- lýsingum um 20 ný norræn leikrit og umtals- verða þekkingu á norrænu leikhúslífi, en ekk- ert af þessu vissi ég fyrir,“ sagði einn ráðstefnugesta í lokin og taldi þessum tveimur dögum hafa verið vel varið. Það er ekki lítill ávinningur í samfélagi þar sem tíminn kostar ekki bara peninga heldur mikla peninga. „Good value for my money,“ var niðurstaðan. Áherslan á sjöunda og áttunda áratugnum var á fjölbreytni hins bandaríska samfélags, „leikhús hvíta mannsins“ var að missa lykil- stöðu sína. Utan New York spruttu upp svæð- isbundin leikhús sem byggðu afkomu sína á stuðningi einkaaðila og opinberra aðila og hug- myndafræðin að baki þessum leikhúsum var fengin að láni frá Evrópu. Munurinn er og hef- ur alltaf verið sá að stuðningur opinberra aðila við leikhús í Bandaríkjunum er hverfandi mið- að við það sem tíðkast í Vestur-Evrópu. Engu að síður hafa mörg þessara leikhúsa haldið velli og skapað sér góðan orðstír. Þau berjast þó ávallt í bökkum fjárhagslega og eru rekin á allt annan hátt en evrópskar fyrirmyndir þeirra. Afleiðing þess hversu illa er staðið að fjárstuðningi við leikhús okkar er sú að leik- húslíf okkar hefur verið leitt áfram af fólki sem hefur helst hæfileika á því sviði að afla peninga og viðskiptasambanda. Hugmyndasmiðir og listrænir frumkvöðlar hafa ekki haft tækifæri til láta ljós sitt skína í þessu umhverfi. Leikhús okkar hér í Bandaríkjunum er ekki samboðið listamönnum sínum. Dæmigert svæðisleikhús í Bandaríkjunum er í raun ekki annað en skrifstofa, þar sem leik- hússtjóri, dramatúrg og markaðsstjóri sitja og leggja á ráðin um hvaða verk skuli valin til sýn- inga. Leikarar, leikstjóri og aðrir listamenn eru ráðnir í hvert einstakt verkefni og hafa að jafnaði 4 vikur til æfinga. Fastráðningar leik- ara og leikstjóra í bandarísku leikhúsi þekkj- ast ekki í þeim skilningi sem við leggjum í fyr- irbærið, þótt verið geti að sömu listamenn séu ráðnir í hvert verkefnið af öðru í sama leikhúsi. „Leikhúsin eru illa í stakk búin til að taka við höfundum sínum,“ segir Todd London og kennir þessu fyrirkomulagi um að tækifærin fyrir höfunda til að starfa í leikhúsi, vinna með sama hópi listamanna um lengri tíma séu nán- ast engin. „Höfundurinn verður að fullvinna leikrit sitt áður en það kemur fyrir augu leik- hússtjóra og dramatúrga. Hann getur heldur ekki gert sér vonir um að á fjórum vikum geti leikhópur sett sig inn í hugarheim hans nema að mjög yfirborðskenndu leyti. „Afleiðingin er sú að við erum stödd í umhverfi sem leggur alla áherslu á efnislegt innihald, svigrúmið til að koma öðru en söguþræði og „boðskap“ til skila er ekki til staðar, leikhópurinn hefur ekki aðstæður til að setja sig inn í persónulegt „tungumál“ hvers einstaks höfundar.“ Margbreytni bandarísks samfélags hefur til skamms tíma verið endurspegluð í leiksýning- um og kvikmyndum með þeim hætti að ákveðið kvótakerfi um fjölda leikenda af hverjum kyn- þætti hefur verið við lýði. „Þetta er að breyt- ast,“ segir Todd London. Yngstu höfundar okkar af afrísk-bandarískum, spænsk-banda- rískum eða asísk-bandarískum kynþáttum ganga að fjölbreytninni sem gefinni, þeir fjalla ekki um sjálfa sig og kynþátt sinn sem sérstakt aðskilið fyrirbæri eða menningarlegan minni- hluta, heldur sem sjálfsagðan hluta þess sam- félags sem þeir hafa vaxið upp í.“ Hann nefnir nöfn afrísk-bandarísku höfundanna Susan- Lori Parks og Kia Corthron. „Það er enginn skóli í leikritun kenndur við Arthur Miller en það er erfitt að ímynda sér eftirtalda höfunda án hans; Jon Robin Baitz, Marsha Norman, Emily Mann og Donald Margulies. Chay Yew er leikskáld af kínverskum uppruna og Diana Son er kóresk.“ London nefnir sem eitt mikilvægasta atriðið í þróun bandarískrar leikritunar undanfarna tvo áratugi hversu mikil áhersla hefur verið lögð á kennslu í leikritun í háskólunum. „Þar hafa leikskáldin átt greiðan aðgang og áhrif þess að leikskáld kenni verðandi leikskáldum eru greinileg. Þar er framlag hinnar kúbversk- bandarísku Maria Irene Fornes hvað merkast og leikrit hennar eru óuppgötvaðir gimsteinar frá síðustu áratugum 20. aldarinnar. Aðrir höf- undar sem lagt hafa lóð á vogarskálar í kennslu leikritunar eru Edwin Sanches og Nilo Cruz að ógleymdum Paulu Vogel og Max Wellman.“ Það var ekki laust að svipurinn væri farinn að lengjast á norrænu þátttakendunum yfir þessari framandi nafnarunu. Evrópa ekki lengur jafnmikilvæg Ekki varð svipurinn á Norðurlandabúunum verulega styttri þegar einn virtasti dramatúrg bandarísks leikhúss, Anna Cattaneo, dramat- urg frá Lincoln Center Theatre í New York, sló því fram að opinber áhugi Bandaríkjanna á evrópskri menningu væri minni en á undan- förnum áratugum. „Eftir að kalda stríðinu lauk eru Bandaríkin laus undan þeirri pressu að viðhalda áhrifum sínum í Vestur-Evrópu. Áróðursstríðinu gegn austurblokkinni er lokið. Í menningarlegu samhengi er meira horft til annarra heimshluta en Evrópu. Við erum að uppgötva uppruna okkar margsamsetta sam- félags. Megnið af þeim leikritum sem hér eru skrifuð í dag eru líklega óskiljanleg ykkar ein- sleita samfélagi í Skandinavíu.“ Ekki voru allir tilbúnir að fallast á þetta enda líklegt að samsetning norrænna sam- félaga sé orðin margbrotnari en Cattaneo gerði ráð fyrir. Fátt varð um svör þegar bent var á að meint fjölbreytni endurspeglaðist a.m.k. ekki í þeim verkum sem lögð voru fram á ráðstefnunni. Þýðingar á amerískt málsnið „Við ykkur frá Norðurlöndum vil ég segja þetta. Það er ekki nóg að þýða leikritin ykkar á ensku,“ segir Carey Perloff, leikhússtjóri Am- erican Conservatory Theatre í San Francisco. „Þau verða að vera þýdd á ameríska ensku af bandarískum leikskáldum, sem eru gjörkunn- ug því málsniði sem áhorfendur okkar nota. Bretlands-enska getur jafnvel orkað fráhrind- andi á okkur sem veljum leikrit til flutnings. Það er nógu erfitt fyrir erlent leikrit að komast að þótt það sé ekki fyrirfram dæmt úr leik vegna rangrar þýðingar.“ Greinilegt var að margir norrænu höfund- anna höfðu ekki gert sér grein fyrir þessu og leikhúsfólkið bandaríska benti á sláandi dæmi af þeim þýðingum sem bornar voru fram á ráð- stefnunni í leiklestrum. Jafnframt kvartaði það sáran yfir peningaleysi til að borga sínu eigin fólki fyrir þýðingar. Fulltrúi hins íslenska Bókmenntakynningarsjóðs reis þá úr sæti og benti á að á öllum Norðurlöndum væru til slík- ir sjóðir sem greiddu þýðingarstyrki fyrir skáldsögur og leikrit. „Ef það stendur ekki á öðru en greiða fyrir þýðingu leysum við það mál,“ sögðu allir Norðurlandabúarnir einum rómi. Einhver úr þeirra hópi upplýsti að sam- anlagt legðu Norðurlöndin árlega til sem svar- aði 50 milljónum dollara til kynningar á menn- ingu sinni og list erlendis. Þá var komið að Bandaríkjamönnum að missa hökuna ofan í bringu og greinilegt að þeir höfðu ekki haft hugmynd um þetta og kættust mjög við tíð- indin að önnur eins fjárvon væri svo langt í norðri. Þeir sögðust jafnframt skammast sín fyrir að nefna tölur um opinberan stuðning við leik- hús í Bandaríkjunum. „Við eigum að teljast ríkasta þjóð í heimi en stuðningur okkar er þó ekki nema brot af því sem þið eigið að venjast,“ sagði einn úr salnum. Tak sæng þína og gakk Kannski var hér komið að kjarna málsins og raunverulegum tilgangi þessarar ráðstefnu. Norðurlöndin vilja að menning þeirra sé kynnt í Bandaríkjunum. Til þess að svo megi verða þarf að hafa talsvert fyrir hlutunum. Þörfin og/ áhuginn fyrir leikrit frá Norðurlöndum er langt frá því sjálfsagður. Fyrsta skrefið er að kynna hvað er á boðstólum. Það skref hefur nú verið stigið með margnefndri ráðstefnu en þaðan er langur vegur til þess að leikrit rati upp á svið. Það spurðist reyndar út að nokkrir höfundar og umboðsmenn hefur náð saman á staðnum og voru það vissulega góð tíðindi en flestir verða að bíða átekta og sjá hverju fram vindur. Þar kemur næsta skref til skjalanna sem er eftirfylgja frá okkur sjálfum og þó leik- rit okkar ágætu höfunda kunni hugsanlega að höfða á einhvern hátt til bandarískra leik- hússtjórnenda er nauðsynlegt að ýta á eftir þeim með öllum tiltækum ráðum. „Leikritun er í eðli sínu svo bundin við sitt nánasta um- hverfi að það er í rauninni kraftaverk ef það höfðar til einhverra í öðrum heimshlutum,“ sagði Ólafur Haukur Símonarson. Því krafta- verki verður að hjálpa svo leikritin geti tekið sæng sína og gengið um erlendar grundir. Hin danska Astrid Saalbach hitti þó kannski nagl- ann best á höfuðið þegar hún sagði að leikrit væri eins kappklædd persóna. „Fötin eru tungumálið og lýsingar á umhverfi. Þegar leik- ritið afklæðist fötunum kemur í ljós að nektin er sú sama alls staðar í veröldinni.“ AÐ SIGRA VESTUR- HEIMINN ER EINSOG ... Dagana 19. og 20. apríl var haldin í Norræna húsinu í New York ráðstefnan Scandinavia on Stage. Þar voru kynnt fyrir bandarísku leikhúsfólki 20 norræn samtíma- leikskáld ásamt því að bandarískt leikhúslíf var reifað frá ýmsum sjónarhornum. HÁVAR SIGURJÓNSSON skrifar um ráðstefnuna og hvað bar þar helst á góma. Hrafnhildur Hagalín og Þorvaldur Þorsteinsson ræða við leikstjórann Christina O’Neill. Morgunblaðið/Einar Falur Norræna húsið, Scandinavia House, við Park Avenue í New York. Bandarískir leikarar leiklesa hluta úr Austurríki eftir Seseliu Löveid frá Noregi. havar@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.