Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. JÚLÍ 2001
eins konar afleiðingu eða hliðarverkun af fyrr-
greindu, þar sem höft eru höfð að engu (meist-
arar þeirrar stefnu væri án efa skoska sveitin
Beta Band; sjá samnefnda plötu þeirra frá 1999
þar sem ægir saman rappi, „dub-i“, rokki,
sveimi, fönki og nánast hverju sem er).
Endurhljóðblöndunarskífan Von brigði, sem
kom út í ágúst 1998, dregur greinilega dám af
þessum anda. Þar var, eins og glúrinn titillinn
gefur til kynna, vélað um nokkur lög sem er að
finna á Von. Snert er á raftónlistar/danstónlist-
argeiranum og margir helstu raftónlistarmenn
landsins eins og Biogen, múm, ILO og Thor
lögðu gjörva hönd á plóg.
Í ársbyrjun 1999 hóf sveitin svo að starfa
með Steindóri nokkrum Andersen, sitjandi for-
manni Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Eins og
sjá má er horfið frá hinu spánnýja til hins æva-
forna, í takt við haftaleysið sem áður er nefnt.
Það samstarf hefur verið um margt athyglis-
vert en nánar er farið í þá saumanna annars
staðar á þessum síðum.
Platan Ágætis byrjun kom svo út sumarið
1999 eins og áður er getið. Vinna við hana hafði
tekið langan tíma en þar koma í raun fram, í
einni eða annarri mynd, allar þær tónlistar-
meldingar sem sveitin hafði ástundað fram að
því. Og útkoman er stórvel heppnuð, svo ekki
sé meira sagt. Plötuna má telja eina bestu
hljómplötu sem gerð hefur verið hér á landi.
Sigur Rós vann svo tvö lög við gamlar og
gildar íslenskar stemmur fyrir mynd Friðriks
Þórs Friðrikssonar, Englar alheimsins, árið
2000. Um var að ræða annars vegar „Bíum Bí-
um Bambaló“ en hins vegar „Dánarfregnir og
jarðarfarir,“ hið kunna útvarpsstef Jóns Múla
Árnasonar. Samþættingin virkaði sem hrein-
asti galdur og enn betur með myndinni, þar
sem tónlistin lyfti mjög þeim atriðum sem hún
heyrðist í.
Sigur Rós hefur nú á annað ár leikið ný verk
sem enn hafa ekki verið hljóðrituð til útgáfu. Á
þeim er greinilegt að sveitin hefur dregið tals-
vert úr íburðinum sem einkenndi Ágætis byrj-
un. Lögin eru yfir það heila mun einfaldari;
tveir til þrír tónar endurteknir með hægri en
markvissri stígandi. Leitað er að tilfinningu og
anda fremur en góðum og gildum hljómagangi.
Naumhyggja er og einkennandi.
Þess ber þó að gæta að lögin sem síðar áttu
eftir að prýða Ágætis byrjun hljómuðu öðruvísi
á tónleikum. Það er því spurning hvað hljóm-
sveitin gerir í hljóðverinu að þessu sinni.
Áður hefur verið minnst á að tónlist Sigur
Rósar hefur iðulega sterk áhrif á fólk. Form
þess síðrokks sem Sigur Rós leikur um þessar
mundir er nokkuð athyglisvert í því sambandi;
naumhyggjuleg, næsta dáleiðandi stef, hæg-
fara stígandi og einfaldar melódíur – tónlistin
er næsta „dramatísk“ og „alvarleg“ í eðli sínu.
Vegna þessa getur verið fremur vandmeð-
farið að gæða tónlistina lífi og tilfinningu um-
fram það sem liggur í sjálfu forminu. Sigur Rós
veldur þessu hins vegar meistaralega.
Þegar Guð grét gulltárum
Fjallað hefur verið um Sigur Rós í nær öllum
stærstu tónlistarblöðunum erlendis, svo og í al-
mennum blöðum eins og New York Times og
Sunday Times. Greinar og gagnrýni í smærri
miðlum skipta tugum.
Þetta hefur m.a. verið sagt um Sigur Rós og
tónlist þeirra:
„Þeir hljóma líkt og Guð gráti gulltárum í
himnaríki.“
– Melody Maker
„[Ágætis byrjun] fangar ægifegurð norður-
hafanna. Hún er töfrum sleginn klukkutími;
sorgbundinn og hrollvekjandi í senn. Ástaræv-
intýri þitt og Sigur Rósar hefst hér.“
– Rolling Stone
„Á því leikur ekki nokkur vafi að ef rétt er
með farið getur tónlist sigrað öll mörk og mæri.
Sigur Rós hefur þessa náðargáfu.“
– Roman, gestur á opinberri heimasíðu
sveitarinnar, www.sigur-ros.com.
„Hún [Ágætis byrjun] gerir að verkum að þú
grætur gleðitárum og þér verður ljóst hversu
fullkomið lífið getur verið, ef við bara viljum
það.“
– Chris Mellan, í aðsendum dómi á
www.amazon.co.uk.
Tvær síðustu einkunnirnar eru reyndar vart
marktækar enda skrifaðar af aðdáendum; hlut-
lægnin því víðsfjarri og viðfangið hafið blint
upp til skýjanna.
En í raun eru flestar umsagnir um sveitina
einhvern veginn á þessa leið.
Erlendir blaðamenn og poppfræðingar
(starfsheiti sem á síðustu árum hefur verið að
öðlast meira vægi; er annars ekki verið að út-
skrifa kvikmyndafræðinga?) geta ekki orða
bundist af „guðdómlegri“ hrifningu en stand-
ast þó ekki mátið – kannski vegna tímaskorts
og metnaðarleysis – að babbla um álfa, eldfjöll,
hraun, hveri, Brennivín og tröll í umfjöllunum
um sveitina og fara mikinn í lýsingum á því
hvernig náttúran, einangrunin og „hið furðu-
lega eðli“ Íslendingsins er sem vatn á myllu
Sigur Rósar. Með þessu er ég á engan hátt að
rýra gildi þess sem talað er um, síður en svo.
En það er mikilvægt að vera í jarðsambandi til
Sigur Rós ásamt Steindóri Andersen 25. október 2000. Frá vinstri: Orri Páll Dýrason, Jón Þór Birgisson, Steindór Andersen, Georg Holm, Kjartan Sveinsson.
ÞAÐ eru gömul sannindi og ný að það
getur verið harla erfitt að fá listamenn
til að tjá sig um það hvað þeim gengur
til með list sinni.
Þetta á ekki síst við um dægurtónlist-
armenn, sem ganga einatt út frá því að
þetta sé „bara rokk og ról!“. Síðasta
haust stakk Jón Þór Birgisson, Sigur
Rósarmaður, upp á því við greinarhöf-
und, að hann ræddi við Steindór And-
ersen um rímnakveðskap. Höfundur
sýndi því vissulega áhuga en lagði fram
þá kröfu á móti, að meðlimir Sigur Rós-
ar tækju þátt í spjallinu. Jón Þór eða
Jónsi samþykkti þetta, með semingi þó.
Það sem gerði útslagið var mikill áhugi
hans á rímunum, auk þess sem hann var
uppnuminn af ástríðu Steindórs fyrir
listinni, og vildi því veg þeirra sem
mestan.
Hér á eftir fara nokkrar athugasemd-
ir frá Jónsa og Kjartani Sveinssyni, fjöl-
hljóðfæraleikara sveitarinnar, um rímur
og samstarf þeirra við Steindór And-
ersen.
Yfirnáttúrulegt
Kjartan segir að lögin sem þeir félag-
ar hafi samið með Steindóri hafi gengið
út á að reyna að samþætta takt rímn-
anna við tónlist sveitarinnar. Jónsi segir
meðlimi þó ekki vera að pæla mikið í
rímunum, það sé aðallega Steindór sem
sé að uppfræða þá.
„Þetta byrjaði þegar Eva María fékk
mig til að koma í þáttinn Stutt í spun-
ann, þar sem Steindór átti að kenna mér
– þ.e. ungu kynslóðinni – að kveða,“
rifjar Jónsi upp. „Þetta small síðan
svona ári vel saman. Steindór er enda
gæddur afar góðu tóneyra.“
Hann segir ákveðna bannhelgi hafa
verið í kringum samblöndun tónlistar og
rímna innan Iðunnar. „En Steindór ríð-
ur hér með á vaðið.“
„Það er eitthvað þarna sem er alveg
ótrúlega magnað,“ segir Kjartan, að-
spurður um hvaða merkingu rímurnar
hafi fyrir þá sem tónlistarmenn. „Það er
eitthvað yfirnáttúrulegt í rímunum. Og
maður tengir við þetta á einhvern und-
arlegan hátt.“
Greypt inn í
huga Íslendinga
Þeir félagar eiga þó sýnilega í erf-
iðleikum með að festa hönd á þessu og
kannski ekki að undra. „Einhverjar ræt-
ur … eitthvað mannlegt,“ segir Jónsi og
fálmar einbeittur eftir skýringu.
Þeir Jónsi og Kjartan samsinna því að
þeir hafi verið að prófa svipaða hluti í
lögunum „Bíum bíum bambaló“ (byggt á
írskri barnagælu) og „Dánarfregnum og
jarðarförum“ (byggt á stefi Jóns Múla
Árnasonar), sem eru á plötunni Englar
alheimsins (2000), en á henni er tónlist
eftir Hilmar Örn Hilmarsson og Sigur
Rós við samnefnda kvikmynd Friðriks
Þórs Friðrikssonar. Þar var unnið með
stef, sem eru greypt inn í huga flestra
Íslendinga, og er niðurstaðan nokkuð
sláandi.
„Þetta eru mjög íslensk lög,“ segir
Kjartan. „Jón Múli segist einmitt hafa
verið að reyna að ná einhverjum ís-
lenskum tóni með stefinu í Dán-
arfregnum og jarðarförum. Þessu
gamla, íslenska …“
Hann segir það vissulega gaman fyrir
þá að vinna við að halda rímunum á lofti
og Jónsi bætir við: „Það er frábært ef
einhverjir fara að pæla í rímum eftir að
hafa heyrt það sem við erum að gera.“
Kjartan segir það að lokum fáránlegt
hversu rímunum er lítið sinnt í dag.
„Þetta á í raun að vera liður í tónlistar-
kennslu – mér finnst að allir eigi að
kunna eina rímu. Ég meina „come on!“.
Það er eins og fólk álíti sem svo, að
þetta sé eitthvað frá Færeyjum – þetta
skipti okkur engu máli.“
EINHVERJAR RÆTUR ...
EITTHVAÐ MANNLEGT