Lesbók Morgunblaðsins - 28.07.2001, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. JÚLÍ 2001
Í
ÞESSARI grein verður þráður þjóð-
erniskenndar og þjóðernisrómantíkur
í færeyskum nútímabókmenntum rak-
inn í stórum dráttum allt frá árinu
1876, þegar Færeyingar kyrjuðu í
fyrsta sinn frumsamda ættjarðar-
söngva á samkomu stúdenta í Kaup-
mannahöfn, til ársins 1998 þegar ljóð-
skáldið Jóanes Nielsen (f. 1953) birti langt
ljóð sitt „Eg eri ein føroyskur nasjonalistur“
í ljóðabókinni Pentur sem ári síðar var til-
nefnd af hálfu Færeyinga til Bókmennta-
verðlauna Norðurlandaráðs. Hér verða líka
tekin nokkur „hliðarhopp“ í þeim tilgangi að
nefna það markverðasta í færeyskri nútíma-
ljóðagerð. En eðli málsins samkvæmt verður
hér aðeins stiklað á stóru (og biðst ég fyr-
irfram afsökunar á grófum einföldunum).
„Tú alfagra land mítt,
mín dýrasta ogn!“
Um miðbik nítjándu aldarinnar varð fær-
eyskt ritmál til og segja má að um leið skap-
ist grundvöllur fyrir færeyskar nútímabók-
menntir. Upphafið rekja Færeyingar til
ársins 1876 en það ár héldu færeyskir náms-
menn í Kaupmannahöfn veislu, í upphafi
lönguföstu, þar sem sungin voru í fyrsta
skipti frumort kvæði eftir færeysk skáld og
voru slíkar veislur haldnar árlega á næstu
árum og ætíð voru frumflutt ný kvæði við
þau tækifæri. Þessi fyrstu skáld Færeyja (á
nútímavísu) sóttu innblástur annars vegar til
kvæðahefðarinnar heima fyrir en hins vegar
í norræna föðurlandskveðskapinn sem
blómstraði á nítjándu öldinni, ekki síst á Ís-
landi. Þar sem skáldin voru flest búsett í
Kaupmannahöfn (á námsárunum þegar
kvæðin voru ort) litaðist kveðskapurinn
mjög af heimþrá og söknuði; föðurlandið var
séð í upphöfnu ljósi; landið, fólkið, sagan og
tungan voru hyllt í kvæðunum. Færeysk föð-
urlandskvæði frá þessum tíma minna mjög á
kvæði íslensku „þjóðskáldanna“ og „róm-
antíkeranna“ á nítjándu öld.
Bræðurnir frá Áarstofu
Í hópi færeysku námsmannanna í Kaup-
mannahöfn voru bræðurnir Jens og Hans
Djurhuus, sem kenndir voru við æskuheimili
sitt í Þórshöfn: Áarstofu. Þeir ortu báðir
fjölda kvæða sem enn eru sungin á manna-
mótum í Færeyjum, en þeir voru mjög ólík
skáld. Það var eldri bróðirinn, Jens Hendrik
Oliver Djurhuus (1881–1948) sem yfirleitt er
nefndur Janus Djurhuus (ekki má rugla hon-
um við Jens Chr. Djurhuus (1773–1853) höf-
und margra vinsælla danskvæða) sem gaf út
fyrstu ljóðabókina á færeysku. Hún kom út
árið 1914 undir titlinum Yrkingar. Janus var
fæddur og uppalinn í Þórshöfn en stundaði
nám í klassískum fræðum og lögum í Kaup-
mannahöfn á fyrsta áratug tuttugustu ald-
arinnar. Hann lauk cand.jur.-prófi 1911 og
starfaði við málafærslustörf bæði í Dan-
mörku og heima í Færeyjum. En Janus var
ekki einhamur maður og þrátt fyrir að hann
hefði lifibrauð af lögfræðinni þá lá ástríða
hans á sviði bókmenntanna. Eftir hann
liggja meðal annars þýðingar á Ilíonskviðu
Hómers og hluta Ódysseifskviðu, auk fjölda
þýðinga á ljóðum evrópskra skálda á borð
við Schiller og Goethe, Heine og Baudelaire,
svo fáeinir séu nefndir. Hann var einnig
mikill aðdáandi Gustafs Frøding, Byron lá-
varðar og Edgars Allans Poe og má sér-
staklega sjá áhrif frá þeim síðastnefnda á
skáldskap hans. Að auki þýddi hann heim-
spekinga á borð við Platon og Nietzsche.
Janus er oft kallaður „dökki bróðirinn úr
Áarstofu“ og er þar vísað til þess að
ljóð hans eru oft á tíðum bæði þung af-
lestrar og þunglyndisleg. Einsemd og efi
einkenna ljóð hans og haustið er sú árstíð
sem honum er hugleiknust. Klassísk þekking
hans skín í gegnum kveðskapinn, mikið er
um tilvísanir í gríska og norræna goðafræði
og klassískar fornbókmenntir. Mikilvægi
hans sem skálds og frumkvöðuls færeyskra
bókmennta liggur ekki síst í ástríðufullri af-
stöðu hans til móðurmálsins, en honum var
mikið í mun að rækta færeyskuna og end-
urskapa hana í nýju ljóðmáli. Óhætt er að
segja að fáir hafi haft eins mikil áhrif á þau
skáld sem á eftir koma og Janus Djurhuus
og kannski má einnig segja að hann sé upp-
áhald „lærðra“ bókmenntamanna – en það
var hins vegar yngri bróðir hans sem átti
hug og hjarta alþýðunnar.
Hans Andrias Djurhuus (1883–1951) er
„ljósi bróðirinn úr Áarstofu“ og fá skáld hafa
notið viðlíka alþýðuhylli og hann. Í Songbók
Føroya Fólks – sem hefur að geyma fær-
eysk kvæði og söngva – er um fimmtungur
kvæðanna eftir Hans Andrias og fá skáld
hafa látið eins mikið af kveðskap eftir sig.
Kvæði hans eru gjörólík kvæðum Janusar;
mest fer fyrir náttúrukvæðum þar sem
áhersla er lögð á hið fagra, smáa og góða í
náttúrunni. Kannski mætti líkja stöðu hans í
færeyskum bókmenntum við stöðu Jónasar
Hallgrímssonar í íslenskum bókmenntum.
Þeir Hans Andrias og Jónas eiga það líka
sameiginlegt að eftir þá liggur fjöldi kvæða
sem sungin og kveðin eru yfir börnum.
Kvæði eftir Hans Andrias er víða að finna í
kennslubókum og það er í gegnum kveðskap
hans sem færeysk börn kynnast ljóðlistinni.
Hann skrifaði líka ævintýri, sögur og leikrit
og var frumkvöðull að leiklistarstarfi í Fær-
eyjum og stofnaði „Sjónleikafélag“ Þórs-
hafnar. Þá skrifaði Hans Andrias skáldsög-
una Beinta (1927) sem byggir á sömu sögn
og Barbara eftir Jörgen-Frantz Jacobsen.
Skáldið og sjálfstæðishetjan
Eitt af mikilvægustu þjóðernisskáldum
var þjóðhetjan og eldhuginn Jóannes Pat-
ursson (1866–1946) sem var bóndi á hinum
sögufræga Kirkjubæ og sá stjórnmálamaður
sem mest kvað að á fyrstu áratugum tutt-
ugustu aldarinnar. Í hugum margra er hann
persónugervingur sjálfstæðisbaráttunnar og
draumsins um sjálfstætt færeyskt þjóðríki.
Jóannes Patursson var einn af stofnendum
Sjálfsstjórnarflokksins 1906 (sem stofnaður
var gagngert til höfuðs Sambandsflokknum
sem stofnaður hafði verið fyrr á árinu) og
formaður hans í þrjá áratugi, eða allt þangað
til hann klauf flokkinn og stofnaði Fólka-
flokkinn 1936, eftir hörð átök og deilur innan
Sjálfstjórnarflokksins. Jóannes sat á þingi
um áraraðir og gegndi um tíma lögmanns-
embættinu.
Mikilvægi Jóannesar Patursonar fyrir
færeyskar bókmenntir liggur ekki síst í
þætti hans í endurreisn og þróun færeyska
ritmálsins. Hann orti kraftmikil kvæði með
þjóðernislegan boðskap sem enn eru sungin
við hátíðleg tækifæri. Í kvæðum hans má
víða merkja áhrif frá færeysku kvæðahefð-
inni; hún er honum brunnur sem hann sækir
í efni sem hann umskapar í anda rómantísku
stefnunnar. Og líkt og rómantísku skáldin á
Íslandi notar Jóannes íslenskar fornsögur og
hetjur þeirra sem fyrirmyndir fyrir samtíð
sína, mönnum til hvatningar og eftirbreytni.
Þótt kveðskapur Jóannesar hafi oft verið
áróðurskenndur og einhliða í boðskap sínum
þá er það mál manna að með kvæðum hans
hafi Færeyingar öðlast nýja sjálfsmynd.
Land ljóðlistarinnar
Líkt og kvæðahefðin var sagnahefðinni yf-
irsterkari fyrr á öldum í Færeyjum, hefur
ljóðlistin borið höfuð og herðar yfir sagna-
gerðina á tuttugustu öld (hér undanskil ég
þá höfunda sem skrifuðu á dönsku, eins og
William Heinesen). Líkt og Ísland er nefnt
„sögueyjan“ mætti kalla Færeyjar „ljóðaeyj-
arnar“. Ef miðað er við Ísland leggja Fær-
eyingar ótrúlega mikið í útgáfur ljóðabóka
sinna; þær eru yfirleitt í stóru og vönduðu
broti, gjarnan prentaðar á úrvalspappír og
upplagið er stærra en gengur og gerist á Ís-
landi (og er ég þá ekki að miða við höfða-
tölu). Þróunin í nútímaljóðlistinni hefur verið
stöðug og sífellt bætast ný athyglisverð
skáld í hópinn. Það er helst að fjarvera
kvenljóðskálda stingi í augun en það á sér
líklega samfélagslegar jafnt sem bókmennta-
sögulegar skýringar. Hér gefst aðeins tæki-
færi til að nefna örfáa þeirra sem fylgdu í
kjölfar Djurhuus-bræðra og ræktuðu þann
garð sem þeir komu svo umhyggjusamlega á
fót.
Af þeim ljóðskáldum sem helst hafa sett
sinn persónulega svip á þróun færeyskrar
ljóðlistar á 20. öld ber að nefna skáldið og
fræðimanninn Christian Matras (1900–1988)
sem orti á hinu auðuga hversdagsmáli sem
hann ólst upp við í smábyggðinni Viðareiði á
Viðey. Yrkisefni hans voru úr sama jarðvegi
og lýsa nánum tengslum manns og náttúru,
fortíðar og nútíðar, einstaklings og sögu.
Christian Matras hefur verið kallaður „sá
færeyskasti allra færeyskra skálda“, svo
sterk er tilfinningin fyrir föðurlandinu í ljóð-
list hans. Hins vegar bjó hann aðeins í Fær-
eyjum á æskuárunum og síðar eftir að
starfsævinni lauk. Lengst af bjó hann í
Kaupmannahöfn þar sem hann var prófessor
í færeysku við háskólann. Christian Matras
var einnig ötull þýðandi heimsbókmennta yf-
ir á færeysku og þýddi m.a. Burns, Voltaire,
Anatole France og Camus.
Í skáldskap Karstens Hoydal (1912–1990)
má sjá fyrstu tilraunir með órímuð ljóð með
frjálsri hrynjandi í færeyskri ljóðlist. Líkt
og hjá svo mörgum færeyskum skáldum er
það samspil manns og náttúru sem er rauði
þráðurinn í ljóðum Karstens Hoydal og hann
sér manninn sem órjúfanlegan hluta af nátt-
úrunni. Kjarnorkuógn eftirstríðsáranna set-
ur einnig svip sinn á ljóðagerð hans og sú
tilfinning að allir menn séu bræður, hvar
sem á hnettinum þeir búa, er sterk í ljóð-
unum.
Regin Dahl (f. 1918) er brautryðjandi eró-
tískrar ljóðagerðar í Færeyjum. Hann er
skáldið sem „þorir“ að yrkja um efni sem
legið höfðu í þagnargildi, hvort sem um var
að ræða ástina og kynlífið eða viðkvæm
þjóðernispólitísk málefni. Bókmenntafræð-
ingurinn og rithöfundurinn Jógvan Isaksen
segir Regin Dahl vera meistara í að
„sprengja þjóðernisrómantískar blöðrur“
(Færøsk litteratur 1993). En ljóðagerð hans
er fjölbreytt og rúmar allt frá viðkvæmum
ástarljóðum til beittrar íróníu. Hann er mik-
ill endurnýjunarmaður færeysks ljóðmáls, en
stíll hans einkennist af notkun fornra, hálf-
gleymdra orða og vel heppnaðri nýyrðasmíð.
Ljóðabók Regins Dahl, Eftirtorv, var fyrsta
verk færeysks höfundar sem tilnefnt var til
Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið
1985.
Gurið Helmsdal Nielsen (f. 1941) var fyrst
færeyskra kvenna til að gefa út ljóðabók.
Með bókinni Lýtt loft (1963) braut hún einn-
ig blað á annan hátt því hér er um fyrstu
„módernísku“ ljóðin í færeyskri bókmennta-
sögu að ræða. Í ljóðum hennar er sterk per-
sónuleg, einstaklingsbundin skynjun túlkuð í
frjálsu en knöppu formi sem ekki hafði sést
áður í færeyskri ljóðlist. Í næstu bók Morg-
„ÉG ER FÆREYSKUR
ÞJÓÐERNISSINNI“
Sterk þjóðerniskennd – og þjóðernisrómantík – liggur
eins og rauður þráður í gegnum ljóðahefð Færeyinga
allt frá upphafi hinnar rituðu bókmenntasögu fram til
okkar daga. Að sjálfsögðu hefur skilningur skáld-
anna á því hvað felst í því að vera „føroyskur nasj-
onalistur“ breyst í gegnum tíðina. Og kannski hafa
sum hver alls ekki ort á slíkum forsendum – a.m.k.
ekki meðvitandi – og önnur leitast við að „sprengja
þjóðernisrómantískar blöðrur“.
Ljósmynd/Þorvarður Árnason
„Það að vera færeyskur þjóðernissinni er sprottið upp úr þeirri reynslu að vera þátttakandi í hinu
hversdagslega stríði tilverunnar á færeyskri grund.“
E F T I R
S O F F Í U A U Ð I B I R G I S D Ó T T U R
MANNLÍF, MENNING OG BÓKMENNTIR Í FÆREYJUM – 3. HLUTI