Lesbók Morgunblaðsins - 20.10.2001, Side 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. OKTÓBER 2001
F
YRIR rúmri viku var tilkynnt að
Nóbelsverðlaunin í bókmenntum
hefðu að þessu sinni fallið breska
rithöfundinum V.S. Naipaul í
skaut, en þetta er í 100. skipti
sem þessi mestu heiðursverðlaun
á sviði bókmennta eru veitt.
Verðlaunaveitingin er þó ekki
óumdeild að þessu sinni frekar en oft áður þeg-
ar verðlaunaveitingarnar hafa þótt litaðar af
pólitísku fremur en bókmenntalegu gildi. Að
þessu sinni gegnir þó öðru máli, því í ljósi þess
að Alfreð Nóbel mælti svo fyrir að þeir höf-
undar sem verðlaunin hrepptu hefðu lagt sitt á
vogarskálar sammannlegra hugsjóna, hefur
það helst vakið undrun að Naipaul, sem ítrekað
hefur valdið fjaðrafoki með særandi ummæl-
um af ýmsu tagi, skyldi verða þessarar virð-
ingar aðnjótandi einmitt þar sem hann hefur
ekki fetað einstigi neins pólitísks rétttrúnaðar
sem á upp á pallborðið í samtímanum.
Óheppileg ummæli
móta umdeilt orðspor
Naipaul, sem er af indverskum ættum og
fæddist í Trínídad árið 1932, hefur til að mynda
þótt sýna karabískri menningu töluverða lítils-
virðingu bæði í skrifum sínum og ummælum
um svæðið. Fyrstu ummæli hans og þakkir
fyrir verðlaunin, þar sem hann nefndi sóma
sýndan bæði Bretlandi og Indlandi, án þess að
minnast áTrínídad, þóttu því staðfesta það sem
margir hafa haldið fram, að Naipaul fyndist
minnkun að uppruna sínum í þessari fyrrum
nýlendu Breta, og hefði ætíð átt erfitt með að
sætta þær mótsagnir sem fólust í bakgrunni
hans sem innflytjanda og því hlutverki sem
hann sóttist eftir í bresku samfélagi.
Strax í upphafi ritferils síns, árið 1958, hélt
hann því fram í Times Literary Supplement að
„þó Trínídad sýnist margbrotið land á yfir-
borðinu, vegna þeirra mörgu kynþátta sem
það byggja, þá [væri] það í augum allra sem
þekkja það einfalt, menningarsnautt og sjálf-
umglatt nýlendusamfélag“. Löngu seinna lét
hann jafnvel hafa það eftir sér á prenti er hann
líkti Trínídadbúum við apaketti og sagðist fyr-
irlíta þá. Eins og svo margir í Trínídad er Nai-
paul, eins og áður sagði, af indversku bergi
brotinn, en þó andúð hans beinist fyrst og
fremst að Karíbasvæðinu hefur Indland þó
ekki heldur farið varhluta af illskeyttum at-
hugasemdum hans er lúta að menningu og
þjóð og ekki eru nema nokkrir dagar frá því
hann sagði opinberlega á opnunarhátíð Chel-
tenham-bókmenntahátíðarinnar að „fólk hefði
ekki verið nægilega djúpt hugsandi í Indlandi
fyrir fjörutíu árum til þess að lesa bækurnar
[hans]“. Opinber vinslit Naipaul og rithöfund-
arins Paul Theraux, þar sem Theraux lýsti ára-
tugalöngum vinskap sínum við þessa fyrrver-
andi fyrirmynd sína með ákaflega
fjandsamlegum hætti í bókinni Sir Vidia’s Sha-
dow, hafa einnig orðið til að kasta rýrð á per-
sónuleika Naipaul, ekki síst eftir að Theraux
endurtók leikinn í óvenju óvægnum og rætnum
ritdómi um nýjustu bók Naipaul, Half a Life
(2001), sem þrátt fyrir tilnefningu náði ekki inn
á stuttlista Booker-verðlaunanna þetta árið í
Bretlandi.
Í bilinu á milli ólíkra menningarheima
V.S. Naipaul er barnabarn innflytjenda er
komu til Trínídad til að vinna á plantekrum.
Þótt ferðalagið frá Indlandi til þessarar eyju í
Karíbahafinu hafi létt af mörgum Indverjum
þrúgandi fargi ævaforns stéttaskipulags, voru
innflytjendurnir samt sem áður bundnir
ákveðnum fjötrum með þeim vinnusamningum
sem þeir neyddust til að gera, jafnvel til
margra ára. Vera má að sú staðreynd hafi litað
viðhorf Naipaul að einhverju leyti, því tilvist
hans er afar sterkt mótuð af viðhorfum þess
sem stendur utan við ríkjandi menningu, eig-
inlega í tvöföldum skilningi, þ.e.a.s. bæði sem
Indverji í Trínídad og Trínídadbúi í Bretlandi.
Viðfangsefni hans hafa í það minnsta verið
ákaflega tengd hlutskipti og hugarheimi þeirra
sem búa á „jaðrinum“, við einhvers konar
„millibilsástand“ hins gamla nýlenduheims og
þeirrar upplausnar sem fylgdi endalokum þess
tímabils, ekki bara í Karíbahafinu og á Ind-
landi, heldur einnig í Afríku.
Innflytjendabókmenntir hafa þó átt fádæma
fylgi að fagna í Bretlandi á undanförnum ára-
tugum, en áhugi á þeim jókst mikið þegar fram
komu á sjónarsviðið rithöfundar sem kenndir
voru við „nýja alþjóðastefnu“ (New Internatio-
nalism), en flestir höfðu þeir flutt til Bretlands
mjög ungir að árum. Meðal þessara höfunda
voru, V.S. Naipaul og yngri bróðir hans Shiva
Naipaul, Salman Rushdie, Timothy Mo og
Kazuo Ishiguru. Allir þessir höfundar fjalla að
einhverju leyti um reynslu sína af því að vera
„öðruvísi“ í skáldskap sínum og í skáldsögum
Rushdie, sem mörgum eru t.d. vel kunnar hér
á landi, eru aðalsögupersónur iðulega staddar í
einhvers konar bili á milli ólíkra menningar-
heima. En þótt hann horfi gagnrýnum augum
á vestrænan heim hvað varðar meðferð á inn-
flytjendum frá Asíu og Afríku, sem leiðir af sér
einhvers konar framhald á nýlendu- og heims-
valdastefnu, þá eru tilfinningar Rushdie til
þess heims er hann ólst upp í litaðar heilmikl-
um efasemdum, í bland við ljóma fortíðarþrár.
Og það sama á við um Naipaul, þótt hann hafi
hingað til ekki notið jafnalmennrar aðdáunar
og Rushdie, einmitt vegna þess hve mörgum
hafa þótt viðhorf hans lituð yfirlæti og beiskju.
Þó má vel vera að þar sé um að ræða við-
horfsmun sem einnig er kynslóðabundinn, því
V.S. Naipaul er nokkuð eldri en þeir sem nefn-
ir voru hér að ofan.
Þessi angi breskra samtímabókmennta er
auðvitað náskyldur alþjóðlegri þróun þar sem
bókmenntir jaðarhópa frá fyrrverandi nýlend-
um sem og fjölþjóðlegum menningarheildum
hafa verið áberandi. Það sem þó skilur á milli
er að höfundar á borð við Naipaul, Rushdie,
Mo og Ishiguru skrifa um þá menningu sem
þeir eru upprunnir úr og reynslu innflytjenda
frá sjónarhóli þeirra sem þrátt fyrir allt til-
heyra hinni eiginlegu bresku bókmenntastofn-
un. Þeir skrifa hvorki frá jaðrinum né innan
vébandabókmenntahefðar þess lands sem þeir
koma frá. Að því leyti má segja að þessi al-
þjóðastefna innfluttra rithöfunda í Bretlandi
endurspegli það hvernig nútímalifnaðarhættir
þar einkennast nú af meiri skilningi á háttum
annarra og oft framandi þjóða, auðveldari
samgöngum og samskiptum, hinum gríðar-
stóra alþjóðlega bókmenntamarkaði og út-
breiðslu enskrar tungu.
Það sem er þó mikilvægast hvað þessa þró-
un varðar í menningarlegum skilningi, er sú
staðreynd að fullkomin aðlögun að breskri
menningu er ekki lengur álitin ímynd hins full-
komna og eftirbreytniverða, meðal margra
þeirra sem þó kjósa að búa í Bretlandi. Til
marks um það hafa t.d. bókmenntir sem fjalla
um dæmigerð bresk viðfangsefni iðulega verið
álitnar léttvægar, þegar bókmenntir sem fjalla
um lönd þriðja heimsins, samveldislöndin og
innflytjendur í Bretlandi hafa notið mikillar at-
hygli bæði fræðimanna og almennings undan-
farna tvo áratugi. Innan breskrar menningar
hafa bókmenntir af þessum toga að sjálfsögðu
afhjúpað afar áhugaverðan heim, bæði innan
landsins og utan, heim sem áður hafði aldrei
verið viðurkenndur sem þáttur í breskri þjóð-
arímynd eða sem hreyfiafl í samfélaginu.
Naut menntunar og þess
ávinnings sem henni fylgir
Hvað V.S. Naipaul varðar þá tilheyrði hann
vissulega ekki minnihlutahópi fátækra inn-
flytjanda sem meðvitað eða ómeðvitað er mein-
uð innsýn inn í nýtt tungumál og nýjan menn-
ingarheim í nýjum heimkynnum. Átján ára
gamall hlaut hann styrk til að leggja stund á
nám við háskólann í Oxford, svo hann naut
þeirrar formlegu menntunar og ávinnings sem
tilheyrir menntafólki með háskólagráður. Fað-
ir Naipaul hvatti hann eindregið til dáða á rit-
vellinum og um það leyti sem hann kom til
Bretlands hafði hann lokið smíðum skáldsögu
sem þó var hafnað af útgefendum. Eftir að
hann lauk háskólanámi hóf Naipaul feril sinn
sem lausamaður er skrifaði um ýmis efni, en
um miðjan sjötta áratuginn tók hann að rann-
saka sinn eign bakgrunn í Trínídad. Þá var
eins og hann hitti fyrst á þann streng sem hon-
um tókst að láta óma þannig að eftir væri tekið.
Bókin Miguel Street (1959) skapaði honum
nafn, ekki síst fyrir litskrúðuga flóru söguper-
sóna sem lýst er með glettnum tilburðum. Að-
eins tveimur árum árum seinna fylgdi bókin A
House for Mr. Biswas (1961) í kjölfarið, en hún
er að margra áliti helsta meistaraverkið á
löngum ferli Naipaul. Bókin byggist að nokkru
leyti á ævi föður hans og fjallar um leit ind-
versks innflytjanda að sjálfstæði og raunhæfri
sjálfsmynd í nýjum heimkynnum í Trínídad, en
sú leit kristallast í löngun hans til að eignast
eigið hús, sem túlka má sem einskonar útibú
frá Indlandi á útjaðri breska heimsveldisins.
Annars er Naipaul ekki síður þekktur fyrir
þau ritverk sem spruttu upp úr áralöngum
ferðalögum hans um Karíbahafið, Indland,
Suður-Ameríku, Afríku, Íran, Pakistan og
Bandaríkin. Í þeim verkum er sjónarhorn hans
iðulega tengt einstaklingum sem eru utan-
garðs í einhverjum skilningi, einstaklingum
sem einhverra hluta vegna geta ekki samlag-
ast eða eiga sér ekki viðreisnar von vegna ytri
aðstæðna. Ferðasögur hans og ritgerðir búa
sömuleiðis oft yfir sársaukafullum tóni sem
virðist leiða af persónulegri rannsókn hans á
þjóðfélögum sem hann hann hefur lýst á þann
veg að þau séu ekki fullmótuð og skapað sér
þannig andúð þeirra sem þau byggja. Það
breytir þó ekki þeirri staðreynd að þau eru
mörg hver í mikilli upplausn eftir aldalanga
kúgun misviturra veraldlegra herra og trúar-
leiðtoga, í það minnsta ef viðmiðið er Bretland
það sem Naipaul tilheyrir.
Sameinar ólík form
í einstökum stíl
Það ekki á óvart að í tilkynningu þeirri sem
Nóbelsakademían gaf út í síðustu viku segir að
V.S. Naipaul hljóti verðlaunin fyrir að hafa
sameinað „ólík form í einstökum stíl, afmáð
mörkin á milli skáldskapar og annarra tegunda
ritsmíða, auk þess að draga fram í dagsljósið
gleymdar sögur þeirra sem hafa verið yfirbug-
aðir“. Hann þykir einnig hafa sýnt „óþrjótandi
glöggskyggni í verkum sínum sem þvinga okk-
ur til að horfast í augu við tilvist þeirra sagna
sem haldið hefur verið niðri“.
Það er auðvelt að færa góð rök fyrir því að sá
efniviður sem hinn nýi Nóbelsverðlaunahöf-
undur hefur sinnt af mestum áhuga eigi brýnt
erindi til umheimsins í upphafi nýrrar aldar;
þ.e.a.s. líf innflytjenda, áhrif nýlendustefnu og
síðar þjóðernisstefnu á þjóðríki sem eru í mót-
un, auk neikvæðra áhrifa trúarbragða á heims-
myndina – jafnvel þótt fólk sameinist ekki um
sjónarhorn hans. Og þó Naipaul hafi reynst
erfitt að forðast „óæskileg“ ummæli um við-
kvæm málefni, felst frumskylda skálds að
sjálfsögðu alltaf í heilindum gagnvart listrænni
sýn sinni fremur en við pólitískan rétttrúnað
samtímans eða viðhorf hverju sinni. Naipaul
hefur helgað sig ritstörfum af aðdáunarverðri
einurð og sú ákvörðun hans vegur ekki síður
þungt í lífsstarfi hans en pólitískar eða þjóð-
ernislegar skoðanir hans – burt séð frá þeirri
staðreynd að hann tilheyri minnihlutahópi.
„Rithöfunda á einvörðungu að dæma á ritstörf-
um þeirra,“ sagði indverski rithöfundurinn
Amit Chauduri í athyglisverðri grein í The
Guardian eftir að tilkynnt var um verðlauna-
veitinguna, „og skáldskapurinn er hið stór-
kostlega viðfangsefni Naipaul, sem og hinn
stórkostlegi ávinningur hans.“
RITHÖFUNDUR
FREMUR EN
HUGSJÓNA-
MAÐUR
Hinn nýi nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum, V.S.
Naipaul, hefur ætíð átt erfitt með að semja sig að
pólitískum rétttrúnaði samtíma síns og iðulega látið
óheppileg ummæli falla. FRÍÐA BJÖRK INGVARS-
DÓTTIR fjallar um þátt hans í bókmenntum breskra
innflytjenda sem orðið hafa til þess að afhjúpa
framandi þætti í bresku samfélagi og þjóðarímynd.
Reuters
Breski rithöfundurinn V.S. Naipaul, á heimili sínu hinn 11. október, eftir að tilkynnt var að hann
hefði hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár.