Lesbók Morgunblaðsins - 27.10.2001, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 27.10.2001, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. OKTÓBER 2001 R EGLA íslenskra góðtemplara sem stofnuð var 1884 lét mikið að sér kveða í lok 19. aldar og á fyrstu áratugum þeirrar 20. Margt afbragð karla og kvenna lét þar til sín taka. Í hugann koma: Þórður Thoroddsen, Pétur Zophaníasson, Indriði Einarsson, Kristinn Stefánsson, Jón Ólafsson, Bergþóra Jóhannsdóttir, Jóhann Ögmundur Oddsson, Sigurbjörn Á. Gíslason, Björn Þor- láksson, Jón Árnason, Pétur Sigurðsson, Brynleifur Tóbíasson og Sigurður Eiríksson og eru þá ekki allir taldir sem lögðu hönd á plóginn undir hjálmi reglunnar. Á fyrsta tug 20. aldarinnar átti regla góðtemplara sér blómaskeið og kom til leiðar breytingum á hugarfari og smekk þjóðarinnar en einnig á löggjöf hennar. Gerbreytt viðhorf og upp- stokkað þjóðlíf kalla nú á önnur vinnubrögð af hálfu þeirra sem telja ástæðu til að vara þjóð- ina, einkum hina ungu, við hættum og afsiðun sem fylgir stjórnlausri vímuefnanotkun. Stór- stúkan hefur nú verið lögð niður í sinni fyrri mynd en í hennar stað hafa verið mynduð bindindissamtökin I.O.G.T. Þetta mun hafa átt sér stað í nóvember árið 2000 í þann mund er Björn Jónsson prófastur lét af starfi sem stór- templar. Formaður hinna nýju samtaka er Helgi Seljan fyrrverandi alþingismaður. Þeg- ar góðtemplarar voru í mestri sókn gengu fram fyrir skjöldu sem erindrekar margir hæf- ir og hugumstórir menn. Meðal þeirra var Sig- urður Eiríksson en hann náði miklum árangri sem regluboði og gaf mikið af sjálfum sér til að svo mætti verða. Verður nú sagt frá lífi og starfi Sigurðar. Ölkær í meira lagi framan af ævi Sigurður Eiríksson var framan af tuttug- ustu öldinni þjóðkunnur fyrir vasklega fram- göngu sína á vegum Stórstúku Íslands. Hann gekk í þjónustu templara árið 1897 og helgaði málstað þeirra næstu 20 ár ævi sinnar. Sig- urður Eiríksson fæddist að Ólafsvöllum í Ár- nessýslu árið 1857 og óx þar úr grasi hjá góð- um foreldrum en missti ungur föður sinn Eirík Eiríksson frá Reykjum á Skeiðum. Móðir Sig- urðar hét Guðlaug Sigurðardóttir og var frá Votumýri einnig í Skeiðahreppi. Ungur lagði Sigurður land undir fót og hélt ásamt Eiríki bróður sínum til Eyrarbakka og tók að sækja þar sjó. Hann þótti dugandi sjómaður og varð með tímanum formaður. Kona ein merk á Eyr- arbakka sagði við mig „Margt gott er sagt um Sigurð en það vill gleymast að geta um sjó- mennsku hans en hún var honum til sóma ekki síður en annað sem til verður talið“. Á þessum árum, síðustu tugum nítjándu aldarinnar, var mikil og vaxandi óregla í sjávarplássunum á ströndinni og áfengisneysla var langt úr hófi. Þetta kom hart niður á mörgum heimilum sem voru lítt aflögufær og urðu því illa úti í þessum hörmungum. Sigurður var á þessum árum öl- kær í meira lagi og átti það til að drekka ótæpi- lega. Samtímis hlóðst á heimilið ómegð og hef- ur þá stundum verið þröngt í búi hjá Svanhildi konu Sigurðar en hún var fædd á Bakkanum, dóttir Sigurðar Teitssonar bónda og hafnsögu- manns. Þar kom að Sigurður sá sitt óvænna og stakk við fótum. Sagan segir að dag einn hafi hann beðið Svanhildi um sparifötin sín því hann ætlaði sér að ganga í stúku þá um kvöld- ið. Svanhildur mun hafa litið til hans augum vantrúar og ekki fór hún með manni sínum á fundinn. Hér urðu þó kaflaskil; upp frá þessu áttu markmið bindindismanna hug Sigurðar og hann gekk í þjónustuhreyfingar þeirra sem erindreki. Hann snerist þegar til fylgis við bannmenn og má af því skilja að honum, sem mörgum öðrum, hefur þótt mælirinn fullur og róttækra aðgerða þörf. Svo fór að þjóðþingið samþykkti aðflutningsbann og alla sölu áfengra drykkja í landinu. Var svo að sjá sem þessi ákvörðun ætti fljótlega almennu fylgi að fagna og þótti mönnum annar og betri bragur komast á í mannlífi Íslendinga. Menn verða á okkar tíð að sjá þessi mál í því ljósi, að ofneysla áfengis var orðin þjóðarböl og mörgum til hins mesta vansa. Voru þetta miklu alvarlegri og umfangsmeiri tíðindi en þau fíkniefnadæmi sem nú valda svo miklum titringi og öllum má vera það ljóst að áfengi er enn á vorum dögum langversti skaðvaldurinn í flokki vímuefna. Bindindi fyrir einstaklinginn, bannlög fyrir þjóðina Sigurður gekk í þjónustu stórstúkunnar ár- ið 1897 og starfaði á vegum hennar langleiðina fram undir 1920. Í stuttu máli þá vann hann stórvirki fyrir hönd templara og hugsjóna þeirra; ferðaðist um allt Ísland og gekk form- lega frá stofnun fjölda bindindisfélaga. Áhugi hans var óslökkvandi og óbilandi. Varla er of- sagt að eldmóður hafi einkennt framgöngu Sigurðar á þessum árum. Séra Kristinn Stef- ánsson fyrrverandi stórtemplar ritaði stuttan þátt um Sigurð og segir meðal annars: „Á þessum árum fór Sigurður um land allt. Hann var á sífelldu ferðalagi bæði vetur og sumar, kom í hverja sveit og hafði ávallt sama boð- skapinn að flytja: Bindindi fyrir einstakling- inn; bannlög fyrir þjóðina. Árangurinn af starfi Sigurðar var glæsilegur. Ber hann æg- ishjálm yfir alla regluboða sem stórstúkan hef- ur haft í þjónustu sinni.“ Sigurður var á þess- um árum þekktur um land allt og þótt mörgum væri í nöp við boðendur bindindis og gerðu óp að þeim var hann víðast hvar aufúsugestur; þótti bæði fróður og viðræðugóður. Það sem af Sigurði segir sýnir að hann, líkt og Jón Ólafs- son ritsjóri og fleiri góðir samherjar, leit á hreyfingu templara sem almennt siðbótarafl og sá fyrir sér hinn upprétta Íslending vand- aðan til orðs og æðis og lausan við helsi vímuþrælk- unar. Vitað er, að Sigurður beitti sér á ferðum sínum um landið, jafnframt bind- indisboðun, fyrir stofnun sjómannafélaga, minnugur ára sinna við sjósókn á Eyrarbakka. Ennfremur brýndi Sigurður fyrir mönnum að fara betur með dýrin sín og hraus honum hugur við því að sjá hversu hjartalaus var meðferð manna á hrossum víða um land. Sigurður fluttist til Reykjavíkur með fjöl- skyldu sína í lok nítjándu aldar í þann mund er hann gekk til liðs við góðtempl- ara. Kom hann upp húsi og bjuggu þau börnum sínum hið besta heimili Svanhild- ur og hann. Hvíldi margt á konunni enda hún ein um heimilisstjórn þegar Sig- urður var á ferðum sínum um landið. Er ljóst að Svanhildur átti ekki smáan hlut í velgengni Sigurðar á þessum árum þegar hann ásamt öðrum mætum borg- urum stórjók áhrif bindind- is- og bannmanna á Íslandi. Er við brugðið skyldu- rækni og iðjusemi Svan- hildar; vék hún til hliðar allri sérplægni en gaf sig til fulls að kærleiksríkri umsjá barna sinna og ann- ars heimilisfólks. Stöku sinnum sást hún bregða yfir sig sjali og ganga ofan í alþing- ishús að hlýða á mál þingmanna. Öllum heim- ildum ber saman um , að Svanhildur hafi verið afbragðs manneskja en hún lést um aldur fram úr lungnasjúkdómi 1918. Nam orgelleik á fullorðinsárum Sigurður hafði hlotið þá barnafræðslu sem uppi var höfð um miðbik nítjándu aldar en um frekari skólagöngu var ekki að ræða. Á Eyr- arbakkaárunum eignaðist hann smám saman dálítið bókasafn og hann varð sér úti um kennslu í orgelleik hjá Sigfúsi Einarssyni eftir því sem ég kemst næst en síðar hjá Jónasi Helgasyni dómkirkjuorganista. Varð hann með tímanum gjaldgengur organisti og lék við þjónustur bæði í Arnarbælis- og Eyrarbakka- kirkjum. Einnig söng hann stundum í kórum og þótti hafa fagra bassarödd. Eftir að sest var að í Reykjavík tók Sigurður að segja fólki til í hljóðfæraleik og söng meðfram boðunarstarf- inu fyrir hönd stórstúkunnar. Þegar hann er sæmdur orðu konungs árið 1912 er hann á skjalinu frá kansillíinu titlaður organisti. Þess má geta til gamans að þeir Eiríkur afi Sig- urðar og langafi hans Eiríkur Vigfússon voru báðir sæmdir konungsorðum vegna fyrir- myndar í búnaði og farsældar í opinberum störfum. SIGURÐUR EIRÍKSSON REGLUBOÐI Sigurður Eiríksson e f t i r E m i l A l s Æviþát tur IS THAT all?“ heyrði ég eitt sinn amer-ískan ferðamann segja þegar hann varloksins búinn að finna hið þekkta mál-verk, Mónu Lísu, á Louvre-safninu í París. Þessi spurning hefur orðið mér minnisstæð. Kannski segir ofangreind spurning eitt- hvað um samband listaverks og móttak- anda þess. Reginmuninn sem er á LIST- NEYTANDA og LISTNJÓTANDA. Listneytandinn hefur kannski heyrt af frægð listaverks, heimsfrægð kannski og vill að verkið taki sig með trompi, sannfæri sig, heilli sig upp úr skónum, strax. Listnjótandinn hins vegar getur að ein- hverju marki LESIÐ verkið. Hvað þýðir það? Hann hefur einhverja grunnþekkingu á öðrum verkum, á hefð- inni, eiginleikum listarinnar og umfram allt, hann hefur einhverja lágmarksþjálfun, áhorf hans er ekki passíft heldur virkt; hann segir við listaverkið: Ég ætla að lesa þig, vonandi heillarðu mig eða kveikir að minnsta kosti skapandi hugsanir, unað skapandi hugsana, nautn skapandi hugsana en það er jafnmikið undir mér komið og þér. Godot er kannski eins og Móna Lísa; ein- hver sem les eða sér verkið í fyrsta skipti gæti spurt eins og ameríski túristinn: „Is that all?“ Allir hafa heyrt eitthvað um Godot, þetta er eitt þekktasta leikverk frá síðustu öld, erkileikritið frá eftirstríðs- árunum um miðbik hennar. Lausleg athugun á Netinu, hinum raf- ræna flóamarkaði okkar tíma, leiðir í ljós að þar er vísað á Samuel Beckett 1.880.390 sinnum, Beðið eftir Godot 905.386 sinnum. Þessi sakleysislegi leiktexti hefur getið af sér ótrúlegan textaflaum. Fleiri magist- ersritgerðir og doktorsritgerðir en tölu verður á komið, auk alls hins. Og hér er ég að bæta nokkrum orðum í þennan svelg. Það er forvitnilegt að íhuga stuttlega af hverju þetta leikverk er svona lífseigt, af hverju það er nú þegar orðið klassískt, sí- gilt. Í fyrsta lagi er í því einhver kjarni sem aldrei verður brotinn eða hlutaður sundur til skilnings. Það býr yfir gátum sem verða aldrei ráðnar til fulls en virðast eigi að síð- ur nægilega forvitnilegar og sammann- legar til þess að freista nýrra kynslóða. Ef svo væri ekki, þá hefðu menn fyrir löngu hætt að pæla í þessu verki og þá væru ekki milljón vísanir í það á Netinu. Önnur byrjun á skýringu gæti legið í því að þetta er í raun afar formstrangt verk en jafnframt galopið fyrir túlkunum og lestri. Nákvæmt með afbrigðum (sbr. alkunnar leiklýsingar eins og í öllum leikverkum Becketts), stílknappt og músíkalskt. Tími, rými og atburðarás, allt er þetta strangt eins og klassísk leiklistarfræði segja til um; einn staður, stuttur tími (einn dagur í fyrra þætti og daginn eftir í þeim síðari), heildstæður þráður. Vladimir og Estragon eru að leita að Godot en í stað þess að fara stað úr stað (eins og í vega- mynd, road-movie) til að svipast um eftir honum, þá hafa þeir fundið staðinn, rétta staðinn. Leitin breytist þar með í bið. Tím- NESTI Í TÓMU HÚSI Samuel Beckett (1906–1989). Beðið eftir Godot er mest um fjallaða leikrit 20. ald- arinnar en þó hefur engum tekist að brjóta kjarna þess til mergjar. Samuel Beckett gaf engar leiðbein- ingar og tók sinn skilning á verkinu með sér í gröfina. e f t i r S i g u r ð P á l s s o n

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.