Lesbók Morgunblaðsins - 10.11.2001, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. NÓVEMBER 2001
M
AGNÚS Ásgeirson
fæddist á Reykjum í
Lundarreykjadal 9da
nóvember 1901 og lézt í
Hafnarfirði 30sta júlí
1955. Hann var snjall-
asti ljóðaþýðandi Ís-
lendinga um sína daga,
og hafði meiri áhrif á íslenzka ljóðagerð á tutt-
ugustu öld en flestir aðrir.
Magnús varð stúdent frá Menntaskólanum í
Reykjavík 1922, og las síðan norræn fræði í Há-
skóla Íslands í tvo vetur. Á þeim tíma gaf hann
út ljóðabókina Síðkveld (1923). Hann hvarf frá
námi og gerðist þingskrifari og blaðamaður.
Kvæðasafnið Þýdd ljóð I-V kom út frá 1928 til
1936, og margvíslegar bækur með ljóðaþýðing-
um eftir það, til að mynda Meðan sprengjurnar
falla 1945. Að auki þýddi hann fjölda skáld-
sagna, þar á meðal Hvað nú, ungi maður? eftir
Hans Fallada, Svartfugl Gunnars Gunnarsson-
ar og Önnu Karenínu eftir Lev Tolstoj.
Magnús var bókavörður á bæjarbókasafni
Hafnfirðinga frá 1941 til dauðadags. Jafnframt
var hann, ásamt Tómasi Guðmundssyni, rit-
stjóri tímaritsins Helgafells 1942–1946. Eitt
hinzta verk hans var að gefa út Ljóð ungra
skálda 1954. Eftir hans dag kom út Kvæðasafn
I–II (1958 og 1960). Guðmundur Böðvarsson
gaf út Síðustu þýdd ljóð hans 1961.
I Ferð til Íslands
Ein glæsilegasta kvæðisþýðing Magnúsar
Ásgeirssonar er „Ferð til Íslands“ eftir enska
skáldið Wystan Hugh Auden (1907–1973).
Auden kom til Íslands vorið 1936, og var hér í
þrjá mánuði, síðari helming þess tíma með
skáldbróður sínum Louis MacNeice og fleiri
Bretum. Þeir Auden og MacNeice voru þá tæp-
lega þrítugir. Fyrir Auden var þetta pílagríms-
för því að faðir hans hafði alið hann upp við Ís-
lendingasögur. Þeir feðgar töldu sér trú um að
þeir væru af íslenzkum ættum, og að nafnið
„Auden“ væri komið af íslenzka nafninu „Auð-
un“. Auden átti það eftir á gamals aldri að þýða
alla Sæmundar-Eddu á ensku, í bundið mál, í
framhaldi af annarri Íslandsferð sinni vorið
1964. (Norse Poems, 1981, ásamt Paul B. Tay-
lor.)
Þeir Auden og MacNeice sömdu saman
ferðabók um Íslandsferðina 1936, og kom hún
út í London árið eftir undir heitinu Letters
from Iceland (Bréf frá Íslandi). Hún er ýmist í
bundnu eða óbundnu máli og afar skemmtileg
þótt hún sé ekki áreiðanleg um alla hluti. Meðal
eiginlegra bréfa í bókinni er eitt til Kristins E.
Andréssonar sem er að vísu kallaður „Kristjan
Andresson“. Þar segir Auden, heimkominn til
Englands, kost og löst á Íslandi og Íslending-
um. Bréfið er lærdómsríkur lestur enn í dag
þótt 65 ár séu liðin frá því það var skrifað.
Í Bréfum frá Íslandi er, meðal annars kveð-
skapar, sjálfstætt kvæði tileinkað þriðja skáld-
inu, Christopher Isherwood. Sá er nú frægastur
fyrir skáldsögur sínar frá Berlín á kreppuár-
unum. Upp úr þeim var saminn söngleikurinn
Kabarett sem hefur verið sýndur þrívegis á Ís-
landi. Þetta kvæði handa Isherwood er „Ferð til
Íslands“ („Journey to Iceland“).
Þýðing Magnúsar byrjar svona:
Og sæfarinn óskar: Æ, sé nú hver læknir mér fjarri!
og sjávarnöfn skáldanna fylgjast með honum um borð...
Hér stendur hjá Auden um sjávarnöfnin:
„and the ports have names for the sea“. Og
ports eru hafnir en ekki skáld. Svo vill til að
„ports“ var ritvilla í handritinu sem Auden
sendi Isherwood frá Íslandi, eins og Auden
kannast við í Bréfum frá Íslandi. Þar átti að
standa „and the poets have names for the sea“,
nákvæmlega eins og Magnús þýðir. En Auden
fannst villan betri og afréð að láta hana standa.
Og síðan eru það hjá honum hafnirnar, en ekki
skáldin, sem gefa hafinu margvísleg nöfn, bæði
í Bréfum frá Íslandi og öllum ljóðasöfnum hans
síðan.
Það er annað frávik frá enska textanum í
bókum Audens í íslenzka kvæðinu. Magnús hef-
ur kvæðið einu erindi lengra en bækurnar.
Þetta erindi hefur Auden strikað út, ugglaust
vegna þess að þar er minnzt á geðveikan ráð-
herra á Íslandi.1 Það kynni að vera tilvísun til al-
ræmdrar sjúkdómsgreiningar Helga Tómas-
sonar á Kleppi á Jónasi frá Hriflu. Magnús
þýðir þetta erindi, en breytir að vísu hinum geð-
veika ráðherra í versnandi fisksölukjör Íslend-
inga. Svo að honum hefur líka verið nóg boðið.
Frávikin sýna bæði að Magnús hefur þýtt
kvæðið eftir upphaflegu handriti Audens, en
ekki neinni prentaðri gerð. Raunar birtist ís-
lenzka þýðingin um svipað leyti og frumkvæðið.
Það var fyrst prentað í tímaritinu Listener í
október 1936, en íslenzka þýðingin birtist í
tímariti Kristins E. Andréssonar Rauðum
pennum 1936.
Það finnast engar skrifaðar heimildir um að
þeir Auden og Magnús hafi kynnzt á Íslandi. En
það er mjög ótrúlegt að leiðir þeirra hafi ekki
legið saman, til dæmis í ljósi þess að vitað er að
Auden kynntist ýmsum nánum vinum Magn-
úsar, eins og fram kemur í formála að Bréfum
frá Íslandi, þar á meðal Tómasi Guðmundssyni.
II Jarðarfararblús
Auden var eitt af stórskáldum enskumælandi
þjóða á tuttugustu öld. En mikla skáldfrægð
meðal alls almennings hlaut hann ekki fyrr en
einum tuttugu árum eftir sinn dag. (Hann
fæddist 1907 og lézt 1973.) Árið 1995 var efnt til
könnunar á Bretlandseyjum, á vegum BBC, á
því hvaða kvæði ensk þættu bera af öllum öðr-
um, og voru síðan hundrað efstu kvæðin gefin
út í einni bók.2 Þar á meðal var eitt kvæði Aud-
ens, í nítjánda sæti. Vinsældir þessa eina kvæð-
is eru auðraktar. Árið 1993 var gerð á Bretlandi
kvikmyndin Fjögur brúðkaup og jarðarför og
fór víða. Við jarðarförina í myndinni fer syrgj-
andi ástvinur með kvæði. Og það er kvæðið sem
hreppti nítjánda sætið. Að auki tóku ljóðasöfn
Audens að seljast sem aldrei fyrr, er mér sagt, í
risavöxnum upplögum.
Það er til lag við þetta kvæði, eftir vin Audens
Benjamin Britten (1913–1976). Hann er mesta
tónskáld Breta á síðari öldum. Lagið var samið
til söngs í leikriti sem þeir Auden og Christop-
her Isherwood gerðu saman, The Ascent of F6
(F6 klifinn þar sem F6 er fjallstindur). Leikritið
kom út í september 1936, þegar Auden var rétt
kominn frá Íslandi, og var frumsýnt í London
26ta febrúar 1937. Í leiknum söng Hedli And-
erson lagið, en hún var eiginkona Louis Mac-
Neice, félaga Audens úr Íslandsferðinni. Í
ljóðabókum Audens er kvæðið nafnlaust. En í
nótum Brittens heitir það „Funeral Blues“
(„Jarðarfararblús“).
Þessu kvæði hef ég snarað á íslenzku, þannig
að það falli að lagi Brittens, í minningu Magn-
úsar Ásgeirssonar.
III Ef ...
Við nefndum atkvæðagreiðslu meðal ljóð-
elskra Breta fyrir sex árum um beztu kvæði
allra tíma á ensku. Kvæðið sem langflest at-
kvæði fékk er ekki eftir Shakespeare eða Mil-
ton eða Keats. Það er eftir Rudyard Kipling
(1865–1936) og heitir „Ef ...“. Þetta kvæði þýddi
Magnús. Þýðingin birtist með viðhöfn í fyrsta
hefti fyrsta árgangs Helgafells í marz 1942. Ef
til vill var henni öðrum þræði ætlað að vera eins
konar stefnuskrá hins nýja tímarits.
Helgafell var ljómandi tímarit, og það er jafn-
læsilegt í dag og það var á sínum tíma. Það var
líka óhrætt. Til dæmis var það helzta málgagn
svonefndra lögskilnaðarmanna sem vildu fresta
lýðveldisstofnun á Íslandi fram yfir stríðslok, til
að Danir og Íslendingar gætu kvaðzt með sóma,
en það var ekki ýkja vinsæl skoðun í landinu.
Heimildir:
1. Sögn Sveins Skorra Höskuldssonar prófessors.
2. The Nation’s Favourite Poems, Foreword by Griff
Rhys Jones, BBC, London 1996.
… OG EMJANDI SKÁLDIÐ
AFTUR AÐ LIST SINNI FLÝR
Á ALDARAFMÆLI MAGNÚSAR ÁSGEIRSSONAR
Magnús Ásgeirsson. Kolateikning Nínu Tryggvadóttur.
E F T I R Þ O R S T E I N G Y L FA S O N
Höfundur er prófessor í heimspeki
við Háskóla Íslands.
Og sæfarinn óskar: Æ, sé nú hver læknir mér fjarri!
og sjávarnöfn skáldanna fylgjast með honum um borð:
Borgleysa, Ótryggur, Svörfuður, Sorgin.
Og Synjun er Norðursins orð.
Og ómælissléttur hins blóðkalda veiðifisks blika,
og brim er í lofti af vængjum svífandi flokks.
Og undir þeim þjótandi, iðandi fána
sér eyjavinurinn loks
hilla undir von sína: og fannblikið nær honum færist,
fjöllin, nakin og seiðsterk, um vornætur dag.
Og undir þeim sandflæmi í ósum fljóta,
sem árskrímsl með blævængslag.
Svo megi hinn ágæti borgari furður hér finna:
fjöll eins og hófspor, eimgos sem bergrifa spýr,
gljúfur og fossa og hornbjargsins háu
höll, þar sem sjófuglinn býr.
Og höfundur sá, er vill kynna sér kjör manna og háttu:
kirkjustað biskups, sem troðið var niður í sekk,
laug mikils sagnfræðings, klettaey kappans,
sem kvíða langnættið fékk.
Og munið hinn seka, er fákur hans féll og hann mælti:
„Fögur er hlíðin og aftur um kyrrt ég sezt,“
konuna gömlu, sem vitnaði: „Eg var þeim
verst, er ég unni mest.“
Því Evrópa er fjarri, og einnig þá raunveruleikinn.
Við öræfa- og söguhefð landsins þeir kaupa sér dvöl,
sem dreymir sitt líf vera í óþökk, til einskis,
og andlitin fölu sem böl
of heitra tálkossa tærði, á þess öræfum laugast.
En tekst það? Því Heimur, Nútími og Lygi eru sterk.
Og hin örmjóa brú yfir beljandi ána
og bærinn í fjallsins kverk
eru eðlileg virki og herstöðvar héraðarígsins,
sem hollustu þegnsins bindur við merkjastein.
Og í bóndanum þarna, sem berst á hesti
út bakkans vallgrónu hlein,
sig þumlungar líka blóðið á bugðóttum leiðum
og biður um svör, eins og þitt: Finnst ei trúnaður neinn?
Ó, hvað dvelur réttlætið? Hver er gegn mér?
Ó, hví er ég stöðugt einn?
Svo kynnum þá heiminum eyna, hans eltandi skugga,
með oflæti í búningi og versnandi fisksölukjör.
Í afdal hvín jazzinn, og æskunnar fegurð
fær alþjóðlegt filmbros á vör.
Því hvergi á vor samtími vé þau, er allir unna.
Vor æska ekki neina staðhelgi, verndaðan reit.
Og fyrirheitið um ævintýraeyna
er eingöngu fyrirheit.
Tár falla í allar elfur og ekillinn setur
aftur upp glófa og bíl sinn á vegleysur knýr
í æðandi blindhríð, og emjandi skáldið
aftur að list sinni flýr.
W.H. AUDEN
Magnús Ásgeirsson þýddi.
FERÐ TIL ÍSLANDS