Lesbók Morgunblaðsins - 10.11.2001, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 10.11.2001, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. NÓVEMBER 2001 Ú R listaverkabók um Paul Gauguin frá sjötta áratug síðustu aldar datt gamalt og lúið blaðsnifsi, þegar skrifari hugðist glugga í heimildir um listamanninn. Bar í sér nokkurn fróðleik sem ekki hefur farið hátt, hins vegar hafa ýmsar ævintýralegar sögusagnir þótt öllu vænlegri til uppsláttar. Máli skipti að viðhalda orðræðu um ævintýramanninn, sem hefur verið harla lífseig, allar götur frá því tímaskeiði er Daniel de Monfreid, vinur og velunnari málar- ans í París, ráðlagði honum sárþjáðum að snúa ekki aftur frá Tahítí/Hivahoa í bráð. Gaf í skyn að það gæti haft neikvæðar afleiðingar fyrir orðstír hans. Sérvitra snillingsins sem lifði ein- angraður meðal frumbyggja frönsku Pólónesíu, langt langt á fjarlægu úthafi, einmitt þegar margt benti til að vegur hans færi að vænkast í Evrópu. Hafði líkast til fullkomlega rétt fyrir sér, hins vegar má leiða að því líkum að lífár málarans hefðu orðið fleiri ef honum hefði lánast að komast undir læknishendur í París. Þráði að lifa í það minnsta tvö ár í viðbót, taldi sig í miðju þróunarferli og eiga mikilvæga hluti eftir ógerða. Ódagsett blaðasnifsið upplýsti að einhvern tíma á sjötta áratug síðustu aldar kom út bókin Mette og Paul Gauguin á vegum Gyldendals í Kaupmannahöfn, eftir son hans Pola Gauguin listsögufræðing. Sjálfan útgáfudaginn gat að lesa ítarlega umfjöllun um viðburðinn í menn- ingarkálfi Politiken og mun ég hafa klippt hana út. Eftirtektarvert er að í upphafi segir frá því að á gamals aldri las Mette Sophie Gad, sem var skírnarnafn eiginkonunnar, bók með bréfum manns hennar til fyrrnefnds Daniels de Mon- freid, er út kom í París 1919. Eftir lesturinn sagði hún stillilega við Pola son sinn: „Þetta er ekki sá Paul sem ég þekkti.“ Mette naumast lá- andi, hún sem hélt sig hafa giftst metnaðarfull- um kauphallarmiðlara á framabraut, og hafði ekki hugmynd um hina listrænu æð sem í hon- um leyndist. Gauguin reyndist er fram liðu stundir fús til að fórna öllu fyrir og á listamann- inum hafði hún takmarkaðan áhuga. Samrýmd- ist ekki óskadraumum hennar um hinn trausta fjölskylduföður, og hefur trúlega fundist hún hafi keypt köttinn í sekknum, svikin. Skildi ekki manninn sinn eða vildi skilja, og vildi aldrei við- urkenna að vottur réttlætis eða skynsemi væri finnanleg í ákvörðun hans. Og Pola segir í bók sinni: „Við sama tækifæri gaf hún mér bréf föð- ur míns til sín með þeirri frómu ósk að ég læsi þau, og bætti við; ef þér finnst sem mér, að þessi bréf afhjúpi betur hina sterku en samsettu skapgerð föður þíns, skaltu sjá um að þau verði opinberuð.“ Allar götur frá 1926 höfðu bréfin verið varðveitt í Bibliothéque Doucet í París. Með útgáfunni var listsögufræðingurinn að sögn ekki að auka við nýjum staðreyndum um föður sinn, heldur hreinsa móður sína af ásök- unum um að ágirnd, kuldi og skilningsleysi hefðu átt sök á meinlegum örlögum málarans. Gauguin hafði kvænst Mette Sophie Gad í París 1873, er leiðin lá upp á við hjá hinum unga verðbréfamiðlara. Fjárhagurinn blómstraði og strax árið eftir kom frumburðurinn í heiminn sem þau skírðu Emil. En einmitt þá fara um- skiptin að gera vart við sig því sama ár fer grunnnámið sem hin unga Marguerita Arosa hafði vígt hinn hrausta og lífsreynda sjómann inn í, að skjóta rótum. Og sem meira er um vert, bera ávöxt. Atvik haga því að Gauguin kynnist málaranum Camille Pissarro sem varð hans fyrsti mikli áhrifavaldur og umgengst jafnframt nemendur við Academie Colarossi. Einkum hænist hann að einum þeirra, verslunarþjónin- um Claude-Emile Schuffenecker og með honum skoðar hann Louvre, ásamt því að þeir leita í sameiningu uppi myndræn viðfangsefni í ná- grenni Parísar. Ört vaxandi metnaður fylgdi í kjölfarið, og þegar 1876 átti Gauguin, sem nú var farinn að mála alla sunnudaga, í fyrsta skipti verk á op- inbera Salnum. Sama ár fæddist hjónunum dóttir sem þau gáfu nafn móður hans, Aline. Ár- ið 1879 gerist það að undirlagi Pissarro, sem fyrir alvöru var farinn að upplýsa Gauguin um hina mögnuðu leyndardóma málverksins, að verðbréfasalinn fer að festa sér málverk áhrifa- málaranna, impressjónistanna. Fyrr en varir prýða veggi hinnar ungu Gauguin-fjölskyldu sem nú bjó í glæsivillu við Rue Carel, verk eftir Camille Pissarro, Claude Monet, Alfred Sisley, Edgar Degas, Paul Cézanne, Edouard Manet, og Auguste Renoir. Vatnaskil eiga sér stað árið 1880, en þá fer Gauguin fyrir alvöru að einbeita sér að málverkinu og sama ár málar hann myndina Athöfn (Akt), sem fylgir þessari grein. Árið eftir tekur hann þátt í sýningu hinna óháðu (Salon des Indépendants) og fimmtu sýningu málara áhrifastefnunnar að 10 Rue de Pyrami- des. Fær mikið lof frá rithöfundinum og listrýn- inum Joris-K Huysman fyrir myndina, sem skrifar: ég hika ekki við að fullyrða að enginn samtímamálari túlki raunveruleikann á jafn áhrifamikinn hátt, undanskil þá ekki Courbet. Ekki svo lítið lof sem þá þegar var borið á sunnudagamálarann. Um leið ekki úr vegi að geta þess að á svipuðum tíma naut Gauguin til- sagnar Manets, sem hrósaði einhverju sinni verki nemanda síns óspart, gæti jafnvel hafa verið sama málverk, í öllu falli eitthvað hlið- stætt. Gauguin, sem í lítillæti sínu í fór allur hjá sér við lof meistarans umlaði þá; ég telst nú bara leikmaður. Þá sagði Manet; enginn er leikmaður (amatör) nema hann sé slakur málari! Á þessum árum kynntist Gauguin flestum framsæknustu málurum samtíðarinnar í Frans, þar á meðal Cézanne og verður fyrir sterkum áhrifum af Emile Bernard, var þannig á réttu róli í samtímamálverkinu. Á svipuðum tíma dynur á mikið hrun á kauphallarmarkaðinum (1882) sem gaf honum kærkomna ástæðu til að helga sig málverkinu enn frekar. Þar næst gefa árið eftir hið áður gjöfula lifibrauð upp á bátinn. Hinn velmetni listhöndlari Durand-Ruel hafði áður keypt af Gauguin þrjár myndir og hefur mjög trúlega virkað sem kröftug vítamín- sprauta á hinn upprennandi málara, sem gerist nú virkur á sýningavettvangi. Eyðir sumarleyf- inu hjá Pissarro í Ponthouse, málar og málar. En þrátt fyrir velgengnina fyrir raunsæja túlk- un á myndfletinum stendur hugur hans nær áhrifastefnunni sem verður fljótlega merkjan- legt. Og jafnvel þótt kauphallarhrunið hefði einnig drjúg áhrif á málverkamarkaðinn, var Gauguin nú fullviss um að innan tíðar gæti hann fest sig í sessi sem málari. Í sparnaðarskyni þá harðnar í dalnum tekur hann til bragðs að flytja með Mette og börnunum til Normandí og í lok ársins til Kaupmannahafnar. Reynir fyrir sér sem verslunarfulltrúi segldúkafyrirtækis nokk- urs en hefur ekki erindi sem erfiði. Mette tekur öllum áætlunum eigimannsins um frama á lista- brautinni sem heimskulegum draumórum, telur hann á góðri leið með að verða ófæran um að sjá fyrir fjölskyldu og finnur á þessum óvissutímum til meira öryggis á heimaslóðum. Hinn fyrsta maí 1885 er opnuð sýning á verk- um Gauguins í Kaupmannahöfn, sem vinir hans standa að, en hún olli slíku hneyksli meðal góð- borgaranna að henni var lokað á fimmta degi. Bitur og vonsvikinn heldur Gauguin aftur til Parísar og tekur Clovis son sinn með sér, dvelur fyrst um sinn hjá Scuffenecker-fjölskyldunni, en lifir þar næst við kröpp kjör. Kannski ekki að undra að upp frá því tekur hann að hata Dani eins og pestina og má helst ekki af þeim vita. Í því augnamiði að koma skikkan á fjárhaginn taka þau hjónin upp á því að selja eina og eina mynd úr safni sínu. Á áttundu og um leið síðustu sýningu málara áhrifastefnunnar 1896 er Gauguin mættur með heil 19 málverk ásamt einni lágmynd í tré. Þar skeði helst markvert að sviðsljósið beindist að málurum síðáhrifastefnunnar, postimpressjón- istunum, einkum málverki Georges Seurats, Sunnudagseftirmiðdagur á Grande Jatte. Gauguin er hér fljótlega með á nótunum, var þá þegar farinn að fjarlægjast upprunalegu kenn- ingar áhrifastefnunnar og fá áhuga á táknsæju túlkunarferli. Í Kaupmannahöfn hafði hann ver- ið farinn að punkta niður ferskar skoðanir á GLÖTUÐ PARADÍS Lífsferill málarans Pauls Gauguins er eitt ljósasta dæmi sem sagan greinir af að brennandi áhugi og metnaður eru atriði til úrslita í öllum greinum skapandi athafna. Þá stefnan hefur verið tekin á hæðina verður allt að víkja. Í seinni grein sinni gluggar BRAGI ÁS- GEIRSSON enn frekar í einstæðan feril þessa margþætta persónuleika. Scuffenecker-fjölskyldan, 1889 73 x 92 sm. Einkaeign, París. Sjálfsmynd með litaspjald, 1893, olía á léreft 96 x 71 sm. Arthur Sachs, París. Gauguin með Clovis og Aline í Kaupmannahöfn, bæði dóu þau í blóma lífsins. Málverkið sem fékk svo mikið lof á Sjöttu sýningu málara áhrifastefnunnar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.