Lesbók Morgunblaðsins - 10.11.2001, Blaðsíða 9
urmorð, reynir að falsa eigin dauðdaga með
því að gera hálfbróður sinn að líki sínu; svo vill
til að annar er hvítur og hinn svartur og samt
eiga þeir að vera nauðalíkir! Það var ekki auð-
velt að fá botn í þessa gátu, enda hafa þeir
McGehee og Siegel ekki komið nýrri mynd á
koppinn fyrr en nú.
The Deep End þykir öllu aðgengilegri en
Suture. Tilda Swinton leikur hversdagskonu
sem gerir sitt besta til að halda fjölskyldunni
saman; eiginmaðurinn er mikið fjarverandi
vegna vinnu sinnar og hún þarf sem næst að
ala börnin upp á eigin spýtur, en sonur hennar
á táningsaldri er byrjaður að falla fyrir freist-
ingum fullorðinslífsins. Einn góðan veðurdag
vaknar hún upp við líkfund í fjöru stöðuvatns-
ins fyrir neðan heimili þeirra. Hinn látni reyn-
ist vera elskhugi sonarins og hefst nú hröð og
illviðráðanleg atburðarás þar sem móðirin
grípur til ýmissa örþrifaráða til að vernda son
sinn fyrir morðrannsókn og sekkur sjálf æ
dýpra í blekkingafenið.
Eins og sjá má af þessu má nálgast á Kvik-
myndahátíð í Reykjavík núna breitt úrval af
þeirri fjölbreytni, sem þrátt fyrir allt ríkir í
bandarískri kvikmyndagerð, þá sjaldan við
fáum að njóta hennar. Og ógetið er sýninga á
sígildri framtíðarsýn Stanleys heitins Ku-
brick, 2001: A Space Odyssey, sem er á dag-
skránni í nýju filmueintaki í tilefni ársins. Þeir
sem ekki hafa séð þá mögnuðu mynd á tjaldi
ættu ekki að láta tækifærið framhjá sér fara.
Horfðu látinn um öxl
Fred Schepisi var einn af frumkvöðlum
áströlsku bylgjunnar svokölluðu í kvikmynda-
gerð, sem reis á 8. áratugnum, og gerði þá
myndir eins og The Devil’s Playground og
The Chant of Jimmy Blacksmith. Eins og
henti marga landa hans, Peter Weir, Phillip
Noyce, Bruce Beresford o.fl., seildist Holly-
wood snarlega eftir hæfileikum Schepisis og
ferjaði hann vestur. Þar hefur honum farnast
misvel, sennilega best í dramanu Plenty með
Meryl Streep, gamanleiknum Roxanne með
Steve Martin og A Cry in The Dark, einnig
með Streep. Ekki er gott að sjá sameiginleg
einkenni á efnisvali eða aðferðum Schepisis;
hann virðist gera myndir eftir tækifærum en
ekki verður hann sakaður um skort á fag-
mennsku.
Ný mynd hans á Kvikmyndahátíð bendir til
að hann hafi gert hana af þörf, því hann bæði
leikstýrir og skrifar handrit, byggt á verð-
launasögu eftir Graham Swift. Last Orders
eða Hinsta óskin státar af framúrskarandi
leikhópi, þar sem eru Michael Caine, Helen
Mirren, Tom Courtenay, Bob Hoskins, Ray
Winstone og David Hemmings, sem ekki hef-
ur sést í bitastæðu hlutverki síðan hann var
stjarna í London 6. áratugarins. Caine leikur
Jack Dodds, sem er nýlátinn en hafði borið
fram þá hinstu ósk að ösku hans yrði dreift yf-
ir hafið við bryggjusporðinn í Margate. Þrír
bestu vinir hans bruna með öskuna á Merce-
des Benz áleiðis til strandbæjarins þar sem
Jack hafði varið hveitibrauðsdögunum með
konu sinni (Mirren) og vonast til að geta varið
elliárunum. Á leiðinni rifja vinirnir (fjár-
hættuspilarinn Hoskins, fyllibyttan Hemm-
ings, fjölskyldumaðurinn Courtenay) í aftur-
hvörfum upp kynni sín af Jack, allt frá seinni
heimstyrjöldinni gegnum gleði og sorgir til
andlátsstundar. Ekkjan er ekki með í för
heldur glímir við sorg sína með því að heim-
sækja þroskaheftu dótturina sem Jack hafði
aldrei viljað gangast við.
Ken Loach fer til Hollywood
Varla er til breskari leikstjóri og ólíklegri
til að starfa í Hollywood en sá rammpólitíski
og róttæki Ken Loach. Á hátíðinni verður þó
sýnd ný mynd eftir Loach, sem hann gerði í
Los Angeles en hún er eins og við er að búast
ekki dæmigerð Hollywoodmynd.
Loach er pólitískur kvikmyndagerðarmað-
ur að því leyti að myndir hans fjalla gjarnan
um mannréttindi í víðum skilningi; hugur
hans er einatt hjá alþýðufólki, sem á undir
högg að sækja í samfélaginu. Sjaldnast er
hann prédikari; miklu fremur eru myndir
hans hlýjar, launfyndnar og manneskjulegar,
þótt gagnrýnin þjóðfélagsleg afstaða höfund-
arins fari ekki milli mála. Loach er sjaldan
sekur um einfaldanir. Myndir hans eru oftast
hráar og raunsæislegar, jafnvel heimilda-
myndakeimur af stílnum.
Lengst af hefur breskt þjóðfélag verið leik-
vettvangur Loach, einkum neðri stig þess, en
hann hefur einnig fengist við stórpólitísk við-
fangsefni eins og ástandið á Írlandi (Hidden
Agenda). Í tveimur síðustu myndum sínum
hefur hann fært landamæri sín út; Land and
Freedom gerðist í spænsku borgarastyrjöld-
inni og Carla’s Song var pólitísk ástarsaga,
sem gerðist í Skotlandi og Nicaragua. Hand-
ritshöfundur þeirrar síðarnefndu, Paul Lav-
erty, sem er mannréttindalögfræðingur að
meginstarfi, vann einnig með Loach að Bread
and Roses eða Brauð og rósir, sem Kvik-
myndahátíð sýnir nú og færir breska leik-
stjórann til Los Angeles. Laverty segir að
sagan eigi sér upptök þar sem hann stóð á
strætisvagnastöð í kvikmyndaborginni.
„Klukkan var um hálfþrjú að nóttu. Skyndi-
lega var ég umkringdur framandi hreimum
fólks, einkum kvenna, frá Mexíkó, Honduras,
El Salvador og Nicaragua. Við fórum að
spjalla saman. Þær unnu við hreingerningar í
bönkum, tryggingafélögum, lögfræðistofum
og hjá umboðsmönnum í kvikmyndabransan-
um, sem sagt í ýmsum glæsilegustu skrif-
stofum Los Angeles. Þær voru eins og her-
sveit að næturþeli í einkennisbúningunum
sínum.“ Bread and Roses spratt upp úr kynn-
um Lavertys af þessum konum og baráttu
þeirra fyrir réttinum til að stofna verkalýðs-
félag, sem kallaðist Justice for Janitors eða
Réttlæti til handa hreingerningafólki. Í miðju
sögunnar eru tvær systur af mexíkóskum
uppruna, leiknar af lítt þekktum leikkonum.
Það var margt sem heillaði Loach við þessa
sögu. Hún gerðist í Bandaríkjunum, þar sem
hann hafði aldrei starfað áður, og í Los Angel-
es, draumaverksmiðju auðvaldsins, þar sem
allt annars konar, vanræktur og lítt þekktur
heimur þreifst við hlið glansmyndarinnar.
„Og Bread and Roses er um hvernig er að
vera innflytjandi,“ segir hann.
Í leit að sjálfsmynd
Annar af athyglisverðustu og persónuleg-
ustu leikstjórum Breta á mynd á hátíðinni nú
er Sally Potter, sem á þeirri síðustu sýndi
okkur hina sjálfhverfu og hvimleiðu The
Tango Lesson. Potter hefur á ferli sínum gert
ýmsar tilraunir í formi og efni og heppnast
misvel. Enginn vafi er þó á að mynd hennar
Orlando (1993) er mikilfenglegt og frumlegt
verk.
Nýja myndin heitir The Man Who Cried
eða Maðurinn sem grét. Árið 1927 býr lítil
gyðingastúlka hamingjusöm með föður sínum
og ömmu í rússnesku þorpi. Ofsóknir vofa þó
yfir og faðirinn heldur til Bandaríkjanna þar
sem hann hyggst fyrst finna atvinnu og senda
svo eftir fjölskyldunni. Ekki líður á löngu uns
litla þorpið logar í ofbeldi og íbúarnir leggja á
flótta. Stúlkan vill leita föður síns í Ameríku
en hafnar í bát á leið til Englands. Þannig
hefst löng vegferð hennar í leit að týnda föð-
urnum.
„Hver er Maðurinn sem grét?“ skrifar Sally
Potter í aðfaraorðum myndarinnar. „Í þessari
sögu er hann ekki einn maður heldur margir,“
segir hún og nefnir ýmsar af persónum mynd-
arinnar sem verða á vegi stúlkunnar, menn
sem allir glíma við misrétti af ólíku tagi. „Sorg
þessara manna sjáum við gegnum augu ungu
stúlkunnar, sem sjálf er slitin burt frá heimili
sínu, menningu og tungumáli og hefur svo
langa leit að eigin sjálfsmynd og föður sínum.“
Sagan í Manninum sem grét er að miklu
leyti sögð með tónlist. Og leikhópurinn er ekki
af verri endanum –
Christina Ricci, Cate Blanchett, John Turt-
urro, Johnny Depp og Harry Dean Stanton.
Schlöndorff snýr aftur
Volker Schlöndorff er einn fremsti leik-
stjóri Þjóðverja af þeirri kynslóð, sem stóð að
endurreisn þýskrar kvikmyndagerðar upp úr
1970, manna eins og Wim Wenders, Rainer
Werner Fassbinder, Werner Herzog og konu
Schlöndorffs, Margarethe von Trotta. Þessir
ólíku leikstjórar deildu pólitískri róttækni en
öfugt við félaga sína gerði Schlöndorff ekki
miklar tilraunir með stíl og efni. Myndir hans
eru vönduð fagmennska af hefðbundinni sort
og sumar mjög vel heppnaðar, eins og Tint-
romman, sem m.a. hreppti Óskarsverðlaun,
og Glötuð æra Katharinu Blum. Schlöndorff
dvaldist og starfaði um tíma í Bandaríkjunum
og gerði þar m.a. Sölumaður deyr með Dustin
Hoffman og A Handmaiden’s Tale eftir hand-
riti Harolds Pinter. Á tíunda áratug síðustu
aldar varði hann nokkrum árum í endurreisn
gamla Babelsberg-kvikmyndaversins, en síð-
an þá hefur hann gert The Ogre með John
Malkovich í Þýskalandi og glæpamyndina
Palmetto í Bandaríkjunum.
Nú sýnir Kvikmyndahátíð hins vegar nýj-
ustu mynd Schlöndorffs í Þýskalandi, Die
stille Nacht dem Schuss, sem hér er kölluð
Þögnin eftir skotið, en með henni snýr hann
aftur til viðfangsefnis Glataðrar æru Kath-
arinu Blum, tíma hermdarverkastarfsemi
hópa á borð við Baader-Meinhof á 8. áratugn-
um. Titilpersónan, Rita Vogt, freistast til að
ganga til liðs við hermdarverkahóp vegna
réttlætiskenndar og ástar á einum í hópnum.
Nokkrum árum síðar, þegar hreyfingin er að
leysast upp, ákveður hún að fara huldu höfði
til Austur-Þýskalands, þar sem húnskiptir um
nafn með aðstoð Stasi-njósnara og fær sér
vinnu meðal verkalýðsins. Hún kynnist þar
ungri konu, Tatjana, sem vill ekkert frekar en
flýja yfir Múrinn, en áður en Rita veit af veld-
ur sjónvarpsfrétt því að hún verður sjálf að
leggja á flótta.
Þögnin eftir skotið hefur fengið betri dóma
en síðustu myndir Schlöndorffs, sem nú er
rúmlega sextugur, og bæði hann og aðalleik-
konurnar, Bibiana Beglau og Nadja Uhl,
hrepptu evrópsku kvikmyndaverðlaunin.
Listmálarinn Goya og
leikstjórinn Saura
Frá Spáni kemur ný mynd eftir góðkunn-
ingja kvikmyndahátíðargesta, Carlos Saura,
sem nú er að nálgast sjötugt. Saura hefur átt
fjölmargar prýðilegar myndir á hátíðinni alla
tíð, eins og Carmen, Blóðbrullaup, Ay Carm-
ela, Tango og Flamenco, sem notið hafa mik-
illa og verðskuldaðra vinsælda. Saura er með
merkustu leikstjóra samtímans. Hann hefur
næma tilfinningu fyrir mannlegu eðli,
ástríðum og breyskleika, afbragðs myndauga
og tóneyra, enda leika myndmálið og tónlistin
ekki minna hlutverk í mörgum verka hans en
persónur þeirra.
Nýja myndin, Goya, var lengur í undirbún-
ingi en nokkur önnur, sem hann hefur gert,
enda er viðfangsefnið ekki af auðveldara tag-
inu, ævi og list eins fremsta listamanns allra
tíma, Spánverjans Francisco de Goya (1746-
1828). Í handriti Sauras er Goya orðinn 82
ára, býr í útlegð í Bordeaux í Frakklandi með
Goya: Vegferð spænska heimslistamannsins.
Harry kemur til hjálpar: Háskaleg hjálparhella í sumarfríinu.
Elling: Laurel og Hardy í landi félagslegrar meðvitundar.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. NÓVEMBER 2001 9
Og mamma þín líka: Táningar á hormónaflugi.