Lesbók Morgunblaðsins - 08.12.2001, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 08.12.2001, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. DESEMBER 2001 É G er ekki viss um að margir úti í Noregi myndu kannast við sög- una sem sögð er í þessari bók þótt hún sé byggð á raunveru- legum atburðum sem áttu sér stað um sumar fyrir margt löngu þegar ég heimsótti afa minn og ömmu í Stafangri, minni mitt er mjög slæmt og ekki til að treysta á,“ segir Jón Kalman Stefánsson um nýja skáldsögu sína, Ýmislegt um risafurur og tím- ann. Jón Kalman hefur vakið athygli fyrir skáld- sögur þar sem skáldsagnaformið sjálft hefur öðrum þræði verið umfjöllunarefni. Sveitatrí- lógían Skurðir í rigningu, Sumarið bak við Brekkuna, sem var tilnefnd til bókmennta- verðlauna Norðurlandaráðs á síðasta ári, og Birtan á fjöllunum var, eins og nýjasta skáld- sagan, byggð á ævi höfundar. Allar hafa sög- urnar fjallað um heimsmynd í deiglu. Að þessu sinni flyst sögusviðið út fyrir landsteinana og sögumaður veltir fyrir sér hvernig megi höndla tilvistina þegar ekki er lengur hægt að treysta gömlu landakortunum þar sem heim- inum var skipt í vestur og austur og minnið, landakort hans um fortíðina, virðist jafn- skeikult, hvort tveggja brunnið í eldum tím- ans. Á skrifborði Hannesar Sigfússonar Við hittum Jón Kalman að máli í Mos- fellsbæ þar sem hann hefur skrifað síðustu tvær skáldsögurnar á skrifborði afabróður síns, Hannesar Sigfússonar skálds, en hann kemur við sögu í nýju bókinni. „Hannes keypti þetta skrifborð úti í Noregi á sjötta áratugnum,“ segir Jón. „Hann starfaði sem lagermaður í leirkeraverksmiðju og hon- um til mikillar gleði verður verkfall. Hann fær dágóða upphæð úr verkfallssjóði og þegar við bætist skáldastyrkur ræðst hann í að kaupa sér skrifborðið. Nú skyldi hann skrifa skáld- sögur. Þær létu þó bíða eftir sér en Hannes er nú tæplega hálfri öld seinna orðin persóna í skáldsögu sem skrifuð er á þessu skrifborði. Ég vona að hann sé ekki mjög ósáttur við það“ – Gunnar Gunnarsson er líka títtnefndur í sögunni en ég sé að þú ert með ritsafnið hans hér uppi í skáp hjá þér, reyndar er því raðað í öfugri númeraröð. Ertu aðdáandi eins og afi í sögunni sem er sílesandi í sjöunda bindi safns- ins? „Þetta er ritsafnið hans afa sem ég er með hérna uppi í skáp, ég á stundum erfitt með að raða hlutum rétt upp. Mig minnir að hann afi hafi verið ansi hrifinn af Gunnari, og við eigum það þá sameiginlegt. Ég les til dæmis Aðventu um hver jól í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, það er eins og að sötra úrvals maltviskí.“ – Titill sögunnar vekur óneitanlega athygli, hann er hógvær en samt svo ógnarstór. „Ég hef oft átt erfitt með að finna titla á bækurnar mínar. Ég man að önnur ljóðabókin mín var komin upp í prentsmiðju þegar mér tókst loksins að finna titil. Og það gekk ekki þrautalaust með þessa bók. Nokkrir vinir mín- ir reyndu, ásamt þeim Bjartsmönnum Jóni Karli og Snæbirni, að hjálpa til. Á endanum var það Óskar Árni Óskarsson skáld sem kom með tillögu um að hnýta saman risafururnar og tímann sem höfðu verið að þvælast í mörg- um titilhugmyndum mínum. Ég gaf honum kippu af tékkneskum bjór fyrir innsæið. Risafurur hafa lengi heillað mig. Þær uxu inn í mig við lestur á ljóði eftir bandaríska skáldið Louis Simpson sem heitir Risafurur og er til í góðri þýðingu Jóhanns Hjálm- arssonar. Risafurur verða afar gamlar, þær geta lifað af margar kynslóðir manna og heilu heimsveldin, þær eru traustar og virðast nán- ast eilífar eins og amma og afi í auga barns.“ Minnið og skáldskapurinn: lognar ævisögur – Í skáldsögum þínum hefurðu ekki farið leynt með að þú ert að vinna úr minningum. Í trílógíunni er það sveitalíf í íslenskum dal sem þú kynntist, eins og svo margir íslenskir jafn- aldrar þínir, af sumardvöl í sveit og nú byggir þú á sumarlangri æskudvöl hjá afa þínum og ömmu í Noregi. Margir skáldsagnahöfundar fóru þessa leið á tuttugustu öldinni, innlendir sem erlendir. Í leit að glötuðum tíma eftir Proust er sennilega þekktast þessara verka en hér heima leituðu Gunnar Gunnarsson, Þór- bergur og Hagalín á þessi mið. Hinar svoköll- uðu „drengjasögur“ Péturs Gunnarssonar, Einars Más Guðmundssonar og fleiri eru einn- ig dæmi um þetta og svo eru það skáldævisög- ur Guðbergs á tíunda áratugnum. Marga fleiri mætti nefna. Hvers vegna leita menn svona mikið í horfinn tíma í skáldskap og þá einkum bernskuna? Hvað liggur að baki hjá þér? „Ég heillaðist af hinni lognu ævisögu hjá Þórbergi. Í henni virtist losna um skáldsögu- formið, það leystist upp og Þórbergur virtist geta gert hvað sem er. Það kann að vera að ég sé að búa það til, en í minningunni er það þannig að ég var að endurlesa Ofvitann og Ís- lenskan aðal þegar ég var að glíma við að skrifa prósa í fyrsta sinn á níunda áratugnum. Ég gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir, skrifaði fullt af alvondum sögum. Mér fannst líka að skáldsagnaformið væri eitthvað svo stirt, eða lúið. Já, eða hreinlega ónýtt. Það var ekki fyrr en ég datt niður á þessar hálflognu sögur af sjálfum mér sem ég fann rétta lagið, rétta frásagnarháttinn. Ástæðan fyrir því að bernskan heillar sem söguuppspretta er held ég sú að fjarlægðin gefur manni ótakmarkað frelsi til að umskapa atburði. Minnið er brenglað, atburðir eru óljósir, eða það sem þú manst gerðist aldrei. Maður telur sér líka trú um að í æsku hafi allt verið frekar einfalt, en maður nálgast hana hins vegar úr flóknum heimi, sem fullorðinn maður með flókna vitund. Þetta getur orðið mjög frjór samfundur. Ég held að minni munur sé á skáldskap og minni en menn vilja vera láta. Hver maður er skáld í þeim skilningi að þegar hann rifjar upp atburð úr bernsku sinni eða jafnvel náinni for- tíð þá segir hann ekki rétt frá í öllum atriðum, minnið brenglar og frásögnin krefst líka ákveðinnar aðlögunar efnisins að formi. Þann- ig er stutt úr minningu yfir í skáldskap. Annars er það ekki tilviljun að höfundar leiti aftur og aftur á þessar söguslóðir. Bernskan leysir mann úr viðjum. Manni opn- ast heimar. Nefna mætti mörg dæmi þessu til sönnunar, Gorky náði miklum hæðum í sjálfs- ævisögu sinni. Fjallkirkjan er eitt albesta verk Gunnars Gunnarssonar, og þá um leið ís- lenskra bókmennta. Bestu bækur Hagalíns eru sjálfsævisög- urnar. Það er líkast því að sjálfsævisögu- formið leysi þessa höfunda úr viðjum skáld- sögunnar, leysi þá úr viðjum formsins, þeir fá meira frelsi. Gamalt og margnotað form getur auðveldlega kæft bæði skáldið og viðfangs- efnið. Frægasta dæmið hjá okkur er nátt- „ÞAÐ SEM ÞÚ MANST GERÐIST ALDREI“ Morgunblaðið/Einar Falur „Heimsmyndin hefur gjör- breyst á stuttum tíma, svo stuttum að það er eins og rof hafi orðið í sögunni. Í skól- anum lærði maður að heim- inum væri skipað með ákveðnum hætti. Maður tók þennan lærdóm mjög hátíðlega enda til prófs. Síðan breytist allt og þessi þekking verður að engu. Við þessu býst maður ekki. Heimurinn á vanda til að breytast í sögubókum en ekki í manns eigin lífi.“ Ýmislegt um risafurur og tímann nefnist ný skáldsaga eftir Jón Kalman Stefánsson. Í samtali við ÞRÖST HELGASON segir Jón Kalman hana sprottna af bjöguðu minni en í henni segir frá sum- ardvöl tíu ára pilts hjá afa sínum og ömmu í Noregi. Ævintýrin verða mörg en öðrum þræði er fjallað um breytta heimsmynd, hina einföldu heims- mynd æskunnar og flókna heimsmynd full- orðinsáranna þegar múrarnir eru fallnir.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.