Lesbók Morgunblaðsins - 08.12.2001, Blaðsíða 7
Teikning róaði þig. Penninn þinn skörungur úr Víti,
var eins og brennijárn. Viðfangsefnum
var þjakað inn í nýja tilveru, pyntuð
inn í lokastöðu. Meðan þú teiknaðir
fannst mér ég frjáls, í ró. Tíminn laukst upp
þegar þú teiknaðir markaðinn í Benidorm.
Ég sat nálægt þér eitthvað að krota.
Klukkustundir brunnu upp. Básaeigendurnir
voru alltaf að koma og gá hvort þú hefðir náð þeim rétt.
Við sátum á tröppunum í þvengjaskónum okkar
og vorum hamingjusöm. Ókunnugleiki okkar sem túrista
hafði afvanist, við þekktum orðið
venjur bæjarlífsins. Við vorum kunnuglegir
aðskotahlutir. Þegar hann var búinn með birgðirnar,
lék bananasalinn fyrir okkur
fiðlukonsert á bananastöngulinn sinn.
Allir þyrptust í kring að dást að teikningunni þinni.
Þú hélst þrautseig áfram að teikna og ná smáatriðum
þar til þú hafðir hneppt allt sviðið inn.
Hér er það. Þú bjargaðir að eilífu
annars glötuðum morgni okkar. Þolinmæði þín,
bit á vör og brúnir hleyptar, fönguðu mynd
af markaðstorgi sem var ennþá sofandi
aftur í miðöldum. Rétt áður
en það vaknaði og hvarf
undir hróp milljón sumarflækinga
og hamrastál glæsihótela. Eins og höndin á þér
fór undir Heptonstall þar sem eilíft myrkur
heldur í hana, meðan minn penni starfar áfram
aðeins tvö hundruð mílum fjær
og heldur í þessa minningu
um hvítdröfnótta, rauða höfuðklútinn þinn,
stuttbuxurnar þínar og hálferma peysu –
eina af þrjátíu sem ég dragnaðist með um Evrópu –
og langa, brúna fótleggi, sem teikniblokkin þín hvíldi á,
og þá djúphyglu ró
sem ég teygaði úr einbeittri þögn þinni.
Í þeirri djúphyglu ró
teyga ég nú af kyrrð þinni sem hvorugt
okkar fær raskað eða umflúið.
Hallberg Hallmundsson þýddi.
TED HUGHES
Höfundur var lárviðarskáld Breta en hann lést árið 1998.
TEIKNING
úrlega hefðbundna ljóðformið. En svo má líka
nefna bækur Böðvars Guðmundssonar, Híbýli
vindanna og Lífsins tré. Margt gott er í þess-
um bókum, en Böðvar virðist bara ganga inn í
form heimildaskáldsögunnar, reynir ekkert að
vinna með það og þessvegna er eins og eitt-
hvað vanti, eins og tungumálið sé gamalt og
nái ekki alveg utan um þann heim sem verið er
að lýsa. En ef maður vill nefna höfund sem
endurnýjar bæði formið og tungumálið, en
þetta tvennt virðist oft haldast í hendur, þá
væri það til dæmis Pétur Gunnarsson í Andra-
bókum sínum.“
Tveir múrar
– En bókin er ekki leit að glötuðum tíma?
„Kannski í aðra röndina en hér kemur
tvennt til. Sá sem leitar að glötuðum tíma bara
til þess að finna einhver augnablik til að týna
sér í, hann er sennilega þegar týndur. Leit að
horfnum tíma þarf að vera leit að skilningi á
þeim tíma og þar með þeim samtíma sem mað-
ur lifir sjálfur því hann er sprottinn af fortíð-
inni.“
– Tíminn er stór þáttur í nýju bókinni,
kveiktu nýliðin tímamót þessa sögu?
„Ég hafði í huga ákveðið rof í tímanum, ekki
endilega aldamótin sjálf heldur það rof sem
við höfum reynt á sjálfum okkur síðustu ár.
Heimsmyndin hefur gjörbreyst á stuttum
tíma, svo stuttum að það er eins og rof hafi
orðið í sögunni. Í skólanum lærði maður að
heiminum væri skipað með ákveðnum hætti.
Maður tók þennan lærdóm mjög hátíðlega –
enda til prófs. Síðan breytist allt og þessi
þekking verður að engu. Við þessu býst maður
ekki. Heimurinn á vanda til að breytast í sögu-
bókum en ekki í manns eigin lífi.“
– Bókin fjallar öðrum þræði um breytta
heimsmynd, um hina einföldu heimsmynd
æskunnar og kaldastríðsins og hina flóknu
heimsmynd fullorðinsáranna þegar múrinn er
fallinn.
„Þetta eru eiginlega tveir múrar, sá pólitíski
sem hrundi 1989 og svo hinn milli bernsku og
fullorðinsára sem allir verða að brjóta niður
fyrr eða síðar. Báðir skilja þeir að einfaldan
heim og flókinn. Sögurnar mínar eru kannski
tilraun til þess að skilja flókinn heim fullorð-
insáranna nú þegar múrarnir eru fallnir.“
Á tveimur sviðum
– Allar skáldsögurnar þínar eru á tveimur
sviðum, sögumaður segir sögu sína en hann er
líka sífellt að grípa inn í frásögnina með at-
hugasemdum um það hvernig hann segir sög-
una. Sagan er í stöðugri sjálfsskoðun. Ertu
með þessu að ítreka það við lesandann að hann
sé að lesa skáldsögu en ekki ævisögu?
„Sumir höfundar virðast eiga auðvelt með
að útskýra hvað þeir eiga við með hinu og
þessu í sögum sínum og ég velti því þá fyrir
mér hvort þeir séu að gera sér upp ætlanir og
markmið. Margir höfundar planleggja nefni-
lega ekki tæknileg atriði á borð við þetta held-
ur verða þau hluti af sögunni fyrir einhverja
nauðsyn, sagan sjálf á það til að kalla á hluti
sem höfundurinn getur ekki annað en látið eft-
ir henni. Söguvitund eða frásagnarvitund get-
ur mallað inni í manni svo mánuðum og árum
skiptir án þess að fram fari einhver skipulögð
vinna. Einn daginn er röddin fundin og sagan
hefst. Frægasta dæmið er líklega af Márquez
sem hafði lengi gengið með söguna um hundr-
að ára einsemd í maganum en ekki vitað
hvernig hægt væri að höndla hana, en svo var
einhverju sinni þegar hann var á göngu með
fjölskyldu sinni, milli þorpa í Mexíkó muni ég
það rétt, og þá kom sagan til hans, eða öllu
heldur frásagnaraðferðin. Ég held að honum
hafi verið svo mikið um að hann sneri við og
hljóp til baka, án þess að útskýra það fyrir
konu sinni.
En kannski er þessi tvöfeldni söguhöfundar
sem þú talar um flótti frá forminu, eða þá til-
raun til þess að víkka heim sögunnar, tilraun
til þess að nálgast lesandann og fá hann til
þess að efast eða sannfærast. En ég get hvorki
né vil boðið upp á neina einhlíta skýringu á því
hvers vegna sagan er skrifuð með þessum
hætti.“
– Skýringin er ekki sú að þú hafir vantrú á
skáldsöguforminu? Höfundar virðast sumir
finna sig knúna til þess að biðjast hálfvegis af-
sökunar á því að vera að skrifa enn eina skáld-
söguna en hafa ekki þess í stað fundið nýtt
form. Það hefur ekkert vafist fyrir þér að kalla
þetta skáldsögu?
„Ef ég er spurður segist ég alltaf vera að
skrifa eins konar skáldsögu. Jú, ég held mér
sé hálfilla við að kalla þetta skáldsögu. Annars
skeyti ég lítið um skilgreiningar, aðalatriðið er
að þetta virki, að það sé líf í textanum og hann
haldi áfram að lifa með lesandanum og öðlist
þar nýjar víddir. Ef það tekst er algert auka-
atriði hvaða tækni er beitt og hvað er satt og
hvað logið. Ég hef hinsvegar orðið var við að
þetta innbrot sögumannsins getur farið af-
skaplega í taugarnar á sumum lesendum.
Danskur gagnrýnandi, sem skrifaði um Sum-
arið bak við Brekkuna, er hún var tilnefnd til
Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, var
mjög pirraður á þessari frekju sögumanns og
talaði af þjósti um hvimleiðan og ofnotaðan
póstmódernisma.“
– Þú hófst ferilinn með þremur ljóðabókum
sem þú fékkst góða dóma fyrir, með byssuleyfi
á eilífðina (1988), úr þotuhreyflum guða (1989)
og hún spurði hvað ég tæki með mér á eyði-
eyju (1993). Hefurðu snúið baki við ljóðinu?
„Öll ljóð sem ég hef ort síðustu ár hafa leyst
upp í prósa. Ég sæki hinsvegar mikið í ljóð
annarra, þau eru mitt bensín. Ég er samt ekki
frá því að þetta sé frekar tími prósans en
ljóðsins. Það kom mikil bylgja nýrra og góðra
ljóðskálda á níunda áratugnum, Bragi Ólafs-
son, Gyrðir, Ísak, Kristín Ómarsdóttir og
fleiri. Tíundi áratugurinn var tími prósans en
ljóðið virtist standa í stað. Ég á við; það var
ekki mikil endurnýjun. Það má hinsvegar ekki
gleyma því að „eldri“ skáld eru að gera mjög
góða hluti. Geirlaugur Magnússon sendir til
dæmis frá sér sínar bestu bækur á síðasta ára-
tug. Og það eru góðar bækur.“
Einsýn bókmenntaumræða
– Þú nefndir Þórberg sem áhrifavald þinn.
Hallgrímur Helgason sagði í viðtali sem birtist
í Lesbók fyrir skömmu að Þórbergur væri
ekki skáld heldur meira sérkennilegur penni.
Þú ert ekki sammála?
„Mér virðist sem Hallgrímur sé einn af
þeim höfundum sem vilja ekki eða virðast eiga
erfitt með að skilja skáldskap sem er ólíkur
þeirra eigin. Hann virðist ekki ná utan um
Þórberg og gefur þessvegna lítið fyrir hann.
Lítið við því að segja, nema að samhryggjast
Hallgrími fyrir að geta ekki lesið frumlegasta
höfund okkar sér til ánægju. Annars ber að
varast að taka skilgreiningar á skáldskap of
hátíðlega, sitt sýnist hverjum. En ef skáld-
skapur er orð á pappír sem snerta mann og
lifa áfram í manni þá eru bækur Þórbergs
mikill skáldskapur. Ef við leikum okkur með
þetta hugtak sem Guðbergur kom fram með í
nýlegu Lesbókarviðtali – undirstöðuhöfundur
– þá hlýtur Þórbergur að vera slíkur. Þóberg-
ur skapar úr sjálfum sér og hann skapar eitt-
hvað nýtt, nýtt form, nýtt tungumál. Hann er
frumlegri en Halldór Laxness, þótt Halldór sé
náttúrlega meiri sagnahöfundur, svona í hefð-
bundinni merkingu orðsins.
Sýn okkar á íslenskar bókmenntir er for-
vitnileg. Við erum oft æði íhaldssöm og það er
ein ástæðan fyrir því að Laxness er slík of-
urstærð, ein ástæðan fyrir því að hann nálgast
stöðu Jónasar Hallgrímssonar á ljóshraða.
Mörg verka Halldórs eru gölluð, eins og
gengur með þessa stóru epísku höfunda, en
vegna einsýni okkar er hann hafinn yfir gagn-
rýni. Nánast eins og Sjálfstætt fólk eða Ís-
landsklukkan séu skrifuð af guði en ekki
manni.
Þórbergur hefur aldrei notið þessarar
stöðu, hann var of frumlegur, bækur hans eru
utan við skilgreiningar. Og hann skrifaði ekki
skáldsögur, sem er alveg ófyrirgefanlegt á Ís-
landi. Hann ætti að standa við hliðina á Hall-
dóri og Gunnar Gunnarsson líka. Við ræktum
þessa höfunda ekki nægilega vel. Við eigum
ekki svona stóra höfunda í kippum og veitir
ekkert af því að halda þeim á lofti. Verk Gunn-
ars og Þórbergs ættu að vera aðgengilegri,
það ætti stöðugt að vera að gefa þá út í kiljum,
en ekki svona múrsteinsútgáfum eins og gert
var með Fjallkirkjuna fyrir nokkrum árum.
Eða í einskonar jakkafataútgáfu eins og með
Svartfugl fyrir skemmstu. Íslenskar bók-
menntir hafa ekki efni á að stórhöfundar eins
og Þórbergur og Gunnar safni ryki. Og af-
hverju í ósköpunum er ekki búið að skrifa ævi-
sögu Gunnars?“
– Þú ert líka áhugamaður um Guðmund
Hagalín en hann hefur ekki verið í auga um-
ræðunnar heldur.
„Hagalín var mistækur höfundur en þó tölu-
vert betri en margir virðast álíta, og flestar
sjálfsævisögulegu bækurnar hans eru helvíti
góðar. Þetta eru átta eða níu bækur og fara
kannski að þynnast þegar á líður. En svona
fyrstu fjórar eða fimm eru góðar, og Fíla-
beinshöllin á eftir að vera klassík á sínu sviði.
Þessar bækur Hagalíns eru raunar náma fyrir
bókmenntafólk því í þeim eru margar bestu
lýsingar sem ég hef lesið á mörgum af lyk-
ilpersónum íslensks bókmenntalífs á tutt-
ugustu öld; Stefán frá Hvítadal, Þórbergur,
Jóhann Jónsson, Halldór Laxness, Jón
Trausti og fleiri og fleiri. Þeir koma gangandi
út úr bókunum. En það viðhorf virðist und-
arlega sterkt að þeir höfundar sem voru
hægramegin í tilverunni á sínum tíma hafi
ekki verið góð skáld. Þessi einsýni ríkir enn.
Kannski er sinnuleysi um að kenna og al-
mennum skorti á bókmenntaumræðu.
Kannski það sé spéhræðslan, að einhver
komi að þér við að lesa Jón Dan, Guðmund
Daníelsson, eða einhverja aðra nánast
gleymda höfunda. Og þess vegna vita alltof fá-
ir að þessir höfundar áttu sínar stundir, eru
kannski ekki fjallstindar en það eru ekki bara
tindarnir sem skipta máli heldur allt lands-
lagið. Fjölbreytnin, það er hún sem heldur lífi
í örsmárri þjóð.“
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. DESEMBER 2001 7