Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2001, Síða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2001, Síða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. DESEMBER 2001 3 J ÆJA, þá eru blessuð jólin tæplega hálfnuð og betri parturinn að baki. Mörgum er eflaust létt því við Íslendingar höfum löngum tekist á við jólin eins og hverjar aðrar náttúruhamfarir – sett undir okkur hausinn og barist eins og heiðarbóndinn Bjartur á móti gjörningaveðri á fjöllum. Jólin bresta á hér á Fróni og skulu hafast af með þéttu áhlaupi; gamli góði vertíðarandinn, sem er þjóðarsálinni svo tamur, er enn vel nýtur til síns brúks. Það hefur reyndar nokkuð örlað á því að fólk villist til að svíkjast undan þessum hamhleypumerkjum, því á aðvent- unni stigu nokkrir mætir umbótamenn fram og hvöttu landsmenn til að taka því rólega, slaka á og njóta augnabliksins; að- ventan væri nefnilega tími slökunar og íhygli. Einhvern tímann hefði slíkur boð- skapur þótt jaðra við guðlast á heimilum stórtækra húsmæðra, sem aldrei komu fram undir 17 sortum. En reyndar veit ég að margir sáu við þessum tilraunum til að draga úr jólastreitunni og tóku aðventuaf- slöppunina með trompi; þeyttust á milli tylftar tónleika og kyrrðarstunda og dæstu stoltir, en hreint örmagna af afslöppun, á Þorláksmessu. Jólin eru tími drauma, dulúðar, kyrrðar og sælu við að fá langþráðar óskir upp- fylltar. Þannig voru í það minnsta bernsku- jólin í minningunni. Það vill stundum brenna við að léttirinn yfir afstöðnu jólafári sé blandinn óljósri vonbrigðatilfinningu, sem erfitt er að henda reiður á. Hátíðleik- inn var ekki alveg jafn hátíðlegur og okkur minnti að hann væri, kyrrðin ekki alveg eins friðsæl, maturinn ekki eins ólýsanlega bragðgóður, gleðin yfir gjöfunum dauflegri en við vildum. Draumurinn hafði ekki ræst, eins og átti þó að vera sjálfgefið miðað við alla fyrirhöfnina. Gamli biskupinn, herra Sigurbjörn Ein- arsson, sagði í viðtali við Freystein Jó- hannsson hér í Morgunblaðinu skömmu fyrir jól, að hann hefði áhyggjur af því að helgi jólanna væri á undanhaldi þar sem hávaðinn og erillinn í lífi okkar nútíma- manna yfirgnæfði hinn eiginlega boðskap. ,,En það er sennilega erfiðara að fá fólk til að staldra við og hugsa, heldur en áður. Kyrrðin er horfin; hljóðleikinn. Þegar búið er að úthýsa kyrrðinni, þá verður erfitt að hlusta og hugsa djúpt.“ Þetta eru svosem ekki ný sannindi en líkt og oft áður gæðir þessi merki kennimaður hugsunina skýrari og dýpri merkingu. Og það er ekki aðeins heilagleikinn og trúarupplifunin, sem þarf næði og hljóð; draumar þurfa einnig alúð og athygli hugans til að lifna við. Ég held nefnilega að sú hætta steðji að um þessar mundir að við missum hæfileik- ann til að láta okkur dreyma, eiga óskir sem tekur langan tíma að fá uppfylltar, láta okkur langa og hafa eirð til að dvelja við til- finninguna lengur en eitt stundarkorn. Hin stórkostlegu allsnægtafjöll, taumlaus straumur upplýsinga, orða, hljóða, mynda, stórsjóir af sértilboðum og afsláttarkjörum í landinu Gripið og greitt ... seinna, hafa sannanlega gert okkur rík, menntuð og upplýst. Í hinu póstmóderníska ástandi (því tæplega er hægt að tala um veruleika í því samhengi), sem góðkunningjar Lesbók- arinnar ættu að vera orðnir vel að sér um, er allt berlega sýnilegt og fáanlegt án minnstu fyrirhafnar. Draumarnir liggja í háum stöflum á lagerum út um allan bæ og bíða eftir því einu að við uppgötvum þá, því fæsta vissum við fyrir að okkur langaði til að dreyma. Þessir draumar koma jafnvel útbúnir með sjálfvirkum uppfyllingarbún- aði. Biðin tilheyrir þannig horfnum tíma, hin eina sanna jólastemmning er göldruð fram með því að veifa töfrakortinu og leggja við nafn seiðkarlsins mikla frá Vísa. Allt væri þetta með hinum mestu ágætum ef þetta offramboð á skyndidraumum og fyrirfram uppfylltum óskum væri ekki að ganga af draumlífi okkar dauðu. Þannig er eftirvæntingin hreint samviskulaust kæfð í fæðingu, hið sjaldgæfa og einstaka verður hversdagslegt og raunar merkingarlaust í fjöldaframleiðslunni; ákefðin og gírugheitin leiða til þess að við rænum okkur sjálf tæki- færinu til að njóta draumanna, sem lífs- hamingja okkar og mennska byggist á. Draumurinn, sem enn er sannur, er þrá- in eftir bernskujólunum. Hin kaldhæðn- islega staðreynd er hins vegar sú að því meira sem við streitumst við að endurskapa hina einu sönnu jólatilfinningu, því fjarlæg- ari verður hún. Hátíðarsteikin, sem var í ár nánast ófáanleg og keypt á 5.000 kr. kílóið, borin fram á nýkeyptu postulíni í fé- lagsskap við tug for-, milli- og eftirrétta, hefur einhvern veginn ekkert í minninguna um ilminn af hangikjötinu, sem kom tár- unum til að renna niður eftir kinnunum. En kannski er þetta einmitt eðli hinna sönnu drauma; þeim er ekki ætlað að rætast nema í kyrrð hugans og stillingu hjartans. Og þá sýnist mér að við vertíðarmenn gætum átt langt í land. Áramótin eru í mínum huga jafnvel enn heilagri draumatími en sjálf jólin. Þá reynir maður ekki einvörðungu að líta inn á við og ydda viljann til að verða betri og lastaminni manni, heldur getur maður hugsað svolítið stærra og fyllst göfugum hugsjónum og innblæstri fyrir hönd þjóðar sinnar – eða jafnvel mannkyns alls. Og þjóðum er einnig lífsnauðsynlegt að kunna að láta sig dreyma. Draumar þjóða eru sameining- artákn og geta verið drifkraftur til góðra verka. Þær getur dreymt um frelsi undan oki annarra, lýðréttindi og lausn frá eigin harðstjórum, mannsæmandi lífskjör fyrir eigin þegna, aukna menntun eða betri áheyrn og virðingu sér til handa í samfélagi þjóðanna. Draumar sumra þjóða hafa reyndar á tíðum ekki verið svo göfugir og snúast þá gjarnan upp í martraðir fyrir þær sjálfar og aðra. En það er önnur og lengri saga. Hvaða drauma dreymir íslensku þjóðina á þessum áramótum? Við njótum velmeg- unar, öryggis, sjálfstæðis og fullveldis með- al þjóða. Hver er sú ósk, sem þjóðin ber í brjósti og er tilbúin að vinna í samstillingu að því að reyna að uppfylla? Dreymir fólkið í landinu sama draum og ráðamenn við Austurvöll? Er það e.t.v. draumur um lægra vaxtastig, hærra gengi, betri rekstr- arafgang eða aukinn kaupmátt? Ég ætla að sýna dirfsku og trúa því að íslensku þjóðina dreymi enn og sá draumur sé um dýpri hugarkyrrð, meiri alúð og ríkara andlegt líf en á árinu sem er að líða. Það er minn ný- ársdraumur. Gleðilegt nýtt ár! HVAR ER DRAUMURINN? RABB S V A N H I L D U R K O N R Á Ð S D Ó T T I R s k o n n @ m m e d i a . i s BENEDIKT GRÖNDAL VÍSUR Máninn skein á marinn blá, mundi skemmta höldum, vindur svalur vestri frá velti löngum öldum. Stjarnan yfir lagar leið langan þreytti boga; fögur ljósa fimbulreið flaug í bylgjuloga. Stóð ég fram á stafnajó, stundi þungan alda – örn og svanur ásamt fló yfir djúpið kalda. Afl og fegurð ásamt fer yfir lífið manna, feykir burtu feigum her fölsku spámannanna. Benedikt (Sveinbjarnarson) Gröndal (1826–1907) var skáld og fræðimaður. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 5 1 . T Ö L U B L A Ð - 7 6 . Á R G A N G U R EFNI Hugarfarsannáll Blaðamenn og gagnrýnendur á Morg- unblaðinu hafa skrifað greinar um strauma og stefnur í íslenskri menningu á árinu sem er að líða. Höfundar eru Árni Matthíasson, Árni Þórarinsson, Bergþóra Jónsdóttir, Fríða Björk Ingvarsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir og Þröstur Helgason. Feita mamman nefnist smásaga eftir Auði Jónsdóttur sem segir frá móður sem ekki fellur eins og flís að samfélagi samtímans en á úrslitastund reynir hún allt hvað hún getur til að hljóta viðurkenningu sonar síns. Álit Lesbók leitaði álits nokkurra karla og kvenna um það sem hæst hefur borið í menningarlífi landsmanna á árinu. Margt ber á góma eins og vænta má. Rotterdam er önnur menningarborga Evrópu árið 2001. Það sýður og kraumar í hlutunum í borginni við hornið á Hollandi, þótt íbúun- um fjölgi lítið. Djörfung og metnaður er til staðar líkt og fram kemur í viðtali við Bert van Meggelen, sem var heilinn að baki verkefnisins; Rotterdam, menningarborg Evrópu 2001, Bragi Ásgeirsson ræddi við hann og víkur að fleiru. FORSÍÐUMYNDIN er af hluta málverksins Halló geimur eftir Finn Jónsson. Verkið er frá árinu 1962 og er í eigu Listasafns Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.