Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. DESEMBER 2001 7
U
NDANFARIN ár hefur orð-
ið mikil breyting á því
hvernig tónlist verður til,
bæði á lagasmíðunum sjálf-
um og upptöku, útgáfu og
dreifingu á tónlist. Svo er
löngu komið að ekki þarf að
vera fullnuma í hljóðfæra-
leik til að búa til lög og taka upp, því tölvu-
tæknin gerir mönnum kleift að setja saman
tónlist án þess að kunna á hljóðfæri eða þekkja
haus eða sporð á tónbilum, tóntegundum eða
hverskyns tónrænu. Að sama skapi geta menn
síðan tekið tónlistina upp jafnharðan og hún
verður til án þess að hafa nema tiltölulega
ódýran búnað í heimilistölvunni, brennt síðan
á disk eftir þörfum, smíðað umslag, prentað út
á ódýrum litaprentara og gefið út. Ekki þarf
að kosta milljónum í upptökur og útsetningar,
framleiðslu og prentun og skatturinn fær ekki
neitt; sannkallaður heimilisiðnaður. Þessa sá
og stað á árinu; sennilega hefur á þriðja tug
tónlistarmanna gefið út diska út með þessum
hætti og örugglega tugir sem létu lítið á sér
kræla, seldu sínum nánustu og vinum. Ógetið
er þeirra sem létu sér nægja að dreifa tónlist
sinni yfir Netið. Byltingin er hafin og ekki
verður aftur snúið.
Ár samruna
Æ meira ber á því að tónlistarform séu að
renna saman, að hefðbundin tilrauna rokk- og
danstónlist hafi á sér yfirbragð sígildrar tón-
listar og/eða nýti sér þætti úr hefðbundinni
klassík til að skapa eitthvað nýtt. Á liðnu ári
hefur þá þróun oft borið á góma þegar fjallað
er um helstu tónlistarmenn okkar nú um
stundir, sama hvaða kvarði er lagður við,
Björk Guðmundsdóttur og Sigur Rós. Sigur
Rós er gott dæmi um hljómsveit sem er með
skírskotun langt út fyrir sinn hefðbundna
áheyrendahóp sem menn spáðu fyrirfram að
væri nokkur hundruð manna hér á landi og
einhverjar þúsundir erlendis (þess má geta að
í Evrópu hafa selst af síðustu plötu Sigur Rós-
ar um 300.000 eintök). Vegur hljómsveit-
arinnar fór vaxandi á árinu ytra og flestir þeir
sem til hennar heyrðu hrifust af og gripu iðu-
lega til hástemmdra lýsingarorða að lýsa tón-
listinni.
Ár Bjarkar
Sigur Rós ferðaðist um heiminn á árinu með
strengjasveit, en Björk Guðmundsdóttir gekk
enn lengra á sínum tíma, því þarsíðustu plötu
sína hljóðritaði hún með íslenskan strengja-
oktett í aðalhlutverki í undirleik og á nýrri
plötu hennar, Vespertine, sem hún sendi frá
sér á þessu ári, voru strengir í hávegum og
einnig kórsöngur. Á tónleikaferð til að kynna
plötuna var Björk síðan með fullskipaða sin-
fóníuhljómsveit og grænlenskan stúlknakór
sér til halds og trausts, aukinheldur sem raf-
tónlistarmenn skreyttu tónlistina takti. Á ferð
sinni um heiminn hefur Björk lagt höf-
uðáherslu á að leika í óperu- og tónleikahúsum
til að tryggja sem bestan hljóm, en hún er líka
öðrum þræði að má út hefðbundin skil á milli
þess sem menn kalla gjarnan sígilda tónlist og
dægurtónlist; undirstrika að skiptingin er
hlaðin viðteknu gildismati sem skaðar hina
svokölluðu sígildu tónlist meira en þá tónlist
sem setja á skör lægra. Björk er klassískt
menntuð, eins og það er kallað, þótt náms-
ferillinn hafi ekki verið langur, og eftir því sem
hún segir sjálf er henni jafn eðlilegt að hlusta á
tilraunakennda nútímaklassík og tilrauna-
kennda danstónlist. Tónlistarmenn dagsins í
dag eru margir menntaðir, sumir með margar
gráður og stig í klassísku námi, en kjósa engu
að síður að leika tónlist sem þeim hefur iðu-
lega verið kennt að fyrirlíta. Þeir hlusta á og
búa til tilraunatónlist og noise, raftónlist og
rokk, velta fyrir sér formum og lögmálum og
reyna að brjóta allar reglur.
Ár rappsins
Fyrir alllöngu var alsiða að ungmenni og
foreldrar þeirra hefðu gaman af sömu eða
svipaðri tónlist, rokki sem sótti innblástur í
tónlistarstrauma fyrri tíma. Þá kom rappið til
bjargar, enda fá vopn betri í valdabaráttunni á
heimilinu en hávær tónlist; nokkuð sem hefur
nýst kynslóðum vel frá því rokkið nam land á
Íslandi 1956. Rappáhuginn var talsverður hér
fyrir nokkrum árum, en lítið bólaði á hljóm-
sveitum, eða réttara sagt rappsveitum; það er
ekki mikið um hljóma í rappinu, sem voru að
vinna úr áhrifunum á við það sem gerðist í
rokkinu. Víst voru nokkrar sveitir sem reyndu
að komast sem næst því sem þær heyrðu, og
tókst býsna vel sumum, en löng var biðin eftir
því að til yrði nýtt íslenskt rapp. Eftir virðing-
arverðar tilraunir ýmissa á undanförnum
misserum sprakk svo allt út árið 2001; Af-
kvæmi guðanna, XXX Rottweilerhundar,
Messías, Sesar A og Skytturnar voru nokkrar
af þeim sveitum sem létu á sér kræla á árinu
og allir/allar nema ein sendu frá sér disk, sum-
ar heimabrenndan með þrem til fjórum lögum
sem seldur var í Hljómalind, en aðrir/aðrar
geisladiska í fullri lengd með almennri dreif-
ingu um land allt. Tónlistin á diskunum var
ólíkrar gerðar og inntak texta ekki síður; ekki
var bara að menn væri að yrkja um typpið á
sér, sem er algengt og í sjálfu sér hið besta
mál, heldur voru menn líka að glíma við til-
ganginn með þessu streði öllu, mótsagnirnar
sem mæta okkur við hvert fótmál, pólitísk
álitamál og svo má telja. Framundan eru góðir
rappdagar.
Noise, raftónlist, rapp og rokk
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
„Hvað svo? og þeirri spurningu hefur ekki verið svarað.“
Á
RIÐ 2001 hefur ekki verið
ár byltinga eða stórfelldra
breytinga í íslensku tón-
listarlífi. Hins vegar má
vel greina áframhald þró-
unar sem hefur staðið yfir
í nokkur ár, sem snýr
annars vegar að tónlist-
arsköpun og hins vegar að flutningi tónlistar.
Margt bendir til að við stöndum enn á tíma-
mótum í margvíslegum skilningi, og óhætt að
segja að sjaldan hafi verið jafn spennandi að
fylgjast með því hvert tónlistin leiðir okkur á
nýrri öld.
Á hverju ári má sjá talsverðar framfarir í
tónlistarflutningi, og íslenskir tónlistarmenn
verða æ betur menntaðir. Það má segja að
það hafi verið lán, hvað margir hafa sótt nám
til annarra landa, og borið hingað þá kunn-
áttu og þekkingu sem best þekkist í útlönd-
um. Gamalgrónir tónlistarhópar verða jafn-
betri og sterkari á velli, og Sinfóníuhljómsveit
Íslands hefur verið sérstaklega lánsöm að ná
góðum ungum hljóðfæraleikurum til liðs við
sig, og er góður árangur hljómsveitarinnar
tvímælalaust að miklu leyti því að þakka.
Tónleikahaldarar standa betur að verki en
áður var, og í ár hafa Salurinn í Kópavogi og
Ýmir í Skógarhlíð sýnt að miklu skiptir að
listrænir stjórnendur hafi umsjón með skipu-
lagningu tónleikahalds og velji aðeins það
besta sem í boði er til flutnings á tónleikum
sínum. Sama gildir um þær tónlistarhátíðir
sem haldnar eru á sumrin; þar hafa vandaður
undirbúningur og fagleg vinnubrögð skilað
frábærum tónleikum okkar bestu listamanna
og erlendra gesta. Kammersveit Salarins var
stofnuð á árinu og hafa tónleikar hennar hlot-
ið afbragðs góða dóma. Tvennir tónleikar í
Salnum eru meðal þess sem uppúr stendur á
árinu; tónleikar Þórunnar Óskar Mar-
inósdóttur víóluleikara í mars og tónleikar
Bjarna Thors Kristinssonar bassasöngvara í
september. Í Ými var ráðinn nýr listrænn
stjórnandi á árinu, og fernir söngtónleikar
þar, tónleikar í vor og í haust eru með því
allrabesta sem hér heyrist á tónleikum.
Sinfóníuhljómsveit Ísland missti aðalstjórn-
anda sinn, Rico Saccani á árinu, ári áður en
samningi hans við hljómsveitina átti að ljúka.
Hljómsveitin stendur því á tímamótum; val á
hljómsveitarstjóra er erfitt, og til hans þarf
að gera meiri kröfur en gerðar voru þegar
Saccani var ráðinn. Nýr hljómsveitarstjóri
þarf að vera víðsýnn í tónlistarsmekk og þarf
ekki síst að hafa vilja til að kynna sér ís-
lenska tónlist og koma henni á framfæri. Ís-
lenskir kórar hafa átt góðu gengi að fagna á
árinu, og óvenju margir þeirra hafa hreppt
verðlaun í samkeppni á erlendri grund. Ný-
stofnaður stúlknakór Langholtskirkju, Grad-
uale nobili, vann mikla sigra á þessu fyrsta
starfsári sínu, fékk gríðargóðar viðtökur á
tónleikum hér heima, vann til verðlauna í
keppni á erlendri grund og hefur nú verið til-
nefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna
sem flytjandi ársins. Það verður að kallast
góður árangur á einu ári. Íslenskir kórar
njóta þess að mikið er samið af kórtónlist á
Íslandi, og virðist það haldast í hendur, að því
betri sem kórarnir verða, skapast meira úrval
af góðri íslenskri kórtónlist.
Í tónlistarsköpun virðist fátt nýtt vera að
gerast. Tónlistin virðist vera sú listgrein sem
lengst tekur að nema þá strauma og stefnur
sem aðrar listgreinar eru farnar að hrærast í.
Póstmódernisminn sem er að verða gam-
aldags í öðrum listgreinum, – sérstaklega
myndlistinni – er rétt svo farinn að nema
lönd í tónlistinni. Þar sjást merki ýmiss konar
tilrauna með samruna stíltegunda, afturhvarf
til gamalla hefða og innleiðingu fjöltækni og
margmiðlunar. Þó eimir eftir af módernisma
tuttugustu aldarinnar og „erfiðu“ tónlistinni;
jafnt hjá yngri tónskáldum sem eldri. En allt
er viðurkennt og allt má, og fráhvarfið frá
módernismanum hefur tekið á sig mynd mun
„áheyrilegri“ tónlistar, jafnvel rómantískrar
og tónskáld virðast ófeimin við að skapa það
sem þykir „fallegt.“ Margt gott hefur komið
fram í íslenskri tónlist á árinu; aðeins lítill
hluti nefndur hér: Passía Hafliða Hallgríms-
sonar samin í tilefni Kristnihátíðar; Requiem
eftir Szymon Kuran sem vakti mikla athygli í
vor; ...into That Good Night..., eftir John
Speight sem frumflutt var á Háskóla-
tónleikum í Norræna húsinu snemma á árinu,
en flutningur jólaóratoríu Johns Speight nú
milli jóla og nýárs verður vafalítið stór við-
burður. Karlakór Reykjavíkur efndi til tón-
smíðakeppni á síðari hluta ársins. Þar átti
John Speight verðlaunaverk, en auk hans
unnu til verðlauna Gunnsteinn Ólafsson,
Hildigunnur Rúnarsdóttir, sem vann til
tvennra verðlauna, og Stefán Arason, sem
einnig afrekaði það á árinu að vinna til Evr-
ópsku tónskáldaverðlaunanna fyrir verk sem
hann samdi í námslok í Tónlistarskólanum í
Reykjavík sl. vor. Verk hans vakti mikla at-
hygli erlendis, þótti í senn fallegt og nýstár-
legt, og verður Stefán vafalítið eitt af þeim
ungu tónskáldum sem vel verður fylgst með á
næstu misserum. Útgáfa á íslenskri tónlist
hefur verið með besta móti. Þar hefur
Smekkleysa tekið af skarið og sýnt að hægt
er að sinna útgáfu íslenskrar tónlistar af öllu
tagi; jafnvel þeirrar sem er kannski ekki sér-
lega söluvæn, sé áhugi og vilji fyrir hendi. Ís-
lensk tónlist er á tímamótum í margvíslegum
skilningi. Enn virðist ekki liðin hjá sú kreppa
sem kom í kjölfar módernismans þar sem all-
ar mögulegar og ómögulegar leiðir voru
reyndar til frumleika í nýsköpun. Þá var
spurt: Hvað svo? og þeirri spurningu hefur
ekki verið svarað. Björk hefur yfirgefið hefðir
bæði klassíkur og popptónlistar og náð að
skapa sér hljóðheim sem lýtur öðrum og nýj-
um lögmálum og nýtur um leið mikillar við-
urkenningar og vinsælda. Plata hennar,
Vespertine, sem kom út á árinu, var senni-
lega það ferskasta í tónlist samtímans.
Kannski að svokölluð klassísk tónskáld þurfi
að kasta hefðunum frá sér að fullu til að kom-
ast á næsta stig, þar á meðal sínu þyngsta
kerfi, nótnaritunarkerfinu sem þau eru ríg-
föst í, til að kanna ný mið eins og Björk hefur
gert; og leita eftir hljóðum og blæ á fleiri
miðum en í sígildum hljóðfærum. Þetta hafa
raftónskáld gert að nokkru leyti, án þess þó
að hafa tekist að skapa tónmál sem hrífur
hinn almenna hlustanda með sér. Í Björk er
vaxtarsproti, hann þyrfti maður að fara að sjá
víðar.
Bið eftir nýjungum
Íslensk tónlist er á tímamótum í margvíslegum skilningi. Enn
virðist ekki liðin hjá sú kreppa sem kom í kjölfar módernismans
þar sem allar mögulegar og ómögulegar leiðir voru reyndar til
frumleika í nýsköpun. Þá var spurt: Hvað svo? og þeirri spurn-
ingu hefur ekki verið svarað.
begga@mbl.is
Tó n l i s t
B e r g þ ó r a J ó n s d ó t t i r
Tó n l i s t
Á r n i M a t t h í a s s o n