Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2001, Page 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. DESEMBER 2001
Saga samtímamenningar er ómögulegt verkefni en samt eitthvað sem menningarblaðamenn
og gagnrýnendur glíma við á hverjum degi. Í sex greinum stikla jafnmargir blaðamenn og
gagnrýnendur Morgunblaðsins á stóru í menningarlífi ársins. Ekki er um yfirlit að ræða heldur
var lagt upp með að greinarnar yrðu eins konar hugarfarsannálar. Útkoman gefur væntanlega
einhverja hugmynd um strauma og stefnur í menningarlífi landsmanna á árinu.
Í
INNGANGI að sjálfsævisögu sinni,
Sögukaflar af sjálfum mér, veltir
Matthías Jochumsson meðal annars
fyrir sér eðli og takmörkum end-
urminninga, greinarmun innra lífs og
ytra og átökum milli helstu kennisetn-
inga nítjándu aldarinnar sem hann
kallar raunspeki og spiritúalismus. Þó
að inngangurinn sé ritaður á öðrum áratug
síðustu aldar orðar hann margt sem íslenskar
bókmenntir eru að fást við enn í dag. Samspil
sjálfs og texta vefst fyrir Matthíasi eins og
þeim höfundum sem eru að glíma við ævisögu-
formið nú. „Vitund vor er sundurdeild,“ segir
Matthías fullur efasemda um að höfundur geti
náð utan um sjálfan sig í texta. Minnið er líka
„harla misjafnt að trúleik, festu og auðlegð,“
bætir hann við og veltir upp hugmyndinni um
„skáldævisögu“: „Skáldsögu um æfi mína
kynni ég að hafa getað samið og gjört svo úr
garði, að sviplík skýring innri sögu minnar
hefði framkomið, en það er hvorttveggja, að
slíkt fyrirtæki er mér nú eflaust orðið ofvaxið,
enda mundi í þeirri lýsingu hafa ýmislegt
hlotið að birtast, sem vandi hefði orðið að
greina frá í venjulegri hugsmíðasögu.“
Meginmáli ævisögunnar lýkur þar sem
Matthías stendur á tímamótum í ævi sinni
aldamótin 1900. Það sem drífur á daga hans
eftir það eru eingöngu viðaukar og eftirmæli
sögunnar.
Tíminn og sjálfið
Dramatísk þýðing stórra tímamóta á borð
við aldamót og árþúsundaskipti á sér djúpar
rætur í vestrænni menningarsögu. Sam-
kvæmt Opinberun Jóhannesar eru aldamót
endalok en jafnframt nýtt upphaf. Aldamót
eru snúningspunktur þar sem sagan virðist
nema staðar og augnablikið þenjast út á mær-
um fortíðar og framtíðar, ekki á ósvipaðan
hátt og Matthías reyndi við skrif ævisög-
unnar.
Þessi reynsla endurtekur sig nú í bók-
menntum árþúsundamótanna þegar því hefur
reyndar verið lýst yfir að sagan hafi í vissum
skilningi stöðvast með falli múrsins og hug-
myndafræðilegri deyfð sem fylgdi í kjölfarið.
Á vissan hátt virðist augnablikið þegar tím-
unum tvennum lýstur saman einnig hleypa of-
vexti í sjálfið. Höfundar leggja hver af öðrum
upp í hina rómantísku leit „inn á við“ stand-
andi á punktinum þar sem öll þessi lamandi
ofgnótt tímanna kemur saman.
Af bókum nýliðinna ára sem lýsa þessari
reynslu nægir að nefna skáldævisögur Guð-
bergs Bergssonar og sveitatrílógíu Jóns Kal-
mans Stefánssonar sem heldur áfram að vinna
með minninguna og tímann í nýrri bók sinni,
Ýmislegt um risafurur og tímann. Minnið,
tíminn og sjálfið eru einnig umfjöllunarefni
skáldsögu Matthíasar Johannessen, Hann
nærist á góðum minningum, og ennfremur
nýjustu ljóðabókar Sigurðar Pálssonar, Ljóð-
tímaleit.
Heimsmyndin og sjálfið
Allar þessar bækur lýsa heimsmynd horfins
tíma – aldar sem lauk raunar áratug á undan
almanaksöldinni – og um leið glímunni við að
finna sig í nýrri heimsmynd. Sögumaður í bók
Jóns Kalmans veltir því fyrir sér hvernig
megi höndla tilvistina þegar ekki er lengur
hægt að treysta gömlu landakortunum þar
sem heiminum var skipt í vestur og austur og
minnið, landakort hans um fortíðina, virðist
jafnskeikult – hvort tveggja skaðbrunnið í
eldum tímans.
Hugsanlega er þetta sögulega rof, ef svo
má kalla, og upplausnin sem því fylgdi ein
meginkveikjan að því að nýr áhugi hefur
vaknað á heimsmyndarpælingum. Pétur
Gunnarsson hóf á síðasta ári flokk undir yf-
irskriftinni „Skáldsaga Íslands“ með bók er
nefnist hvorki meira né minna en Myndin af
heiminum. Og tvær af athyglisverðustu skáld-
sögum þessa árs fjalla um breytta heims-
mynd. Yfir Ebrofljótið eftir Álfrúnu Gunn-
laugsdóttur og Höfundur Íslands eftir
Hallgrím Helgason eru tilraunir til uppgjörs
við pólitík og menningu liðinnar aldar og/eða
rannsókn á úrvinnslu þeirra í samtímanum.
Báðar eru sögurnar byggðar á sögulegum ein-
staklingum, hin fyrrnefnda á einum þriggja
Íslendinga sem þátt tóku í spænsku borg-
arastyrjöldinni og hin síðarnefnda á Halldóri
Laxness. Á bak við þessar sögur, eins og
„skáldævisögurnar“ (og einsögur sagnfræð-
inga), býr trúin á mikilvægi og heimildagildi
reynslu einstaklingsins, á að sjálfið end-
urspegli heiminn.
Formvitund
Þessar bækur einkennast af sterkri form-
vitund, þær fjalla sem sé allar öðrum þræði
um það form sem þær eru skrifaðar í: skáld-
söguna, ævisöguna, heimildasöguna o.s.frv.
Þessi formhyggja hefur verið eitt af meg-
instefum íslenskra bókmennta síðastliðinn
áratug og á hann það sameiginlegt með stuttu
skeiði (póst)módernisma á sjöunda og áttunda
áratugnum. Margvíslegar tilraunir hafa verið
gerðar, þar sem brugðið hefur verið á leik
með hefðbundin form, en einnig hefur aukin
vitund um form orðið til þess – eða end-
urspeglast í því – að fleiri genrur („genre“:
hugsanlega greinar eða tegundir) bókmennta
hafa þrifist hér en oftast áður. Þannig hefur
glæpasagan fengið byr undir báða vængi og
mætti halda því fram að hér séu nú uppi fleiri
frambærilegir höfundar sem sérhæfa sig á því
sviði en verið hafa í allri sögu íslenskra bók-
mennta fram til þessa. Þrír þessara höfunda
gefa nú út bækur: Arnaldur Indriðason, Árni
Þórarinsson og hin dulnefnda Stella Blom-
kvist. Sömuleiðis hefur Ólafur Jóhann Ólafs-
son náð eftirtektarverðum tökum á hinu svo-
kallaða metsöluformi („bestseller“) en það
hefur vart átt verðugan fulltrúa í íslenskum
bókmenntum síðan Kristmann Guðmundsson
var og hét.
Aukin formvitund hefur einnig haft afar at-
hyglisverð áhrif á ljóðagerð síðustu ára. Aft-
urhvarf til háttbundinna ljóða hefur verið
áberandi, bæði hjá yngri og eldri skáldum, en
einnig hefur hið svokallaða óbundna eða
frjálsa ljóð verið klætt úr þröngum stakki sín-
um (þótt þverstæðukennt kunni að virðast).
Orðmörg og kröftug ljóð skálda á borð við
Steinar Braga, Guðberg Bergsson og að
hluta Sigurð Pálsson, sem allir gáfu út tíð-
indamiklar bækur á þessu ári, andæfa þeirri
módernísku hugmynd að ljóðið hljóti að tálga
sér leið inn í þögnina – það er falleg írónía um
hlutverk bókmenntanna en hvorki raunveru-
leg né æskileg endastöð.
Endurvinnslan – eftirmæli Sögunnar
Með útvíkkun formsins hafa ljóðinu verið
opnaðar fleiri leiðir að tímanum en tíminn
virðist eiga erfitt með að tengja sig við ljóðið
og raunar bókmenntirnar yfirleitt. Íslensk
bókmenntaumræða er öll í skötulíki enda fer
hún nánast eingöngu fram þær sex vikur sem
útgáfuvertíðin spannar ár hvert. Nauðsynleg
endurnýjun hugtakaforða á sér ekki stað sök-
um þess að hann er ekki í stöðugri notkun.
Að stórum hluta eru ritdómar því fullir með
endurteknum hugsunum úr skrifum Matt-
híasar Jochumssonar og hinna þjóðskáldanna
á nítjándu öld. Tími er kominn til að lyfta um-
ræðunni upp úr þessu fari og auðvitað þurfa
bókmenntirnar sjálfar meira rými en þeim er
nú ætlað undir jólatrjánum.
Kannski er það fulllangt gengið að segja að
endurtekningin sé helsta stef aldamótamenn-
ingarinnar. Því hefur þó verið haldið fram að
nú þegar díalektískri framvindu sögunnar er
lokið með hruni múrsins og útjöfnun and-
stæðna í eina altæka miðju hafi saga end-
urvinnslunnar tekið við; fyrst engin fram-
vinda geti orðið lengur einkennist
samtímamenningin af eilífri endurtekningu
eða endurvinnslu á liðinni sögu, það er að
segja hugmyndafræðilegum átökum tutt-
ugustu aldarinnar. Tilgangurinn sé öðrum
þræði að leiðrétta það sem miður fór, bæta
fyrir mistökin, leita fyrirgefningar – allt hlut-
ir sem komið hafa til tals í umræðu um Höf-
und Íslands upp á síðkastið. En á bak við
glittir í þrána eftir að vera hluti af sögu
áfram, að taka þátt í hugmyndafræðilegum
átökum, að hafa eitthvað að segja sem brýtur
gegn ríkjandi skipulagi en staðfestir ekki að-
eins einræði miðjunnar. Við erum með öðrum
orðum dæmd til tilgangslausrar endurfram-
leiðslu á deiluefnum tuttugustu aldarinnar –
að skrifa eftirmæli Sögunnar.
Dæmi um slíka endurframleiðslu í íslenskri
menningarumræðu birtist með ákaflega
skýrum hætti í grein Hannesar Hólmsteins
Gissurarsonar hér í Morgunblaðinu 16. des-
ember síðastliðinn þar sem hann vakti upp
vofur kaldastríðsins úr áðurnefndri sögu
Hallgríms Helgasonar. Er furða að eftir slík-
an lestur hafi menn það á tilfinningunni að
ekkert breytist í hugmyndalífinu þótt heim-
urinn logi að utan?
„Það eina sem gerist: / kyrrstæður vindur /
á ferð / um göturnar“, segir Sigurður Pálsson
í ljóðinu „Aldamót“ í bókinni Ljóðtímaleit.
Er það virkilega svo?
Kyrrstæður vindur?
Morgunblaðið/Kristinn
„Við erum með öðrum orðum dæmd til tilgangslausrar endurframleiðslu á deiluefnum
tuttugustu aldarinnar – að skrifa eftirmæli Sögunnar.“
Á vissan hátt virðist augna-
blikið þegar tímunum tvenn-
um lýstur saman einnig
hleypa ofvexti í sjálfið. Höf-
undar leggja hver af öðrum
upp í hina rómantísku leit
„inn á við“ standandi á
punktinum þar sem öll þessi
lamandi ofgnótt tímanna
kemur saman.
throstur@mbl.is
B ó k m e n n t i r
Þ r ö s t u r H e l g a s o n