Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2001, Síða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 29.12.2001, Síða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. DESEMBER 2001 Vanmáttur Í þunglamalegum hita Kaliforníusólar strunsaði sönkonan íðilfagra Jennifer Lopez burt frá hvítri glæsivillu og pálmatrén bærðust í heitum andvaranum. Jennifer settist inn í blæjubíl og keyrði hratt af stað með vinstri hönd á stýri en hægri hönd tyllti sólgleraugum á snoturt nefið. Undir stýrinu söng hún af ákefð; sár út í tillitslausan karlmann. Katrín Grímsdóttir sat við stofuborðið og lækkaði í Popptíví með rykugri fjarstýringu meðan hún smurði túnfisksalati á mjúka franskbrauðssneið, kryddaði með svolitlum svörtum pipar og dálitlum hvítlauk og lagði aðra ofan á. Út í kaffið setti hún tvær stútfullar teskeiðar af sykri og væna rjómaslettu. Eitt sinn hafði Katrín verið sár út í tillitslausan karlmann. Á hinn bóginn hafði hún hvorki hraðskreiðan blæjubíl né kristalstæra söng- rödd til að sefa hugarangistina, þaðan af síður ákefð til að bera höfuðið hátt. Hún átti aðeins þrjú kröfuhörð börn sem þurfti að sinna þannig að Katrín borðaði í stað þess að syngja og keyra í sig eldmóðinn. Hún borðaði mikið. Mjög mikið. Árum saman. Í dag vó hún þrefalt sína kjörþyngd, lítil, andlitsfríð konan og samsetning rjómans og majonessunar olli henni ógleði. Hún framkall- aði myndarropa. Loftæmingin skapaði löngun í meira brauð og Katrín tróð skorpunni upp í munninn áður en hún skóf afganginn af túnfisknum úr glærri plastdollunni og smurði nýja samloku, læsti smáum tönnunum í hana og kyngdi. Fljótlega varð henni bumbult á nýjan leik og hún kveikti í Salemsígarettu með mildu myntu- bragði meðan nýr ropi geystist upp úr kviðn- um. Með rjúkandi sígarettuna í kjaftvikinu teygði Katrín sig í nuddklossana, smeygði mjúkum táslunum í þá og blés þungan. Hægri rasskinnin reis í jöfnu hlutfalli við fall þeirrar vinstri þegar hún stóð upp og gekk hægum skrefum inn í svefnherbergi. Þar lagðist hún varlega á rúmið sem kennt var við sænskt, fjöl- skylduvænt húsgagnafyrirtæki, rétt eins og gulröndótt sængurfötin og ljós viðarkommóð- an við hlið rúmsins, þakin bandarískum og breskum reyfurum. Breið lærin íklædd rósóttri bómull flöttust út á dýnunni og belglaga brjóst- in dúuðu undir ljósgrænum stuttermabol, skreyttum misgömlum sýnishornum af eggj- um, sultu, majonessu og kaffi. Þrútið andlitið hvíldi á koddanum, umkringt ljósum, ögn fitug- um lokkum. Reiði Sökum offitu var Katrín fullgildur öryrki. Tæplega fimmtug og fráskilin. Börnin þrjú voru samfeðra, afkvæmi Þórs Skúlasonar sem var velmegandi eigandi veitingastaðarins BB – Bradwurst und Bier og taumlaus áhugamaður um íslenska hestinn. Bradwurst und Bier var stílhreinn staður með þýsku ívafi, í hjarta Reykjavíkur. Innrétt- ingarnar voru úr dökkum viði, þykk borð og langir bekkir þar sem gestir sátu og drukku öl úr stórum leirkrukkum með samföstum állok- um, gleyptu ískalda snafsa og borðuðu pylsur með súrkáli og sinnepi. Á veggjunum héngu blekteikningar af hrossum. Að næturlagi um helgar beið fólk í löngum röðum til að komast inn í dýrðina, dansa tíróladans, súpa úr bjór- krúsum skorðuðum milli föngulegra brjósta veitingakvennanna, dufla og daðra. Katrínu var lítt um Þýskaland gefið. Hún átti bágt með að fyrirgefa þjóðinni seinni heimsstyrjöldina, hallærisleg Júróvisjónlög og steingelda lögregluþætti sem höfðu verið á dagskrá Ríkissjónvarpsins árum saman. Hún var hrifnari af Suður-Evrópu og einhvern tíma í löngu liðinni fortíð þegar íslenskir bargestir drukku bjórlíki eða vodka í sætu kóki hafði hún gælt við tilhugsunina um að opna spænskan veitingastað og selja girnilega tapasrétti, vino rojo, vino blanco og mysuvín, vel útilátinn salt- fisk og kolsvart espresso. Eiginlega átti Katrín hugmyndina að opna veitingastað með erlendu ívafi og hafði rætt hana afar ítarlega við Þór sem þá var ekki eins gefinn fyrir áhættur og hélt dauðahaldi í skriffinnskustarf sitt hjá land- búnaðarráðuneytinu. „Eina flaggskip Spánverja er Flórída, ann- ars ekkert þangað að sækja nema fyrir subbu- lega letingja,“ hafði Þór fullyrt hróðugur og Katrín varð svo hvumsa að hún gleymdi að leið- rétta hann og spurði: „Hvað með Costa del Sol?“ Mörgum árum síðar þegar hann kom með flutningabíl til að ná í þvottavélina, sjónvarpið og fleira bitastætt úr búslóð þeirra hafði hún kastað jarðarberjajógúrt í sendibílstjórann og æpt: „Flórída er í Bandaríkjunum.“ Ungabarnið í örmum hennar skeit á sig af óróleik en tvö eldri börnin horfðu skelfingu lostin á sáran „jógúrtmanninn.“ Tímarnir breytast og mennirnir með. Hatur Í gamla daga fór Katrín í Keflavíkurgönguna og dró Þór iðulega með. Þó var hann frekar skoðanalaus; hægrisinnaður vegna þess að for- eldrar hans kusu Sjálfstæðisflokkinn og hjá hans fólki þótti óeðlilegt að kjósa önnur stjórn- málasamtök. Þór hafði átt marga kunningja en fáa nána vini þegar hann kynntist Kötu sem deildi vinahópi sínum glöð með honum. Hóp- urinn samanstóð af róttækum og skemmtana- glöðum vinstrisinnum sem þrýstu á veikgeðja eiginmanninn að mótmæla veru hersins. Eftir fyrsta skiptið hlakkaði hann árlega til göngunnar, honum fannst langur göngutúrinn góður, ekki síst vegna silfurpelans í brjóstvas- anum og nautnarinnar þegar hann skaust út í móa, lyfti þykkri Álafossúlpunni og heit, áfeng buna vætti lyngið svo reykinn lagði upp úr því. Þór var mannalegur á svipinn þegar hann renndi upp buxnaklaufinni og hljóp við fót til að ná fjölskyldunni sem sigldi hröðum byr með- fram blautri og grárri Reykjanesbrautinni, umlukin grænbrúnni víðáttu og roki sem fyllti nasaholurnar hressandi lykt af rakri mold, mosa og sjávarseltu. Þá var Katrín kölluð Kata. Kata átti sömu útifötin árum saman og klæddist þeim í göngunni. Brún leðurstígvél með lágum hæl, græn kápa með mittisbelti og rauðhvítur arabaklútur, haglega bundinn um höfuðið að hætti Yasser Arafat. Á öxlinni hékk handsaumaður bakpoki úr gallaefni og í honum var nestið þeirra, te í eins lítra glerkókflösku, appelsínur og samlokur með osti. Kata var tá- grönn; mamma hennar sagði gjarna í gamni: „Þvengmjó eins og veikbyggð birkihrísla.“ Litla fjölskyldan hrópaði í kór: Ísland úr Nató og herinn burt! Yngri dóttirin sat jafnan á öxlum Þórs og sú eldri hélt í hönd móður sinn- ar. Báðar klæddust þær lopapeysum, app- elsínugulum anorökkum, gallabuxum með hnjábótum og fóðruðum kuldastígvélum. Þær voru frekar getnar af ásettu ráði en ást. Sonurinn var slysabarn, þruma úr heiðskíru lofti eða öllu heldur sólargeisli úr þungbúnum himni. Hann fæddist árið 1992 og var aðeins slefandi ungabarn þegar hann vandist á tísku- klæðnað, enda tók Þór upp á því að kaupa föt á hnokkann og smekkur hans var annar en Katr- ínar. Sonurinn sá aldrei ljósbrúnu Álafossúlp- una sem móðir hans hafði gefið föður hans í til- hugalífi þeirra. Árið 1978 hafði svo margt skipt hana máli. Í brjóstinu ólgaði kraftur og skoðanir hennar á stjórnmálum, umhverfinu, alþjóðapólitík, kvennabaráttu og mannúð fengu nauðsynlega útrás í vaskri Keflavíkurgöngunni. Árið 1993 lauk hjónabandinu á skyndibita- staðnum Western Fried í Mosfellsbæ. Fjölskyldan hafði keyrt upp á Kjalarnes til að heimsækja foreldra Þórs, þögul, horuð og armæðuleg hjón um sextugt sem buðu aðeins upp á þunnt Bragakaffi og harða sandköku og horfðu skringilega ásakandi á Katrínu milli þess sem þau skiptust stuttaralega á orðum um veðrið og hátt verðlag við einkasoninn. Þegar þau keyrðu til baka fann Katrín til hungurs og vildi staldra við á Western Fried til að kaupa djúpsteikta kjúklingabita. Stálpaðar stúlkurnar voru sammála henni og brostu þannig að skein í spangaðar tennur þeirra en Þór fullyrti að eiginkonan hefði fitnað svo upp á síðkastið að þau hefðu ekkert að gera á skyndibitastaðinn. „Þú ert orðin of feit. Spik- feit. Og helvítis bruðl að geta ekki étið heima hjá sér.“ „Ef þú stoppar ekki þá drep ég mig,“ til- kynnti Katrín. Stúlkurnar litu agndofa á föður sinn sem hægði sviplaus á bílnum, beygði harkalega í átt að Western Fried og lagði bílnum beint fyrir utan staðinn. Sonurinn öskraði í bílastólnum þegar móðir hans leysti sætisólarnar og lyfti honum upp. Þór hristi höfuðið með sama mæðusvipnum og einkenndi foreldra hans. Þau gengu beint að afgreiðsluborðinu með Katrínu í fararbroddi. Hnarrreist pantaði hún fjóra skammta af kjúklingum, frönskum kart- öflum og kokkteilsósu en Þór greip fram í fyrir henni og kvaðst ekkert vilja. „Ég er ekki nógu klikkaður til að fylla belginn af svona rusli,“ fussaði hann og gretti sig dónalega. Mógræn og þunglyndisleg augu Katrínar horfðu hvasst á hann, varirnar teygðust í vit- firringslegt bros og hún hvæsti: „Ég er ekki nógu klikkuð til að riðlast á tvítugri sumaraf- leysingastúlku í landbúnaðarráðuneytinu.“ Á vinstri handlegg hélt hún á syninum og þrýsti honum að sér meðan gömul, uppsöfnuð reiði hríslaðist hratt og ofsafengið upp í hægra hnefa hennar og augnabliki síðar lá Þór mar- flatur á klístruðu gólfinu. Viku síðar kom hann ásamt „jógúrt- manninum“ til að sækja sjónvarpið, þvotta- vélina, vídeótækið og eldhúshúsgögnin frá Habitat. Ósæmi Lykli var stungið í skrána og inn gekk níu ára drengur, óvenju alvarlegur til augnanna með þunna vanga, krúnurakað höfuð og svo ljósar augnabrýr að þær greindust varla. Ólíkt systrunum hafði hann erft beinar tennur föður síns, stórar, hvítar tennur sem glampaði á þeg- ar honum varð skemmt. Hann hló sjaldan en þegar eitthvað sérstaklega fyndið var gert eða sagt tók langur og horaður líkaminn snögga kippi og hást soghljóð barst frá honum. Dreng- urinn gekk rakleiðis inn til móður sinnar, stundi þungan um leið og hann sá fyrirferð- armikinn búkinn liggja hrjótandi og umlandi á rúminu, greip um stóru tá móður sinnar og sneri hægt upp á hana. Katrín hrökk upp með andfælum og kippti fætinum frá syni sínum. Hún blikkaði augnlok- unum hratt og andaði með djúpri mæðu uns hún náði áttum, reisti höfuðið hægt frá kodd- anum og sagði eins blíðlega og henni var unnt: „Hæ, ástin mín.“ Hann svaraði: „Getur þú komið fram eða ætlarðu að liggja þarna fram á kvöld?“ „Ég kem fram ástin, ég kem.“ Álfur kinkaði fýldur kolli og gekk inn í stof- una, hlammaði sér í sófann og kveikti á Popp- tíví meðan Katrín teygði sig í nuddklossana og staulaðist á fætur. Hann leit ekki af skjánum þegar hún birtist í gættinni heldur starði rann- sakandi á hóp rappara og bað hana um að fara í úlpu og skó. „Hvers vegna í ósköpunum?“ „Við erum að fara í bíó.“ „Elskan mín, ég á ekki aur fyrr en bæturnar berast,“ svaraði Katrín kjassmælt. Stundum var hún uppburðalítil gagnvart syni sínum sem gat verið álíka styggur og flækingsblendingur, jafnvel feimin við hann. Dætur hennar höfðu flutt að heiman fyrir mörgum árum og sam- skipti hennar og sonarins urðu æ keimlíkari FEITA MAMMAN S M Á S A G A E F T I R A U Ð I J Ó N S D Ó T T U R

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.