Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2002, Page 5

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2002, Page 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. JANÚAR 2002 5 eins á útlegðarárunum, heldur einnig síðar á ævinni og þá af fúsum og frjálsum vilja. Hann var eins og Hollendingurinn fljúgandi: hann átti hvergi heima. Eigi að síður voru allar óp- erur hans frumfluttar í Þýzkalandi. Ýmsir þykjast geta greint djúpan pólitískan undirtón í verkum Wagners. Írska leikrita- skáldið George Bernard Shaw túlkaði Nifl- ungahringinn sem óvægna ádeilu á auðhyggju. Þessi túlkun Shaws var lögð til grundvallar uppfærslu franska leikstjórans Patrice Chér- eau á Hringnum í Bayreuth á aldarafmæli óp- eruhátíðarinar þar 1976, og verður sú upp- færsla lengi í minnum höfð; hún er nú nýkomin út á DVD-diskum. Næsta Hring í Bayreuth hefur danski leikstjórinn Lars von Trier verið fenginn til að setja upp, og fer hann væntan- lega á fjalirnar 2006. Wagner hefði trúlega undrazt misnotkun nasista á tónlist hans í áróðursskyni, hefði hann lifað svo lengi. Í þeim hópi var það raunar Hitler einn, sem hafði dálæti á Wagner og tón- list hans og stofnaði til vinskapar við fjölskyldu Wagners eftir hans dag, einkum tengdadótt- urina Winifred. Aðrir foringjar nasista höfðu engar mætur á tónlist Wagners eða á tónlist yfirleitt; þeir höfðu önnur áhugamál. Þegar Hitler varð fimmtugur 1939, færðu þýzkir iðju- höldar honum að gjöf nokkur frumrit af óp- erum Wagners. Talið er, að þessi handrit hafi tortímzt með Hitler, þegar hann svipti sig lífi í byrgi sínu í Berlín 1945. Nokkru áður hafði sonarsonur Wagners boðizt til að varðveita handritin, en Hitler neitaði að láta þau af hendi. III. Verdi var ekki líkt því eins umdeildur heima fyrir og átti ekki í neinum umtalsverðum úti- stöðum við yfirvöld, heldur aðeins við óperu- stjóra og ritskoðara. Ýmsir höfðu þó áhyggjur af ósiðsamlegu líferni hans: hann var ekkju- maður og hóf búskap með og giftist síðan ein- stæðri móður, Giuseppinu Strepponi. Hún var fræg söngkona. Verdi talaði þó helzt aldrei sjálfur við söngvara, heldur notaði milliliði; hann óttaðist, að milliliðalaust samband gæti misskilizt sem stuðningur við einn söngvara umfram annan. Þetta var kalt, en raunsætt við- horf. Hann var elskaður og dáður. Hann var kröfuharður og ekki auðveldur viðskiptis. La scala í Mílanó var húsið hans í huga margra, en samt liðu einu sinni 20 ár, án þess að hann stigi fæti þar inn fyrir dyr, af því að honum þóttu uppfærslurnar þar svo ofboðslega lélegar. Styrkur hans fólst í því, að hann hafði í önnur hús að venda. Verdi var þungur í lund, hann gerði sjaldan að gamni sínu. Wagner virðist hafa verið létt- lyndari. Verdi var alltaf í góðum efnum, hann bjó vel jafnt heima sem að heiman. Þegar hann var í Genóva, bjó hann jafnan á heilli hæð á Grand Hotel, oft vikum saman. Þegar hann kom þangað í aðeins fáeina daga, þótti honum ekki taka því að láta opna hæðina alla handa sér, heldur lét hann sér þá duga svítu. Hann hafði svipaðan hátt á vistum sínum á Grand Hotel í Mílanó og víðar. Wagner átti á hinn bóginn í eilífu basli, en hann bjó vel, þegar hann gat, fyrir annarra fé. Skoðum fjármálin betur. Hvað ætli Verdi hafi gengið með mikið fé á sér frá degi til dags? Það vill svo til, að til er heimild um það. Þannig var, að Verdi rauf einu sinni regluna um að hafa helzt ekki samband við söngvara nema gegnum milliliði. Teresa Stolz, sópransöng- konan, sem vígði hlutverk Aidu og fleiri lyk- ilhlutverk í verkum Verdis, varð náinn heim- ilisvinur Verdihjónanna. Þegar Verdi og Giuseppina gistu á Grand Hotel í Genóva einu sinni sem oftar, komu þau ungfrú Stolz fyrir í nærliggjandi svítu. Svo gerist það einn daginn, að Verdi kemur askvaðandi niður í móttökuna og segir, að veskið hans sé horfið. Starfslið hót- elsins gerði rækilega húsleit, og veskið fannst loksins – á legubekk inni hjá ungfrú Stolz. Starfsmaðurinn, sem fann veskið, taldi pen- ingana, sem í því voru: það voru 50.000 lírur. Til samanburðar má nefna, að 30–40 lírur dugðu til að framfleyta fátækri sveitafjöl- skyldu í sex mánuði. Þessi saga birtist í blöðum um alla Ítalíu. Verdi var dreginn sundur og saman í háði. Ýmsir fylltust aukinheldur vand- lætingu yfir því, að hann skyldi ganga með svo fjallháa fúlgu í veski sínu. Verdi þurfti að þessu sinni að þola mestu auðmýkingu ævi sinnar og þau öll. Líklegt má telja, að hjónaband hans og Giuseppinu hafi rambað á barmi upplausnar eftir þetta, en þau stóðu hríðina af sér. Ungfrú Stolz var aufúsugestur á heimili þeirra eftir sem áður. Hjúskaparmál Verdis þóttu ýmsum svo áhugaverð, að varla var meira um önnur mál talað í Busseto, bernskubyggð Verdis, og víð- ar. Sagt er, að kerlingar í Busseto hnakkrífist um það enn í dag, hvort Verdi og Giuseppina hafi verið gift eða ekki. IV. Vitað er, að Verdi sá Lohengrin í Bologna 1871 og þótti heldur lítið til verksins koma, svo sem minnisblöð hans frá sýningunni vitna um. Hann sá líklega einnig Tannhäuser í Vín 1875, hann hafði heyrt forleikinn í París 1865 og skrifaði þá vini sínum: ,,Wagner er ekki með réttu ráði!“ Verdi kynntist einnig Tristan, þó líkast til aðeins af nótum, og kallaði annan þátt verksins ,,eitt glæsilegasta sköpunarverk mannsandans“. Hann lét Ricordi, útgefanda sinn í Mílanó, senda sér nóturnar af Meistara- söngvurunum og Parsifal. Á náttborði Verdis, þegar hann dó, lá bók um Wagner og tónlist hans. Og þegar Wagner dó, þá sendi Verdi línu til Ricordis og lýsti miklum missi með mörgum upphrópunarmerkjum, þó ekki í sérstöku bréfi, heldur var aðalerindi bréfsins að biðja útgefandann að gera svo vel að senda honum meira af nótnapappír. Um reynslu Wagners af verkum Verdis er minna vitað. Wagner sá kannski Il trovatore, hugsanlega tvisvar, í París 1860 eða 1861 og e.t.v. líka í London 1855 (hann stafsetti nafn Verdis og óperunnar vitlaust í sjálfsævisögu sinni); auk þessa heyrði hann trúlega Sálu- messuna ásamt Cosimu, konu sinni. Um það verk segir Cosima í dagbókum sínum: ,,Bezt er að hafa sem allra fæst orð um það.“ Wagner gerði grín að Verdi. Einu sinni, þegar Wagner settist við hljóðfærið í setustofunni heima í Villa Wahnfried í Bayreuth að loknum kvöld- verði til að spila valda kafla úr verkum sínum, brá hann á leik og sagði við Cosimu: ,,Nú skul- um við heyra þetta aftur – að hætti Chopins.“ Og síðan hélt hann áfram: ,,Og nú skulum við heyra þetta einu sinni enn – að hætti Verdis“ og spilaði nokkra takta. Þau skellihlógu, velt- ust um. Nógu vel að sér um Verdi virðist Wagner sem sagt hafa verið til að geta spilað eigin verk í anda Verdis og til að geta hlegið að honum. Wagner var samt ekki alltaf hlátur í hug, þegar Verdi bar á góma. Hljómsveitar- stjórinn Hans Richter reyndi einu sinni á kvöldvöku í Wahnfried að halda því fram, að Verdi væri engu verri en Donizetti. ,,Hættu þessu!“ sagði Wagner þá með þjósti. Wagner var sískrifandi um menn og málefni og um sjálfan sig, en aldrei skrifaði hann orð um Verdi, svo vitað sé, ef frá er talin misritun hans á nafni Verdis og Il trovatore, sem minnzt var á að framan. Ævisaga Newmans um Wagner, fjögur þykk bindi, segir ekkert um skoðun Wagners á Verdi. Dagbækur Cosimu eru að sama skapi fáorðar um Verdi, en þar er þó sag- an um Sálumessuna. Vígsluhátíðin í Bayreuth 1876 var mikill við- burður, ekki aðeins í lífi Wagners og Cosimu og vina þeirra, heldur í menningarlífi Evrópu og alls heimsins. Allir voru þar, ekki aðeins sendi- menn erlendra ríkja í mörgum heimsálfum, heldur einnig öll helztu tónskáld álfunnar: Bruckner, Grieg, Tsjækovskí, Saint-Saëns og Liszt, tengdafaðir Wagners, en ekki var Brahms þar og ekki heldur Verdi og aldrei síð- an. Verdi dó ekki fyrr en 1901 og hafði því næg- an tíma til að fara til Bayreuth, en hann fór ekki. V. Tónmál Verdis og Wagners er ólíkt að ýmsu leyti. Verdi skrifaði fyrir söngraddir, er stund- um sagt, á meðan Wagner skrifaði fyrir hljóm- sveit. Þetta er þó ofmælt, þegar á allt er litið, því að lagauðgin í söngröddum Wagners er víða engu minni en í verkum Verdis. Við þetta er því að bæta, að Verdi lagði með tímanum meira og meira í hljómsveitarleikinn á bak við söngraddirnar á síðari verkum sínum, sérstak- lega Óþelló og Falstaff. Verdi var hægfara um- bótamaður í tónlist: það er hægt að lýsa honum sem íhaldsmanni, dæmigerðum fulltrúa ítalskrar óperuhefðar, sem honum tókst að þróa á langri ævi og lyfta síðan í hæstu hæðir, einkum í hinstu verkunum, Óþelló og Falstaff. Wagner hafði annan hátt á, og það ágerðist með aldrinum: hann óf saman söng og hljóm- sveitarleik í eina órofa heild og kallaði allsherj- arlistaverk (Gesamtkunstwerk). Frásagnarlist hvors um sig hafði einnig sín sérkenni ekki síður en tónlistin. Nær allar óp- erur Verdis segja sögur, sumar sannsögulegar, aðrar ekki; hann sótti efniviðinn einna helzt í sígildan skáldskap og hafði sérstakt dálæti á Shakespeare. Í önnur skipti vakti það helzt fyr- ir honum að koma boðskap á framfæri. Þetta á til dæmis við um La traviata: þar er sögð sagan um stúlkuna, sem lætur tilvonandi tengdaföð- ur sinn telja sig á að yfirgefa unnusta sinn, svo að fortíð hennar nái ekki að varpa dimmum skugga yfir dyggðum prýdda fjölskyldu feðg- anna. Þetta var beinskeytt og ódulbúin árás á tvöfalt siðgæði samtímans. Ritskoðarar fengu því framgengt, að óperan var færð heila öld aft- ur í tímann til að stugga ekki um of við áhorf- endum. La traviata var ekki sett á svið sem samtímaópera fyrr en hálfri öld eftir frum- flutninginn í Feneyjum 1853. Wagner var róttækari en Verdi: hann var sannkallaður byltingarmaður í tónlist nær alla tíð eða frá Hollendingnum fljúgandi (1843) og áfram; þá stóð Wagner á þrítugu. Fyrstu óp- erurnar þrjár (Álfarnir, Ástarbannið og Rienzi) stóðu að vísu föstum fótum í þýzkri óp- eruhefð. Wagner hafði manna mest áhrif á tón- smíðar yngri manna innan Þýzkalands og utan. Hann orti alla óperutexta sína sjálfur (það gerði Verdi aldrei) og fjallaði þá ekki um hvers- dagsleg efni eins og Verdi – afbrýði, ástarþrí- hyrninga, bölbænir, útskúfun, kóngsmorð, svo að fátt eitt sé nefnt. Hugsjón Wagners var há- leitari: óperur hans fjalla um fyrirgefningu, frelsun, endurlausn, um upphaf heimsins og endi. VI. Hylli Wagners jókst smám saman, eftir því sem tíminn leið, ungir menn sáu framtíð í hon- um frekar en í Verdi, og Wagner fór síðan fram úr Verdi, einnig á Ítalíu. Puccini dáði Wagner, hann ákvað að verða tónskáld, þegar hann heyrði Meistarasöngvarana í fyrsta sinn, en síðan hófst ný Verdivakning eftir 1920, nú í Þýzkalandi, á heimavelli Wagners, og síðan í Ameríku eftir stríð, ekki sízt fyrir tilstilli Ru- dolfs Bing, sem stýrði Metropolitan-óperunni í New York árin eftir heimsstyrjöldina síðari. Óperum Verdis er stundum skipt í fjóra flokka í tímaröð: fyrst komu æskuverkin (her- göngulögin og allt það), síðan ,,lírukassastykk- in“, sem hann samdi fyrir fertugt og gerðu hann heimsfrægan (Rigoletto, Il trovatore og La traviata), þá verkin, sem hann samdi um miðjan aldur, eins og t.d. Grímudansleikur, Vald örlaganna, Don Carlo og Aida, og að síð- ustu Óþelló og Falstaff, sem hann samdi í hárri elli. Það er með líku lagi hægt að skipta verk- um Wagners í fernt: fyrst komu æskuverkin þrjú, sem heyrast þó nær aldrei á okkar dögum nema Rienzi stöku sinnum, síðan komu róm- antísku óperurnar þrjár (Hollendingurinn fljúgandi, Tannhäuser og Lohengrin), þá Tríst- an og Ísold og Meistarasöngvararnir og loks Niflungahringurinn og Parsifal. Þetta er þó ekki einföld tímaröð, því að Wagner var rösk- lega hálfnaður með Niflungahringinn, þegar hann tók sér langt hlé frá því verki til að skrifa Tristan og Meistarasöngvarana. Skyggir Óþelló á Rigoletto? Það er hægt að spyrja sömu spurningar um Wagner: Skyggir Tristan á Tannhäuser? Rýrir það gildi góðs verks, ef höfundurinn semur síðan annað verk enn betra? Sumum kann að finnast það, öðrum ekki. Mér finnst það ekki. Flestir, sem hafa gaman af síðari verkum Verdis, hafa einnig ánægju af hinum fyrri, en ekki öfugt. Þetta á einnig við um Wagner. Þeir tóku báðir stöðugum framförum alla ævi, klifu einn tindinn öðrum hærri og risu hæst, langhæst, í hinstu verkunum. Þeir lærðu mest af sjálfum sér. Reyndar var ætlan Wagn- ers í upphafi sú, að aðeins Niflungahringurinn og Parsifal fengju inni í Bayreuth. Honum þótti jafnvel, að Tristan og Meistarasöngvar- arnir ættu ekki heima þar, að ekki væri minnzt á Hollendinginn, Tannhäuser eða Lohengrin. Þetta átti eftir að breytast. Wagner þurfti að breyta hljómsveitarútsetningu þessara verka lítils háttar, til þess að þau hentuðu til flutnings í Bayreuth, því að hljómburðurinn þar var hannaður sérstaklega fyrir Hringinn og Parsi- fal. Æskuverkið Rienzi hefur ekki enn verið sett á svið í Bayreuth. VII. Verdi var mannvinur og örlátur með af- brigðum. Hann hjálpaði fátækum í stórum stíl, bæði ættingjum sínum og óvandabundnu fólki. Hann byggði elliheimili og sjúkrahús fyrir um- talsverðan hluta þess auðs, sem hann safnaði. Wagner byggði óperuhús yfir sjálfan sig og verk sín og aflaði framkvæmdafjár eftir ýms- um leiðum. Festspielhaus í Bayreuth var byggt samtímis Parísaróperunni, sem kostaði 70 sinnum meira í byggingu. Wagner var hagsýnn á sinn hátt ekki síður en Verdi. Og nú eru menn hættir að syngja í gömlu Parísaróperunni, þar er nú aðeins dansaður ballett, en Bayreuth- hátíðin hefur sennilega aldrei verið í fyllra fjöri en einmitt nú, a.m.k. ef miðasalan er höfð til marks, og lýtur styrkri stjórn afkomenda Wagners enn sem endranær. Þetta er eitt langlífasta fjölskyldufyrirtæki, sem sögur fara af. Og Verdi lifir einnig góðu lífi. Þeir standa hvorugur í skugga hins, Verdi og Wagner, heldur varpa þeir ljóma hvor á annan. Höfundur er prófessor í Háskóla Íslands. Hylli Wagners jókst smám saman, eftir því sem tíminn leið, ungir menn sáu framtíð í honum frekar en í Verdi, og Wagner fór síðan fram úr Verdi, einnig á Ítalíu. ... Þeir tóku báðir stöðugum fram- förum alla ævi, klifu einn tindinn öðrum hærri og risu hæst, langhæst, í hinstu verk- unum. Verdi og Wagner: Frumsýningar á verkum þeirra 1813 Verdi: Fæddur 10. október við Busseto, nálægt Parma Wagner: Fæddur 22. maí í Leipzig 1836 Forboðin ást (Magdeburg) 1839 Oberto (Mílanó) 1840 Konungur í einn dag (Mílanó) 1842 Nabucco (Mílanó) Rienzi (Dresden) 1843 I lombardi (Mílanó) Hollendingurinn fljúgandi (Dresden) 1844 Ernani (Feneyjar) I due Foscari (Róm) 1845 Jóhanna af Örk (Mílanó) Alzira (Napólí) Tannhäuser (Dresden) 1846 Attila (Feneyjar) 1847 Macbeth (Flórens) I masnadieri (London) Jerúsalem (París) 1848 Il corsaro (Tríeste) 1849 La battaglia di Legnano (Róm) Luisa Miller (Napólí) 1850 Stiffelio (Tríeste) Lohengrin (Weimar) 1851 Rigoletto (Feneyjar) 1853 Il trovatore (Róm) La traviata (Feneyjar) 1855 I Vespri Siciliani (París) 1857 Aroldo (Rímíní) Simon Boccanegra (Feneyjar) 1859 Grímudansleikur (Róm) 1862 Vald örlaganna (Pétursborg) 1865 Tristan og Ísold (München) 1867 Don Carlos (París) 1868 Meistarasöngvararnir (München) 1869 Rínargullið (München) 1870 Valkyrjan (München) 1871 Aida (Kaíró) 1876 Siegfried (Bayreuth) Ragnarök (Bayreuth) 1882 Parsifal (Bayreuth) 1883 Deyr 13. febrúar í Feneyjum 1887 Óþelló (Mílanó) 1888 Álfarnir (samin 1834; München) 1893 Falstaff (Mílanó) 1901 Deyr 27. janúar í Mílanó

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.