Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2002, Síða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.2002, Síða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. JANÚAR 2002 Á DÖNSKU þýðir SAK ekk- ert sérstakt en hefur þó merkingu því að þetta eru upphafsstafir Søren Aabye Kierkegaard. Þeir voru grafnir í signetshringinn sem hann innsiglaði bréf sín með svo að þau lentu ekki í röngum höndum. Nú eru þessir þrír stafir titill á ævisögu sem vonandi lendir í höndum lesenda sem kunna að meta hana. SAK, ævisaga Søren Aabye Kierkegaard eft- ir Joakim Garff, kom út í fyrra. Höfundurinn er guðfræðingur og heimspekingur og fræðimað- ur við Kierkegaard-safnið í Kaupmannahöfn. Hann hefur skrifað þrjár bækur um Kierke- gaard áður. Nýjasta bók hans er dæmi um það hve hrífandi ævisögur geta orðið þegar sú bók- menntagrein rís hæst. Mig langar til að vekja athygli á þessu stórvirki en hér er einungis brotið upp á örfáum atriðum enda er bókin 703 blaðsíður að lengd. Það tekur óratíma að lesa hana en þeim tíma er vissulega vel varið. Að velja sannleikann og vitna um hann Søren Aabye Kierkegaard var einn magn- aðasti hugsuður og rithöfundur Dana fyrr og síðar. Hann fæddist árið 1813 og dó árið 1855 og var þannig samtímamaður Jónasar Hallgríms- sonar og Gríms Thomsen og nefnir raunar þann síðarnefnda í ritum sínum. Hið íslenska bókmenntafélag gaf út vandað- ar þýðingar á tveimur rita Kierkegaards í fyrra. Það eru Endurtekningin í þýðingu Þorsteins Gylfasonar sem einnig ritar inngang og Uggur og ótti með inngangi eftir Kristján Árnason en í þýðingu Jóhönnu Þráinsdóttur sem einnig ritar eftirmála. Í 4. hefti TMM árið 2000 má einnig lesa margt fróðlegt um Kierkegaard. Þó að Kierkegaard yrði ekki langlífur tókst honum að ljúka furðulega mörgum og djúp- hugsuðum ritverkum. Í ritum sínum tók hann hvað eftir annað upp umræður um hvað það væri að vera sanntrúaður. Kjarnaatriði í vanga- veltum hans um það var að til þess að trúa þarftu að stökkva, þú verður að taka áhættuna af hinu óþekkta. Það hefur verið kallað hið trúarlega stökk eða trúarstökk. Í einfaldaðri út- gáfu má segja að hið trúarlega stökk þýði að þú skilur að heimurinn stjórnast ekki af einum saman rökum og skynsemi. Manneskjan er til- finningavera ekki síður en rökhugsandi vera og hin hreina, sanna tilfinning er ofar öllu öðru. Einungis með því að virða tilfinningarnar get- urðu trúað og náð þroska sem manneskja. Til þess þarf kjark til þess að velja sannleikann og bera honum vitni. Til þess þarftu persónuleika sem gerir þér kleift að standa einn gegn hverj- um og hverju sem er. Til þess þarftu að við- urkenna að manneskjan sé ábyrg fyrir sjálfri sér og þar með trú sinni og guði sínum. Það er varla hægt að láta stofnanir sjá um þann þátt. Søren Kierkegaard setti danska prestastétt bókstaflega á annan endann þegar frá leið með kröfum sínum um einlæga trú. Hann leit svo á að trúin væri göfugasta ástríða mannsins og virðist undir það síðasta hafa verið kominn á þá skoðun að fátt væri ókristilegra en að vera prestur. Hann taldi jafnframt að hinn kunni þýski heimspekingur Hegel hefði rangt fyrir sér í öllum tilvikum en hann átti sterk ítök í mörgum af valdamestu guðfræðingum Dana á þessum tíma. Skömmu fyrir dauða sinn komst Kierkegaard hins vegar í rit Arturs Schopen- hauer og varð stórhrifinn af þeim. Í ritverkum Kierkegaards eru með öðrum orðum að mótast ýmsar af þeim hugmyndum um einstaklinginn, ábyrgð hans og vægi í tilverunni sem nítjánda öldin skilaði inn í þá tuttugustu. Ritverk Kierkegaards hafa löngum verið talin marka upphaf tilvistarstefnunnar (existensíalismans) og hann þannig forgöngumaður ekki minni spá- manna en Jean Paul Sartre og Martin Heideg- gers. Að elska og virða Eitt af því skemmtilega við Kierkegaard, manninn sem krafðist þess af öld sinni að hún virti tilfinningar og persónulega trú, er að fáir hafa verið jafn slysalega seinheppnir í ástamál- um sínum. Um þau og tilfinningalíf sitt yfirleitt skrifaði hann þúsundir blaðsíðna (með fjaðurpenna!) í dagbókum og bréfum sem hafa verið gefin út og rúma afar freistandi lykla að textum hans. En þar gildir að stíga varlega til jarðar. Ævisagna- ritarar Kierkegaards hafa frá upphafi vega átt á hættu að ganga í þá gildru að trúa marg- brotnum túlkunum hans á sjálfum sér og eigin lífi eins og nýju neti. Hinar öfgarnar eru jafn slæmar: að hafna persónulegum upplýsingum að meira og minna leyti á þeim forsendum að eftir á viti menn betur. Það henti til dæmis þann sem fyrstur gaf út dagbækur hans og minn- ismiða. Hann taldi sig hafa skilning og þekk- ingu til þes að hagræða ýmsu í pappírum Kierkegaards og olli töluverðum skaða og skap- aði ýmiss konar vafa. Faðir Sørens Aaby var fjórði sonurinn í barn- margri fjölskyldu á Jótlandi en komst í álnir og varð ríkur á sokkasölu. Þó að ég hafi ekkert fyr- ir mér í því þá hljótum við Íslendingar að giska á að ódýr, íslensk ull hafi mögulega átt einhvern þátt í þeim gróða. Í ættinni var þunglyndi land- lægt og dauðinn kom aftur og aftur við í fjöl- skyldu Sørens. Fimm systkin dóu. Þeir lifðu þó tveir bræðurnir og bjuggu í húsi föður síns meðan hann lifði en þunglyndi hans og sjálfs- hatur lagðist yfir þá eins og mara. Það er full- ljóst af dagbókum og öðrum ritverkum Sørens Aaby og Peters Christians, eldri bróður hans, að hvorugur þeirra hefur nokkru sinni beðið þess bætur. Móðirin virðist hafa verið sólar- geislinn í lífi þeirra feðga en um hana eru heim- ildir mjög litlar. Flókin tengsl Kierkegaards við föður sinn, sem hann bæði elskaði og hataði, eiga sér sam- svörun í sambandi hans við hinn mikla föður á himnum og sjálfur nefnir Kierkegaard að guð hafi komið í staðinn fyrir hinn jarðneska föður og reynst vera sinn raunverulegi faðir. Það þarf heldur ekki að vera mikill sálfræðingur til að sjá að móðurmissirinn kraumar undir í hinu marg- fræga ástarsambandi Sørens Aaby við Reginu Olsen, síðar Schlegel. Sagan af ástarsambandi þeirra Sørens og Regínu er ekki aðeins persónuleg hún er líka sí- gild. Hún er eins og sagan af sambandi Dafnis og Klói, Pyramusar og Þisbu, Rómeós og Júlíu, svo að nokkrar slíkar sögur séu nefndar. Þegar Søren tekur eftir Regínu standa þau hvort sínu megin í kirkjunni, það er ást við fyrstu sýn og honum verður ljóst að þessa konu verður hann að fá. Hún er þá að mynda sig til þess að trúlof- ast Fritz nokkrum Schlegel, traustum og heið- arlegum manni með greiðan embættisframa í vændum. Søren tekst að telja hana af því og beina ástarþörf hennar að sér. Hún er átján ára, hann tuttugu og átta. Foreldrum hennar leist ekkert á þetta en andstaðan kynti aðeins undir ólgandi ást Kierkegaards. Þau Regína trúlofast og innan skamms virðist Søren hafa orðið það ljóst að konan var komin með sjálf- stæðan áhuga á honum, – áhuga sem hann hefði að líkindum ekkert yfir að segja og gæti á eng- an hátt stjórnað. Hann fór því að grípa til ýmissa ráða til þess að gera Regínu það ljóst að siðprútt og kristi- legt fólk gefur tilfinningum sínum ekki lausan tauminn. Til þess að geta talist fullgild og þroskuð manneskja verður maður að geta látið eitthvað á móti sér. Hann fór að aga Regínu. Sagan segir að hann hafi boðið henni með sér í leikhúsið til þess að sjá og heyra Don Juan. Þegar forspilið var búið átti Kierkegaard að hafa staðið upp og sagt við Regínu: Nú getum við farið heim. Þú ert búin að fá það besta af þessu kvöldi, það er að segja tilhlökkunina! Regína bar þessa sögu til baka þegar hún var orðin gömul og sagði að þau hefðu farið heim vegna þess að Søren var með höfuðverk. Mörg- um betri borgurum í Kaupmannahöfn gramdist framkoma Sørens við Regínu og meðal þeirra var rithöfundurinn Henrik Hertz. Að hans sögn kom Kierkegaard dag nokkurn að sækja Reg- ínu í hestvagni og hafði boðið henni í ökutúr út í sveit sem gladdi hana ósegjanlega. Á hring- torginu við Vesturbrú lét hann hins vegar snúa vagninum við og ók heim með hana aftur. Það gerði hann til þess að þjálfa hjá henni afneitun. Ályktun Henrik Hertz var hins vegar ekki að þar hefði honum vel farist við stúlkuna og þetta hefði verið þroskandi fyrir hana, heldur taldi hann að þennan dag hefði verið vel við hæfi að flengja gáfnaljósið Kierkegaard. Kierkegaard sleit trúlofuninni við Regínu að því er virtist upp úr þurru. Hún tók því mjög illa enda varð þetta hneyksli og afar umtalað mál í þeirri tiltölulega fámennu dönsku yfirstétt sem þá var í Kaupmannahöfn og hafði hver maður nefið í annars koppi. Søren lét sig hverfa. Hann þurfti allt í einu að fara til Berlínar í nokkrar vikur til að skrifa. Skömmu síðar tóku þau Reg- ína og Schlegel aftur upp þráðinn þar sem Sør- en hafði slitið hann. Þau giftust og fer ekki öðr- um sögum af því en að hjónaband þeirra hafi verið prýðilegt. Hins vegar varð Søren æ fræg- ari eftir því sem árin liðu og hann hélt áfram að skrifa um og túlka ástarævintýri þeirra Regínu sem er stórmál í ritverkum hans. Það skipaði henni sess í heimsbókmenntunum og varð hon- um tilefni til víðtækra greininga á ást og tilfinn- ingum og kærleikanum yfirleitt. Kierkegaard komst fljótlega að þeirri niður- stöðu eftir að hann sagði Regínu upp að and- styggileg framkoma gagnvart henni væri það göfugasta og fegursta sem hann gæti boðið henni upp á. Ef hún sannfærðist um að hann væri illmenni hefði hún réttlætið sín megin, gengi stolt út úr sambandinu og yrði hamingju- söm. Hann hélt engu að síður alla ævi áfram að skrifa um hana í dagbókum sínum og skipulagði göngutúra sína af ýtrustu nákvæmni þannig að þau sæju hvort öðru bregða fyrir. Hún virðist ekki hafa verið frábitin því að taka þátt í þeim leik. Hún lifði bæði eiginmann sinn og fyrrver- andi unnusta, Søren Kierkegaard, og því lengra sem leið frá dauða hans, þeim mun hreinni og tærari var ást þeirra að hennar sögn. Hver var maðurinn? Søren Kierkegaard skrifaði þráfaldlega und- ir hinum og þessum dulnefnum. Það er ljóst af dagbókum hans að hann gerði sér að einhverju leyti grein fyrir því að rödd höfundar í bók er aldrei ein og aldrei rödd hans sjálfs, þó að slíkar kenningar kæmust fyrst almennilega á flot eftir hans dag. Það var annars siður á þessum tíma að menn skrifuðu undir dulnefnum ef þeim sýndist svo. Það var meðal annars vegna rit- skoðunarlaga og um miðja nítjándu öldina þótti mönnum fjölmiðlun vaxa fiskur um hrygg með ógnvekjandi hraða. Læsi jókst hröðum skrefum og blaðaútgáfa þar með. Alls konar kjaftháttur og óhagkvæmur fréttaflutningur óð uppi. Auð- vitað hnýttu betri borgarar og hugsuðir í blöðin og Søren lét það einhvern tímann fjúka að blöð væru aðallega skrifuð fyrir fólk með niðurgang. Þá sagðist hann að sjálfsögðu eiga við þann tíma sem það tæki að lesa blað en engum duld- ist sjálfsagt ábendingin um að fleira mætti gera við fréttablöðin en að lesa þau. Þessi ummæli féllu um það leyti sem blaðið Corsaren (sjóræninginn eða víkingurinn) veitt- ist hvað harkalegast að Søren með háði, útúr- snúningum og skopmyndum. Þeir voru um þetta leyti að uppgötva mátt skopteikningar- innar og dolfallnir yfir því hve glaðir lesendur urðu þegar háðinu var beint að „andlegum yf- irvöldum“. Þegar myndir voru teiknaðar af Sør- en var hann gerður að álappalegri hengilmænu með herðakistil, önnur buxnaskálmin var höfð styttri eins og stundum hjá sveitamönnum á mölinni og þetta þótti fólki fyndið, nema auðvit- að klæðskera Sørens sem bað hann um að hætta að skipta við sig. Á tiltölulega skömmum tíma breytti blaðið ímynd Kierkegaard frá því að vera snillingurinn og spámaðurinn sem menn dáðu og hræddust í það að vera eins kon- ar þorpsfífl. Þegar slík gróska ríkir í aðferðum manna við að leggja hver annan í einelti er varla furða þó að menn hafi kosið að skýla sér bak við dulnefni. Á þessum tíma var það nefnilega glæný og fordæmislaus reynsla að fá svívirð- ingum og móðgunum um sig dreift til mörg hundruð lesenda. Það fór hastarlega í taugarnar á Kierkegaard þegar menn nenntu ekki að sýna dulnefnum hans virðingu og töluðu um hinar fjölmörgu bækur sem hann gaf út undir dulnefnum eins og þær væru eftir hann. Ef eitthvað fór verr í hann var það ef menn tóku tilvitnanir ófrjálsri hendi frá einhverjum af þessum meintu höf- undum eins og þeir væru alveg óþekktir og kæmu honum ekkert við. Þá þóttist hann rænd- ur þó að hann gæti annars ekki verið að bera ábyrgð á því sem þessir menn sögðu. Dulnefni sín virðist Kierkegaard líka hafa notað til þess að prófa hlutverk. Á meðan eld- arnir út af Regínu brunnu hvað heitast lét hann reyndan eiginmann og ungan elskhuga talast við í verkum sínum svo að dæmi séu nefnd og SAK E F T I R K R I S T J Á N J Ó H A N N J Ó N S S O N SAK, ævisaga Søren Aabye Kierkegaard eftir Joakim Garff, kom út í fyrra. Bókin er dæmi um það hve hrífandi ævisögur geta orðið þegar sú bókmenntagrein rís hæst. Søren Aabye Kierkegaard.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.