Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.2002, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.2002, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. FEBRÚAR 2002 3 B JART og fallegt veður í miðjum febrúar, snjóföl á jörðu. Búinn að fá mér kaffi og líta í blöðin. Einhver óþreyja í blóðinu, get ekki komið mér að verki. Verð að komast út. Smelli mér í síð- ar, vettlinga og úlpu og held af stað. Sólin kemur framundan skýi og ég undrast að hún skuli vera svo hátt á lofti. Gamall maður kemur á móti mér. Hann gengur álútur, hægum skrefum, með hendur fyrir aftan bak. – Góðan dag, segi ég þegar við mæt- umst. Hún skín aldeilis glatt núna, bless- uð sólin. Hann staðnæmist og lítur hægt upp. Lyftir handleggnum og strýkur hand- arbakinu um nef sér. Svo horfir hann til himins. – Já, segir hann lítið eitt rámur. Hún kemur upp á morgnana með hátignarlegri ró. Það er enginn asi eða gauragangur á þeim bænum. – Það er alltaf gott að fá sér frískt loft, segi ég. – Ég er eiginlega á leiðinni í BYKO, segir hann. Þarf að fá mér spýtufjanda. Maður verður alltaf að hafa eitthvað að dunda við þegar maður er orðinn gamall. Hann þurrkar sér aftur um nefið. Ég er nú fæddur 1913 vestur á Barðaströnd, svo þetta er aldeilis orðin dorra. Maður þyrfti endilega að fara að hrökkva upp af, bætir hann við um leið og hann læsir höndunum að baki sér og hallar sér áfram. Við kveðjumst og höldum hvor sína leið. Ég er að velta því fyrir mér hvort hann ætli fótgangandi í BYKO og kemst að þeirri niðurstöðu að það muni hann gera, og halda á spýtunni sinni heim. Ég er kominn yfir Arnarbakkann, framhjá Fálkaborg og sé út á sundin. Heyri krunk úr holtinu á hægri hönd. Sjö eða átta hrafnar láta vígalega í kringum eitthvert æti. Hvað skyldu þeir hafa fundið, greyin? Ég vík af malbikaða göngustígnum og held í átt til hrafnanna. Þeir býsnast mik- ið, hoppa, flögra og halla undir flatt áður en þeir ólundast spölkorn í burtu. Ein- hver hefur borið út þverhandarþykka hrossaketsbita. Þeir eru enn hálffrosnir og það stirnir á gulleita fituna. Guð launar fyrir hrafninn. Ég flýti mér um undirgöngin við Stekkjarbakkann, því þar er dynur mikill og fnykur sem veldur ógleði og and- arteppu, hleyp við fót niður brekkuna, yf- ir trébrúna og skýst í hvarf á milli trjánna. Ég er kominn í var. Ég geng rösklega þar til ég kemst af rökkvuðum stígnum og út á bersvæði. Þar staldra ég við, dreg andann djúpt og legg við hlustir. Stararnir hamast glað- klakkalega í trjánum, fjölhljóma bakradd- ir við árniðinn. Það er glaða sólskin og nærri logn í skjóli við hávaxin barrtrén. Ég loka augunum og nýt þess að finna sólina verma andlit mitt. Engin furða að Þorkell Máni léti bera sig út í sólskinið að leiðarlokum og hét á þann guð er hafði skapt sólina. Þorkell Máni er minn maður. Birtan og lífið, myrkrið og dauðinn. Samt alltof stutt síðan ég áttaði mig á að birtan er mitt nauðsynlegasta næringarefni. Ljós og birtu himinsins verð ég að fá á hverjum degi og engar refjar til að við- halda bjartsýni og lífsgleði. Ekki síst þessa dagana þegar á manni dynja linnu- lausar fregnir af ódæðisverkum, dauða og tortímingu. Ég held af stað, þræði krókótta stigu milli sígrænna stafafurubrúska og ber- strípaðra greina birkis, aspar og viðju. Dáist sem ætíð að vendilegum og snotrum vetrarumbúnaði asparinnar um brum, börk og greinar. Ekkert tré slær henni við í þeim efnum. Ég beygi mig niður að kirfilega lokuðu brumhylkinu, og svei mér þá ef það gefur ekki frá sér agnarvott af ilminum kynngimagnaða sem gefur fyr- irheit um fuglasöng og sælu. Áin rennur milli skara í tveimur minni kvíslum syðra megin í dalnum. Að- alrennslið er handan skógarins við Orku- heima og Laxabyggð. En þetta er áin mín. Ég staðnæmist á bakkanum neðan við flúðirnar, finn strauminn renna í blóð mitt, hrífa mig með sér. Af stað, af stað burt í fjarlægð um sléttur og grundir á ókunna staði þar sem ævintýrin bíða við hvert fótmál. Ég er staddur í stýrishúsi á fjöl bernskunnar sem hoppar og skoppar framhjá steinum, klettum og flúðum inn á lygnar víkur í var um stund, svo hrífur hringiðan bát og dreng aftur með sér, hraðar, hraðar þar til loks djarfar fyrir ósum og hinu stóra hafi þar sem fátt segir af lítilli fjöl. Áin, hin eina sanna eilífðarvél sem þiggur eldsneyti sitt af himnum og heldur við lífinu. Eftir ferðalagið er ég svolítið dasaður og sest á þurran stein bakvið svartan kvistinn. Gular, grænar og mórauðar skófirnar gæla við augu mín og ég strýk fingurgómunum varlega eftir hrufóttu yf- irborðinu. Í hraunbollanum við fætur mér sé ég blöð hárdeplunnar teygja sig mót sólinni, fagurgræn og gróskumikil eins og á sumardegi og ekki er blóðbergið síðra. Skyldi vera ylur undir hrauninu hérna? Eldur og ís. Það er lóðið á landinu bláa. Ég rölti aftur af stað, milli sinubrúska og þúfna sem standa upp úr snjófölinu. Það brakar í spori þegar skænið lætur undan og ískristallarnir koma í ljós. Öld- um saman hafa menn og skepnur á land- inu í norðri orðið að þreyja þorrann og góuna, beðið sumardagsins fyrsta milli vonar og ótta einmánuðinn allan, horft löngunarfullum augum út í myrkrið og hlustað eftir sönghljóðum hörpunnar. Frjósi nú saman sumar og vetur. Ég er kominn á heimleið, trébrúin að baki, heitt brauð og kæfubiti þrýsta sér fram úr hugskotinu og ég greikka sporið. Drunur í lofti og það glampar á renni- legan stálfuglinn í sólskininu þar sem hann þýtur silfurlituðum vængjum til móts við malbik, á hvítri bringu getur að líta dökku letri Flugfelag.is. MORGUN- GANGA RABB E Y S T E I N N B J Ö R N S S O N e y s t b @ i s m e n n t . i s ÚR VÖLUSPÁ Ask veit eg standa, heitir Yggdrasill, hár baðmur, ausinn hvíta auri, þaðan koma döggvar þær er í dala falla, stendur æ yfir grænn Urðarbrunni. Þaðan koma meyjar margs vitandi, þrjár úr þeim sæ er und þolli stendur, Urð hétu eina, aðra Verðandi, skáru á skíði, Skuld ina þriðju. Þær lög lögðu, þær líf kuru alda börnum, örlög seggja. Það man hún fólkvíg fyrst í heimi er Gullveigu geirum studdu og í höll Hárs hana brenndu. Þrisvar brenndu, þrisvar borna, oft, ósjaldan, þó hún enn lifir. Heiði hana hétu hvar er til húsa kom, völu velspá, vitti hún ganda, seið hún kunni, seið hún leikinn, æ var hún angan illrar þjóðar. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 8 . T Ö L U B L A Ð - 7 7 . Á R G A N G U R EFNI FORSÍÐUMYNDIN er tekin af Árna Sæberg í tilefni konudagsins á morgun. Svifið seglum þöndum heitir sýning sem verður opnuð í Hafnarborg í dag og er komin er frá Sjóminja- safninu á Álands- eyjum. Þar er fjallað um síðustu segl- skipin sem sigldu um heimshöfin, en þau voru í eigu finnska athafnamannsins Gustafs Eriksons. Heiða Jóhannsdóttir leit inn á sýninguna. Íslenskt mál er í stöðugri endurnýjun og þar leggja bæði leikir og lærðir hönd á plóg. Freysteinn Jó- hannsson heimsótti Íslenska málstöð og for- vitnaðist um málfarsleg efni, talaði við tvo unga stjórnmálafræðinga, sem skáru upp herör gegn enskuskotnu fræðimáli, og einnig sat hann fund orðanefndar bygg- ingaverkfræðinga, þar sem menn eru að leggja síðustu hönd á fimmtyngt orðasafn um fráveitur. Heimspeki, til hvers? Kristján G. Arngríms- son skrifar fjórðu greinina í flokknum um hlutverk, viðfangs- efni og aðferðir heim- spekinnar við aldamót. Halldór og Hemingway heitir fyrsta grein Péturs Gunnarssonar um tengsl Halldórs Laxness við nokkra rithöf- unda og áhrifamenn sem voru honum sam- tíða. Í þessari fyrstu grein fjallar Pétur meðal annars um þýðingar Halldórs á verk- um eftir Hemingway og umræðu sem þær höfðu í för með sér um stíl og þýðing- araðferðir.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.