Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 23.02.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. FEBRÚAR 2002 Þ ESSI saga, eins og svo margar aðrar sögur í heimspeki, hefst með Hegel. Þegar hann var að byrja í greininni var það, sem nú heitir Þýskaland og nágrenni, skipt upp í fjölda smáríkja, sem hvert um sig hafði sínar eigin, staðbundnu reglur, hefðir og siði. G.W.F. Hegel (1770–1831) hafði ungur hrifist mjög af hugsjónum frönsku byltingar- innar og Upplýsingarinnar. En hann bar líka virðingu fyrir hefðum og siðum þýsku ríkjanna, sem voru jú að miklu leyti uppspretta hans eigin hugmynda. Vandinn var sá, að hug- sjón Upplýsingarinnar um algildi hreinnar skynsemi fór ekki saman við það hversu marg- breytilegar og mismunandi hefðir voru ríkjandi í þýsku smáríkjunum. Markmið heim- spekinnar, að mati Hegels, var fyrst og fremst að samþætta þessi ólíku sjónarmið. Ekki bara hinar ólíku hefðir þýsku ríkjanna, heldur líka algildishugsjón Upplýsingarinnar annarsveg- ar, og hin mörgu og mismunandi gildi smáríkj- anna hinsvegar. En það sem gerði Hegel ólíkan öðrum heimspekingum var að hann tók ekki af- stöðu með öðrum aðilanum gegn hin- um. Hann var ekki fylgismaður Upp- lýsingarinnar og andstæðingur gömlu hefðanna, og ekki heldur andstæðingur Upplýsingarinnar og hliðhollur hefðunum. (Það er reyndar nokkuð algengur mis- skilningur að Hegel hafi verið fremstur í flokki í uppreisn þýsku rómantíkurinnar gegn Upplýsingunni.) Vandinn sem Hegel fannst hann standa frammi fyrir var sá, að bæði Upplýsingin og staðbundnu hefðirnar væru mikilvægar og þess vegna yrði að sigrast á misklíðinni á milli þeirra án þess að annað hvort yrði beinlínis ofan á. Þetta var meginverkefni heimspekinnar, að mati Hegels. Í fyrsta heim- spekiritinu sem hann birti opinberlega (Munur- inn á heimspeki Fichtes og Schellings) var hann með þetta á hreinu: „Þörf- in fyrir heimspeki er sprottin af ágreiningi.“ Hann átti ekki við að ágrein- ingur sé grundvallaratriði í allri heimspeki, heldur þvert á móti, tilgangurinn með heim- speki er að finna leið út úr ágreiningi. Það er ekki gert með því að sýna með rökum, og vísan til algildra viðmiðana sem eru óháð staðbundum hefðum og siðum, að annar deiluaðila hafi rétt fyrir sér og hinn rangt, heldur er markmiðið að sam- þætta báðar hliðar. Kanadíski heimspek- ingurinn Howard Adelman hefur orðað þetta hnyttilega: „Heimspeki er ekki kapp- leikur þar sem markmiðið er að bera sigurorð af andstæðingum sínum.“ (Adelman, bls 166.) En þessi hugmynd Hegels um markmið og tilgang heimspekinnar hefur fráleitt átt auð- velt uppdráttar í gegnum tíðina, og heimspeki hans hefur ekki síður reynst mikilvæg og frjó- söm vegna allrar þeirra andspyrnu sem hún hefur vakið. Einhverjir hörðustu andstæðing- ar hegelskrar heimspeki voru engilsaxnesku rökgreiningarheimspekingarnir svonefndu, sem tóku upp gunnfána Upplýsingarinnar og leituðust við að beita hreinni, röklegri skyn- semi til að finna algild sannindi sem ekki yrði efast um. Því mætti maður kannski voga sér að segja – og vona að maður sé ekki að einfalda hlutina allt of mikið – að heimspeki sé fyrst og fremst leit að algildum sem hægt er að byggja þekkingu á. En hvað eru algildi? Í leit að fullvissu Bretinn Bertrand Russell (1872–1970) hefur eins og fengið það hlutverk að vera nokkurs- konar æðstiprestur rökgreiningarheimspek- innar, og markmið hans með ástundun heim- speki var að komast að því hvað hann gæti verið algerlega viss um. Þetta er einskonar grunnstef í þessari tegund heimspeki eins og hún er enn iðkuð í heimspekiskorum margra háskóla á Vesturlöndum. Í sumum þessara skóla er lítil bók eftir Russell, Vandamál heim- spekinnar (á ensku The Problems of Philos- ophy), sem kom fyrst út 1912, notuð sem kennslubók í inngangsnámskeiðum. Fyrsta setningin í bókinni setur kúrsinn: „Er til nokk- ur þekking í heiminum svo örugg að enginn skynsamur maður geti dregið hana í efa?“ (Russell, bls. 1.) Russell leit svo á, að heimspeki væri í fyrst og fremst rökfræði, og algerlega óhlut- bundin. Einungis í hinu óhlutbundna var hægt að öðlast algera vissu. Þess vegna, sagði Russell, mega heimspekilegar fullyrðingar aldrei vera um raunverulega hluti, hvorki hér á jörð né nokkurs staðar í hinum efnislega heimi. Heimspekilegar fullyrðingar verði að vera svo almennar að þær gildi hvar sem er og hvenær sem er. Frægt dæmi um slíka heimspekilega fullyrðingu er þessi: „Allir piparsveinar eru ókvæntir.“ Þessi setning er sönn, hvernig sem allt veltur og fer, og hvort sem maður er stadd- ur á jörðinni eða í fjarlægasta handanheimi; hún var sönn árið 874 og verður sönn árið 2874. Það breytir engu þótt mannkynið þurrkist út – það er satt, að allir piparsveinar eru ókvæntir. Það sem meira er, það þarf ekki að athuga mál- ið til að komast að því hvort setningin er sönn; það þarf ekki að ganga á röðina og spyrja alla piparsveina í heiminum hvort þeir séu ókvænt- ir. Maður veit fyrirfram að þeir eru það. Rökgreiningarheimspekingarnir – með Russell fremstan í flokki – rekja ættir sínar til Platóns, og kenningar hans um frummyndir, sem hann sagði vera það raunverulegasta af öllu raunverulegu, og forsendu þess að hlut- irnir séu það sem þeir eru. Til dæmis sé réttlát aðgerð réttlát vegna þess að hún er beintengd við réttlætið sjálft, það er að segja, við frummynd réttlætis- ins. Þessar frum- myndir eru það eina sem er algilt, og óháð tilteknum aðstæðum, tíma og stað. En það er ekki hægt að öðl- ast þekkingu á þessu eigin- lega réttlæti – frummynd réttlætisins – nema með því að beita rökrænni hugsun. Sönn þekking á réttlætinu er því einungis möguleg með heimspeki, samkvæmt þessum skilningi, og heimspekileg greining réttlætisins er alveg óháð því hvernig mennirnir í raun og veru skipa málum sínum. Samkvæmt þessari heimspekihefð svipar heimspeki mjög til vísinda, að því leyti að hún veitir áreiðanlega þekkingu, og fæst við til- tekin vandamál sem ætlunin er að leysa úr. Þetta þýðir að heimspekin varðar heiminn í þeirri merkingu að hún vísar veginn, og segir hvað skuli gera. Sumir rökgreiningarheim- spekingar líta á starf sitt sem einskonar vinnu- mennsku fyrir raunvísindin, og að þeir séu að leitast við að greina og skerpa hugtök og for- sendur sem vísindin síðan geti nýtt. Þetta er reyndar svolítið óljóst, og Russell viðurkenndi að litlar sem engar líkur væru á að heimspekin myndi nokkurn tíma finna hin endanlegu svör sem hún leitaði að, eins og til dæmis hvað rétt- læti er. Engu að síður virtist hann þess fullviss að þetta væri eina mögulega leiðin til að kom- ast að nokkurri endanlegri niðurstöðu, og því væri rétt að halda sig við þessa leið. Beint gagn, ef nokkurt, af heimspeki, væri fólgið í íhugun stórra spurninga á borð við það hvað réttlæti sé í sjálfu sér, því þannig gæti maður sloppið úr festum staðbundins vana og for- dóma sem manni hefðu verið innrættir, og í stað þess að skilningur manns og þekking mið- aðist öll við manns eigin stund og stað gæti heimspekin veitt manni möguleika á hinu víð- tækasta sjónarhorni. Heimspeki sem von Einn þekktasti andstæðingur hugmyndar- innar um heimspekileg algildi nú á dögum er án efa bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty. Hann telur rökgreiningarvæðingu heimspekinnar hafa verið bólu sem sé að hjaðna. Í stað þess að beita strangrök- fræðilegri aðferð til að finna algild sannindi sem maður getur verið full- viss um segir Rorty að heimspek- ingar fáist í rauninni við að finna sífellt betri og nákvæmari lýsing- ar á veruleikanum, og við þá iðju komi ímyndunaraflið einna best að notum, ekki ströng rökvísi. Heimspeki í þessum skilningi á lítið skylt við vís- indi og er mun nær því að vera einskonar bókmennt- ir, enda segir Rorty að það séu í rauninni skáldin, ekki vísindamennirnir, sem setji okkur kúrsinn. Vís- indin geri ekki annað en að fylgja vörðunum sem skáldin reisi. Sennilega hafa fáar bækur valdið jafn miklu og langvinnu uppþoti í heimspeki Vesturlanda og bók Rortys, Heimspekin og spegill náttúrunnar (á ensku Philosophy and the Mirror of Nature), sem kom fyrst út 1979. Menn eru enn að skrifa lærðar rit- gerðir til að sýna fram á hversu forkastanlega rangt Rorty hafi fyrir sér í henni. Einkum sýnist mönnum Rorty bjóða heim fullkominni afstæð- ishyggju. Hann hafnaði þeirri hugmynd að starf heimspeking- anna sé fólgið í því, að finna og skil- greina hinar endanlegu undirstöður allrar þekkingar, og þannig sýna fram á hver hljóti að vera grundvöllur allrar fullkomlega traustrar þekkingar. Það sé ekki hið raunverulega starf heimspekingsins að draga fram með aðferðum rökgreiningar- innar hina eiginlegu og hlutlausu umgjörð allr- ar þekkingar sem talist geti áreiðanleg; um- gjörð sem allir verði að semja sig að og byggja reglur sínar á og sé því hinn sameiginlegi grundvöllur allrar þekkingarleitar, til dæmis alls vísindastarfs. Heimspekingurinn er ekki, að mati Rortys, í því hlutverki að skera úr í deilum manna sem hafa mismunandi afstöðu, og sýna fram á hver hin eiginlega og rökfræði- lega óhjákvæmilega afstaða allra manna hljóti að vera, ef þeir bara láti blákalda, rökræna skynsemi ráða. Í stað þess að segja okkur hver hin eina rétta aðferð sé við að komast að því hvernig heimurinn í raun og veru er segir Rorty að heimspekingarnir fáist við að draga upp sem fjölbreyttastar myndir af því hvernig hægt er að skilja heiminn. Það má vel vera að heim- urinn sé í raun og veru einhvernveginn, en þekking okkar á honum er óhjákvæmilega mótuð af því hvernig við – hin þekkjandi vit- und, svo notað sé afskaplega heimspekilegt orðalag – erum og þess vegna óhjákvæmilegt að við fáum mismunandi skilning á heiminum. Nú og svo er margt í heiminum og lífi okkar VARÐAR HEIMSPEKIN HEIMINN? E F T I R K R I S T J Á N G . A R N G R Í M S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.