Lesbók Morgunblaðsins - 23.03.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 23.03.2002, Blaðsíða 6
I NNRÁS bandamanna í Normandí 6. júní 1944 var vissulega gríðarlega mik- ilvægt skref í átt til endanlegs sigurs yfir Þýzkalandi nazismans. Herir Þjóð- verja höfðu verið meira eða minna á undanhaldi á flestum vígstöðvum mest- allt árið 1944. Um mitt það ár höfðu herir bandamanna á Ítalíuvígstöðvun- um tekið allan suður- og miðhluta landsins og á austurvígstöðvunum voru hersveitir Rússa komnar inn í Pólland og jafnvel inn fyrir landa- mæri Þýzkalands sjálfs. Rússar höfðu þrýst mikið á um aðrar vígstöðvar í Frakklandi til að létta á þeim sjálfum en mestur þungi stríðsins við Þjóðverja mun hafa legið á Rússum. Þjóðverjum mun raunar hafa verið vel ljóst að vænta mætti innrásar í Frakkland löngu áð- ur en innrás bandamanna í Normandí varð að veruleika. Má segja að ekkert hafi í raun verið eðlilegra en að Bretland yrði notað sem stökk- pallur inn í Evrópuvígi Þjóðverja. Eftir upp- gjöf Frakklands, í júní 1940, og allt fram til ársins 1942 hugsaði þýzka herstjórnin þó ekk- ert um að koma sér upp einhvers konar varn- arvirkjum á vesturströnd Evrópu. Sigurinn var svo öruggur, að mati Hitlers og nazista hans, að allar hugmyndir um varnarvegg þóttu algerlega út í hött. Eftir að Frakkar höfðu gef- ist upp var einungis Bretland eftir ósigrað. Herforingjar Hitlers vildu gera innrás í Bret- land og hernema það strax eftir að brezki her- inn var rekinn í sjóinn við Dunkerque, en Hitl- er var hikandi. Hann talaði í sífellu um að Bretar væru ekki hinir raunverulegu óvinir Þýzkalands, auk þess sem hann taldi að þeir myndu fljótlega biðja um frið. Af þessum sökum er því e.t.v. ekkert und- arlegt að Hitler hafi ekki haft mikinn áhuga á varnarvirkjagerð í Frakklandi, ekki sízt vegna þeirrar staðreyndar að hann vanmat alltaf Bandaríkin. Hvað hafði hann að óttast í vestri? Auk þess mun aðalathygli þýzku herstjórnar- innar hafa verið bundin við austurvígstöðvarn- ar þar sem fyrst í stað gekk vel en síðan fór stöðugt að halla undan fæti. Fyrir þá þýzku hermenn sem börðust í Rússlandi þótti það nánast á við að fara í frí að vera sendir til Frakklands. Enda var hið hersetna Frakkland skipulega notað, frá árinu 1942, sem hvíldar- svæði fyrir illa leiknar herdeildir af austurvíg- stöðvunum. Þrátt fyrir sannfæringu Hitlers báðu Bretar þó ekki um frið og styrktust auk þess stöðugt eftir því sem leið á stríðið, með aðstoð Banda- ríkjamanna. Hitler gerði sér því ljóst 1942 að strendur Frakklands voru ekki lengur brúar- sporður til innrásar í Bretland heldur veikur hlekkur í varnarkeðjunni. Því var farið að vinna að hugmyndum í þýzka herforingja- ráðinu á árinu 1942 um að gera Evrópu að óvinnandi virki. Þó hafði Hitler í desember árið áður lýst því yfir í ræðum sínum að þegar hefði verið komið upp samfelldu belti varnarvirkja allt frá Kirkenæs í Norður-Noregi og suður til Pýreneafjalla við Spánarlandamærin. En stað- reyndin var þó sú að þetta voru innihaldslaus- ar fullyrðingar. Engin ósigrandi virki voru til staðar á vesturströnd Evrópu, ekki einu sinni þar sem styst var á milli Englands og Frakk- lands í Pas-de-Calais-héraði. Um þetta leyti voru þar engin raunveruleg varnarmannvirki. Herforingjar Hitlers höfðu þó margir hverj- ir miklar efasemdir um þessa varnarkeðjuhug- mynd Foringjans þótt sjálfur væri hann gagn- tekinn af henni. Franz Halder hershöfðingja, og um þetta leyti formanni þýzka herráðsins, leizt síður en svo vel á þessar hugmyndir. Að hans mati áttu varnarvirki, ef þeirra væri þá þörf, ekki að rísa niður við ströndina heldur langt upp frá ströndinni þar sem fallbyssu- skothríð frá herskipum næði ekki til þeirra. Von Rundstedt marskálkur, æðsti yfirmaður hersveita Þjóðverja á vesturvígstöðvunum, var heldur ekki yfir sig hrifinn af varnarvirkja- hugmyndum Hitlers. Hann hafði aldrei verið trúaður á gagnsemi kyrrstæðra varna. Að hans mati var eina leiðin til að hrinda innrásina að hafa meginherinn upp frá ströndinni, og gera svo öfluga árás þegar bandamenn væru komnir á land. Það var augnablikið til að gera leiftursókn. En Hitler varð ekki haggað. Atlantshafsveggurinn Fyrsti raunverulegi skriðurinn komst á varnarvirkjabygginguna eftir hina blóðugu „innrás“ 5.000 Kanadamanna við Dieppe árið 1942. Árásin mistókst með öllu en við þennan atburð lagði Hitler ofuráherslu á að mann- virkjagerðinni væri flýtt sem allra mest. Þús- undir þrælaverkamanna voru látnar vinna dag og nótt við virkisbyggingarnar. Þörfin fyrir sement varð svo mikil að það varð fljótlega ógerlegt að fá sement í önnur verkefni á yf- irráðasvæði nazista. Vegna skorts á byggingarefni var gripið til þess ráðs að rífa niður hluta Maginot-varnarlínunnar frönsku og Sigfried-línunnar þýzku í varnarvirkin. Skortur var einnig tilfinnanlegur á stáli og varð það til þess að flestar fallbyssur Atlants- hafsveggjarins urðu að vera án hringbrauta sem þýddi að skotsvið þeirra takmarkaðist verulega. Erwin Rommel marskálkur var skipaður yf- irmaður herjahóps B á vesturvígstöðvunum í nóvember 1943. Hann hafði þá ekki komið til Frakklands síðan 1941 og eins og flestir hers- höfðingja Þjóðverja trúað áróðri Hitlers um hinn öfluga og ósigrandi Atlantshafsvegg. Þegar hann kom til Frakklands 1944 blöskr- uðu honum varnirnar. Fyrsta verk Rommel var að fara í skyndirannsóknarferð yfir öll varnarmannvirkin á vesturströnd Evrópu og varð hann furðu lostinn yfir því sem bar fyrir augu hans. Víðast hvar voru varnarmannvirkin ófullgerð og sums staðar jafnvel aðeins á byrj- unarstigi. Þó var varnarveggurinn mikið her- virki á þeim stöðum þar sem hann var kominn á lokastig með urmul fallbyssuhreiðra. Í skarpskyggnum augum Rommel var Atlants- hafsveggurinn þó skrípaleikur. Rommel eyddi næstu mánuðum í þrotlausa uppbyggingu og hlífði hvorki sér né mönnum sínum. En eins og fyrr segir voru varnar- virkjagerðinni miklar takmarkanir settar vegna skorts á byggingarefni. Rommel kom þó miklu í verk og hrúgaði niður fjöldanum öllum af alls kyns tálmunum, milljónum jarðsprengja og fjölda nýrra fallbyssuvirkja hér og hvar á strandlengjunni. Hugmyndir Rommel um hvernig hrinda skyldi innrásinni voru alger- lega andstæðar hugmyndum þeirra von Rund- stedt og Halder. Rommel var að mörgu leyti sammála Hitler um að varnarvirki væru rétta aðferðin og taldi að úrslitin yrðu ráðin á ströndinni. Hann hafði þó ýmsar sérstakar hugmyndir. Hann vildi t.a.m. að allur megin- herinn, með öflugum skriðdrekasveitum, yrði til reiðu við ströndina. Enginn tími yrði til að flytja varalið frá bakvarðstöðvum. Þeim yrði auk þess án efa sundrað með loftárásum og herskipaskothríð. Mæta yrði innrásinni af full- um þunga strax í fæðingu. En sem fyrr segir var mikill ágreiningur á milli þýzku herforingjanna um hvernig verjast skyldi innrásinni. Von Rundstedt og Halder voru þó ekki helstu andstæðingar Rommel í þeim málum heldur Leo Geyr von Schweppen- burg hershöfðingi, sem kom því til leiðar að Rommel fékk ekki þær skriðdrekasveitir sem hann taldi nauðsynlegar til þess að brjóta inn- rásina á bak aftur strax í byrjun. Þess í stað var þeim dreift í litlum einingum hingað og þangað um vesturvígstöðvarnar. Þetta þýddi síðan að þegar bandamenn komust í gegn um misgripheld varnarvirki Þjóðverja í Normandí voru engar hersveitir til staðar til að taka á móti þeim. En við Atlantshafsvegginn bættist smám saman dag frá degi. En þrátt fyrir alla vinnuna og ósérhlífni Rommels og hersveita hans, auk þúsunda þrælaverkamanna, tókst aldrei að gera Atlantshafsvegginn að því varnarvirki sem hann hefði þurft að vera ef hrinda hefði átt innrás bandamanna. Byggingarefnið og vinnu- aflið var einfaldlega aldrei fyrir hendi til þess að draumar Hitlers um öflugt, samfellt varn- arvirki gætu ræst. Eini staður varnarlínunnar sem var í einhverju sambandi við áróðursræð- ur Hitlers var Pas-de-Calais; staðurinn sem flestir herforingjar Þjóðverja voru sannfærðir um að yrði innrásarstaðurinn. Varnarliðið Þær hersveitir sem þýzka yfirherstjórnin ætlaði það hlutverk að manna Atlantshafs- vegginn voru ekki svipur hjá sjón í flestum til- fellum. Þjóðverja skorti tilfinnanlega mannafla í það verk, eins og raunar alls staðar annars staðar. Hitler hóf stríðið við Rússa með þeirri sannfæringu sinni að Bretland væri sigrað, þrátt fyrir viðvaranir hershöfðingja sinna. Styrjöldinni á vesturvígstöðvunum var að hans mati einfaldlega lokið þegar þýzki herinn réðst inn í Sovétríkin árið 1941. En tveimur árum síðar var staðan ger- breytt. Setuliðið í Frakklandi og hersveitirnar á vesturvígstöðvunum voru engan veginn nógu öflugar til að tryggja öryggi vesturlandamæra þriðja ríkisins. Þörf var fyrir heilu herdeild- irnar til viðbótar til þess að verjast innrás sem flestum var orðið ljóst að ekki væri spurning um hvort yrði, heldur hvenær. Þýzka her- stjórnin stóð frammi fyrir því vandamáli að finna þessar herdeildir sem í flestum tilfellum voru hreinlega ekki til. Margar af þeim her- deildum sem voru í Frakklandi frá árinu 1942 voru hersveitir sem höfðu orðið illa úti í bar- dögum á austurvígstöðvunum og voru í hvíld, eins og áður hefur verið greint frá. 50–60 her- deildir á pappírunum samsvöruðu sjaldnast 25 orustuhæfum herdeildum. Stór hluti þýzku hersveitanna samanstóð af annars flokks her- mönnum með litla þjálfun. Töluverður hluti samanstóð einnig af ungum drengjum og gamalmennum vegna þess hve mikinn mann- fjölda Þjóðverjar höfðu misst það sem af var stríðinu. Af þessum sökum ákvað nazista- stjórnin að grípa til þess ráðs að gefa stríðs- föngum þann kost að berjast með Þjóðverjum fremur en að grotna niður í þýzkum fangabúð- um. Tóku fjölmargir þann kost. Því innihéldu margar af þeim herdeildum sem verjast áttu í Atlantshafsveggnum 10% af hermönnum af er- lendu þjóðerni og sumar allt upp í 25%. Þetta gerði síðan allt samráð og önnur samskipti langtum flóknari en við eðlilegar aðstæður. Jafnvel munu heilu herfylkin af erlendum her- mönnum hafa verið á stundum tekin inn í Wehrmacht (þýzka herinn). Þannig munu a.m.k. tvær rússneskar herdeildir hafa verið innlimaðar í þýzka herinn en fyrir voru þving- aðir „sjálfboðaliðar“ frá Póllandi, Tékkó- slóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu og Júgó- slavíu, svo eitthvað sé nefnt. Miklar efasemdir voru um styrk þessara hersveita en þær fylltu engu síður upp í hættulegar glufur í varnar- keðjunni. Allskyns brellur og blekkingar voru notaðar í aðdraganda innrásarinnar af báðum aðilum. Þjóðverjar unnu markvisst að því að láta líta út fyrir að herstyrkur þeirra á vesturvígstöðv- unum væri miklum mun öflugri og fjölmennari en efni stóðu til. Upplýsingum var „lekið“ í al- menning í Frakklandi um að von væri á hinum og þessum hersveitum til viðkomandi bæja og borga sem flytja ætti af austurvígstöðvunum. Herdeildir voru sendar bæja á milli til þess að eiga þar stutta viðdvöl undir því yfirskini að þær væru framvarðasveit öflugra hersveita. Þessar upplýsingar fóru síðan jafnóðum í hendurnar á frönsku andspyrnuhreyfingunni SKÖRÐIN Í ATLANTS- HAFSVEGG HITLERS AÐDRAGANDI INNRÁSARINNAR Í NORMANDÍ FRÁ SJÓNARHÓLI ÞJÓÐVERJA Innrásin í Normandí er fyrir löngu orðin að goðsögn í atburðarás síðari heimsstyrjaldarinnar. Ófá rit og greinar hafa verið gefin út um atburð þennan síðan hann átti sér stað 6. júní 1944, hinn svokallaða D- dag. Flest þeirra hafa þó fjallað um innrásina frá sjónarhóli bandamanna og er því þörf á að skýra stöðu Þjóðverja gagnvart innrásinni og hvaða atriði í þeirra eigin undirbúningi og aðstæðum urðu til þess að þeim tókst ekki að verjast innrásinni. E F T I R H J Ö RT J . G U Ð M U N D S S O N Marskálkarnir Erwin Rommel og Gerd von Rundstedt. 6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. MARS 2002

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.