Lesbók Morgunblaðsins - 23.03.2002, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 23.03.2002, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. MARS 2002 11 Er hægt að eyða rafsegulbylgjum með tóli sem er grafið í garðinum hjá manni? Skiptir máli hvernig rafmagnsklær snúa? Spyrjandi, sem er bóndi austur í sveitum, bætir því við „að núna fara menn hér um með þessi fræði“. Svarið við fyrri spurningunni er nei: Það er ekki hægt að eyða rafsegulbylgjum inni í húsi með tóli í jörð úti í garði. Hins vegar má vel eyða rafsegulbylgjum í húsum með viðeigandi búnaði. Svarið við seinni spurningunni er líka nei: Engu skiptir hvernig rafmagnsklær snúa en hins vegar skiptir miklu að þær séu jarð- tengdar. Á fyrri hluta nítjándu aldar fleygði skilningi manna á rafsegulfyrirbærum mjög fram. Kóróna þeirrar þróunar er jöfnur Max- wells sem skoski eðlisfræðingurinn James Clerk Maxwell (1831–1879) setti fram upp úr 1860. Þær fela í sér alla klassíska rafsegulfræði í hnotskurn en á þeim fræðum byggjast gíf- urlegar og hraðskreiðar tækniframfarir, allt frá heimilisraftækjum til háspennulína og frá síma til sjónvarps, sem er eitt dæmið um rafseg- ulbylgjur og nýtingu þeirra. Fjölbreytnin í notkun rafsegulfyrirbæra hvarvetna vitnar um þann staðgóða skilning sem við höfum öðlast á þessum fræðum. Hefðbundin rafsegulfræði tek- ur meðal annars á því hvaða áhrif rafseg- ulbylgjur hafa á efni og hvaða áhrif efnið hefur á bylgjurnar. Með skammtafræðinni í upphafi tuttugustu aldar fengum við síðan enn nánari skilning á þessari víxlverkun við efni eins og málma, hálfleiðara og lofthjúp. Sú þróun hófst um 1930 og náði hápunkti fyrir 1980 með ná- kvæmri smásærri lýsingu á víxlverkun rafseg- ulbylgna við allt venjulegt efni kringum okkur. Þessar sögulegu staðreyndir minna á að rafseg- ulsviði og efni er vel lýst með þekktum jöfnum Maxwells og Schrödingers. Eins hafa eðlisfræð- ingar náð mikilli nákvæmni við mælingar á stærðum sem tengjast rafsegulsviði. Strax í árdaga rafsegulfræðinnar varð mönn- um ljóst að hægt er að útiloka utanaðkomandi rafsegulsvið af tilteknum tegundum frá ákveðnu rými ef menn vilja. Þetta kom glöggt fram í svo- kölluðum rafbúrum sem enski eðlisfræðingurinn Michael Faraday (1791–1867) fann upp og sýndi mönnum í eftirminnilegum tilraunum. Slíkt búr er gert úr málmi, ýmist með heilum málm- þynnum í veggjunum, málmgrind eða málmi með enn annarri lögun. Það fer síðan eftir þess- ari lögun hvers konar rafsegulsvið útilokast hverju sinni. Til dæmis er venjulegur fjöl- skyldubíll eins konar rafbúr. Ef eldingu slær niður í hann skaðar það okkur ekki nema við reynum að komast út. Ef við setjum útvarps- viðtæki inn í bílinn verður móttakan léleg af því að rafsegulsvið útvarpsbylgnanna nær illa inn í hann. Þess vegna þurfum við að koma fyrir út- varpsloftneti utan við bílinn. En eftir því sem tíðni rafsegulsviðsins hækkar verður bíllinn lé- legra rafbúr. Dæmi um það er tíðnin sem notuð er í farsímum og er miklu hærri en í útvarpi. Þess vegna getum við notað farsíma þó að við sitjum inni í bílnum. Bíllinn er aðeins gott rafbúr fyrir rafsegulbylgjur sem hafa miklu lengri bylgjulengd en stærð glugganna á honum. Raf- sviðið í eldingunni hefur lága tíðni og því mjög langa bylgjulengd og bylgjulengd útvarps getur verið frá stærðarþrepinu 1 km (langbylgja) nið- ur í metra (FM). En bylgjulengdin sem notuð er í farsímum er aðeins nokkrir tugir sentimetra, miklu minni en hæð og breidd bílglugganna. Íbúðarhús nútímans geta líka verið rafbúr, „eins og þau koma af skepnunni“, að minnsta kosti gagnvart ákveðnum bylgjulengdum. Við þekkj- um flest mörg dæmi þess ef að er gáð. Steypu- styrktarjárn í veggjum og bárujárn í þaki deyfir oft móttökuskilyrði fyrir útvarpssendingar um loftnet sem eru inni í íbúðarhúsum. Þess vegna eru útiloftnet yfirleitt betri en inniloftnet. Marg- ir munu líka kannast við að GPS-tæki verka ekki inni í húsum og raunar ekki heldur í bílum nema þá að þau liggi alveg við framrúðuna. Menn lenda líka oft í vandræðum með farsíma í lyftum úr málmi en þær eru einmitt þétt rafbúr sem hleypa litlu sem engu rafsegulsviði inn og raunar ekki heldur bylgjunum frá símanum út. Af þess- um dæmum má sjá að ekki er hægt að eyða raf- segulbylgjum í íbúðarhúsi með því að grafa ein- hvern málmhlut í garðinum við húsið. Þessi staðhæfing er bæði studd mælingum og líkan- reikningum sem byggjast á undirstöðulögmálum rafsegulfræðinnar. Það er ekki heldur hægt að eyða rafsegulbylgjum úr íbúðarhúsi með því að koma einhverjum málmhlut fyrir inni í því. Slíkt mundi aðeins breyta sviðinu, einkum þó í grennd við hlutinn, og er engan veginn sjálfgefið að sú breyting teldist æskileg frá einhverju tilteknu sjónarmiði. Áhrif rafsegulsviðs og rafsegul- bylgna á lífverur hafa mikið verið rannsökuð og rædd að undanförnu af ýmsum ástæðum. Þótt slíkum pælingum sé ekki lokið er þegar óhætt að fullyrða að þessi áhrif í almennu umhverfi okkar eru alltént margfalt minni en flest önnur skaðleg umhverfisáhrif sem valda okkur áhyggjum nú á dögum. Umhugsun, umræða og aðgerðir eiga því betur heima á ýmsum öðrum sviðum. En ef einhverjum þykja rafsegulsvið af tilteknum teg- undum engu að síður of mikil í húsi dugir sem sagt ekkert minna en viðeigandi rafbúr utan um húsið. Það er alveg sama hvernig rafmagnsklær snúa. Slíkt er hégómi í samanburði við ýmis önn- ur atriði sem steðja að okkur í umhverfi og lífs- háttum og hafa veruleg og óumdeild áhrif. Ör- yggisins vegna þurfa heimilistæki úr málmi hins vegar að vera réttilega jarðtengd og jarðtenging þarf að vera virk í öllum innstungum. Viðar Guðmundsson og Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessorar í eðlisfræði við HÍ. Á Vísindavefnum má nálgast fleiri svör við tengdum spurningum eins og hvort rafseg- ulbylgjur frá farsímum séu skaðlegar heilsunni og hvort betra sé að fara með jarðtengingu húsa niður á fast. ER HÆGT AÐ EYÐA RAFSEGULBYLGJUM MEÐ TÓLUM SEM GRAFIN ERU Í JÖRÐ? Að undanförnu hefur Vísindavefurinn meðal ann- ars leitað svara við því hvers vegna Gullbringu- sýsla og Þorskafjörður heita þessum nöfnum, hvers vegna við tárumst þegar við skerum lauk og hvers vegna A er fyrsti stafurinn í stafrófinu en Ö sá síðasti. Auk þess var fjallað um Andy Warhol, egypskar rúnir og fornegypsku svo fátt eitt sé talið. VÍSINDI VIÐ skipulag náms í dag verðum viðað líta til unga fólksins og skoðaveröld þess. Öll höfum við veriðunglingar. Þau viðhorf sem móta okkur eru háð þeirri þjóðfélagsgerð sem við ólumst upp í, börn okkar tíma eins og það er kallað. Ungt fólk í dag býr við allt annað um- hverfi en foreldrar þess ólust upp við. Fyrir 50 árum fór ungt fólk út að vinna til þess að afla tekna fyrir heimilið, það hafði ekkert val. Fjórtán ára unglingur var þá ungmenni með ábyrgð. Ef við berum hann saman við tvítugan ungling í dag, þá er hann barn án ábyrgðar. Ungt fólk í dag er upplýst, sjálfstætt og alþjóðlegt. Það er ég, mig, mitt = Ég er mið- punkturinn. Það er kynslóð ÉG, sem er dæmd til valfrelsis og tekur því sem sjálf- sögðum hlut. Áhugasviðið er vinir, músík, ferðalög, bíó, fara út að borða, skemmtanir, líkamsrækt og fjölskyldan. Það hefur ekki hugmynd umhvernig lífið væri án þess að hafa fjarstýringu eða gsm-síma. Það hefur alltaf verið hægt að leigja vídeómyndir og panta pizzu. Unga fólkið hefur ekki hug- mynd um hver Kennedy var og það skiptir engu hver skaut hann. MTV hefur alltaf ver- ið til og Michael Jackson alltaf verið hvítur. Björk hefur alltaf sungið á ensku. Sjónvarp- ið hefur alltaf verið til og ætíð í lit. Það hefur alltaf verið hægt að velja um margar sjón- varpsrásir. Ungt fólk í dag hefur aldrei hlustað á vínilskífu. Víetnamstríðið er eitt- hvað sem gerðist fyrir löngu eins og seinni heimsstyrjöldin. Heimurinn verður sífellt hnattrænni, sama fatatíska er alls staðar, hlustað er á sömu hljómsveitirnar og horft á sömu kvikmyndirnar um allan heim. Valfrelsi á öllum sviðum er sjálfgefið í augum unga fólksins. Það hefur ætíð staðið frammi fyrir mörgum valkostum á öllum sviðum. Í búðinni blasa við margir hillumetr- ar af hárþvottaefnum. Það er hægt að velja um 40 gerðir af áleggi á jafnmargar tegundir af brauði. Eða 80 gerðir af hálftilbúnum mat. Ef unga fólkinu líkar ekki framborinn mat- ur, er annar valinn, tekinn upp síminn og pizza pöntuð eða farið í ísskápinn. Hægt er að velja milli margra námsbrauta, hvernig og hvort námið er stundað. Unga fólkið velur um hvort það vinnur og hvaða vinnu það vel- ur. Áður voru tækni og fjármagn lykillinn að velgengni fyrirtækjanna. Í dag snýst allt um fólk. Velgengni og langlífi fyrirtækja snýst um hæfileikann til þess að laða til sín og halda bestu einstaklingunum. Þetta mótar afstöðu unga fólksins til náms og starfa. Mótaðar námsbrautir eru ekki endilega trygging fyrir góðu starfi, málið snýst um val á námsáföngum og námskeiðum. Val á starfi mótast af þátttöku í mótun starfsins. Unga fólkið velur störf þar sem sjónarmið þess heyrast, það sést og hefur áhrif. Það vill geta viðhaldið þekkingu sinni með þátt- töku í símenntun. Af þessu hefur verið tekið mið við skipulag á menntun í rafiðnaðargeiranum hér á landi. Fyrirtæki, sérstaklega í upplýsingatækni og samskipta- og tölvufyrirtækin, hafa í vax- andi mæli þurft sérhæft starfsfólk, ekki endilega rafiðnaðarmenn með sveinspróf. Grunndeild rafiðna er lykill að rafiðnaðar- geiranum, ekki bara að löggiltum rafiðnað- arbrautum. Rafiðnaðarnemanum standa einnig til boða spennandi og vel borguð störf með því að hverfa frá skóla, áður en skipu- legri verkmenntun er lokið, út á vinnumark- aðinn og sækja sérmenntun í starfsmennta- miðstöðvum rafiðnaðarmanna. Rafiðnaðar- neminn byggir upp sína eigin starfs- menntabraut með vali á vinnustöðum og starfsmenntanámskeiðum. Þetta er kallað „pick and mix education“ á alþjóðlegu máli. Námsframboð í dag er fjölmörg starfsnám- skeið sem viðkomandi velur sjálfur, ekki bara hinar löggiltu rafiðnaðarnámsbrautir í verkmenntaskólunum, ævilangt framhalds- nám. Fyrirtæki eru einskis virði án starfs- manna. Verkefnin leita þangað sem þau eru leyst og það ræðst af þekkingu starfsmann- anna. Fylgist þeir ekki með þróuninni og endurnýi þekkingu sína, hverfa verkefnin. Guðmundur Gunnarsson UNGA FÓLKIÐ OG NÁMIÐ Höfundur er form. Rafiðnaðarsambands Íslands. Janúarél Mæðinn hrotti hurðir knýr, heiftarþrútinn syngur, hæðinn glottir, hagli spýr, harður útsynningur. Góugróður í febrúar Vakin af dvala viðkvæm strá víða um balann græna suður dalinn döpur á dagatalið mæna. Hríð í marz Gnístir storðir, grös og dýr, grimmdarorðin þylur, drýgir morð og frá þeim flýr fólskur norðanbylur. Aprílgola Aprílgolan unaðshlý andar í nöktum runni, streymir út um borg og bý beint úr drottins munni. Stemning í maí Iðkar böðin Esjan glöð, eyðast fannadílar, greikka spor og gusa for gamlir mjólkurbílar. Dagur í júní Gróin tún á gullnum skóm gengur brúnafagur, litar í dúnalogni blóm ljúfur júnídagur. Júlínótt Blóma gætir, brosir föl, birtu lætur doka, daginn grætur dul og svöl, döpur næturþoka. Búsæld í ágúst Sumarblíðan blessar sveit. Bústið kál í garði, lax í hyl og lamb á beit lofa góðum arði. September við flóann Æðir um flóann öldumergð, ólmast sveipir vinda. Breið og skafin skýjasverð skera gráa tinda. Október í Borgarfirði Orðalaust við eyru mér ótal raustum syngur, ilm um haust af birki ber blíður austræningur. Nóvemberstormur Hvetur gandinn, hnyklar brá, hvessir brandinn slyngur. Mörgum grandar geislum sá grimmi landsynningur. Jólastilla Himnasetra skrúði skín, skýin letrið gylla, fer í betri fötin sín fögur vetrarstilla. Höfundur er veðurfræðingur. PÁLL BERGÞÓRSSON VEÐRABRIGÐI UM ÁRSINS HRING Þau mistök urðu við birtingu vísna Páls Bergþórssonar í Lesbók sl. laugardag að ýmsar villur slæddust inn í hendingarnar. Er höfundur beðinn velvirðingar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.