Lesbók Morgunblaðsins - 04.05.2002, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 04.05.2002, Blaðsíða 11
hef ég reynslu, því miður, og getur stundum verið erfitt að taka á því. Þetta er þó raunar skiljanlegt. Margir eru viðkvæmir fyrir því sem þeir hafa skapað og fyrir kemur að þeim finnst gagnrýni vera eins konar árás á þá sjálfa. Það getur einkum komið fyrir hjá byrjendum. Því er nauðsynlegt að gera grein fyrir þessu í upphafi. Ég bendi nem- endum á að tilgangur með umfjöllun um texta séð annars vegar að lýsa textanum og greina hann til skilnings, og hins vegar að velta því fyrir sér hvernig hann getur orðið betri er hann er, þegar honum er skilað. Oftast er hann í reynd eins konar uppkast. Ég ítreka að hver höfundur á sinn texta og enginn breytir honum nema höfundurinn sjálfur. Hann hlustar á það sem aðrir segja og lærir að skilja ábendingar og gagnrýni sem ráðleggingar. Hann ræður því alger- lega sjálfur að hve miklu leyti hann fer eftir því sem aðrir segja. Með tímanum sjóast nemendur og læra að meta jákvæða gagn- rýni. Að gleðjast þegar aðrir gera vel Viðkvæmur höfundur á það til að snúast til varnar og fara jafnvel að deila við gagn- rýnanda sinn. Af þessum sökum er það regla í sumum bandarískum háskólum, að höfundur fær ekki að segja eitt einasta orð um eigin texta. Ég er ekki sammála því. Hjá mér fær hann ekki að bregðast strax við gagnrýni, en oft skýrist ýmislegt við útskýr- ingar hans sjálfs eða þegar spurningum er beint til hans, og þá finnst stundum leið til að bæta ákveðin atriði í textanum, sem ef til vill voru ekki nógu skýr. Það hefur líka komið fyrir að nemandi sem á erfitt með að taka gagnrýni, verður þeim mun harðari og jafnvel óbilgjarn í sinni gagnrýni á texta annarra. Þetta hefur gengið svo langt að ég hef orðið að tala sér- staklega við nemandann til að benda honum á eðli námskeiðsins. Það er fólgið í að hjálpa nemendum til að skrifa betur en ekki rífast við þá. Því verða þeir einnig að læra að gleðjast þegar aðrir gera vel, – sem er nú kannski ekki beinlínis einkenni allra rithöf- unda. En svona smáagnúar lagast fljótt, og nemendur læra að virða hver annan og per- sónuleg höfundareinkenni. Flestir geta væntanlega skilið, að and- rúmsloft er öðruvísi í þessum námskeiðum en öðrum sem nemendur hafa vanist, af því að þeir búa námsefnið til sjálfir. Á sama hátt skapast önnur tengsl milli nemenda og kennara. Kennarinn verður að vera opin- skár og vinsamlegur í senn, og ýta stöðugt undir skapandi hugsun og reyna að benda á hugmyndir og lausnir eftir því sem unnt er. Ef hann gerir ekkert annað en að klappa á kollinn á nemendum og veigrar sér við hreinskilinni gagnrýni, munu þeir ekki taka miklum framförum. Ég hef haft mikla ánægju af því að kenna ritlist, þótt því fylgi að sjálfsögðu mikil vinna. Nemendur hafa verið áhugasamir, kappsfullir og sumir metnaðarmiklir, þótt stundum hafi þeir að vísu kvartað undan því að þetta sé erfitt. Ég hef þá bent þeim á, að það sé einmitt það, sjálfir erfiðleikarnir, sem geri ritlistina, og alla listsköpun, svo heillandi. Hvers virði væri ritlist, og bók- menntir, ef það væri enginn vandi að semja góða sögu eða yrkja áhrifamikið ljóð? 10 eininga námskeið í ritlist samsvarar þriðj- ungi af ársvinnu háskólanemenda. Í frá- sagnartækni hafa nemendur samið 10–12 smásögur yfir veturinn, og það samsvarar í raun venjulegu smásagnasafni, heilli bók. Í því felst að nemendur eru reknir til mikilla afkasta, og auðvitað eru sögurnar ekki full- gerðar. En ef vel hefur tekist til, geta þær orðið grundvöllur að útgefinni bók, Og það hefur reyndar gerst. Það hefur glatt mig mikið að margir nemendur sem byrja í einu námskeiði, hafa viljað halda áfram. Dæmi eru um nemanda sem þegar hefur lokið fjór- um námskeiðum og þar með 40 einingum í ritlist. Sumir nemendur hafa einnig sent frá sér bækur, og meira að segja verið verð- launaðir fyrir, og sumir aðrir hafa tekið þátt í samkeppni um ljóð og sögur með góðum árangri. En umfram allt stuðla þessi námskeið að bættri málnotkun allra þátttakenda, og margir hafa haft orð á því við mig, að nám- skeiðin hafi nýst þeim á öðrum sviðum, einnig við að semja prófritgerðir. Því það skiptir máli fyrir alla að þjálfa með sér rithæfni. „Writing is refined think- ing,“ segir spennusagnahöfundurinn Steph- en King í bók sinni „On Writing“. Að skrifa er að hnitmiða hugsun sína. Það eykur orða- forða og vald á hinu undursamlega tjáning- artæki, tungumálinu. Og það sem ef til vill er mest um vert: það eykur jafnframt frum- lega skapandi hugsun. Þórarinn Eldjárn orðar það svo í skáldsögu sinni „Kyrr kjör“: „Skáld þurfa alltaf að vera að orða hlutina einhvern veginn. Þeim nægir ekki að segja þá.“ LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. MAÍ 2002 11 Hvað gerist ef bíll er á sama hraða og byssukúla ferðast, og maður skýtur úr byssu afturábak? Stopp- ar kúlan eða heldur hún áfram? Svarið er í stuttu máli hvorki já eða nei heldur „bæði – og“ því að það fer eftir því hvaðan við horfum á það sem gerist. Hraði kúlunnar miðað við byssuna og þar með bílinn ákvarðast eingöngu af gerð og eðli skots og púðurs. Við reiknum með að byss- unni sé haldið fastri miðað við bílinn og skotið sé nákvæmlega lárétt. Kúlan fer því afturábak með þessum tiltekna hraða miðað við bílinn, en bíllinn hreyfist áfram með jafnmiklum hraða miðað við jörðina. Hraði kúlunnar miðað við jörðina fæst með því að leggja saman hraða kúlu miðað við bíl og hraða bíls miðað við jörð, að teknu tilliti til stefnu hraðanna. Þar sem hraðarnir tveir eru jafnstórir en gagnstæðir er summa þeirra núll, rétt eins og þegar við drögum einhverja tölu frá sjálfri sér eða leggjum saman tölurnar 4 og -4. Láréttur hraði kúlunnar miðað við jörð verður því enginn. Athuganda sem stend- ur á jörðinni sýnist kúlan standa kyrr í loftinu rétt eftir skotið en síðan fellur hún lóðrétt í átt til jarðar. Nú getum við líka hugsað okkur að þetta sé bíll með löngum palli og annar maður standi á pallinum nokkrum metrum fyrir aftan hinn sem hleypir skotinu af. Þar sem hann stendur kyrr á pallinum er það hraði skotsins miðað við bílinn sem skiptir sköpum fyrir þennan mann, og hann verður fyrir skotinu rétt eins og mennirnir hefðu báðir staðið á jörðinni. Athuganda sem stæði á jörðinni mundi hins vegar sýnast seinni maðurinn hreyfast í átt að skotinu sem honum sýnist nokkurn veginn kyrrstætt eins og fyrr er sagt. Örlög manns- ins yrðu að sjálfsögðu hin sömu séð frá þess- um athuganda. Enn gætum við til viðbótar velt fyrir okkur hvernig skothvellurinn berst, miðað við að bíllinn sé á ferð í logni og hraði skotsins sé undir hljóðhraða í loftinu. Hvellurinn er hljóð og það er loftið á staðnum sem ber hljóð. Hljóðið berst í allar áttir með föstum hljóð- hraða miðað við loftið en hraðinn miðað við at- huganda getur verið meiri eða minni ef loftið er á hreyfingu miðað við hann. Loftið er í okk- ar tilviki á hreyfingu aftur á bak miðað við bíl- inn og skothvellurinn berst því hraðar í þá átt en ef skotið gerðist á jörðu niðri. Hvellurinn berst því fyrr en ella til manns- ins sem stendur aftar á pallinum. Mennirnir á pallinum skýra þetta með því sem áður var sagt, að loftið er á hreyfingu í sömu stefnu og hljóðið. Athugandi á jörðinni túlkar þetta hins vegar öðru vísi og segir að þessi flýting skot- hvellsins stafi af því að seinni maðurinn sé á ferð í átt að hljóðgjafanum eða með öðrum orðum til móts við hljóðið. Á Vísindavefnum má nálgast fleiri svör við skyldum spurningum eins og til dæmis: hvað gerist þegar þotur rjúfa hljóðmúrinn og hvað er afstæðiskenningin. Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor í vísindasögu og eðlisfræði við HÍ Hvað er lengsta lag í heimi langt? (Þá meina ég í nútímatónlist, ekki sinfóníur.) SVAR: Efalaust mætti telja verk banda- ríska tónskáldins John Cage Organ2/ASLSP (skammstöfunin á að standa fyrir as slow as possible, eða eins hægt og mögulegt er) vera lengsta tónverkið. Flutningur verksins hófst 5. september 2001 í bænum Halberstadt í Þýskalandi og verkinu á að ljúka 639 árum síðar. Þegar flutningur ASLSP hófst mættu rúm- lega þrjú hundruð áheyrendur til að fylgjast með organistanum blása lofti í belgi orgelsins. Snemma í janúar árið 2003 verða fyrstu þrjár nóturnar leiknar og 5. júlí 2004 er hægt að hlýða á tvær nótur. Á þennan hátt verður allt verkið flutt hægt og sígandi fram til ársins 2640. Áhugasömum skal bent á að árið 2319 verður, eins og tíðkast á tónleikum, gert stutt hlé á flutningi verksins. Verkið ASLSP var fyrst samið fyrir píanó árið 1992 og átti þá að taka 20 mínútur í flutn- ingi en John Cage Organ Foundation ákvað ár- ið 2001 að leika verkið á 639 árum til að minn- ast þess að þá voru jafnmörg ár liðin frá smíði fyrsta orgelsins í Þýskalandi. Hugsanlega hafa kunn orð tónskáldsins um leiðindi og skemmt- un verið höfð í huga þegar lengd verksins var ákveðin: Ef eitthvað er leiðinlegt eftir tvær mínutur, reynið það þá í fjórar. Ef það er enn til ama, reynið þá í átta. Svo sextán og síðan þrjátíu og tvær. Að lokum verða leiðindin að hinni mestu skemmtun. John Cage er einnig þekktur fyrir annað verk sem hann samdi árið 1952. Það nefnist 4’33’’ og er einfaldlega þögn í fjórar mínútur og 33 sekúndur. Það var frumflutt í Woodstock í New York 29. ágúst 1952 af píanistanum David Tudor. Cage taldi 4’33’’ vera sitt merkasta verk og hann sagðist hlusta á það á hverjum degi. John Cage fæddist árið 1912 og lést 1992. Fyrir utan að vera eitt af kunnustu fram- úrstefnutónskáldum 20. aldarinnar var hann einnig ástríðufullur sveppasafnari. Jón Gunnar Þorsteinsson bókmenntafræðingur LENGSTA TÓNVERK Í HEIMI Hvernig eru lyklaborðin á tölvum í Kína, Japan og þeim löndum sem hafa aðra leturgerð en við, hvað er saga og sagnfræði, hvað átti Karl Marx við þegar hann talaði um firringu, er til flokkunarkerfi yfir hveri og hvað er vitað um hið út- dauða tungumál etrúsku á Ítalíu eru á meðal fjölmargra spurninga sem hefur verið svarað á Vísindavef Háskóla Íslands að undanförnu. VÍSINDI ÆVINTÝRALEGT lífshlaup danska úr- smiðssonarins Jörgens Jörgensens hefur löngum vakið athygli og áhuga fræðimanna og rithöfunda. Við Íslendingar þekkjum hann sem Jörund hundadagakonung og í íslenskri sögu leikur ávallt nokkur ævintýraljómi um nafn þessa unga Dana, sem kom hingað á ensku kaupskipi um sumarsólstöðurnar 1809, lýsti danska magt upphafna á Íslandi, setti stiftamt- manninn í stofufangelsi, lýsti sjálfan sig hæst- ráðanda til sjós og lands, gerði fátæka menn – þ.á.m. fangana í tugthúsinu við Arnarhól – að lífvörðum sínum og ríkti á Íslandi fram undir haust – hundadagana. Þeir sem kynna sér hugmyndir og fyrirætl- anir Jörundar um stjórnarfar á Íslandi munu greina þar nokkurn enduróm af ýmsu því sem hæst bar í pólitískri umræðu í Evrópu á önd- verðri 19. öld. Ekki er ólíklegt að hann hafi borið meira skynbragð á þau mál en saman- lagðir Danakonungar og við lestur bóka og greina um þessa atburði fer ekki hjá því að stundum hvarfli að manni hver framtíð Íslend- inga hefði orðið hefði stjórn Jörundar orðið langærri en raun bar vitni. En auðvitað er þarflaust að velta slíku fyrir sér. Íslendingar þekktu ekki sinn vitjunartíma sumarið 1809 og þegar Bretar höfðu velt Jörundi úr sessi og endurreist veldi Danakonungs á Íslandi (ein af þessum furðulegu mótsögnum í evrópskri stjórnmálasögu þessara ára), yppti landinn öxlum og stakk hausnum í veðrið, eins og hann hefur ávallt gert þegar miklir atburðir verða. Titill þessarar bókar, Valdaræninginn vísar til Íslandsævintýris Jörundar. Það stóð þó stutt og var varla meira en svipleiftur á viðburða- ríkri ævi. Eftir að hann fór héðan lenti hann enn í ýmsum ævintýrum, sat í fangelsi í Eng- landi, var fluttur sem sakamaður til Ástralíu og endaði ævina sem lögreglustjóri í Tasmaníu árið 1841, þá á 61. aldursári. Mikið lengra frá Íslandi (og Danmörku) varð ekki komist og í Tasmaníu virðist Jörundur hafa notið virðing- ar, ekki síst fyrir þekkingu sína og lærdóm. Hann skrifaði margt um dagana og las að sögn latínu, frönsku og þýsku, auk dönsku og ensku. Þessi nýja bók Dan Sprod rekur ævi Jörg- ens Jörgensens frá vöggu til grafar og í henni er birt frásögn hans sjálfs af atburðunum á Ís- landi sumarið 1809. Bókin er um margt fróð- leg, einkum kaflarnir um siglingar sögu- hetjunnar í Suðurhöfum og síðustu æviárin í Ástralíu og Tasmaníu. Hún bætir hins vegar litlu sem engu við vitneskju okkar um Íslandsför Jör- undar, og reyndar hygg ég að ís- lenskir sagnfræðingar sérfróðir í sögu þessara atburða þekki þar betur til en höfundur þessarar bókar. Megingildi hennar að því er snertir Íslandsævintýrið er að höfundur setur það í samhengi við aðra hluta í ævi Jörundar. Bókarhöfundur, Dan Sprod, er á bókarkápu sagður fyrrverandi háskólabókavörð- ur í Hobart á Tasmaníu. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um söguleg efni og ef marka má heimildaskrá þessarar bók- ar hefur hann víða leitað fanga við samningu hennar. Heimilda- skráin er 17 þéttprentaðar síður, en kannski er þar ekki allt sem sýnist. Í skránni er getið allmargra íslenskra bóka og skjala í Þjóðskjala- safni og handritadeild Landsbókasafns, og einnig eru þar talin rit á dönsku og skjöl í Ríkisskjalasafninu, Konungsbókhlöðu og Landsarkivet for Sjælland í Kaupmanna- höfn. Um þetta er svo sem ekki annað en gott eitt að segja, nema hvað hvergi kemur fram að höfundur sé læs á íslensku eða dönsku. Er þá vonandi að allt þetta efni hafi verið þýtt fyrir hann, en mikið verk hefur það verið. Ekki minnist ég þess að hafa áður séð bók útgefna í Tasmaníu, en bókagerðarmenn þar syðra kunna augljóslega sitt fag. Bókin er öll ágætlega gerð og frágangur vandaður. Sama máli gegnir um texta höfundar, hann er vel saminn og læsilegur. BÆKUR Ævisaga Jorgen Jorgenson and his turbulent life in Iceland and Van Diemen’s Land 1780–1841 eftir Dan Sprod. Blubber Head Press, Hobart 2001. 718 bls., myndir. VALDARÆNINGINN – THE USURPER Jón Þ. Þór Jörgen Jörgensen. ÁSTRÖLSK JÖRUNDARSAGA

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.