Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. MAÍ 2002 G RAHAM Swift er í hópi þeirra samtímahöfunda er stöðugt vinna með af- stæði mannkynssögunn- ar og tímans í verkum sínum, og þá ekki síður afstöðu lesandans til þeirrar sögu sem verið er að segja. Hann hefur haldið því fram að sjálfur lífsvefurinn sé sögulegur og að sagnfræði sé ekki einungis til í bókum heldur sé hún í raun hluti af lífinu – sagan skapist með minningun- um. Skáldsögur hans ögra stöðugt þeim grund- vallarforsendum sem tilvist okkar byggist á og Graham hefur þótt takast einstaklega vel að takast á við það sundurleita ferli á heiðarlegan máta. Graham hefur nýverið lagt síðustu hönd á nýtt skáldverk, The Light of Day (Dagsbirtan), það fyrsta frá því að Booker-verðlaunabókin Last Orders, sem í íslenskri þýðingu hlaut nafn- ið Hestaskálin, kom út árið 1996. Verkið er ekki enn komið fyrir sjónir lesenda, enda hafa samn- ingar Graham við útgefendur hans hjá Picador verið í uppnámi síðan í mars, er umboðsmaður hans tilkynnti að Swift vildi ganga til samninga við nýja útgefendur. Graham er þekktur fyrir að láta ekki beita sig þrýstingi hvað útgáfu verka sinna viðkemur, hann tekur sér þann tíma sem hann telur sig þurfa og lætur ekkert uppi um væntanlegan útgáfudag. Hann vill heldur ekki láta þýða verk sín fyrr en þau hafa komið út á ensku, segir þýðingarferli sem fram fer í kapphlaupi við frumútgáfudag gera þýð- endum allt of erfitt fyrir því tíminn sé þá svo naumt skammtaður. Nýju bókarinnar er því enn beðið með eftirvæntingu, en hún fjallar um konu sem setið hefur í fangelsi í tvö ár fyrir morð á eiginmanni sínum – efniviður sem í fljótu bragði virðist ekki dæmigerður fyrir Swift, sem þó hefur aldrei verið fyrirsjáanlegur í skáldverkum sínum. Er blaðamaður hitti hann að máli í London sagðist hann vera dálítið þreyttur eftir loka- sprettinn við þetta nýja verk, en um leið sáttur og ánægður með að hafa tekist ætlunarverk sitt. Stefnumótið var um hádegisbilið, á litlu veitingahúsi rétt við Piccadilly Circus, þar sem Graham venur komur sínar til að njóta fram- úrskarandi fiskmetis sem þar er á boðstólum. Valið á þessum stað lýsir viðmóti Graham vel; þar er ákaflega vinalegt andrúmsloft, fastagest- ir við nær öll borð og augljóst að lítið hefur breyst í tímans rás. Starfsfólkið þekkir hann og gætir þess að við höfum það næði sem við þurf- um til að tala saman langt fram eftir degi. Gra- ham segist alltaf vakna mjög snemma til að skrifa og hádegisverðurinn sé því orðinn að meginmáltíð dagsins hjá honum. Þá er einnig vinnudegi hans lokið og tími til að sinna öðru – svo sem fólki ofan af Íslandi. Þrýstingurinn er innra með manni „Það virðist svo óralangt síðan,“ segir Gra- ham, þegar hann er spurður hvort Booker- verðlaunin hafi breytt einhverju fyrir hann sem rithöfund. „En ef ég man rétt þá snérist um- ræðan á þeim tíma töluvert um það hvernig verðlaunin hefðu lyft af mér áhrifum fyrri bók- arinnar sem var útnefnd eftir mig, þ.e.a.s. Wat- erland (Fenjalandið, 1983). Nú á ég tvær mjög vel þekktar bækur, og er þar með laus við þann stimpil að geta aldrei gert betur en í Waterland. Ekki það að ég hafi verið mjög ósáttur við það orðspor þótt því hafi fylgt ákveðin vandkvæði – það er frekar að mér finnist mikilvægt að geta horft til baka á þessi sjö skáldverk sem ég hef gefið út því þau mynda orðið nokkuð stórt höf- undarverk. Það lifir sínu eigin lífi úti á meðal lesendanna en tilheyrir mér samt sem áður um leið. Þannig birtist það sem einskonar yfirlit yf- ir fortíðina sem ég get síðan togað að nýju inn í vinnu mína sem rithöfundur. Mér finnst því ekki lengur – þótt sú tilfinning hafi búið með mér um langt skeið áður fyrr – að ég sé að vinna mig í áttina að viðurkenningu. Ég er búinn að fá hana. Ákveðinni byrði hefur verið lyft, ég er bara sá sem ég er og þar sem ég er staddur. Margir tala um þann þrýsting sem svona verðlaun valda og að væntingarnar séu svo miklar þegar næsta bók kemur út. Ég finn ekki fyrir þessu, þvert á móti. Mér finnst ekki vera meiri þrýstingur á mig núna heldur en áður fyrr þegar ég var að ljúka við bók. Þrýstingurinn er hvort eð er mest megnis innra með manni, í sköpunarferlinu sjálfu. Þar finnur maður fyrir þeirri þörf sem fylgir hvötum manns, áráttu, eða hvað svo sem maður kýs að nefna það. Með manni býr innri þörf sem knýr stöðugt á mann um að halda áfram og er sem betur fer miklu meiri en nokkur þrýstingur sem kemur utan frá,“ útskýrir hann. Margir sem náð hafa jafnlangt og hann og lenda síðan í sviðsljósinu í kjölfar slíkra verð- launa, standa þó iðulega frammi fyrir þeim vanda að hafa látið undan þeirri freistingu að verða almannaeign og finna sig síðan ekki í ein- manalegu hlutverki rithöfundarins eftir það. Graham segist sjá merki um slíka reynslu víða í kringum sig, en það eigi þó ekki við um hann sjálfan. „Ég er einfaldlega ekki sú manngerð sem sækist eftir sviðsljósinu, þótt ég sætti mig alveg við að vera ýtt inn í þann geisla af og til,“ segir Graham og brosir hreinskilnislega. „Mað- ur lætur sig hafa það vegna þess að það er ekki hægt að komast hjá því. Og auðvitað vill maður fá einhverskonar athygli eða viðurkenningu á því starfi sem maður er að vinna. En ég sækist aldrei eftir athygli og ég get alveg viðurkennt það fyrir þér að ein ástæða þess að ég er rithöf- undur er að ritstörf er hægt að stunda án þess að vera í sviðsljósinu, eða reyndar nokkru öðru „ljósi“. Ég þekki þó að sjálfsögðu aðra höfunda sem hafa sterkari löngun en ég sjálfur til að vera í „þotuliðinu“, og ef maður hefur þá til- hneigingu er auðvelt að láta freistast af alls kyns hlutum til þess að vekja á sér athygli.“ Ein áhrif þess að vinna slík verðlaun, og kannski þau mikilvægustu, eru aukinn áhugi út- gefenda erlendis. Graham segir að bækur hans hafi nú verið þýddar á um 30 tungumál, og búið sé að gera samninga um þýðingar yfir á enn fleiri mál þótt þær séu ekki enn komnar út. „Mestur áhugi hefur að sjálfsögðu verið á því að þýða Booker-verðlaunabókina, en aðrar bækur hafa einnig verið þýddar í kjölfarið. En það má þó ekki gleyma því að töluvert af mínum verk- um hafði verið þýtt á ýmis tungumál áður en ég vann Booker-inn og margir erlendir útgefendur létu fyrst þýða Waterland. Fyrri bækur mínar fylgja svo í kjölfarið ein og ein.“ Kvikmyndagerð og skáld- sagnagerð ólíkar listgreinar Ekki er svo ýkja langt síðan Hestaskálin var kvikmynduð, en myndin hlaut afar lofsamlega dóma meðal gagnrýnenda í Bretlandi. Leik- stjóri og höfundur handritsins var Fred Schep- isi, en aðalhlutverk voru í höndum Michael Caine, Bob Hoskins, Tom Courtenay, Ray Win- stone og Helen Mirren. Þetta einvalalið þekktra leikara jók enn á þá ánægju sem bresk- ir áhorfendur höfðu af þessari sögu Graham, sem er í raun tvinnuð saman úr þeim efniviði er mótað hefur samtímasögu þeirra. Oft á tíðum reynist þó erfitt að gera viðamiklum skáldsög- um skil á hvíta tjaldinu og misjafnt hversu vel tekst til, eins og allir vita. Það er því freistandi að spyrja Graham hreint út hvort hann sé sátt- ur við útkomuna? „Ég er sáttur,“ svarar hann hiklaust. „En spurningin sem allir spyrja er hvort ég sé ánægður – og ég verð eiginlega að svara því ját- andi líka. En það er þó mikilvægt að taka tvo hluti fram; í fyrsta lagi að ég skrifa aldrei skáld- sögur með það að markmiði að eftir þeim verði gerðar kvikmyndir, þó að ég hafi að sjálfsögðu ekkert á móti því. Og í öðru lagi eru kvikmynda- handritin sem unnin eru upp úr sögum mínum ekki skrifuð til þess að geðjast mér. Þau eru einvörðungu skrifuð til þess að gera gestum kvikmyndahúsa til geðs. Kvikmyndagerð og skáldsagnagerð eru að mínu mati tvær ólíkar listgreinar. Það er því einkar ánægjulegt ef kvikmynd sem byggð er á skáldverki eftir mig fellur mér í geð. Og fyrst ég er búinn að við- urkenna það, þá get ég svo sem sagt frá því líka að ég fékk að fylgjast mjög náið með vinnuferli þessarar myndar, allt frá því verið var að vinna við handritið. Ég fékk einnig að fylgjast með tökunum sjálfum sem var ákaflega skemmti- legt. Það er ekki verið að búa til kvikmynd eftir verkum manns á hverjum degi – og í raun óvenjulegt að það gerist yfirleitt – svo mér fannst ég ekki geta annað en fylgst með fyrst mér stóð það til boða. Jafnvel þótt ég hefði átt að vera að gera eitthvað annað,“ segir hann og hlær. Myndin nærri kjarna bókarinnar „Kvikmyndatökurnar tóku um 8 vikur og þar sem sumir tökustaðirnir eru í næsta nágrenni við heimili mitt þá slóst ég oft í för með kvik- myndagerðarfólkinu allan daginn. Ég var alltaf boðinn velkominn og leikstjóranum og mér kom mjög vel saman. En eins og ég sagði þá er kvik- myndagerð ólík þeirri listgrein sem ég hef helg- að mig – ég verð að viðurkenna að kvikmynda- tökur virðast í raun drepleiðinlegar!“ Hann hlær og segir það engu breyta þótt stórstjörnur kvikmyndaheimsins séu á svæðinu, „ferlið sjálft er hreinlega svo þreytandi. Fólk stendur og bíð- ur langtímum saman, endurtekningarnar eru stöðugar, auk þess sem það er ekkert samhengi í vinnuferlinu sem hægt er að bera saman við söguþráðinn sjálfan. En ef það vill svo óvenju- lega til að maður er sjálfur höfundur sögunnar, þá er auðvitað svolítið spennandi að hugsa til þess að ekkert af þessu hefði getað gerst án manns sjálfs. Mér leið því ýmist eins og mér væri algjörlega ofaukið, jafnvel eins og ég væri fyrir öllum – nú eða þá að sú hugsun læddist að mér að ekkert af þessu hefði orðið að raunveru- leika nema vegna mín. Í heild voru þetta þó erf- iðar átta vikur, veðrið var að sjálfsögu alltaf vont nema þegar kom að síðustu tökunum niður við Margate og við þurftum virkilega á vondu veðri að halda, þá brást það.“ Þegar Graham er spurður hvort þau áhrif sem hann miðaði að með bókinni hafi skilað sér í kvikmyndinni, þrátt fyrir að þetta séu svo ólík- ar listgreinar, svarar hann af sömu hógværð og endranær – segist í rauninni ekki geta dæmt um hver skilaboð bókarinnar hafi verið til að byrja með. „Kvikmyndin hefur að sjálfsögðu sitt hjarta og það er ekki í neinni órafjarlægð frá hjarta bókarinnar. Mér finnst þeim hafa tekist að komast nærri kjarna hennar. Kvik- myndin er auðvitað ekki eins yfirgripsmikil og bókin. Tveggja tíma mynd getur aldrei keppt við það sem gerist í huga lesanda við margra klukkutíma lestur.“ Nálgast hið algilda í gegnum það sértæka Sá heimur sem Graham Swift lýsir í höfund- arverki sínu er um margt mjög breskur í sam- anburði við þann heim sem nú ber töluvert á í breskum samtímabókmenntum og helst má rekja til hinnar fjölmenningarlegu arfleifðar heimsveldisins. Þegar hann er spurður hvar hann myndi staðsetja sig í samtímanum bendir hann á að sá framandleiki sem fylgir fjölmenn- ingunni hafi fyrirfundist í skáldskapnum um langt skeið. „Rithöfundar frá ýmsum löndum hafa starfað hér um langt skeið, jafnvel þótt rætur þeirra liggi annars staðar. Samt sem áð- ur er raunveruleikinn sá að þeir setja mjög HLUTVERK OKKAR HV Graham Swift er í hópi þeirra höfunda í Bretlandi sem hvað mestrar virðingar njóta og nýrrar skáldsögu hans er nú beðið með eftirvæntingu. Skömmu eftir að hann fékk Booker-verðlaunin sagði hann: „Form skáldsögunnar fela í sér undursamlega leið til að kanna þau áhrif fortíðarinnar sem snerta venjulegt fólk á persónulegan máta“. Hann er enn trúr þessari hugmynd og segist tvinna saman þræði frá ólíkum tímum í verkum sínum. FRÍÐA BJÖRK INGVARSDÓTTIR hitti hann í London og ræddi við hann um sköpunarferlið og stöðu skáldskaparins. Rithöfundurinn Graham Swift nýtur mikillar virðingar í Bretlandi fyrir bækur þar sem afstæði sög- unnar og áhrif hennar á einstaklinginn er í fyrirrúmi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.