Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. MAÍ 2002 Þ AÐ má með sanni segja að arkitektúr sé Morten Schmidt í blóð borin. Afi hans, móðir og fað- ir, systir, bróðir, frændi og eigin- kona hafa öll lagt arkitektúrinn fyrir sig. Schmidt lærði arkitektúr í Árósum, í Kaupmannahöfn og Seattle í Bandaríkjunum auk þess sem hann nam mannlífsspeki í skóla Rudolfs Steiner. Arkitektastofuna Schmidt, Hammer og Lassen stofnuðu Schmidt og félagar hans fyrir fimmtán árum. „Við vorum allir þrír saman í arkitektanáminu og unnum á sömu stofu eftir að námi lauk. Við ein- beittum okkur að stórum arkitektasamkeppn- um og vorum svo heppnir að vinna keppnina um hönnun viðbyggingar við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn árið 1993. Húsið var opnað árið 1999 og vakti hönnunin mikla athygli,“ segir Schmidt. Meðal annarra bygginga sem þeir félagar hafa hannað eru Listasafnið í Árósum og Menningarhúsið á Grænlandi. Á síðustu tveimur árum hefur stofunni, SHL, verið boðið að taka þátt í mörgum virtum samkeppnum um allan heim. Um þessar mundir taka þeir m.a. þátt í lokuðum sam- keppnum um nýjar höfuðstöðvar NATO í Brussel, Landsbókasafn Saudi-Arabíu í Riyadh, Evrópska fjárfestingarbankann í Lúx- emborg og var nýlega tilkynnt að stofan væri komin í síðustu umferð í samkeppninni um hönnun tónlistarhúss fyrir Atlanta-sinfóníuna í Bandaríkjunum. „Það verður heimsins besta og stærsta tón- listarhús með sæti fyrir rúmlega 2.000 manns. Bandaríkjamenn vilja að þetta hús „flytji Atl- anta inn í framtíðina“. Alls verða lagðar 300 milljónir Bandaríkjadala í húsið, búið er að þrengja hópinn í fjórum umferð- um og eru nú bara þrjár stofur eftir, þannig að við erum komin mjög nálægt markinu,“ segir Schmidt spenntur. Hanna hús fyrir fólk Alls starfa 125 starfsmenn á arktitektastofunni og er hún með tvö útibú í Danmörku, í Árósum og í Kaupmannahöfn. Aðspurður um lykilinn að velgengni stofunn- ar segir Schmidt að arkitektúr verði að vera ósvikinn og hrein- skilinn. „Manneskjan er mið- punktur í arkitektúr. Við byggj- um fyrir fólk og ekki aðeins í þágu listarinnar. Margar bygg- ingar höfða ekki til fólks. Bygg- ingar verða að hafa þýðingu og segja fólki eitt- hvað, helst eitthvað tilfinningaþrungið. Byggingar eiga að snerta fólk,“ segir Schmidt. Hönnunin verði einnig að endurspegla notk- un hússins. „Mörg atriði hafa áhrif á hönnun bygginga og verða þau að vera í réttu jafn- vægi. Hlutverk okkar sem arkitekta er að tryggja að hver þáttur fái rétt jafnvægi.“ Til að skýra betur hvað hann á við tekur Schmidt dæmi úr náttúrunni. „Það er engin til- viljun að lauf lítur út eins og það gerir, að það hafi ákveðna lögun, lit og formgerð. Milljónir atriða koma þar við sögu. Laufblaðið er ein- stakt og fallegt, það er listaverk. Ég lít á sama hátt á arkitektúr. Vilji maður hanna einstakt og fallegt hús sem þjónar öllum þörfum þess- ara milljón atriða verður að hafa þá í réttu jafnvægi. Margar byggingar eru ekki í jafnvægi, ann- aðhvort hefur verið lögð of mikil áhersla á að fjárfestar græddu af byggingunni eða einblínt um of á hlutverk hússins og hafa þættir er varða umhverfið og félagsleg atriði þá verið látnir sitja á hakanum. Ég kalla þetta að finna erfðalykil byggingarinnar, það er erfiðasti hlutinn,“ segir Schmidt. Hann segir að arkitektar megi ekki sjá hlut- ina aðeins út frá sínu fagi. „Sem arkitektar verðum við að setja öll þessi atriði í rétt sam- hengi. Við erum ekki listamenn, þó margir telji svo vera, þar sem við erum að kljást við mjög takmarkað listform.“ Aðeins ein leið til að byggja hvert hús Langan tíma tekur að finna út hvernig hver bygging á að vera, að sögn Schmidt. „Hug- myndinni lýstur ekki bara niður einn, tveir og þrír. Það tekur langan tíma að greina þarf- irnar, leggja mat á hlutina, skyssa upp hug- myndir og velja þær sem koma til greina. Að lokum kemst maður að þeirri niðurstöðu að það er bara ein leið að hanna húsið.“ Byggingar verða einnig að segja sögu, segja hver er tilgangur þeirra, að hans mati. „Kon- unglega bókasafnið í Kaupmannahöfn segir: Hér eru dýrgripir þjóðarinnar geymdir. Húsið hefur reisn og virðingu en vill á sama tíma bjóða alla velkomna þangað inn.“ Aðspurður um sögu Skuggahverfisins, sem SHL hannaði í samstarfi við íslensku arki- tektastofuna Hornsteina, segir Schmidt hana endurspegla gæði og kosti þess að búa í Reykjavík. „Hverfið segir að það sé gott að ganga um borgina, skoða litlu húsin í miðbæn- um og grænu reitina. Við vildum að turnarnir kæmu upp sem þéttbýlt endurvarp af hinni lágreistu borg. Byggingarnar eiga að vera eins notalegar og litlu húsin. Stórir gluggar eru á íbúðunum og stórar svalir og eru sumar íbúðir með þakgörðum. Þannig stækkar rýmið og við færum náttúruna inn í stofu,“ segir Schmidt. „Við hönnun íbúðarhúsnæðis er mikilvægt að hafa kynslóðir framtíðarinnar í huga. Því verða íbúðirnar að vera sveigjanlegar. Fólk getur valið hvernig það vill að íbúð þeirra sé skipulögð þegar það kaupir hana og í framtíð- inni getur það breytt rýminu eftir því sem hentar hverju sinni.“ Þétting byggðar mikilvæg Schmidt telur að margir góðir arkitektar starfi á Íslandi í dag, en hann segir helsta gall- ann við borgina, fyrir utan lágreista og dreifða byggð, að margar byggingar hafi ekki verið nægilega vel út hugsaðar. „Byggingarnar líta ágætlega út að utanverðu, en það vantar dýpri merkingu og inntak,“ segir Schmidt og bætir við að t.d. hafi hann séð ný hús þar sem ekki hafi verið hugað nægilega að umhverfinu og öðrum byggingunum í kring. Schmidt segir þéttingu byggðar mjög mik- ilvæga. „Borgin er mjög lágreist og dreifð. Hún er farin að teygja anga sína upp í sveit. Margar amerískar borgir eru hannaðar þannig og hafa Bandaríkjamenn nú séð að það var rangt að dreifa byggðinni um of. Það verður að auka þéttleikann í miðbænum, þar finnur fólk að það er hluti af stærra, alþjóðlegu samfélagi, sem er mjög mikilvægt fyrir Ísland. Það er nauðsynlegt að skapa lifandi miðbæ. Miðsvæðis í Reykjavík er mikið af landi sem hægt væri að byggja á. Það er einstakt við Reykjavík að hér gefst kostur á að byggja íbúðir í miðri borg, það er svo sjaldan sem gefst tækifæri til þess í öðrum borgum. Það er einmitt það sem var svo spennandi við hönnun Skuggahverfisins, að fá að teikna nýtt íbúða- hverfi í miðborg Reykjavíkur, algjörlega frá grunni.“ Menningarmiðstöðin í Nuuk sem Schmidt, Hammer & Lassen teiknuðu. Í húsinu hefur Þjóðleik- hús Grænlands, listaskóli og bókasafn aðstöðu, auk þess sem þar eru ráðstefnusalir. Listasafnið í Árósum sem SHL teiknaði og fékk fyrstu verðlaun fyrir í alþjóðlegri arkitekta- samkeppni árið 1997. Safnið er nú í byggingu og á að verða tilbúið á næsta ári. ERFIÐAST AÐ FINNA ERFÐA- LYKIL HVERRAR BYGGINGAR Hver bygging verður að segja sögu, að mati danska arkitektsins Mortens Schmidts, eins af stofnendum arkitektastofunnar Schmidt, Hammer & Lassen sem hefur á skömmum tíma orðið ein þekktasta arkitektastofa í Evrópu. NÍNA BJÖRK JÓNSDÓTTIR ræddi við Morten Schmidt en hann er einn hönnuða nýrrar byggðar í Skuggahverfi, sem mun rísa innan skamms. nina@mbl.is Morten Schmidt arkitekt Fjölbýlishús með 49 íbúðum í Capellakaj í Kaupmannahöfn sem SHL teiknaði og byggt var á árunum 1997–1998.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.