Lesbók Morgunblaðsins - 11.05.2002, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. MAÍ 2002 13
Í
SLENSK myndlist og samband hennar
við hið alþjóðlega listsamfélag hefur
tekið umtalsverðum breytingum sl.
áratugi, enda hafa tengsl íslenskra
listamanna við kollega sína bæði í
Evrópu og Bandaríkjunum aukist til
muna. Bættar samgöngur, fjölmiðla-
væðing og síðast en ekki síst tilkoma
Netsins hafa þar öll á sinn hátt skipt máli. En
þótt íslensk myndlist sé, við upphaf nýrrar
aldar, í fullu samræmi við það sem er að ger-
ast í listalífinu á alþjóðlegum vettvangi, þarf
slík alþjóðavæðing ekki að hafa neina eins-
leitni í för með sér.
Sýningin Mynd – íslensk samtímalist er
hluti af þeim fjölmörgu viðburðum sem tengj-
ast Listahátíð Reykjavíkur þetta árið og
listamennirnir átta, sem fæddir eru á árunum
1952-1970, eru fulltrúar ólíkra listforma. Verk
þeirra eru enda talin gefa góða innsýn í ís-
lenska myndlist síðustu ára, en listamenn-
irnir eru: Anna Líndal, Birgir Andrésson,
Bjarni Sigurbjörnsson, Jón Óskar, Margrét
H. Blöndal, Ómar Stefánsson, Svava Björns-
dóttir og Þorvaldur Þorsteinsson.
„Ég held að það sem sýningin gerir helst
sé að draga saman ólíka listamenn úr öllum
áttum,“ segir Jón Óskar, sem sýnir að þessu
sinni verkaröð tengda vinsælum tölvuleik.
„Þetta er að minnsta kosti ekki samstilltur
hópur. Listamennirnir koma úr öllum áttum
og það er fátt sameiginlegt í verkunum, sem
líka eru mjög ólík,“ bætir hann við.
Að sögn Birgis Andréssonar, sem býður
sýningargestum upp á tvær veggmyndir, gef-
ur það e.t.v. nokkra hugmynd um fjölbreyti-
leika sýningarinnar að verkin sem þar er að
finna ná yfir allt frá abstraktverkum Bjarna
Sigurbjörnssonar yfir í harðlínukonseptlist
Birgis sjálfs.
Áhorfandinn
er sköpunaraflið
Veggmyndir Birgis byggjast á texta og er
formið honum ekki með öllu ókunnugt. „Ég
hef unnið svolítið með þetta form áður, bæði í
lengri lýsingum af mannfólki og eins af nátt-
úrufyrirbærum. Þannig að í staðinn fyrir að
sjá myndina, þá lestu hana,“ útskýrir hann og
bætir við: „Þetta er spurning um hvar mynd-
in birtist, hvernig þú sérð hana og hvaða
myndir þú sérð.“ Áhorfandinn sjálfur verður
þannig raunverulega að sköpunaraflinu í
verkum Birgis og lætur listamaðurinn sér
nægja að útvega honum hinar nauðsynlegu
einingar verksins – myndefnið og litinn.
„Í þetta skipti er ég með tvo veggi. Í öðru
tilfellinu er texti veggmyndarinnar: „Hlut-
irnir eru fjær heldur en þeir birtast“ og í
hinu er hann „Hlutirnir er nær heldur en þeir
sýnast“. En í báðum tilfellum gæti lýsingin
átt við hvað sem er,“ segir Birgir. Myndmál
verkanna er afbökun á setningunni „Objects
are closer than they appear“ sem finna má á
jeppaspeglum.
Veggmyndirnar eru málaðar í svo nefndum
íslenskum litum sem Birgir hefur unnið mikið
með. „Íslensku litirnir eru afskaplega ein-
angrað fyrirbæri sem bara hafa þróast hér
uppi á skerinu,“ segir hann og útskýrir að
hann eigi með þessu ekki eingöngu við sauða-
litina. Ákveðinn litaskali sé hins vegar ein-
kennandi fyrir Ísland og litirnir sem finnist í
íslensku umhverfi séu alla jafna dempaðri
heldur en til að mynda þekkist í Austurlönd-
um. „Þetta tengist líka spurningunni hvað er
litur og hvaða litur er þetta,“ útskýrir Birgir.
„Litur er ekki til sem áþreifanlegt fyrirbæri,
heldur er hann eitthvað sem maður skynjar
og sem breytist eftir aðstæðum, til að mynda
birtumagni.“
„Þetta gengur út á slátrun“
Sýningin Mynd – íslensk samtímalist er
framhald á sýningu á verkum listamannanna
átta sem haldin var í Henie Onstad lista-
miðstöðinni í Noregi í fyrra. Á þeirri sýningu
var Birgir með aðra veggmynd en þær sem
sýndar verða í Hafnarborg og náði verk hans
þar yfir 15 metra langan vegg. Sum verkanna
sem sýnd verða að þessu sinni voru þó einnig
á sýningunni í Noregi, m.a. ljósmyndir eftir
Jón Óskar. Fleiri verk hafa þó bæst við þá
verkaröð listamannsins frá því hópurinn
sýndi í Noregi. „Það er svo langt um liðið.
Það er orðið ár síðan, þannig að mér fannst
ekki hægt að koma eingöngu með sömu verk-
in hingað,“ segir Jón Óskar sem sýnir auk
ljósmyndanna málverk og myndbandsverk
sem öll tengjast tölvuleiknum Counter Strike.
„Vídeóverkið er einskonar stuttmynd sem
byggist á tölvuleiknum. Ég hef útbúið sögu
sem er leikin eftir honum,“ útskýrir Jón Ósk-
ar og segir myndbandið tekið upp eins og um
bíómynd sé að ræða. „Þetta gengur út á
slátrun. Ég held að það deyi fimm á hverri
mínútu í myndinni sem er 12-15 mínútna
löng.“ Myndbandsverkið er tölvuunnið og
fjallar um þann heim sem til er orðinn í
kringum Counter Strike tölvuleikinn, en leik-
urinn hefur verið gríðarlega vinsæll hérlend-
is. „Counter Strike er ekki bara tölvuleikur
heldur hefur mótast heilt samfélag í kringum
hann.“ En leikurinn gengur út á baráttu her-
sveita og hryðjuverkamanna. Á Íslandi eru
hópar manna sem leika tölvuleikinn og mikil
samskipti í tengslum við leikinn eru á Netinu,
auk þess sem stór mót eru haldin tvisvar á
ári.
Annað sjálf Jóns Óskars í Counter Strike
nefnist Castor Pollux, en nafnið er fengið frá
tvíburamerkinu – sonum Ledu og svansins –
og listamaðurinn þar með búinn að tengja
verk sitt goðafræðinni og um leið myndlist-
inni. Í tengslum við verkið stofnaði Jón Óskar
flokk 25-30 manna, líkt og tíðkast í tengslum
við leikinn, og eru reglulega haldnir fundir á
þeirra vegum. „Meðlimirnir eru frá 16 ára og
upp í þrítugt, og svo er það ég, gamli mað-
urinn,“ bætir hann við.
Verkið teygir sig langt út fyrir sali safns-
ins, enda kveðst Jón Óskar hafa mjög gaman
af því að blanda myndlist sinni saman við
aðra þætti lífs síns. „Ég vil ekki að mín
myndlist sé bundin af því að vera myndlist,
heldur vil ég frekar að hún sé hluti af ástand-
inu – af því sem ég er að sýsla á öðrum svið-
um.“
Sýningunni lýkur 11. ágúst.
Svava Björnsdóttir vinnur að uppsetningu verks síns.
Morgunblaðið/Kristinn
Fulltrúar ólíkra listforma innan íslenskrar myndlistar, frá vinstri: Birgir Andrésson, Svava Björnsdóttir, Jón Óskar, Margrét H. Blöndal, Anna Líndal
og Bjarni Sigurbjörnsson. Á myndina vantar þá Ómar Stefánsson og Þorvald Þorsteinsson.
ÓLÍKIR LISTAMENN
ÚR ÖLLUM ÁTTUM
Átta íslenskir myndlistarmenn eru fulltrúar ólíkra listforma á sýningunni Mynd –
íslensk samtímalist sem opnuð verður í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi á
morgun, sunnudag. En verkin eiga að veita góða innsýn í þróun íslenskrar
myndlistar síðustu árin. ANNA SIGRÍÐUR EINARSDÓTTIR ræddi við
tvo listamannanna, þá Jón Óskar og Birgi Andrésson.
annaei@mbl.is