Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Blaðsíða 5
varð því að tryggja ævarandi rekstrargrundvöll sem gerði þær óháðar byggjendum sínum og afkomendum þeirra. Þetta var gert með því að veita kirkjunum tíundir og leggja önnur gjöld og kvaðir á sóknarbúana auk þess sem þeim var gert að greiða fyrir kirkjulega þjónustu til dæmis leg í kirkjugarði. Mestu munaði þó um eignir sem lagðar voru til kirknanna og skiptu jarðeignir þar langmestu máli. Langstærstu gjafir sem kirkjum voru gefnar komu frá kirkjubyggjendunum eða næstu afkomendum þeirra. Er biskupsvaldi í landinu óx fiskur um hrygg tóku biskupar að hlutast til um að hagur kirkna væri sem bestur, settu þeir skilyrði um gjafir þeim til handa og gerðu samning (máldaga) um þær annað tveggja er þeir vígðu kirkjurnar eða vísiteruðu þær. Til eru nokkrir slíkir máldagar fyrir kirkjuna á Borg og eru þeir elstu frá 1354 og 1397. Í þeim fyrra er Gyrðir Ívarsson Skálholtsbiskup setti kirkjunni segir: „Mikaelskirkja að Borg á Mýrum á tuttugu hundruð í heimalandi. Hún á níutygi ásauðar. Tíu kýr … Hún á kross med líkneskjum. Tvær Maríu skriptir Magdaleni(!) Messuföt tvenn. Kaleik. Glóðaker. Kertisstikur tvær. Altarisklæði tvenn með dúkum. Sakraríum. Klukkur tvær. Þangað liggja níu bæir að tíundum og lýsitollum og hálf tíund af Ölvaldsstöðum. Þar skal vera prestur og dják“ …17 Þarna ber mikið á upptalningu kirkjugripa en mikilvægt er að gæta þess að kirkjan átti hlut í heimalandi auk búpenings. Áttu þessar eignir að standa undir rekstri kirkjunnar og viðhaldi. Jarðir og annað sem lagt var til kirkna átti að skoðast sem ævarandi eign þeirra sem ekki mátti selja eða sóa né blanda saman við eignir jarðeigandans sjálfs. Var hugsunin sú að guðshús sem hlotið hefði viðurkennda stöðu sem kirkja skyldi standa til eilífðar, það mátti ekki fella niður eða flytja milli staða nema í undantekningartilvikum og þá aðeins með leyfi biskups. Meðferð kirkjulegra fjármuna var því ábyrgðarhlutverk. Hugmyndir Íslendinga og skyldra þjóða um eignarrétt voru hins vegar allt aðrar á miðöldum en rómverskur réttur og síðar alþjóðlegur kirkjuréttur gerðu ráð fyrir. Aðeins lifandi einstaklingar gátu verið persónur að lögum og því átt eignir hér á landi. Kirkjur gátu því ekki í upphafi orðið sjálfseignarstofnanir í nútímaskilningi. Því var löngum vafa undirorpið hver væri hinn eiginlegi eigandi kirkju og þar með þeirra föstu og lausu eigna er henni fylgdu: Var það kirkjubyggjandinn, afkomendur hans og erfingjar eða þeir sem eignuðust jörðina síðar með kaupum eða öðrum viðskiptum. Var það verndardýrlingur kirkjunnar – átti heilagur Mikael erkiengill til að mynda Borgarkirkju og það sem henni fylgdi en honum var kirkjan helguð eins og sjá má af máldaga kirkjunnar. Eða átti Guð almáttugur allar kirkjur veraldarinnar og allt sem þeim fylgdi. Bændur og höfðingjar hneigðust til að líta svo á að þeir ættu kirkjurnar. Biskupar og kirkjumenn héldu fram gagnstæðum skilningi. Vegna þessara deilna var tekið að greina á milli eignarhalds á kirkjum og verndarmannsréttar yfir þeim sem kirkjan viðurkenndi en í honum fólst að leikmenn gátu verið umsjónarmenn eða forstjórar kirkjueigna. Hætt er við að langur tími hafi liðið áður en veraldlegir höfðingjar tileinkuðu sér þennan mun og viðurkenndu hann. Hástig þeirra gjafa sem kirkjum voru færðar var að þeim voru ánöfnuð heil höfuðból og stofnaðir á þeim staðir en það hugtak var notað um jarðir sem alfarið voru í eigu kirkjunnar. Oft kann trúaráhugi að hafa ráðið því að brugðið var á þetta ráð en á þennan hátt var mögulegt að leggja grunn að öflugri kirkjumiðstöð í héraði þar sem nokkur hópur klerka gat búið og starfað til blessunar fyrir byggðarlagið. Stofnun staðar hafði þó ýmislegan veraldlegan ávinning í för með sér. Þannig var mögulegt að leggja grunn að tíundarfrjálsu, óskiptanlegu ættaróðali og tryggja þar með áframhaldandi vöxt og viðgang höfuðbólsins. Sá laukur ættarinnar er fór með forræði staðarins hverju sinni erfði að jafnaði líka goðorð hennar, væri um kynborna menn að ræða, og sameinaði þannig veraldleg völd og kirkjulega forystu. Má segja að á tímabili hafi verið eins konar tíska að stofna staði og það sé skýringin á því að mörg helstu höfðuból landsins héldu velli og efldust frekar með tímanum í stað þessa að klofna í smærri einingar við arfsskipti. Höfðingjar er sátu staði voru nefndir kirkjugoðar og voru án efa voldugustu menn landsins bæði í veraldlegu og andlegu tilliti en þeir settu kirkjunni meðal annars lög. Af þeim sökum hefur íslenska kirkjan á elsta skeiði sínu verið nefnd goðakirkja.18 Á Borg var ekki stofnaður staður.19 Af þeim sökum komst jörðin ekki undir forræði biskups í kjölfar staðamála en það voru deilur sem stóðu á síðari hluta 13. aldar um það hvorir ættu að ráða stöðunum biskupar eða kirkjugoðar og höfðu biskupar betur. Kirkjan á Borg varð hins vegar snemma alkirkja en svo nefndust kirkjur þar sem syngja átti óttu- og aftansöng auk hámessu hvern helgan dag auka frekara helgihalds á föstum.20 Veitti því ekki af að þar væri starfandi bæði prestur og djákni eins og kveðið var á um í máldaga kirkjunnar. Skýrir þessi staða hvers vegna kirkjan á landnámsjörðinni Borg varð aðeins kirkjumiðstöð af þriðju gráðu ef litið er svo á að biskupsstólarnir tveir hafi verið af fyrstu gráðu og staðir vítt og breitt um landið komið næst á eftir þeim. Borg á síðari öldum Á ýmsu valt um stöðu og hagi þeirra presta sem þjónuðu alkirkjunni á Borg og öðrum þeim kirkjum sem undir prestakallið heyrðu. Í öndverðu hafa þeir að líkindum átt lögheimili hjá forráðamann kirkjunnar og verið í þjónustu hans. Þegar meiri festa komst á starf kirkjunnar hafa þeir fengið einhverja jörð í sókninni til ábúðar en í prestakallinu var lengi ekki fast prestssetur. Kallið var því svonefnt þingabrauð en í slíkum brauðum urðu prestar að gjalda leigu af ábýlisjörð sinni.21 Gæði slíkra býla jöfnuðst heldur ekki á við landkosti margra prestssetra en sum hver voru þau á fornum stöðum og voru því einhverjar kostabestu jarðir sveitar sinnar. Kjör þingapresta voru því oftast lakari en presta er sátu á prestssetrum. Borgarprestar sátu lengi á Ferjubakka og þjónuðu brauðinu þaðan.22 Um miðja 19. öld varð Borg loks að prestssetri. Þessi staða Borgar skýrir hvers vegna staðurinn kemur svo lítið við kirkjusögu landsins og hvers vegna fáir þekktir höfuðklerkar hafa þjónað kallinu. Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld hófst þróun sem sagði til sín í strandprestaköllum víða um land. Þar tók að myndast þéttbýli annað tveggja í tengslum við útgerð sem þróaðist nú æ meir sem sérstök atvinnugrein eða umhverfis verslun eins og gerðist í Borgarnesi. Árið 1867 var löggiltur verslunarstaður í landi Borgar þar sem áður hét Digranes. Í byrjun 20. aldar voru íbúar þar á svæðinu orðnir 100 og árið 1935 komust þeir yfir 500.23 Fjölgun fólks við sjávarsíðuna og atvinnuþróun í sívaxandi þéttbýli sköpuðu kirkjunni margháttaðan vanda. Starfshættir hennar og tekjustofnar miðuðust við sveitasamfélag og torvelt var að laga hvort tveggja að atvinnu- og heimilisháttum í þéttbýli. Víða um land fór þó svo að kirkjan lagaði sig að breyttum aðstæðum og flutti á mölina. Það gerðist meðal annars þegar aðsetur presta voru flutt úr sveit í þéttbýli. Þetta gerðist hins vegar ekki í Borgarnesi. Þar var stofnuð sérstök sókn árið 1940 og vegleg kirkja vígð árið 1959. Hún varð aftur á móti annexía frá Borg sem varð því áfram tákn prestakallsins.24 Hér eftir skiptir vart máli hvort prestur býr á Borg eða inni í sjálfum kaupstaðnum. Meiri vafa kann að vera undirorpið hversu langt inn í 21. öldina Borg muni lifa af sem kirkjustaður. Hvenær svo sem fyrsta kirkjan reis á Borg er líklegt að staðurinn nái að verða kirkjustaður í 1.000 ár! Að lokum Ugglaust renna margir er ferðast eftir þjóðvegi númer eitt augum heim að Borg á Mýrum þegar ekið er hjá. Hugurinn kann að hvarfla aftur til fornra tíma, ekki síst stórkarlalegra lýsinga á háttum skáldvíkingsins sem þar bjó. Það sem nú gefur staðnum líf og lit er þó ríflega 120 ára gömul kirkja og myndarlegt prestssetur. Þá skynja margir dulmagnaða helgi yfir stað sem svo lengi hefur verið vettvangur kristinnar tilbeiðslu. Að þessu leyti er Borg hliðstæða margra annarra kirkjustaða vítt og breitt um landið sem eiga sér langa hefð en óvissa framtíð. Íslensk þjóð og kirkja hafa tekið þessa staði í arf frá fyrri kynslóðum. Þessi arfur verður ekki metinn til fjár. Samt er brýnt að stefna verið mörkuð um hvernig þessir staðir verða varðveittir til framtíðar sem sýnileg tákn um sameiginlegt langtímaminni þjóðarinnar eftir að byggðaþróun hefur vikið þeim til hliðar sem kirkjumiðstöðvum heils héraðs eða byggðarlags. Í þessu efni verða þjóðkirkja, sveitarstjórnir og yfirvöld í landinu að taka höndum saman og koma í veg fyrir að viðkvæmur þráður í menningarsögu landsins bresti. Heimildir: 1 Orri Vésteinsson 1996: The Christinsation of Iceland. Priests, Power and Social Changes 1000–1300. London. 134. 2 Orri Vésteinsson 1996: 133. 3 Orri Vésteinsson 1996: 74. 4 Íslensk fornrit 2. b. 1933: 299. 5 Íslensk fornrit 5. b. 1934: 138. 6 Sama: 154. 7 Sama: 157. 8 Sama: 158. 9 Hjalti Hugason 2000: Frumkristni og upphaf kirkju. Kristni á Íslandi 1. b. Reykjavík. 341. 10 Sveinn Níelsson, 1950: Prestatal og prófasta á Íslandi. 2. útg. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag. 135. 11 Sturlunga saga 1. b. 1946: 237. 12 Sama: 240. 13 Sama: 241. 14 Sama: 335. 15 Sama: 397, 402. 16 Magnús Stefánsson 2000: Staðir og staðamál. Studier i islandske egenkirkelige og beneficialrettslig forhold i middelalderen. 1. b. Bergen.. 273, 275–276, 279–280. 17 Ísl. fornbréfasafn 3. b. 1896: 88. Sjá og Ísl. fornbréfasafn 3. b. 1896: 187–188; 8. b. 1906–1913: 379–380; 15. b. 1947–1950: 618. 18 Hjalti Hugason 2000: 199–200, 235–237, 287. 19 Magnús Stefánsson 2000: 75 20 Hjalti Hugason 2000: 244. 21 Biskupa sögur 2. b. 1878: 605. 22 Sveinn Níelsson 1950: 135. 23 Þorsteinn Jósepsson o.a. 1980: Landið þitt Ísland. 1. b. Reykjavík. 101–103. Íslandshandbókin, 1989. 1. b. Reykjavík. 126–127 24 Prestatal 1950: 135. Íslandshandbókin 1989: 126–127. „Hér eftir skiptir vart máli hvort prestur býr á Borg eða inni í sjálfum kaupstaðnum. Meiri vafa kann að vera undirorpið hversu langt inn í 21. öld- ina Borg muni lifa af sem kirkjustaður. “ Höfundur er prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JÚLÍ 2002 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.