Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JÚLÍ 2002 F ANGELSISMÁL og refsingar hafa verið áberandi í um- ræðunni undanfarin misseri og langt frá því að einhugur ríki um stefnumótun. Sumir vilja ganga svo langt að taka sí- brotamenn einfaldlega úr um- ferð til að vernda heiðvirða borgara en aðrir vilja leita leiða til að bæta þessa einstaklinga og gera að nýtum borg- urum í samfélaginu. Enn aðrir leita að or- sökum afbrota innan þjóðfélagsins sjálfs og uppbyggingar þess og líta á afbrot sem fyr- irbæri sem hreinlega vaxi út úr þjóðfélags- mynstrinu frekar en að þau séu bundin við tiltekna einstaklinga eða upplag þeirra. Til- urð og tíðni afbrota endurspegli þjóðfélags- ástandið hverju sinni og skilningur og lausn á vanda vegna þeirra verði því að skoðast í samhengi við samfélagslegt umhverfi og hagsmuni þeirra sem með völdin fara á hverjum tíma. Nils Christie Norðmaðurinn Nils Christie, prófessor í afbrotafræði við háskólann í Osló, tilheyrir vafalítið síðastnefnda hópnum. Um miðjan ágúst verður haldið þing norrænna fé- lagsfræðinga í Reykjavík og mun Christie halda eitt af aðalerindum ráðstefnunnar. Nils Christie hefur birt ógrynni bóka og greina á síðustu árum og áratugum og er einn virtasti og þekktasti afbrotafræðingur Norðurlanda í dag. Bækur hans og greinar hafa komið út í fjölda landa og er mikið vitnað til hans í fræðaheiminum bæði vestan hafs og austan. Christie hefur sömuleiðis tekið ríkan þátt í opinberri umræðu um af- brot og refsingar og í fyrra voru honum m.a. veitt virt verðlaun í Noregi, Fria ordet, fyrir virka þátttöku í hinni samfélagslegu umræðu. Árið 1993 skrifaði Christie bókina Crime Control as Industry: Towards Gulags Western Style? sem vakti strax mikla at- hygli og hefur síðan tvisvar verið gefin út á alþjóðamarkaði, síðast árið 2000. Í bókinni gagnrýnir Christie þá þróun sem átt hefur sér stað síðastliðin 20 ár í fangelsis- og við- urlagamálum á Vesturlöndum, ekki síst þró- unina í Bandaríkjunum, sem hann óttast að eigi eftir að verða fyrirmynd annarra ríkja. Í þessari grein verður efni bókarinnar tekið til umfjöllunar. Stuðst er við nýjustu útgáfu bókarinnar frá árinu 2000. Fangelsi sem iðnaður „Bók þessi er aðvörun gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað í þróun viðurlaga á undanförnum árum. Efnið liggur ljóst fyrir. Vestræn samfélög standa frammi fyrir tvenns konar vanda: Auði er hvarvetna mis- skipt. Svo er einnig um aðgang að launaðri vinnu. Bæði þessi vandamál valda undiröldu félagslegs óróa. Réttarvörslukerfinu er ætl- að að eiga við hvort tveggja. Þetta er orðinn arðbær iðnaður og skapar atvinnu á sama tíma og hann tekur úr umferð þá sem ann- ars myndu trufla hina félagslegu fram- vindu“ Christie, 2000, s.13). Með þessum orðum hefst fyrsti kafli bók- arinnar og eru þau lýsandi fyrir innihald hennar í heild. Christie notast við marg- vísleg opinber gögn um afbrot og tekur fyr- ir fangatíðni og þróun hennar í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann bendir á að vandinn felist ekki í að sum lönd stríði við meiri af- brotavanda en önnur og séu þess vegna með hlutfallslega fleiri fanga, heldur skýrist munurinn fyrst og fremst af ólíkum skil- greiningum afbrota og mismunandi dóma- venjum. Fjöldi fanga hverju sinni sé því pólitískt ákvarðað fyrirbæri og hafi lítið með fjölda afbrota að gera. Í þessu sam- hengi nefnir Christie Finnland sem lengi vel var með nær tvöfalt fleiri fanga en önnur Norðurlönd en síðan var tekin pólitísk ákvörðun um að fækka þeim og í dag er fjöldinn svipaður og annars staðar á Norð- urlöndum. Hann gagnrýnir fjölgun fanga sem átt hefur sér stað víða í Evrópu sem og í Bandaríkjunum á undanförnum árum og bendir á að afbrotum hafi ekki endilega fjölgað á sama tíma og föngum. Ekkert beint samband sé milli fjölda fanga og þró- unar afbrota og auknar fangelsanir þýði því ekki endilega fækkun glæpa. Gott dæmi um pólitískt eðli glæpa telur Christie felast í „stríðinu gegn fíkniefnum“ sem sé í raun stríð gegn minnihlutahópum. Fíkniefni, þó ekki tóbak og áfengi, hafi orðið blóraböggull margvíslegra vandamála í nútímasamfélög- um, einsog brottfalls úr skóla, afbrota og at- vinnuleysis. Spjótunum sé fyrst og fremst beitt gegn þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu og valdalitlum ungmennum. Lífsstíll þessara hópa, sem oft einkennist af notkun og dreifingu fíkniefna, sé gerður að glæp og þessum hópum um leið haldið í skefjum í samfélaginu. Orsakir afbrota Christie er ekki margorður um orsakir af- brota enda eru afbrot háð skilgreiningum yfirvalda og skýringar á því hvers vegna fólk fremur glæpi því eiginlega aukaatriði að mati hans. Samkvæmt honum er þó ljóst að efnahagsleg nauðþörf er undirrót flestra afbrota og lýsir eftirfarandi málsgrein úr bókinni því einkar vel: „Til að fækka afbrotum þurfum við að draga úr skorti fólks með því að skapa vissu fyrir því að þýðingarmikil atvinna sé í boði fyrir alla við sanngjörnu kaupi, með því að bjóða upp á húsakynni sem fólk sé stolt af því að búa í, með því að skapa hvíldar- og tómstundaaðstöðu fyrir alla, og með því að krefjast þess að opinber stefnumótun sé sanngjörn innan ramma laganna, bæði til handa verkalýðsstétt og millistétt, fyrir hvíta sem svarta“ (Christie 2000, s. 68). Fjölgunarsprengingin í bandarískum fangelsum Rússland og Bandaríkin fá úthlutað sér- stökum köflum og telur Christie þessar þjóðir á varhugaverðri braut. Hann telur kerfið í þessum löndum nærast á fanga- fjölda og að það sé efnahagslega, menning- arlega og pólitískt nauðsynlegt fyrir þessi lönd að hafa ákveðinn fjölda í fangelsum, sem Christie kallar „umframfjöldann“, fólk sem samfélagið telur sig ekki hafa not fyrir. Meginhluti bókarinnar fjallar þó um Banda- ríkin og þá gífurlegu fjölgun fanga sem átt hefur sér stað þar undanfarin 20 ár. Hér er um margföldun að ræða, en fjórði hver fangi í heiminum í dag situr í bandarísku fangelsi eða um tvær milljónir manna. Auk þess eru Bandaríkin eina vestræna ríkið sem enn notast við dauðarefsingar. Christie hefur áhyggjur af því að leið Bandaríkjanna verði fordæmi fyrir Evrópu og aðra hluta heims- ins og því sé nauðsynlegt að staldra við þró- unina þar. Hann gagnrýnir einnig áhrif fangelsa á einstaklinga og þjóðfélag. Iðn- aðurinn í kringum fangelsismálin sé sömu- leiðis mikið áhyggjuefni. Hér er um gríð- arlega arðbæran iðnað að ræða sem bandarískt samfélag getur ekki án verið, ef svo heldur fram sem horfir. Nær ein milljón manna starfaði í bandarískum fangelsum ár- ið 1999 fyrir utan aðra aðila í réttarvörslu- kerfinu einsog lögreglu og dómara og þá sem starfa að öryggis- og vaktþjónustu í samfélaginu. Í heildina eru þetta um 6 millj- ónir einstaklinga að föngunum meðtöldum. Árlegur kostnaður skattborgaranna af fang- elsiskerfinu er yfir 60 milljarðar dollarar fyrir utan kostnað af löggæslu- og dóms- kerfinu. Til samanburðar má nefna að út- gjöld til hermála í Bandaríkjunum voru 256 milljarðar dollarar árið 1998. Þegar allt er talið eru fangar og starfsfólk fangelsa um 4 prósent af heildarvinnuafli Bandaríkjanna. Hér er því augljóslega mikið í húfi. Christie telur að miðað við núverandi skipulag geti Bandaríkin einfaldlega ekki án þessa iðn- aðar verið. Hann álítur stéttaskiptinguna sem birtist í fangelsisdómum ámælisverða sem birtist í því að fangar eru að yfirgnæf- andi meirihluta ómenntaðir, litaðir og fá- tækir. Afbrotamenn séu „líka manneskjur“ og eigi samkvæmt því ákveðinn rétt eins og aðrir, en þessi réttur sé allt of oft brotinn og þar komi stéttaskiptingin vel fram. Christie spyr margoft í bókinni, hvenær vitum við að nú sé nóg komið af fangels- unum? Verður það á einhverjum ákveðnum tímapunkti eða er þróunin óstöðvandi og mun hún jafnvel enda með „hreinsunum“ líkt og helförin gegn gyðingum? Ef við breytum ekki meðvitað endi þessi þróun með ósköpum. Í þessu sambandi bendir hann á bók Zigmunt Bauman, Modernity and the Holocaust (1989), sem fjallar um þær þjóðfélagslegu kringumstæður sem leiddu til helfararinnar og neitar einföldum skýringum eins og að Hitler hafi verið brjál- aður eða Þjóðverjar sérstaklega vondir. Í lokin bendir hann á að refsingar séu eitt- hvað sem við veljum að nota gegn afbrotum en þær séu ekki endurspeglun á því hvað sé í eðli sínu „rétt“ eða „rangt“. Sérstakur kafli er helgaður bandaríska réttarkerfinu sem Christie álítur „færi- bandakerfi“ hliðhollt þeim sem eiga pen- ingana. Hann bendir á að 90–99 % mála endi með játningu og dómsátt um það hversu mikið eða lítið lögfræðingur sækj- enda geti sannað, en hafi í sjálfu sér lítið með afbrotið að gera. Ef fleiri færu lengra með mál sín spryngi bandarískt réttarkerfi hreinlega af álagi og því sé „færibandakerf- ið“ ákaflega hentugt. Hinsvegar geta þeir sem eiga peninga, borgað „dýran“ lögfræð- ing og eiga þar með betri möguleika á hag- stæðum dómsúrskurði. Einkarekin löggæsla Christie telur auðvelt að ímynda sér hvernig þróunin verði þegar sumir geti borgað vel fyrir löggæslu en aðrir ekki. Hverjir verða þá handteknir? spyr hann. Einkarekin löggæsla hafi augljóslega tvo galla innan núverandi þjóðskipulags. Hinir efnaðri muni auðveldlega getað komið sér undan vandræðum með fjármagnið að vopni. Hann bendir á að þetta viðgangist í dag, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar borga efnaðir „dýrum“ lögfræðingum fyrir að fara með sín mál en þeir sem ekki hafi efni á lög- gæslumanni fái úthlutað manni frá hinu op- inbera. Laun hans séu svo greidd þaðan og því hafi hann ekkert endilega það markmið að „verja“ viðkomandi. Þetta kemur vel fram í því að langflestir játa sekt sína og semja svo um refsingu. Hitt vandamálið, og alvarlegra að mati Christies, er að einkarekin löggæsla mun láta lágstéttarumhverfi afskiptalaus í aukn- um mæli. Þetta leiði aðeins til aukinna af- brota og vandræða innan þeirra hverfa. Einkarekin löggæsla muni fyrst og fremst starfa fyrir þá sem geta borgað, enda hafa risið heil hverfi sem eru lokuð öðrum en hinum ríku íbúum. Niðurlag Framsetning Christies er beinskeytt og skýr. Ýmis atriði í rökstuðningi hans er hægt að gagnrýna. Fyrst og fremst er líf af- brotamanna og fanga gert full-nauðhyggju- kennt á köflum. Þessir „ólánsömu“ einstak- lingar hafa nánast ekkert val um gerðir sínar í samfélaginu. Þeir eru tilneyddir til að fremja afbrot sjálfum sér til framdráttar. Hann telur því skýringar á afbrotahegðan háðar samfélagslegum lögmálum og með til- teknum þjóðfélagsbreytingum muni draga úr afbrotum. Afstaða af þessu tagi getur þó ekki skýrt mun á afbrotatíðni einstaklinga eða hópa þar sem aðrir þættir í lífi þeirra eru líkir. Með öðrum orðum, munur getur verið á afbrotatíðni tveggja einstaklinga þó allt annað sé sambærilegt með þeim, annar þeirra fremur afbrot meðan hinn lætur það vera. Einstaklingsbundnum skýringum á af- brotum sleppir Christie alveg og telur þær í raun veigalitlar. Christie er rómantískur á köflum þegar lífi afbrotamanna er lýst og skrifar t.d. um rússneska og bandaríska dægurtónlist þar sem sungið er um fátæka afbrotamenn og fanga, án þess þó að skrifa um hvað kom þeim í fangelsi í upphafi. Christie heldur því fram að form refsinga sé valið af þjóðfélaginu á hverjum tíma og ekkert eitt form geti því talist réttara en annað. Í lok bókarinnar segir hann að „það sé einhvern veginn ekki rétt að skera fingur af brotamönnum í dag, en okkur fannst það samt fram til 1815“. Hann bendir því á að „útdeiling sársauka“ (delivery of pain), eins og hann kallar nútímafangelsanir, sé ein- ungis í samræmi við viðmið nú á dögum og ekkert segi okkur að það sé endilega hin eina „rétta“ aðferð. Á sama hátt er það ekki endilega „rétt“ að hafa nær þrjú þúsund fanga í Noregi eða á annað hundrað fanga hér á landi svo málflutningi Christies sé fylgt eftir hingað heim til Íslands. „Við verðum að hugsa okkar gang. Það getur ekki verið versti kosturinn þegar fleiri möguleikar felast í að útdeila sársauka“, og vísar m.a. til þeirra breytinga sem hann tel- ur nauðsynlegt að gera til að draga úr af- brotum. Jöfnun á skiptingu lífsins gæða sé forgangsmál og að sýna af okkur í verki þá siðrænu afstöðu til meðborgaranna sem við álítum háleitasta og mikilvægasta – líka í garð afbrotamanna. Bókin er lipurlega skrifuð og aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á þjóðfélags- málum. Hún er tvímælalaust kærkomin við- bót í umræðu dagsins sem einkennist oft af því að eina svarið við auknum afbrotum séu hertar refsingar. Þess vegna hlýtur það að vera sérstakur fengur fyrir okkur Íslend- inga að höfundurinn Nils Christie sé vænt- anlegur hingað til Íslands til að halda erindi á ráðstefnu norrænna félagsfræðinga í ágúst. FANGELSI SEM ARÐBÆR IÐNAÐUR Um miðjan ágúst verður haldið þing norrænna félagsfræðinga í Reykjavík og mun Nils Christie halda eitt af aðalerindum ráðstefnunnar. Nils Christie hefur birt ógrynni bóka og greina á síðustu árum og áratugum og er einn virtasti og þekkt- asti afbrotafræðingur Norðurlanda í dag. Hér er fjallað um eina af þekktustu bóka hans, Crime Control as Industry: Towards Gulags, Western Style? E F T I R Á L F G E I R L . K R I S T J Á N S S O N O G H E L G A G U N N L A U G S S O N Álfgeir L. Kristjánsson er BA-nemi í félagsfræði við HÍ og Helgi Gunnlaugsson er dósent í félagsfræði við HÍ.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.