Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JÚLÍ 2002 13
STÆKKUN hins þekkta Prado-
listasafns í Madríd hefur verið frestað
vegna mótmæla íbúa í nágrenni safns-
ins. Íbúarnir hafa lagt fram lagaleg
andmæli við því að 15. aldar klaustur í
hverfinu verði rifið til að skapa aukið
rými fyrir safnið.
Stjórnendur Prado-safnsins hafa
lengi leitað leiða til að aðgreina sig
betur frá nærliggjandi safnabygg-
ingum, Reina Sofia-safninu sem
geymir nútímalistaverk, m.a. Guern-
ica eftir Pablo Picasso og Thyssen-
Bornemisza-safninu, og hefur stækk-
unarinnar því verið beðið með mikilli
eftirvæntingu. Meðal þess sem gera
átti var að rífa hið söguþekkta Jeron-
im-klaustur og endurbyggja innan
veggja hinnar nýju álmu safnsins.
Íbúarnir hafa hins vegar lengi vel
verið ósáttir við þessa áætlun, sem og
hina nýju álmu safnsins sem þeir
segja verða lýti á hverfinu. „Við höf-
um þegar fengið símtöl frá fólki sem
lýsir stuðningi við baráttu okkar alls
staðar að úr landinu,“ sagði Paloma
Gomez Embuena sem fer fyrir íbúa-
hópnum. „Við erum búin að berjast
gegn þessu árum saman og við mun-
um halda áfram þar til málinu lýkur.“
British Museum í vanda
UM 400.000 gestir heimsækja British
Museum í hverjum mánuði. Þrátt fyrir
þann gestafjölda virðist safnið nú eiga
í töluverðum fjárhagsvanda og talið
er að tekjuhalli þess nái að nema allt
að átta milljónum punda, eða rúmum
einum milljarði króna, á næstu 18
mánuðum.
Fjárhagsvandann má að nokkru
leyti rekja til dýrra framkvæmda við
safnið undanfarin ár, ekki hvað síst
við byggingu hinnar svo nefndu Great
Court-safnmiðju, sem nú er talin of
dýr í rekstri eftir að hafa kostaði á
sínum tíma um 2,3 milljarða króna í
byggingu. Í sparnaðarskyni hafa
safnayfirvöld sagt upp fjölda starfs-
fólks á sl. tveimur árum, auk þess sem
tugir sýningarsala eru lokaðir á degi
hverjum.
Starfsandinn í safninu þykir líka, að
sögn New York Times, vera í algjöru
lágmarki sem sýni sig hvað best í því
að 1.050 starfsmenn hafi staðið fyrir
eins dags verkfalli fyrir skemmstu til
að mótmæla frekari uppsögnum. En
150 manns til viðbótar, 14% starfs-
manna, var nýlega sagt upp störfum.
„Þetta er mikið áfall,“ sagði einn yf-
irmanna forvörsludeildar safnsins
sem missa mun um fjórðung starfs-
fólks. „Þetta snýst ekki bara um að
við séum að reyna að bjarga störfum
okkar – þetta er stærra en svo,“ sagði
hann og eru fleiri starfsmenn sam-
mála um að sparnaðaraðgerðirnar
muni hafa afdrifarík áhrif á gæði sýn-
inga safnsins.
ERLENT
Framkvæmdum
við Prado frestað
Líkan af stækkun Prado-safnsins.
Hin egypska deild safnsins nýtur
mikilla vinsælda.
HETJAN sem tekur ávallt rangarákvarðanir og missir því allt úrhöndunum er viðfangsefnið í leikritiShakespears, Titusi, sem sýnt verð-
ur í Vesturportinu í kvöld. Um er að ræða all
nýstárlega sýningu í 2000 fermetra vöru-
skemmu, með þátttöku yfir fimmtíu lista-
manna. Og það er eins gott fyrir þá sem
áhuga hafa á tilraunum og nýstárlegum að-
ferðum í leikhúsi að drífa sig á sýninguna í
kvöld – vegna þess að hún verður aðeins
sýnd í þetta eina sinn.
Auk leikara, hönnuða og tónlistarmanna
Vestorportsins taka Kvennakór Reykjavíkur
og Götuleikhús Íþrótta- og tómstundaráðs
Reykjavíkur þátt í sýningunni. Sýningin er
þó ekki á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs,
heldur tengist götuleikhúsið Vesturporti
þannig að einn meðlimur Vesturportsins,
Víkingur Kristjánsson sér um Götuleikhúsið
í sumar.
„Ég ákvað að nýta Götuleikhúsið í sýn-
inguna til þess að búa til leikrit inn í leik-
ritið, eins og reyndar Shakespeare gerði
stundum sjálfur. Sú aðferð er ekki upp-
runalega í þessu verki, heldur kemur Götu-
leikhúsið inn sem leikhópur hjá okkur,“ seg-
ir leikstjórinn, Björn Hlynur Haraldsson.
En hvers vegna völduð þið Titus af öllum
leikritum Shakespeares?
„Hugmyndin á bak við Vesturportið er að
láta drauma meðlimanna rætast og þetta
hefur verið minn draumur síðastliðin tvö ár.
Þegar ég spurði krakkana í Vesturporti
hvort þau væru til í að hjálpa mér að gera
þennan draum að veruleika, sögðu þau já -
og hingað erum við komin. Í sýningunni taka
þátt fimmtán meðlimir Vesturports, leikarar
og tónlistarmenn sem semja tónlistina sér-
staklega og flytja.“
Hrátt og gróft
„Draumur minn um að setja upp Titus á
sér hins vegar mun lengri aðdraganda. Þeg-
ar ég var í námi við Leiklistarskóla Íslands,
fór ég að velta því fyrir mér hvað væri svona
merkilegt við þennan höfund. Fjögur til
fimm hundruð árum eftir að hann skrifaði
sín leikrit er stöðugt verið að setja þau upp
um allan heim. Ég byrjaði að stúdera hann
sem leikskáld og heillaðist sérstaklega af
þessu verki. Shakespeare var mjög ungur
þegar hann skrifaði Titus, rétt eins og við
erum öll í Vesturporti. Verkið er hrátt og
gróft og mönnum hefur fundist uppbygging
verksins á einhvern hátt gölluð. Ég er sam-
mála því upp að vissu marki – en útgáfa okk-
ar á sögunni er líka algerlega eftir mínu
höfði.
Shakespeare náði í hugmyndina að Titusi í
myndbreytingar Ovids, sem er tvö þúsund
ára gamall ljóðabálkur og gerði sína útgáfu
af sögunni úr þeim bálki. Við erum að gera
það sama; búa til okkar útgáfu af hans
verki.“
Hvað var það sem heillaði þig við Titus?
„Þetta verk minnir að mörgu leyti á okkar
fornsögur og er að vissu leyti skylt Völs-
ungasögu úr Fornaldarsögum Norðurlanda
og það fannst mér áhugavert. Titus er fyrsti
harmleikur Shakespeares og í verkinu má
sjá grunn að persónum sem hann þróaði síð-
ar í aðalpersónur í stóru verkunum sínum, til
dæmis Lé konung, Lafði Macbeth og Jakó.“
Saga um tvöfalda hefnd
Nú er þetta all sérstæð sýning. Hvert er
markmið þitt með henni?
„Leikgerðin sem ég vann er stutt. Mig
langaði fremur til þess að „gera“ leikritið en
að „segja“ það; sýna atburði í stað þess að
lýsa þeim. Þetta er saga um tvöfalda hefnd.
Titus er hetja í byrjun en svo snýst allt í
höndunum á honum, vegna þess að þetta er
maður sem alltaf tekur rangar ákvarðanir.
Ástæðan fyrir því að ég fór út í þessa upp-
færslu var sú að ég var að leita að því hvern-
ig leikhús ég vildi sjá. Það sem ég vil sjá er
kraftur og að áhorfandinn sjái að leikarinn
gefi sig algerlega í sýninguna.“
Vinnurðu þá út frá áherslu á leikarann?
„Já. Við verðum aðeins með þessa einu
sýningu og það sem ég vil ekki sjá í leikhúsi
er myndlist. Það er mikið gert að því að búa
til fallegar myndir í leikhúsi en ég vil vinna
út frá tilfinningu leikarans. Það er svo gam-
an að fylgjast með leikara sem hefur vald yf-
ir tækninni og vinnur hreint og markvisst.“
Þótt undirbúningurinn að Titusi hafi stað-
ið mánuðum saman er óhætt að segja að æf-
ingatíminn hafi verið æði stuttur, aðeins tíu
dagar og segir Björn Hlynur það hafa kallað
á mjög markvissa og „intensíva“ vinnu.
„Meðferð okkar á verkinu er þannig að það
hæfir að vinna hana hratt og á stuttum tíma.
Þar af leiðandi eru hugmyndir sem komu frá
leikurunum mjög ferskar,“ segir hann.
En hvers vegna bara ein sýning?
„Ég held að það skapist annars konar ein-
beiting, hlustun og kraftur hjá leikaranum
og þá verður úr þessu eitthvað sérstakt.
Þetta er jú ekkert annað en tilraun og
kannski ekki tilefni til þess að taka okkur
hátíðlega þótt við tökum alvarlega það sem
við erum að fást við. En við megum ekki allt-
af stóla á það sem við kunnum. Við verðum
stundum að fleygja því sem við kunnum og
einbeita okkur þess í stað að því sem til þarf,
það er að segja, tækni leikarans.“
Vil aðeins setja upp verk
sem brennur á mér
Björn Hlynur útskrifaðist frá Leiklistar-
skóla Íslands vorið 2001. Á síðasta leikári lék
hann í Englabörnum hjá Hermóði og Háð-
vöru í Hafnarfirði, Gesti í Borgarleikhúsinu
og Lykli um hálsinn hjá Vesturporti. Þegar
hann er spurður hvort hann ætli sér að snúa
sér að leikstjórn, segir hann það af og frá.
„Þessi uppfærsla varð til vegna þess að mig
langaði til þess að setja nákvæmlega þetta
leikrit upp. Ég veit ekki hversu áhugasamur
ég yrði að setja upp verk sem ekki brynni á
mér. Ég er þeirrar skoðunar að leikstjóri
eigi að velja verk til uppsetningar sjálfur en
ekki að setja upp verk sem honum er út-
hlutað. Hann verður að sjá eitthvað í verkinu
sem hann vill sjálfur koma á framfæri.“
Sýningin á Titusi hefst klukkan 20.00 í
kvöld og mæta áhorfendur í Loftkastalann
þar sem sýningin hefst. Verkið er sem fyrr
segir eftir William Shakespeare í þýðingu
Helga Hálfdanarsonar. Leikarar í sýning-
unni eru Ólafur Darri Ólafsson, Vala Þórs-
dóttir, Gísli Örn Garðarsson, Nína Dögg Fil-
ippusdóttir, Víkingur Kristjánsson, Erlendur
Eiríksson, Ívar Örn Sverrisson, Gísli Pétur
Hinriksson, Davíð Guðbrandsson og Þor-
valdur Kristjánsson. Tónlistin er í höndum
Björns Kristjánssonar, Benedikts Hermanns
Hermannssonar og Frosta Jóns Runólfsson-
ar. Búningahönnuður er Anna Fríða Jóns-
dóttir. Steinunn Þóra Sigurðardóttir sér um
hár og förðun. Útlit og sviðssetning er í
höndum Sigurðar Kaisers. Leikstjóri og höf-
undur leikgerðar er Björn Hlynur Haralds-
son.
Morgunblaðið/Sverrir
Frá æfingu á Titusi. Fimmtán meðlimir Vesturports leika í sýningunni.Ólafur Darri Ólafsson í hlutverki sínu í verkinu.
TITUS OG HIN
TVÖFALDA HEFND
Vesturportið sýnir í kvöld Titus eftir William Shake-
speare. Aðeins ein sýning verður á uppfærslunni.
SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við leikstjórann,
Björn Hlyn Haraldsson um ástæður, markmið og
aðferðina sem hann beitir við uppfærsluna.