Lesbók Morgunblaðsins - 14.09.2002, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 14. SEPTEMBER 2002
Þ
AÐ var kyrrlátt sumarkvöld. Í
kjarrinu við elritrén lagðist
þokuslæðan hvít sem þéttist í
skugga eikarstofnanna og var
orðin niðdimm við heslitrén og
þyrnirunnana. Ljósgræn lauf-
hvelfingin breiddi úr sér yfir
eyðilegan skóginn og ekki
bærðist strá í vindi.
Við skógarjaðarinn sat maður á hringlaga
kalktrogi. Hann sat eins og hann væri að
bíða og augu hans litu ekki af litlum göngu-
stíg sem lá í bugðum meðfram grjótgarð-
inum, í átt til skógar, spölkorn frá þeim stað
þar sem hann sat.
Hann hafði silalegan skrokk jarðyrkju-
mannsins og breiðar axlir sléttubúans, svip-
brigði kæruleysis í stórum munnvikum en í
augum þessa skógarbúa var dulda ástríðu að
finna. Í augum sem pírðust undir þykkum
hreyfanlegum augabrúnum og störðu í átt að
mannlausum göngustígnum.
Sljóleikinn sem einkenndi yfirbragð hans
gat að nokkru dulið ásetninginn, brenni-
merki ástríðunnar og opnir fíngerðir nasa-
vængirnir líktust nösum gæðings.
Það var rauð svitarönd sem lá yfir ennið,
þangað náði sólbruninn ekki. Hann hafði
strokið húfunni aftur á hnakka og undan
derinu stóðu rakar hárflyksur eins og loð-
feldur púðluhunds.
Af og til strauk hann erminni yfir höku og
munn sér meðan svitinn hélt áfram að
streyma fram. Er hann þreyttist af því að
styðja sig fram á annað hnéð, skipti hann um
stellingu svo að það varð hinn olnboginn á
hitt hnéð sem bar uppi efri hluta líkama
hans. Ekki bar á nokkurri óþolinmæði, engin
svipbrigði í andlitinu aðeins bæld þjáning
sem gerði það að verkum að munnurinn virt-
ist stærri og breiðari og drættirnir kringum
bogið nefið skerptust, sama var með hökuna
sem var í stærra lagi.
Það dimmdi í rökkrinu, loftið kólnaði eins
og af dögg en hann sem þarna sat fann það
ekki, hann strauk jafnoft um andlit sér og
svitinn bogaði af honum.
Vinnumaður kom gangandi frá bænum en
sveigði yfir engið og fylgdi ekki stígnum.
Hinn sitjandi faldi sig á bak við runna en
þess gerðist ekki þörf því vinnumaðurinn leit
ekki í átt til hans.
Það kólnaði um nóttina og að baki hans
reis máninn upp hulinn greinum skógarins.
Það var orðið framorðið og hvert hljóð skóg-
arins heyrðist óvenjulega skýrt – hundgá úr
þorpinu eða bjalla kúnna í skóginum.
Allt annað svaf – allt sem á daginn vakti
eða var ekki á göngu á forboðnum vegi.
Hann reis á fætur og gekk þungum skref-
um í átt að byggingunni. Hann laumaðist
meðfram veggnum og nam staðar undir
glugga nokkrum. Hann hugsaði sig um
augnablik. Hann blygðaðist sín fyrir það sem
hann nú gerði.
Því gat hann ekki farið að danspallinum í
staðinn – drukkið, sungið og skemmt sér
með stúlkunum?
Því gat hann ekki haft áhuga á þeim frek-
ar en henni?
Þær voru alveg nógu margar, hann þurfti
bara að bera sig eftir björginni.
Skömmustulegur teygði hann sig upp og
bankaði á gluggann.
Hjartað barðist í brjósti hans. Það var
eins og hann hefði verið laminn án þess að
verja sig en hann bankaði aftur af meira afli
en áður. Ef hann gerði sig að fífli var eins
gott að standa við það.
Þegar hann barði í þriðja sinn á gluggann
heyrði hann hreyfingu innandyra. Hann leit
upp og sá einhverjum bregða fyrir. Honum
var það ljóst að þetta var ekki hún og hann
fyrirvarð sig vegna auðmýkingarinnar en
þar sem hann hafði sagt A varð hann að
segja B og taka því sem koma skyldi.
Er þetta þú, Per? sagði konurödd og opn-
aði rifu á gluggann.
Já, þetta er ég, svaraði hann stuttaralega
án þess að bæta nokkru við.
Anna er ekki heima og ég held varla að
hún komi fyrr en í dögun, svarði röddin blíð-
um rómi og glugginn lokaðist. Hann heyrði
kæfð hlátrasköll að innan.
Það var eins og blóð hans hefði runnið út í
húðina og stungið hann með hundrað nálum
og flögrað upp í andlitið á honum með fun-
hita og hamarshögg léku um hverja æð hans.
Af hverju hafði hann spurt? Hefði hann
ekki átt að vita svarið fyrirfram? Hefði hann
ekki? Og af hverju barði hann Malenu ekki í
andlitið sem geislaði af gleði yfir óförum
annarra? – barði hana með reiddum hnefa
þannig að blóðið frussaðist úr nefi hennar og
munni?
Það hefði verið huggun harmi gegn. Af
hverju barði hann ekki?
Hann leit í átt að glugganum og sá að búið
var að loka honum og draga tjöldin fyrir, það
var of seint. Svona gerði hann alltaf. En
hann skyldi ná þeim, ná þeim öllum – öllum!
Andardráttur hans þrýstist fram með sog-
hljóðum gegnum þessar hreyfanlegu nasir,
það var eins og þjáningin væri slík að hann
yrði að bíta á jaxl til þess að emja ekki.
Síðan byrjaði hann að ganga eftir stígnum;
fæturnir rötuðu af sjálfu sér eins og hestar
án ökumanns.
Hann gerði sér ekki grein fyrir því hvort
hann gengi eða stæði kyrr, hugsanir hans
voru hjá henni, hjá henni sem myndi koma í
dögun, sem myndi hlæja – líka hún – þegar
hún fengi að vita að hann hefði komið. Og
hún var ekki einsömul. Honum fannst eins
og hann heyrði í þeim hlæjandi og pískrandi,
hlæjandi í hvert sinn sem þær nefndu nafn
hans. Og þær gátu ekki talað um neitt nema
hann. Það hvarflaði ekki að honum að þær
töluðu um neitt annað en hann. Á morgun,
þegar þær vissu að hann hefði komið alla
leið að bænum og leitað hana uppi án áráng-
urs, myndu þær hæðast enn meira að hon-
um.
Og hann neyddist til þess að ráfa um í
skóginum aleinn eins og hundur sem hent
hafði verið út.
En hann skyldi ná sér niðri á þeim! … ná
sér niðri á þeim í eitt skipti fyrir öll.
Og lenda í tukthúsi og sitja þar innilok-
aður, meðan …
Nei, hann var ekki bundinn á höndum og
fótum og dæmdur til þess að verða að at-
hlægi! Hann fylltist vanmáttarkennd, hann
hefði viljað gráta eins og barn.
Hann var reiðubúinn að selja sál sína fyrir
þetta eina, að sitja einn að henni, eiga hana
aleinn, nema hana brott frá öllum öðrum …
En ekki þessi hlátur! … Hún gat aldrei hætt
að hlæja, þessi þögli hlátur eins og kvak
fugla sem gerði það að verkum að hann gat
aldrei trúað henni.
Hann hafði búist við því að þetta færi eins
og núna. Einmitt þess vegna var hann svona
ástfanginn af henni. Því þegar hún fór frá
honum var eins og þau myndu aldrei hittast
aftur og þegar fundum þeirra bar saman að
nýju var eins og hann sæi veru sem stigið
hefði upp frá dauðum, eins og kraftaverk
himnanna. Gleði hans var svo mikil að hann
gat ekki hamið sig.
Hann hugsaði um það hversu oft hann
hafði gengið fram og aftur niðri við göngu-
brúna í döggvotu grasinu, beðið og hlustað –
stundum til einskis – klukkustundum saman,
og hvernig hann næsta morgun hafði farið
þungur og þreyttur til vinnu sinnar með það
eitt í huga að nú væri allt um seinan og
hvernig hann síðan af hreinni tilviljun rekist
á hana á stígnum. Hann hafði séð hana koma
fína og létta á fæti í fallega bómullarkjólnum
sínum með ljósa skuplu yfir höfðinu. Hún hló
og flissaði þegar hann kvartaði og lofaði að
koma aftur seinna.
Og svo endurtók sig sagan aftur og aftur.
Örvæntingin óx og óx innra með honum þar
til hún var orðin að ofurþungri byrði! Í huga
hans var veröldin öll orðin að fenjum, og
hann sökk dýpra og dýpra við hvert fótmál,
meðan hún tiplaði léttstíg framhjá honum
oná þúfunum.
Honum hafði aldrei þótt svona vænt um
nokkra manneskju, ekki einu sinni móður
sína, og engu að síður fannst honum eins og
hann ætti að sleppa henni, bara ef hún gæti
sagt honum að samverustundir þeirra hefðu
verið góðar og að hún hefði ekki bara verið
að gera grín að honum.
En að þegja og fara! Láta hann bíða og
spyrja, engjast sundur og saman og þjást
með óhollar tómar hugsanir …
Hann heyrði einhvern nálgast og lét sig
því hverfa bakvið tré; það gætu verið þau.
Falinn í skugga trjánna sá hann þau ganga
framhjá, þau héldu utanum hvort annað. Það
var hún sem talaði – hvíslaði lágt. Hann
beygði sig fram eins og dýr sem leitar að
bráð sinni en hann heyrði ekki orðaskil. Þeg-
ar þær voru komnar lengra í burtu náðu ögr-
andi hlátrasköll hennar eyrum hans. Þessi
hlátur sem var þess megnugur að reka hann
oní rottuholu. Þau voru sem sagt að tala um
hann! Þessi hlátur gat ekki tengst neinu
öðru. Hann var viss um það.
Já, já, já, nú var þetta búið. Hann gæti
grátið og nauðað og hún myndi hlæja. Hann
gæti sagt að hann hygðist stytta sér aldur og
hún myndi hlæja engu að síður.
En ef hann gerði það! Þá myndi hún sjá
eftir og iðrast … Hann væri nú líklega ekki
sá fyrsti sem svipti sig lífi vegna ástarsorg-
ar!
Hann hélt áfram göngu sinni og hugsaði
um það hvernig hann ætti að fara að því.
Reipi með snöru sem hleypur hratt á
strengnum, það var allt sem þurfti.
Og síðan væri hann farinn? … Og frelsi
hennar yrði enn meira.
Hann snarstansaði. Það var eitthvað sem
ólgaði í blóði hans, hann vissi ekki hvað.
Honum fannst eins og hann hefði verið úti á
rúmsjó og viljað varpa sál sinni í hendur
Guðs en náð svo tökum á bátnum og stýrði
mót vindi. Það var alveg eins gott ef allt færi
í klessu! Hún myndi ekki stæra sig af því að
hafa verið að leika sér að honum og sært
hann að tilefnislausu. Hann ætlaði að hefna
leiksins.
Hann jók hraða göngunnar og þegar hann
kom heim að bænum kærði hann sig ekki um
að fara inn í mollulegan vinnumannaskúrinn
heldur kom hann sér fyrir uppi á hlöðuloft-
inu. Þar gæti hann sofið, þar var hann einn.
Hann útbjó sér bæli í heyinu og opnaði
þakgluggann til þess að fá tært loft inn.
Hann lagðist til hvílu alklæddur. En hann
gat ekki sofið, hann lá bara og hugsaði.
Allt var svo sérkennilega skýrt og klárt.
Hann hugsaði um föður sinn – gamall
maður með heiðgult fangelsisandlit, dul augu
sem virtust geta séð gegnum merg og bein.
Ætlaði hann að feta sömu leið? Var það á
þennan máta sem menn lentu í ógæfu, yrðu
tuktuhúslimir og óheiðarlegir um aldur og
ævi?
Hjá föður hans hafði þetta nú líklega verið
öðruvísi; hann framdi verknaðinn í bræði,
kannski var hann ölvaður.
Það er ekki hægt að koma í veg fyrir
þetta, ef maður hefur það í blóðinu; hann
gerði sér nú grein fyrir því.
Þetta er ákveðið, tuldraði hann. Tvö öfl
tókust á innra með honum, það sem hafði
vinninginn var ekki hans.
Hann lá lengi og hugsaði – ekki um það
hvort hann ætti að gera það eða ekki, heldur
bara vegna þess að hann gat ekki annað,
hann gat ekki sofið. Þegar honum virtist
nóttin liðin leit hann á klukkuna eins og tími
væri kominn til að halda til vinnu. Hún var
bara eitt.
Hann reis á fætur og gekk að stóra hlöðu-
opinu. Hann studdi sig við þverbita í loftinu
og leit út í nóttina; honum varð svo heitt af
því að liggja fyrir og það var heitur sláttur í
æðunum. Það var betra að standa í sval-
anum.
GLÆPA-
BLÓÐ!
SMÁSAGA
E F T I R V I K T O R I U B E N E D I C T S S O N
Í dag verður leikritið Viktoría og Georg eftir Ólaf
Hauk Símonarson frumsýnt í Þjóðleikhúsinu en
það fjallar um samband sænsku skáldkonunnar
Viktoríu Benedictsson og danska bókmennta-
fræðingsins Georgs Brandesar. Hér er birt þýðing
á smásögu Viktoríu en lengst af hefur skáld-
skapur hennar legið í þagnargildi.
VIKTORIA Benedictsson
(1850 -1889) hóf sinn stutta rit-
höfundarferil á því að út kom
safn raunsærra smásagna Frá
Skáni 1884.
Í skáldsögunum Pengar
(1885) og Fru Marianne (1887)
er það hjónabandið og erf-
iðleikar þess sem er henni að-
alyrkisefnið. Í fyrri bókinni er
sagt frá stúlku sem á sér lista-
mannsdrauma og hvernig hún
losar sig úr viðjum hjóna-
bandsins sem veitti henni ekki
það frelsi sem hún þurfti til
þess að þroskast sem listamað-
ur. Í síðari bókinni Fru Mar-
ianne er aðalpersónan eig-
inkona sem er dekruð og
óánægð en lærir að verða hamingjusöm
með því að standa sig vel í verkum dygð-
ugrar húsmóður.
Viktoria Benedictsson átti sér sem ung
stúlka drauma um að verða listmálari en
það fannst foreldrum hennar alveg
ómögulegt. Árið 1871 gekk hún að eiga
póstmeistara í Hörby, ekkjumann með
fimm börn. Heilsa hennar var ekki upp á
marga fiska þannig að hún var heldur ekki
vænlegur kostur sem húsmóðir og uppal-
andi. Hún eignaðist eina dóttur með póst-
meistaranum en hjónaband þeirra var
óhamingjusamt. Af mörgum er talið að
skáldsaga hennar Fru Marianne sé tíma-
mótaverk á níunda áratug
nítjándu aldar. Viktoria Bene-
dictsson skrifaði fyrst undir
dulnefninu Ernst Ahlgren.
Hún valdi sér karlmannsnafn
til þess að kynna þessi mjög
svo kvenlegu verk. Stóra bók-
in heitir sjálfsævisaga hennar
eða dagbókarbrot og er hún
gefin út í hennar eigin nafni.
Viktoria Benedictsson væri
máski öllum gleymd nema
bókmenntafræðingum í Sví-
þjóð ef ekki væri fyrir sam-
band hennar við hinn mikla
bókmenntajöfur Georg
Brandes. Sá hinn sami vand-
aði henni ekki kveðjurnar er
bókin um Fru Marianne kom
út. Talið er að hinn harði dómur hans, þar
sem hann segir m.a. að hún skrifi fyrir
barnapíur, hafi sett punktinn fyrir aftan
hennar stutta rithöfundarferil. Viktoria
Benedictsson féll fyrir eigin hendi í Kaup-
mannahöfn 1888.
Smásagan Glæpablóð kom út í síðasta
smásagnakverinu hennar 1887, Folkliv
och små berättelser. Bókin fékk góða
dóma.
Áhugi almennings fyrir Viktoriu Bene-
dictsson hefur aukist jafnt og þétt og nú
nýverið hafa sænskir kvenbókmennta-
fræðingar lyft henni í hæðir meðal ann-
arra rithöfunda hennar samtíma.
VIKTORIA
BENEDICTSSON
Viktoria
Benedictsson