Pressan - 28.02.1991, Blaðsíða 20

Pressan - 28.02.1991, Blaðsíða 20
20 FIMMTUDAGUR PRESSAN 28. FEBRÚAR 1991 íöícnöítnt |ijod§ogttt Maður sem var þekktur fyrirafrek sín í íþróttum var matmaður mikill. Svo virð- ist sem honum hafi staðið á sama hvaða mat hann lét í sig. Hitt var öllum Ijóst að hann þurfti mikið af mat. Græðgin var á tiðum slík að manninum sást ekki alltaf fyrir. Auk þess að vera dug- legur við íþróttaæfingar og keppnir starfaði maðurinn við húsþyggingar og var mjög duglegur til allra verka. Vor eitt fór hann ásamt tveimur vinnufélögum í lít- ið sveitaþorp á Vesturlandi. Þar var ætlunin að reisa ein- ingahús. Matsala var i fé- lagsheimili staðarins. Auk iðnaðarmannanna þriggja átu þar fjórir aðrir karlmenn og ein kona og ung dóttir hennar. Maturinn vargóður og velútilátinn. Þar sem kurteisi var ekki helsta dyggð íþróttamannsins tóku vinnufélagar hans að sér að gæta þess, svo litið þar á, að íþróttamaðurinn færi ekki svangur frá borði og ekki síður hitt að hann hneykslaði ekki aðra með framkomi sinni sem á stundum gat verið óhefluð, vægast sagt. Við matarborðið eitt kvöldið var borin fram lambasmásteik. Meðbitið var eggjakaka ein stór og mikil. Þar sem konan og dóttir hennar, sem voru fastir matargestir, voru ekki mættar þegar aðrir voru að hefja máltíöina sá annar vinnufélaga íþróttamanns- ins að nauðsynlegt var að taka stjórnina í sína hendur, annars var hætta á að íþróttamaðurinn æti alla eggjakökuna. Vinnufélaginn reyndi að skera eggjakökuna þannig að allir sem áttu að fá bita fengju nokkurnveginn jafn- stórar sneiðar. Þetta tókst með ágætum og enginn hreyfði andmælum. Þegar búið var að ráðstafa öllum sneiðunum nema tveimur, en mæðgunum voru ætl- aðar þær, hófst átið. Eins og áður hafði íþróttamaðurinn orðið oftast nær og aðrir komust sjaldan að. Þaö gerði lítið til þar sem hann sagði skemmtilega frá. Þegar dágóð stund var liðin mættu mæðgurnar. Mamman tók að skammta dóttur sinni á disk. Þegar hún ætlaði að ná í eggja- kökugneiðarnar og var að því komin að stinga gafflin- um í aðra þeirra kom gaffall íþróttamannsins með ótrú- legum hraða. Með þaul- æfðum höndum tókst hon- um að stinga í báðar sneið- arnar. Konan sat eftir og starði á aðfarirnar. Alla við- stadda setti hljóða nema iþróttamanninn sem sá ekkert athugunarvert. (Úr mathákasögum) Valdimar Tómasson bókasafnari SÍÐAN FÉKK ÉG VÍRUS „Þegar ég kom til menn- ingarinnar 16 ára fór ég að tína út eina og eina bók og síðan fékk ég virus. Nú á ég marga metra af bókum. Þetta er auðvitað ekki heil- brigt — ég er illa farinn ungur maður." Valdimar Tómasson er tæp- lega tvítugur bókasafnari frá Litlu Heiöi í Heiðardal. „Þar hef ég lifað glaðar stundir, eins og segir í gömlu söng- lagi. Þegar til Reykjavíkur kom tók hins vegar við hrakningasaga um mennta- kerfið, sem við skulum láta liggja milli hluta.“ Valdimar safnar einkum ljóðabókum, kvæðum og þjóðlegum fræðum. Það vek- ur óneitanlega forvitni okkar að svo ungur maður skuli vera haldinn slíkri söfnunar- áráttu. „Það eru einstaka ungir menn í þessu. Ég býst við að ég sé einfaldlega fag- urkeri. Eg er eins og aðrir bókasafnarar alltaf að leita að einhverjum fágætum hlutum. Núna er ég með mörg járn í eldinum, en er helst að reyna að tína eitthvað til eftir Jónas Guðlaugsson og rímnakver Símons Dalaskálds og fleiri góðra manna. Og nú eru allir að leita að Vilhjálmi frá Ská- holti. Það er mikil vakning fyrir Vilhjálmi, það er virki- lega erfitt að ná í hann. Rétt í þessu var ég að missa af einni af eldri bókum Vil- hjálms, hann fer út um leið og hann kemur inn. Maður verð- ur að hafa njósnir úti, ætli maður að hremma þær.“ Starfsferill Valdimars er með ólíkindum. Hann af- greiðir af og til í fornbóka- verslun í Hafnarstræti og í pylsuvagninum í Austurstræti í viðlögum, eins og hann kall- ar það. A sumrin hefur hann stundað óvenjuleg viðskipti, maðkatínslu. „Ég veit ekki hvort ég ætti að auglýsa það, því maðkatínslan er þokka- leg tekjulind, sem oftast er stunduð í skjóli myrkurs. Ég hef stundað maðkatínsluna frá blautu barnsbeini. Nóttin býr yfir mikilli fegurð sem dagurinn hefur ekki upp á að bjóða. En ég hef ekki gaman af næturlífi eins og það er í hugum flestra ungmenna." Valdimar útskýrir þetta nán- ar með kvæði eftir sig. Þér lífsglada æska sem œöir um torg í œrslafullum gleöinnar leik, og heldur það tryggasl í sœlu og sorg aö synda I vimu og reyk, en gœtir þess ekki aö veigin er völt og margan vin sinn i tryggöum hún sveik. Þótt Valdimar sé augljós- lega sjálfur skáld hefur hann engin áform uppi um að gefa út Ijóðabók. „Þetta er eins og mörlandinn hefur gert í gegnum tíðina. Það yrkja all- ir hver í sínu horni og síðan rykfellur þetta.“ Valdimar segir það nánast himnaríki á jörð fyrir sig að vinna í fornbókaverslun. „Þarna kemur margur mað- urinn spakur að viti, sem út- deilir af sinni visku. Og það er sérstök tilfinning að vera inn- an um fágætar bækur." Valdi- mar neitar þvi hins vegar að eiga sér einhverjar ákveðnar uppáhalds stefnur eða stíla. „Ætli ég segi ekki eins og skólaskáldið: Mig varöar ekkert um isma og istanna þrugl um list ég flýg eins og lóan mót sól og söng þegar sát mín er Ijóöaþyrst." „Rétt í þessu var ég að missa af einni af eldri bókum Vil- hjálms, hann fer út um leiö og hann kemur inn. Maður verður að hafa njósnir úti, ætli maður að hremma þær." SJÚKDÓMAR OG FÓLK Gyllinæd Ég var staddur í New York fyrir nokkrum vikum. Sú borg er stórkostleg á allan hátt. Seint fæ ég mig full- saddan á umferðinni, mann- lífinu, byggingunum og öll- um gjörningunum. Á kvöld- in og morgnana lá ég yfir sjónvarpi og skemmti mér við að horfa á spurninga- leiki, fréttaþætti og fram- haldsmyndir að ógleymdum auglýsingum. Égskoða alltaf amerískar auglýsingar með undrun og aðdáun. Þær eru margar ótrúlega vitlausar en jafnframt svo barnalegar og innilegar að ég skemmti mér alltaf jafn vel. Eitt af því sem Ameríkanar auglýsa í sínu sjónvarpi en við ekki hér norður á klaka eru alls konar lyf. I hjartnæmum leiknum auglýsingum kvarta prúðbúnir fjölskyldu- feður undan höfuðverkjum og áhuggjufullar húsmæður barma sér yfir tíðaverkjum. Hjálpin er aldrei langt undan í næsta apóteki í formi alls konar verkjalyfja. Hægdir virðast mörgum auglýsand- anum sérlega hjartfólgnar. Þeir auglýsa af mikilli innlif- un í síbylju bæði efni til að örva og draga úr hægðum. Leikararnir leggja sig alla fram og bera það utan á sér að þeir hafi ekki haft hægðir í nokkrar vikur. Svipurinn er fullur leiða og örvinglunar. Svo uppgötva þeir hægða- lyfið xyz sem gjörbreytir lífi þeirra til hins betra og þeir geta tekið gleði sína á ný. Aðrir hafa stöðugar áhyggj- ur af gyllinæð. Otal auglýs- ingar birtast á skjánum um lyf vegna þess sjúkdóms. Feitlaginn skrifstofumaður birtist á skjánum og hleypur fagnandi heim til konu og barna. Hann segir glaður í bragði að NN læknir hafi sagt að ekki þurfi að skera í gyllinæðina sína. Skrifstofu- maðurinn þurfi einungis að nota lyfið WW og þá muni allt falla í Ijúfa löð. Börnin og eiginkonan gleðjast inni- lega, stíga villtan dans og syngja söng um lyfið ww sem bjargi pabba frá verkj- um og skurðaðgerðum. Gullfalleg skrifstofumær segist með miklum raunasvip ekki geta setið lengur við vinnu sína. Hún finnur þá fyrir tilviljun kremið ww og nú getur hún setið tímunum saman óþægindalaust. Talið er að helmingur allra sem komnir eru á miðjan aldur þjáist af gyllinæð í einhverju formi. Það er því ábatasamur bissness að framleiða og selja lyf til að hafa áhrif á þetta hvimleiða ástand. Gyllinæð eru æða- hnútar sem myndast í kring- um endaþarmsopið. Æða- hnútar myndast þegar blóð safnast fyrir í æð þegar frá- rennsli þess hindrast af ein- hverjum ástæðum. Þetta veldur því að lokukerfi æð- anna bilar og blóðið dælist því ekki frá æðinni á eðlileg- an hátt. Þetta sama gerist þegar æðahnútar myndast í fótum. Gyllinæð myndast vegna þess að óeðlilega mik- ill þrýstingur er til langframa á bláæðunum í kringum endaþarmsopið af ýmsum orsökum. Algengasta ástæð- an er langvinn hægða- tregða með tilheyrandi rembingi og þjáningum og endurteknar þunganir sem auka mjög álag á enda- þarminn. Aðrar sjaldgæfari ástæður eru æxli í kvið. Þegar æð hefur skemmst á þennan hátt getur hún bólgnað upp og valdið mikl- um óþægindum. Gúll mynd- ast út úr æðinni sem sjúkl- inginn verkjar í og á þá erfitt með að sitja kyrr. Gyllinæð er skipt í innri gyllinæð sem er innan endaþarmsopsins og ytri sem er utan þess. Þegar bólgan verður mikil getur blætt frá gyllinæðinni. Nafnið gyllinæð er dregið af því að sjúklinginn verkjar mikið í gúlinn en þegar úr honum blæðir léttir á þrýst- ingnum. Sjúklingnum finnst hann þá hafa fengið gull í greipar sér. Gyllinæð er ein algengasta ástæða fyrir blæðingu og miklum verkjum frá endaþarmi. Margir minnast líka á kláða og útferð. Allir sem kvarta undan blóði með hægðun- um eiga að fara í enda- þarms- eða ristilspeglun svo hægt sé að staðfesta orsök- ina. Sagt er að Napóleon keisari hafi verið illa hald- inn af gyllinæð. Þegar orr- ustan við Waterloo var að byrja treysti hann sér ekki til að sitja hest sinn og breytti hann því upprunalegum bardagaáætlunum. Þetta skipti sköpum fyrir úrslit bardagans og Napóleon tap- aði. Gyllinæð hefur því verið talin hafa velt Napóleon úr sessi. Carter Bandaríkjafor- seti þjáðist af gyllinæð og var mikið um ástandið skrif- að í blöð þar vestra á sínum tíma. Þegar sjúklingur er með staðfesta gyllinæð verður að mýkja hægðirnar með ein- hverjum ráðum. Gott er að borða trefjaríkt fæði, sveskj- ur og annað slíkt sem eykur magn hægðanna og veldur því að þær renna ljúflegar. Mörgum finnst ágætt að sitja í heitu kerbaði og reyna þannig að mýkja endaþarm- inn og draga úr bólgunni. Langflestir sem hafa gyllin- æð nota einhver krem við henni. Þessi krem eru mýkj- andi og bólgueyðandi og mörg þeirra innihalda stað- deyfiefni sem draga úr sárs- auka í endaþarmsopinu. Þetta eru lyf eins og Procto- foam, Proctosedyl, Scheriproct, Doloproct, Ultraproct, Lídókomp og Sulgan 99. Þessi efni geta valdið ofnæmi svo flestir ráðleggja nú að þau séu ekki notuð lengur en 7—10 daga í einu. Stundum verður að skera í hana, bregða teygju á gúlinn og sprauta í hann ákveðnu efni. Skurðlæknar eiga í handraðanum ýmsar aðferðir. Gyllinæð er eitt af þessum litlu vandamálum sem margir þjást af og veld- ur ómældum þjáningum og vandræðum. Margir skamm- ast sín og leita því ekki lækn- is. Það er hægt að hjálpa flestum sem þjást af gyllin- æð en mestu máli skiptir þó að sjúkdómsgreiningin sé rétt og alvarlegra ástand sé ekki í felum bak við „sak- lausa“ gyllinæð.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.