Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Side 3

Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Side 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. MARS 2003 3 Á DÖGUNUM lærði ég nýtt orð. Alltaf gott að auka orðaforðann. Í netmiðlum sá ég, að nú væru þingmenn komn- ir í „kosningafrí“. Það var nefnilega það – kosn- ingafrí! Oft áður hafði maður svo sem heyrt, að nú væru þingmenn komnir í jólafrí, venjulega fylgdi með að það væri mjög langt jólafrí. Þingmenn fóru líka í páskafrí og sumarfrí. Sjálfsagt hafa orðfrjóir fjölmiðlungar fundið einhver fleiri frí til að gefa þingmönnum úr orðgnóttarsjóðum sínum. Þau nær sextán ár sem höfundur þessara lína sat á hinu háa Alþingi buldi þetta sífellt í eyrum. Ekki bara í fjölmiðlum heldur end- urspeglaði tungutak almennings óneitanlega þessa orðanotkun fjölmiðlanna. Það skal hiklaust viðurkennt núna áratug eftir að ég hvarf af þingi að ég lét þetta orða- lag stundum fara í taugarnar á mér. Reynd- ar var ég undir lokin búinn að koma mér upp stöðluðu svari, þegar einhver sagði sem svo: – Þið erum bara komnir í sumarfrí! Mitt staðlaða svar var eitthvað á þessa leið: – Sumarfrí ? Erum við ekki alltaf í fríi? Þingmenn vinna aldrei ærlegt handtak, eins og þú örugglega veist. Þá var svarið venjulega: – Neeeei, neeei. Ég meinti það nú ekki. En auðvitað meinti viðkomandi það þannig. Fjölmiðlar hafa lengi keppst við að koma því inn hjá þjóðinni að þeir sem kjörnir eru til setu á Alþingi Íslendinga séu verklitlir menn, sem geri mest lítið milli langra fría. Það er mér hulin ráðgáta hversvegna fjöl- miðlar kjósa að segja þingmenn komna í kosningafrí þegar þingstörfum lýkur fyrir kosningar. Hluti þingmanna býður sig ekki fram að nýju. Hverfa til annarra starfa eða setjast í helgan stein. Eru þeir komnir í kosningafrí? Hjá þeim þingmönnum sem stefna að end- urkjöri hefst nú mesta annatíð kjörtímabils- ins, – kosningabaráttan. Varla getur hún heitið kosningafrí? Hverskonar rugl er þetta? Þessi umræða um frí þingmanna rifjaði upp í huga mínum atvik frá því fyrir 15-20 ár- um. Það var undir kvöld í búningsklefa sund- laugarinnar í Breiðholti. Tilviljun olli því að þarna voru tveir þingmenn. Sá er þetta ritar og Halldór Ásgrímsson. Þarna var líka einn af þessum sjálfskipuðu, háværu kaffi- tímakjaftöskum sem maður hefur fyrirhitt á ýmsum tímum. Einn þeirra sem alltaf þarf að hafa orðið, veit allt, kann ráð við öllu og liggur ekki lágt rómur. Ræða hans þarna í búningsklefanum var eitthvað á þá leið, að það virtist nú ekki vera mikið að gera hjá þessum andsk ... við Aust- urvöll. Þeir gætu verið að dandalast í sundi og frílysta sig svona á virkum degi. Um þetta þusaði hann lengi við litlar undirtektir við- staddra. Hann var svo sem ekki að tala við neinn sérstakan en allir heyrðu hvað hann sagði. Og skildu til hverra orðunum var beint. Þegar Halldór Ásgrímsson gekk út, framhjá þeim háværa, sagði hann með hægð: „Við þurfum nú að þvo okkur líka!“ Það var eins og slökkt hefði verið á ræðumanninum, svo snögglega þagnaði hann. Áheyrendum var skemmt. Sannleikurinn er auðvitað sá að flestir þingmenn, að minnsta kosti þeir sem ég þekki vinna mikið og taka sér ekki löng frí. Ráðherrar hafa yfirleittt enn lengri vinnu- dag og taka sér enn skemmri frí. Auðvitað er hægt að fljóta áfram í þinginu á vinnu annarra og gera lítið. Þeir þingmenn verða sem betur fer yfirleitt ekki langlífir á þingi, – jafnvel þótt þeir séu duglegir að nudda sér utan í fjölmiðla. Langflestir þingmenn eru vinnuþjarkar og hlífa sér ekki. Þeir eiga í rauninni aldrei al- gjört frí og friðhelgi heimilis og einkalífs er nokkuð sem sumir þeirra þekkja bara af af- spurn. Það er algengur misskilningur að þing- menn eigi jafnan að sitja í þingsalnum og hlusta á umræður. Ef þingmaður ætlar ekki að taka þátt í umræðu, ef ekki er atkvæða- greiðsla í vændum og ef dagskrármálið er ekki eitt þeirra sem þingflokkurinn hefur fal- ið honum að sinna getur hann á ýmsan hátt varið tíma sínum betur en að sitja undir um- ræðum um mál sem hann ekki ætlar að blanda sér í. Verkaskipting er forsenda skynsamlegra vinnubragða á þingi. Það er enginn vegur að þingmenn geti fylgst með öllum málum. Hvað þá lesið öll þingskjöl frá orði til orðs. Sagt er að Páll Þorsteinsson frá Hnappavöllum í Öræfum hafi verið síðasti þingmaðurinn sem las öll þingskjöl frá upphafi til enda. Hann sat á þingi frá 1959 til 1974. Fjölmiðlar hafa líka tekið upp á þvi að kalla þann „ræðukóng“ sem lengst hefur tal- að. Það er enginn mælikvarði á dugnað eða atorku þingmanns hvað hann stendur lengi í ræðustóli. Það var lengi einn helsti ljóðurinn á ráði þingsins hve ræðutíma voru lítil tak- mörk sett. Það hefur þó breyst til batnaðar. Man ég þá tíð, að þingbræður á Norð- urlöndum setti hljóða þegar þeim var sagt að umræður um EES-samninginn hefðu á sín- um tíma staðið vikum saman á Alþingi Ís- lendinga. Í norska Stórþinginu lauk um- ræðum um EES-samninginn á fáeinum dögum. Þar var lengd umræðunnar ákveðin fyrirfram með samþykki þingflokka. Ræðu- tíma skipt milli flokka eftir þingmannafjölda. Flokkarnir skiptu svo tímanum milli sinna þingmanna. Á Alþingi töluðu sömu menn- irnir nánast dögum saman og sögðu fátt nýtt. Það er svo önnur saga, að nær allir þeir sem börðust gegn þessum samningi hafa nú við- urkennt ágæti hans. Það færi ákaflega vel á því að fjölmiðla- menn kynntu sér störf og starfsdag þing- manna svolítið betur og hættu að koma því inn hjá fólki að þingmenn séu nánast alltaf í fríi; að þá aðeins séu þeir að vinna að þeir sitji í þingsalnum eða láti móðan mása í ræðustóli. Það var stundum erfitt á fyrstu árum sjón- varpsins að sannfæra stjórnmálamenn, sem komu þangað í viðtöl, um að það skipti ekki mestu hve lengi þeir töluðu, heldur hvað þeir segðu. Sumir skildu það reyndar aldrei. Það fer vel á að ljúka þessu rabbi með því að vitna til ummæla sem eignuð voru Ásgeiri Bjarnasyni, sem lengi var þingmaður Vest- lendinga og forseti sameinaðs þings. Ásgeir mun hafa sagt: „Ég var nú kannski ekki alltaf í ræðustól. En ég leysti stundum ýmis mál meðan hinir voru að tala.“ KOSNINGAFRÍ RABB E I Ð U R G U Ð N A S O N eidur@sw2.com.cn JÓHANN HJÁLMARSSON DRENGUR 2001 Hann sér að komið er myrkur og þýtur í vindinum. Þetta er fyrsta haustið sem hann skynjar og veit að er hér. Húsið er skyndilega fullt af hljóðum sem koma að utan. Hann situr kyrr og hlustar. Horfir í rúðuna og trén svigna, flöktandi skuggamyndir. Myrkrið er þarna úti. Hann veit ekki hvort það er gott eða vont. Hann er þögull. Veröldin vitjar okkar. Jóhann Hjálmarsson (f. 1939) hefur gefið út fjölda ljóðabóka. Ljóðið var ort um 11. september. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 1 2 . T Ö L U B L A Ð - 7 8 . Á R G A N G U R EFNI FORSÍÐUMYNDIN er af íraskri konu með skotvopn á öxlinni. Myndin er tekin á mótmælafundi í Abu Ghreib 40 km vestur af Bagdad. Ljósmyndari: Faleh Kheiber. Reuters. Mikael M. Karlsson hefur verið kallaður einn af feðrum aka- demískrar heimspeki á Íslandi. Kristján G. Arngrímsson ræðir við Mikael, en um næstu helgi verður haldið málþing Mikael til heiðurs í tilefni af sextugsafmæli hans. Guðbergur Bergsson hefur kafað ofan í óræði hvatalífsins í skáldsögum sínum. Birna Bjarnadóttir fjallar um samband hvatalífs og samfélags- sýnar í skáldsögum Guðbergs. Konur og stríð er umfjöllunarefni tveggja greina eftir Birnu Þórarinsdóttur og Þorlák Einarsson en þau greina kvenímyndir í stríði og kyn- gervingu hernaðar. spyr Stefán Snævarr í samnefndri grein þar sem hann ræðir hvort hagfræðikenningar séu illprófanlegar eða jafnvel óprófanlegar. Ætti hagfræði að vera til?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.