Lesbók Morgunblaðsins - 22.03.2003, Qupperneq 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. MARS 2003
KÓR Langholtskirkju heldur upp á stór-afmæli í ár, en hinn 23. mars erufimmtíu ár frá því að kórinn var stofn-aður og þá undir heitinu Kirkjukór
Langholtssafnaðar. Stofnandi hans var Helgi
Þorláksson, sem var fyrsti organisti og kór-
stjóri hins nýstofnaða Langholtssafnaðar en
hann var jafnframt kjörinn fyrsti sóknarnefnd-
arformaður á fyrsta sóknarnefndarfundinum
sem haldinn var árið áður. Undir stjórn Helga
hélt kórinn reglulega tónleika, sem ekki var al-
gengt að kirkjukórar gerðu á þessum árum.
En árið 1964 urðu þáttaskil í starfi kórsins,
þegar Helgi veiktist og Jón Stefánsson tók við
kórnum og organistastarfinu – þá aðeins
sautján ára að aldri og það er óhætt að segja að
þar hafi úthaldsgóður og dugandi piltur verið
ráðinn til starfa, því ekki einasta er Jón ennþá
organisti og kórstjóri Kórs Langholtskirkju,
heldur hefur hann byggt upp kórstarf kirkj-
unnar þannig að athygli og aðdáun hefur vakið.
Þegar Jón er spurður hvernig staðið hafi á
því að hann var ráðinn í þetta ábyrgðarmikla
starf, vart af barnsaldri, segir hann:
„Ég var í kantoradeild Tónlistarskóla þjóð-
kirkjunnar og í námi í tónlistarskólanum.
Kennari minn var Róbert Abraham Ottósson
og það var hann sem sendi mig hingað. Síðan
var ég sóttur út á tún í Mývatnssveit og spurð-
ur hvort ég vildi fastráða mig hér og ég var
auðvitað til í það. Þannig gat ég unnið fyrir
mér næstu tvö árin og lokið námi hér heima. Í
þau tvö skipti sem ég hef svo farið utan í fram-
haldsnám, hef ég fengið leyfi frá störfum.“
Þegar Jón hóf störf hjá Kirkjukór Lang-
holtskirkju, voru kórfélagar á bilinu fimmtán
til átján, eins og algengt var í kirkjukórum á
þeim tíma. En hvernig varð þessi hefðbundni
kór að því fyrirtæki sem kórastarf í Langholts-
kirkju er í dag?
Tímamót í kórastarfi
„Það var dálítið merkileg ástæða fyrir því að
við gerðum breytingar á starfsháttum kórsins
þegar fram í sótti,“ segir Jón. „Ástæðan var sú
að kórfólkið fékk borgað fyrir að syngja í
messu. Upphæðin var greidd einu sinni á ári, í
einu lagi og síðan skiptu kórfélagar henni á
milli sín. Þetta kom í veg fyrir að fleiri bættust
í kórinn. Við fórum hins vegar að glíma við
stöðugt stærri verkefni, fá aukafólk til liðs við
okkur og það stefndi í það að ég stæði uppi með
tvo kóra, konsertkór og kirkjukór.
Við lögðum hausinn í bleyti til þess að finna
lausn á málinu og niðurstaðan varð sú að árið
1973 breyttum við kórnum þannig að kórmeð-
limir afsöluðu sér greiðslum og peningarnir
voru notaðir til þess að efla tónlistarstarf
kirkjunnar. Þetta gerði okkur kleift að fást við
stærri verkefni, kaupa nótur og standa straum
af öðrum kostnaði sem til fellur og er mikill.
Seinna var þessi háttur tekinn upp hjá mörg-
um öðrum kórum.
Nú var ekkert því til fyrirstöðu að hleypa
fleira fólki inn í kórinn – og viti menn, það
streymdi að okkur ungt fólk sem þyrsti í að
flytja stærri kórverk. En það komu líka til
fleiri breytingar. Í samráði við presta kirkj-
unnar, Sigurð Hauk Guðjónsson og Árelíus
Níelsson, tókum við upp einraddaðan safnað-
arsöng. Það þýddi að kórinn þurfti ekki lengur
allur að mæta í allar messur, heldur skiptum
við honum upp í marga forsöngvarahópa. Þar
með var binding kórmeðlima mun minni en
hún hafði áður verið.
Þetta var mjög svo í takt við það sem var að
gerast innan kirkjunnar. Það var komin mikil
hreyfing innan hennar um að efla þátttöku
safnaðarins og við urðum fyrst til þess að stíga
þetta skref til fulls. Þegar þarna var komið
sögu, hafði ég kynnst messuhaldi í Þýskalandi
þar sem allir sungu í kirkjunni og það var jafn-
vel bara einn forsöngvari.“
Tekist á við stóru verkin
Hvað var kórinn orðinn stór á þessum tíma?
„Kórmeðlimir voru orðnir um fimmtíu –
enda fór boltinn að rúlla eftir 1973. Eins og ég
sagði fórum við að flytja stærri og stærri verk.
Fyrsta risaverkið, „Stóru messuna“ eftir Moz-
art, fluttum við 1979 og árið 1981 fluttum við
Messías í fyrsta sinn en það er það verk sem
við höfum oftast flutt. Ég held að ég sé búinn
að stjórna flutningi á Messíasi tuttugu og fjór-
um sinnum á tónleikum. Og nú var komið að
Bach. Við fluttum Jólaóratoríuna fyrst 1982 og
lengi vel fluttum við hana annað hvert ár. Það
má segja að áratugurinn frá 1980 til 1990 hafi
einkennst af því að þá fluttum við öll stóru
verkin eftir Bach, Jólaóratoríuna, passíur og
h-moll-messuna. Þróunin frá 1990 hefur hins
vegar einkennst af stofnun kórskólans og ann-
arra kóra kirkjunnar.“
Kórskóli Langholtskirkju var stofnaður
1991. Upp úr honum verður til Graduale-kór
Langholtskirkju, barna- og unglingakór sem
varð til þegar fólk óx upp úr skólanum. En það
var ekki eins og börn og unglingar gætu aðeins
verið orðin of gömul fyrir skólann, heldur gátu
þau einnig verið of ung. Aldurstakmark í skól-
ann var átta ára, en þeir sem vilja syngja geta
ekkert beðið eftir að verða átta. Það var því
ekki um annað að ræða en að stofna enn einn
kórinn. Árið 1996 var Krúttakórinn stofnaður.
Í honum eru börn á aldrinum fjögurra til sjö
ára og má segja að Krúttakórinn sé forskóli og
í dag geta börnin byrjað sjö ára í Kórskól-
anum. En nú voru kórar Langholtskirkju sem
sagt orðnir fjórir. Og enn bættist við.
„Það hafði lengi brunnið á mér eftirsjá eftir
þeim krökkum sem uxu upp úr Graduale-kórn-
um,“ segir Jón. „Það má segja að í kórstarfinu
séu stelpurnar í meirihluta og mér fannst
ómögulegt að missa þær úr því starfi. Það varð
því úr að ég stofnaði eðalstúlknakór, Graduale
Nobili, árið 2000. Í þessum kór eru stelpur sem
allar hafa sungið með Graduale-kórnum og
skarað þar fram úr. Þetta er alveg ótrúlegur
hópur og flestar þeirra eru komnar mjög langt
í tónlistarnámi.“
Enn fjölgar kórunum
Ertu svo ekki með kammerkór?
„Jú. Hann varð til út úr Kór Langholts-
kirkju og var upphaflega einn af forsöngvara-
kórunum og var sá kór sem söng við giftingar
og jarðarfarir. Þótt þar sé oft tekist á við krefj-
andi verkefni, fannst mér efnisskráin of list-
rænt takmörkuð fyrir þennan hóp. Ég fór því
að æfa hann í verkum sem gera meiri kröfur til
söngvaranna með tónleikahald að markmiði.“
Og síðan kom sjöundi kórinn, ekki satt?
„Passar. Árið 2001 stofnuðum við Graduale
Futuri-kórinn. Hann er millistig á milli Kór-
skólans og Graduale-kórsins og má segja að
hann sé undirbúningur fyrir Graduale. Ástæð-
an fyrir stofnun þessa kórs var sú, að þarna
voru krakkar sem höfðu farið í gegnum
Krúttakórinn og Kórskólann og höfðu of mikla
getu til þess að syngja með Kórskólanum en
voru of ung fyrir þau verkefni og ferðalög sem
Gradualekórinn var að takast á við.“
Ertu þá ekki búinn að dekka kórmarkaðinn?
„Nei, það er af og frá. Við eigum til dæmis
enn eftir að stofna drengjakór.“
Þegar Jón er spurður hvort hann sé ekki í
vinnu allan sólarhringinn, viðurkennir hann að
víst sé dálítið mikið að gera – en sjálfur stjórni
hann „ekki nema“ fjórum kórum. Kór Lang-
holtskirkju og Graduale-kórinn æfa tvisvar í
viku hvor um sig – og þá eru öll kvöld frá, ann-
ar kórinn æfir mánudaga og miðvikudaga, hinn
þriðjudaga og fimmtudaga. Á föstudögum vill
fólk ekki binda sig og því æfa Graduale Nobili
og Kammerkórinn á laugardögum, annan
hvern laugardag hvor og í fjórar klukkustund-
ir í senn. Þetta er fasta prógrammið. Síðan för-
um við reglulega í æfingabúðir. Það er nokkuð
sem ég byrjaði fljótlega á eftir að ég kom hing-
að til starfa, því það hefur reynst afskaplega
vel að fara yfir eina helgi burtu úr bænum, á
stað þar sem við getum einbeitt okkur að því
sem við erum að takast á við.“
Er svo ekki álagstími fyrir tónleika, flutning
á stórum verkum og plötuupptökum?
„Nei, ég reyni að skipuleggja æfingar þann-
ig að það komi ekki álagspunktar, heldur gangi
æfingaprógrammið upp.“
Konsertmessa tileinkuð
Guðbrandi Þorlákssyni
Hvernig lítur svo afmælisárið út hjá ykkur?
„Það sem er stærsta verkefnið hjá okkur á
afmælisárinu er nýtt verk sem Hildigunnur
Rúnarsdóttir hefur skrifað fyrir kórinn. Þetta
er konsertmessa við klassískan latneskan
messutexta, sem hlotið hefur heitið „Í minn-
ingu Guðbrands Þorlákssonar“, en Langholts-
kirkja er kirkja Guðbrands, sem einnig skýrir
Graduale-nöfnin.
Verk Hildigunnar er risastórt verkefni og
milljónafyrirtæki. Í flutningnum tekur 40
manna hljómsveit þátt, auk 66–70 kórmeðlima
og einsöngvara. Við flytjum þetta verk á föstu-
daginn langa, 16. apríl. Hildigunnur hefur ver-
ið á launum hjá okkur í hálft ár við að semja
messuna og við höfum nú þegar fengið meiri-
hlutann af henni í hendur. Ég á vart til orð til
þess að lýsa hrifningu minni á því. Ég myndi
þora að veðja nokkuð miklu um að þetta verk
eigi eftir að fara víða erlendis.
Í haust erum við svo að skipuleggja tónleika-
röð með þeim söngvurum sem vaxið hafa upp
úr kórastarfinu hérna – og það er æði stór hóp-
ur. Að vísu verða fyrstu tónleikarnir í þeirri
röð í apríl, viku eftir að við flytjum messu
Hildigunnar, því þá ætlar Marta Hrafnsdóttir
að vera með sína tónleika. Hún hefur alveg ein-
staka alt-rödd og ég er sannfærður um að við
eigum eftir að heyra mikið frá henni í framtíð-
inni.“
Tónleikaferðir í sumar
„Í sumar mun ég fara með alla kórana fjóra
á flakk.
Í maí flytur Kór Langholtskirkju Requiem
Verdis á Akureyri, ásamt Sinfóníuhljómsveit
Norðurlands, Kirkjukór Akureyrar, Kór Tón-
listarskólans á Akureyri og Kammerkór Norð-
urlands, ásamt einsöngvurunum Kristni Sig-
mundssyni og Kristjáni Jóhannssyni. Eftir þá
tónleika höldum við til Danmerkur til þess að
halda áfram verkefni sem hófst í fyrra. Þetta
er samstarfsverkefni Íslands, Færeyja og
Danmerkur. Í fyrra komu kórar frá Færeyjum
og Danmörku hingað og við fluttum þrjú ný
verk sem voru samin fyrir okkur. Núna er ver-
ið að semja þrjú ný verk sem við flytjum í Dan-
mörku og á næsta ári frumflytjum við enn þrjú
ný verk. Það er Norræni menningarsjóðurinn
sem styrkir þetta verkefni sem ber heitið Ny
Nordisk Kormusik.
Við höldum tvenna tónleika í Danmörku.
Seinni tónleikarnir verða sunnudaginn 1. júní
og næsta dag koma Kammerkórinn og Nobili-
kórinn til Danmerkur og saman förum við til
Finnlands, höldum tónleika í Helsinki og tök-
um síðan þátt í kórahátíðinni í Tampere. Um
mánaðamótin ágúst/september held ég síðan
aftur til Finnlands, þar sem Graduale-kórinn
kemur fram á hátíð sem stendur í tíu daga og
fer fram víða um landið. Graduale-kórinn vann
2. verðlaun á kóramóti í hittiðfyrra og í kjölfar-
ið var okkur boðið á þessa hátíð í Finnlandi –
sem er mikill heiður, því það er aðeins sex kór-
um frá fjórum heimsálfum boðin þátttaka.“
Þegar Jón er spurður hvort ekki standi til að
flytja Messías á afmælisárinu, segir hann það
standa til í nóvember, ásamt Sinfóníuhljóm-
sveit Íslands. Hins vegar sé enn ekki búið að
staðfesta vetrardagskrána – svo við verðum
bara að bíða og vona.
Morgunblaðið/Sverrir
Jón Stefánsson, stjórnandi Kórs Langholtskirkju.
SJÖ KÓRA VELDIÐ Í
LANGHOLTSKIRKJU
Kór Langholtskirkju held-
ur á morgun upp á fimm-
tíu ára starfsafmæli sitt.
Stjórnandi hans, Jón Stef-
ánsson, var aðeins
sautján ára þegar hann
tók við starfi organista og
kórstjóra í Langholtskirkju
árið 1964 og segir hann
hér SÚSÖNNU
SVAVARSDÓTTUR frá
starfinu og uppbyggingu
kórsins frá þeim tíma.