Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.2003, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. JÚLÍ 2003 7 vandað og vel uppsett, og ætlað mun víðari les- endahópi en hin hefðbundnu fræðirit ná til. Þannig má kannski ímynda sér að ætlunin hafi verið að skapa tímaritinu stöðu sem eins konar brú milli fræðaheimsins og almennari lesenda. Þá hafa áhugaverðar umræður spunnist á blaðsíðum tímaritsins um menningu og pólitík, ekki síst heimsmálin, og er full ástæða til að halda að TMM, hefði það haldið áfram, gæti hafa gegnt virðingarverðu hlutverki í sam- tímaumræðunni. Framtíð fræðirita Að sjálfsögðu er eftirsjá að tímariti með jafnmikilvæga sögu og TMM hinu eldra. Ósk- andi væri að tilkoma hins nýja tímarits hefði ekki krafist fráfalls hins gamla. Neikvæð skila- boð breytingarinnar kunna að útskýra að nokkru leyti blendin og tortryggin viðbrögð við nýja ritinu. Vísbendingar um að ekki sé grundvöllur fyrir rit sem byggjast á fræðileg- um og faglegum skrifum, skrifum sem ekki taka tillit til markaðslögmála og byggjast á mikilli og einlægri vinnu innan afmarkaðra fræðigreinar – og eru því ekki jafn lesvæn og það sem birtist í öðrum fjölmiðlum – vísbend- ingar í þessa veru eru erfiðar viðfangs í augum fræðasamfélagsins sem treystir á ákveðin rit sem vettvang (jafnvel hinn eina) til að koma rannsóknum, athugunum og viðhorfum sínum á framfæri. Ef þessar vísbendingar eru sannar eru þær heldur ekki jákvæðar fyrir íslenskt menningarsamfélag – hið sögufræga bók- mennta- og menningarsinnaða Ísland sem um er skrifað í ferðamannabókum – þar sem fræðirit gegna ómissandi hlutverki. Kemur þar til staða ritanna sem vettvangur fyrir vel rökstudda og ábyggilega umfjöllun um ólík en mikilvæg málefni (kvótakerfið, alþjóðavæð- ingu og þjóðarhugtakið svo nokkur nýleg dæmi séu nefnd) sem takmarkað svigrúm er til að sinna í dægurbundnum fjölmiðlum. Auk þess (og á þetta þarf vart að minnast) sem listaumræðan fær í heild sinni meira rými til að blómstra á síðum fræðiritanna en í öðrum miðlum. Hins vegar má ljóst vera að útgáfa fræðirita er ekki ýkja arðbær starfsemi. Jafnvel á stærstu málsvæðum er fræðiritaútgáfa rekin eða styrkt af háskólum eða opinberum stofn- unum – og gengur samt á ýmsu. Þannig olli það miklu fjaðrafoki þegar Stanford-háskóli í Bandaríkjunum lagði nýverið því sem næst niður útgáfudeild háskólaforlagsins á sviði hugvísinda. Á undanförnum áratugum hefur þetta forlag staðið fyrir mörgum mikilvægustu útgáfum á þýðingum og frumsömdum fræðirit- um í enskum málheimi. Það hefur því þrengt að fræðilegri útgáfu víðar en á Íslandi. Mark- aður er lítill, gróðavon minni og hugsjónir eru takmörkunum og kringumstæðum háðar. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags Hugsjónir hafa þó áhrif og þegar gott fólk er til staðar til að fylgja þeim eftir getur árang- urinn verið aðdáunarverður, eins og nýafstaðið 175 ára afmæli Skírnis er vitnisburður um. Elsta fræðirit Norðurlanda gegnir enn lykil- hlutverki í menningarumræðu þjóðarinnar og mun, af víðsýnni ritstjórastefnu undanfarinna ára að dæma, halda áfram að gera það um nán- ustu framtíð. Að minnsta kosti verður Skírnir ekki ásakaður fyrir að dveljast í hinum ann- álaða fílabeinsturni og glata þar af leiðandi tengslum við samfélag sem ört er að breytast. Þvert á móti, „nýjabrumið“ fær pláss við hlið sígildari umfjöllunarefna. Áður rammbyggður virkisveggurinn sem aðskildi menningarheima hefur öðlast hengibrú í formi póstmódernískr- ar fjölhyggju og síki menningarfordóma hefur að mörgu leyti verið yfirstigið. Fræðileg um- fjöllun um myndbönd Bjarkar Guðmundsdótt- ur er þar gott dæmi, en ekki þarf að rýna mjög djúpt í fortíðina til að sjá móta fyrir tímaskeiði þar sem tónlistarmyndbönd hefðu varla þótt boðlegt viðfangsefni fyrir Skírni. En líkt og Sigurður Líndal bendir á í nýlegri grein um sögu Skírnis og stöðu þess í samtím- anum er þó ýmislegt sem betur mætti fara á fræðiritamarkaðnum. Sigurður nefnir m.a. að á sama tíma og háskólamenntuðu fólki hefur fjölgað og umræðan um mikilvægi menntunar aukist hefur útbreiðsla Skírnis ekki vaxið í sama mæli. Ætla má að sama gildi um önnur fræðirit. Hann nefnir mögulegar orsakir, og þeirra mikilvægust er e.t.v sú að miðlum á öll- um sviðum hefur fjölgað verulega síðustu ára- tugi. Samkeppnin um athygli einstaklingsins er gríðarleg og á sama tíma hafa kröfur um sérhæfingu aukist. En Sigurður bendir jafn- framt á að í þessu kapphlaupi hefur prent- miðlum ekki gengið sem skyldi. Í samkeppni við sjónvarp – og aðra myndmiðla – eru prent- miðlar að lúta lægra haldi. Hann bendir rétti- lega á að orðstír bókaþjóðarinnar er byggður á vafasömum forsendum jólaneyslu og skyldu- lesningar í skólum. Umbreyting TMM getur í þessu samhengi talist dæmigerð – frá svart hvítum prentmiðli í átt að myndrænni, litríkri og aðlaðandi framsetningu. Ekki ber þó að skilja aðgreininguna sem svo að nýupptalið þríeyki sé á nokkurn máta neikvætt í sjálfu sér, þróunin er hins vegar í átt að aðgengilegu formi sem ekki krefst of mikils tíma eða ein- beitingar. Nýir miðlar, nýr fræðavettvangur? Í grein sinni fjallar Sigurður um breyting- arnar sem hafa átt sér stað á upplýsingamiðlun síðustu ár, og þá sérstaklega í samhengi við netbyltinguna. Hann varpar fram þeirri spurn- ingu hvort þekkingarmiðlun muni færast yfir í netheima. Þetta er aðkallandi spurning því staðreyndin er sú að flest fræðirit í hinum enskumælandi heimi (og víðar) hafa á undan- förnum árum flutt efni sitt yfir í „þekkingar- rými“ Netsins, jafnframt því sem prentun er haldið áfram. Stafræn framsetning hefur að sjálfsögðu marga kosti, og þaraf allnokkra fram yfir prentaða framsetningu. Þau sem til dæmis hafa nýtt sér alfræðibækur á stafrænu formi hafa kynnst þessum kostum af eigin raun, auk þess sem heildstæðir gagnabankar og leitarvélar sem veita áhugasömum aðstoð í ferð þeirra um rangala uppsafnaðs efnisforða eru vitanlega ómetanleg fyrir fræðistörf af öllu tagi. Sigurður veltir fyrir sér ýmsum mögu- leikum í þessu samhengi og því hvort Skírnir eigi eftir að hreiðra um sig á Netinu í fyrir- sjáanlegri framtíð, nokkuð sem væri óskandi. Slíkar umbreytingar ættu þó ekki að þurfa að hafa gagnger áhrif á prentútgáfu fræðirita, enda hefur það sýnt sig að uppsetning á net- vænum aðgangi að efni og árgöngum fræðirita (sem og annarra prentmiðla) virkar sem aukin þjónusta við notendur og viðbót við starfsemi viðkomandi útgáfu en ekki sem arftaki prent- miðilsins. Háskólar kaupa gjarnan aðgang að heildarsafni fræðirita á Netinu fyrir nemend- ur, auk þess sem þessi möguleiki yfirstígur landfræðileg mörk og endurnýjar og eykur gildi eldri greina. Þó verður að hafa tvennt í huga. Ekki eru allir nettengdir og prentaður texti er lesvænni (og sennilega hollari) en tölvuskjárinn, auk þess sem ánægjan af áþreif- anleika útgefinna bóka og rita er meiri en af stafrænt sköpuðum ljósgeislum og útprentuð- um lausablöðum. Netmiðlar eru þó bylting í fjölmiðlun. Svo vel vill til að Íslendingar, sem er jú ein af net- tengdustu þjóðum heims, geta státað af afar frambærilegu vefriti. Kistan er vefrit um menningartengd fræði í víðum skilningi, hefur í raun reynst vettvangur fyrir skrif á sviði bók- mennta, menningarfræði, heimspeki, kvik- myndafræði, þýðingafræði o.m.fl. og er því kannski ekki auðvelt að marka henni tiltekinn bás. Að auki hefur Kistan skapað sér sterka stöðu á sviði bókmennta- og leikhúsgagnrýni og tekur þar flestum prentbundnum miðlum landsins fram hvað varðar framsetningu á fag- legri og vel rökstuddri umfjöllun. Skiptir þar nokkru máli að kílóbæt í þekkingarrýminu eru bæði fleiri og ódýrari en dálkasentímetrar í dagblöðum. Er þá ótalinn sá eðlisbundni kostur formsins að vera uppfæranlegur (eða afmáanlegur) með litlum fyrirvara og geta geymt nær ótakmark- aðan forða af eldri greinum og framlögum pistlahöfunda. Með því að nýta þessa mögu- leika hefur Kistunni tekist að verða ein af mik- ilvægari röddum íslenskrar menningarum- ræðu. Meðan á jólavertíðinni stendur er þar að finna að umfjöllun um nýjustu bókmenntirnar og hina níu mánuði ársins er vefsetrið vett- vangur ýmiss konar umræðu um menningar- mál. Að þessu leyti hefur frumkvöðlastarf Matthíasar Viðars Sæmundssonar borið góðan ávöxt. Ný rödd, nýtt Rit Tíðindum sætti þegar nýtt fræðirit hóf göngu sína undir lok ársins 2001. Ritið nefndist það og hefur frá upphafi verið undir ritstjórn Guðna Elíssonar, bókmenntafræðings, og Jóns Ólafssonar, heimspekings. Síðasta tilraun til að stofnsetja nýtt tímarit um menningarmál, Fjölnir, varði aðeins nógu lengi til að koma út tveimur eintökum og var þar þó sótt af krafti inn á almennan markað, bæði hvað varðar inni- hald og form. Ritið, sem gefið er út af Hugvís- indastofnun Háskóla Íslands, er reyndar af öðrum toga, og lagt var upp í útgáfuferðalagið á mun lágstemmdari nótum en í Fjölni, sem vonandi gefur tilefni til að ætla að örlögin verði önnur. Útgáfa Ritsins ber vitni um fræðilegan metnað þegar litið er til efnis og efnistaka, og útlitið er hefðbundið og stílhreint. Hér má reyndar finna veigamesta þátt fram- taksins og birtingarmynd raunverulegs frum- leika þess. Ólíkt öðrum fræðiritum á mark- aðnum, og hér verður að telja hið framliðna TMM með, miðast hver útgáfa Ritsins við ákveðið fræðilegt viðfangsefni eða þema. Þ.e.a.s. hér hefur verið fundinn ákveðinn fræðilegur millivegur milli sjarmerandi óreiðu Skírnis og fleiri rita og draumsins um sérhæfð íslensk fræðirit með því að helga hvert hefti Ritsins ákveðnu málefni eða fræðilegum vett- vangi. Að þessu leyti líkist hvert hefti hefð- bundinni útgáfu háskólaforlaga og víða erlend- is er þessi leið farin í útgáfu fræðirita. Þannig hefur Ritið með sínum fyrstu útgefnu heftum reynt að skapa nýjan grundvöll innan íslenska fræðasamfélagsins og á hrós skilið þar sem ekki hefur almennt verið talinn grundvöllur fyrir slíku framtaki. Ritið gerði kvikmyndaaðlaganir bókmennta- texta að aðalefni fyrsta heftisins sem er eitt af áhugaverðari fræðisviðum samtímans. Í raun mætti kvikmyndafræði og sérstaklega samspil kvikmynda og bókmennta vera mun meira áberandi umræðuefni hér á landi en raun ber vitni. Ekki síst ef tekið er tillit til þeirrar áhugaverðu aðstöðu íslenskrar menningar að helstu menningarverðmæti þjóðarinnar, þ.e. Íslendingasögurnar, hafa verið í allt að því líf- rænum tengslum við þróun kvikmyndalistar hér á landi allt frá upphafi til dagsins í dag. Sambandið þar á milli eru að sönnu ljóst en að mestu órannsakað, sem er nokkur synd því slík rannsókn ætti þess kost að varpa ljósi í víðu samhengi á þá menningarlegu tilfærslu sem átt hefur sér stað í samtímanum frá orði til myndar, auk áframhaldandi mikilvægi sagn- anna sem þó taka umbreytingum í nútímanum og með nýjum miðlunarleiðum. Vert er í þessu samhengi að geta þess að Bergljót Kristjáns- dóttir athugar einmitt kvikmyndauppfærslu Ágústs Guðmundssonar á Gísla sögu Súrsson- ar, Útlaganum, en þar kemur fram að fráhvörf kvikmyndatextans frá frumtextanum eru jafn- merkingarbær og það sem er fært milli miðl- anna án mikilla breytinga. Mest rými í fyrsta heftinu fá þó rannsóknir á aðlögunum þekktra nútímabókmennta að hvíta tjaldinu. Þannig fjallar Ástráður Eysteinsson um vandasama tilfrærslu Kristnihaldsins eftir Halldór Lax- ness á kvikmyndaform. Hann fjallar í því sam- hengi um jafnólíkar birtingarmyndir textans og upprunalegu skáldsöguna, leikritið, handrit kvikmyndarinnar og kvikmyndina sjálfa. Þá fjallar Guðni Elísson um aðlögun Friðriks Þórs Friðrikssonar á ástsælustu skáldsögu síðasta áratugar í íslenskum bókmenntum, Englum al- heimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Um- ræðan í heild vekur ekki aðeins athygli á sígild- um bókmenntatextum heldur bendir hún á hvernig ólík listform tvinnast saman en eru á sama tíma ólík. Bent er á hvernig bókmennta- textinn skilgreinir ekki aðeins viðtökur kvik- myndaáhorfenda heldur líka hvernig kvik- myndaaðlögun getur mótað skilning fólks á bókmenntatexta og lifuðum veruleika, líkt og Eggert Þór Bernharðsson gerir í umfjöllun sinni um kvikmyndaaðlögun Friðriks Þórs Friðrikssonar á tveimur fyrstu bindum skáld- sagnaþríleiks Einars Kárasonar um Djöflaeyj- una. Í heftunum sem á eftir hafa komið hafa stað- leysur, femínismi og menningarfræði verið umfjöllunarefni. Þetta er óneitanlega áherslu- breyting frá fræðiritum sem birta greinar um óskyld málefni, líkt og Skírnir gerir og TMM gerði. Í Ritinu er að finna mörg ólík fræðileg viðhorf um eitt viðfangsefni. Þetta hvetur les- endur til að líta á hverja útgáfu sem sjálfstæða heild sem þannig öðlast líka varanlegt gildi sem áþreifanlegt innlegg í ákveðna umræðu (eða sem upphaf hennar) í stað þeirra ókræsi- legu en ekki ósennilegu örlaga að hvert hefti verði aðeins að sundurtætanlegu viðfangi ljós- ritunarvéla þar sem áhugasamir velja úr þær einstöku greinar sem þeim henta án þess að sinna heftinu í heild. Annað og þriðja hefti Ritsins eru lýsandi dæmi og sýna vel slagkraftinn sem býr í formi af þessu tagi. Í staðleysu-heftinu bjóðast les- endum annars vegar greinar sem á almennan máta fjalla um og útskýra hugtakið „staðleys- ur“ (e. „utopia“), hér er grein Árna Bergmanns gott dæmi, en einnig er lögð áhersla á að gefa hugtakinu samtímalega skírskotun með því að fjalla um íslenskan nútíma og alþjóðlegar hreyfingar í vísindum og menningu. Grein Jóns Ólafssonar um íslenska fyrirtækið de- CODE er sérstaklega áhugavekjandi í því til- liti en þar er ímynd og taktík fyrirtækisins orð- ræðu- og markaðsgreind. Útkoman er vel rökstudd, dálítið ógnvekjandi en á sama tíma afar umhugsunarverð mynd af fyrirtæki sem hefur merkingarauka langt handan við hefð- bundinn fyrirtækjarekstur. Það sem gefur grein Jóns aukið gildi er hversu ólík hún er hefðbundnum fréttaskýringum og friðþægj- andi útleggingum á hlutverki/mikilvægi/stöðu þessa fyrirtækis í þjóðlegu og alþjóðlegu sam- hengi. Jón nálgast viðfangsefnið frá sjónarmiði heimspeki, siðfræði og gagnrýnnar þekkingar sem birtir aðrar hliðar á margumræddu máli en áður hafa komið fram. Ritið sem fjallar um femínisma er í heild sinni sömuleiðs afar tímanlegt inngrip í um- ræðu sem aftur hefur hitnað undir nýverið. Opnunargrein heftisins, „Jafnrétti án femín- isma, pólitík án fræða“ eftir Þorgerði Einars- dóttur, gæti til að mynda verið gagnleg skyldu- lesning fyrir þá sem til máls taka um þetta efni. Þorgerður teflir fram staðreyndum sem sýna svo ekki verður um villst að baráttumál kvennahreyfingarinnar eru langt í frá í höfn, en um þessar mundir litast alltof stór hluti um- ræðunnar um femínisma af því viðhorfi að um sé að ræða einhvers konar fortíðardraug sem þvælist fyrir einstaklingsfrelsi og eðlilegu gild- ismati. Orðaleikfimi af þessu tagi er kannski staðreyndaheld en Þorgerður gerir sitt besta til að framsetja raunsanna mynd af samtíma- veruleika sem svo sannarlega mismunar fólki enn eftir kyni. Með því að blanda fræðilegum hugtökum á borð við „aðlaganir“, „staðleysur“ og „femín- isma“ (sem engu að síður eru óskaplega víð- feðm og óstýrlát) saman við ólíkar nálgunar- leiðir íslenskra fræðimanna hefur Ritinu á skömmum tíma tekist að marka sér sess innan fræðilegrar umræðu á landinu. Með því að veita samheldna og tímabæra umfjöllun um menningarleg málefni, að ógleymdum þýðing- um á völdum lykiltextum í hverjum efnisflokki (sem er athyglisvert innlegg um stöðu Íslands í alþjóðlegu fræðasamfélagi), er óhætt að segja að framtak Hugvísindastofnunar sé bæði mik- ilvægt og vel heppnað. Og kannski meira en það, Ritið sýnir í verki að íslenskir fræðimenn hafa ýmislegt fram að færa til alþjóðlegra við- fangsefna í fræðunum, auk þess sem útgáfan sýnir fram á áframhaldandi líf og kraft fræði- ritamarkaðarins í heild sinni, sem beið, og því verður ekki neitað, nokkurn hnekk þegar TMM gaf upp öndina. Höfundur leggur stund á doktorsnám í bókmennta- fræði í Bandaríkjunum. Kistunni hefur tekist að verða ein af mikilvægari röddum fræðasamfélagsins.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.