Lesbók Morgunblaðsins - 30.08.2003, Síða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 30. ÁGÚST 2003
S
ÝNINGIN Þjóð í mótun: Ísland
og Íslendingar fyrri alda verður
opnuð í Listasafninu á Akureyri
í dag kl. 15. Tilefnið er tvöfalt
því á árinu fagna bæði eitt
yngsta listasafn landsins og það
elsta afmælum sínum, Listasafn
Akureyrar verður 10 ára og
Þjóðminjasafn Íslands 140 ára. Á sýningunni
gefur að líta 33 listaverk, þau elstu eru frá því
um aldamótin 1600 og það yngsta frá 1830.
Að sögn Þóru Kristjánsdóttur, listfræðings
hjá Þjóðminjasafninu og sýningarstjóra, er
þetta stærsta sýningin sem Þjóðminjasafnið
hefur sent frá sér og í fyrsta sinn sem margir
gripanna sjást norðan heiða. „Í raun má segja
að þetta sé einstakur viðburður því svona tæki-
færi gefst væntanlega ekki aftur. Eftir að Þjóð-
minjasafnið verður opnað aftur munu langflest
verkanna tilheyra fastasýningu okkar og því
ekki hægt að lána nema einstaka verk.“
Aðspurður um tildrög sýningarinnar segir
Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafns-
ins á Akureyri, nokkrar ástæður liggja til
grundvallar. „Þar sem við erum nú einu sinni
listasafn á Íslandi vildi ég hafa afmælissýn-
inguna á þjóðlegu nótunum. Og hvernig er hægt
að vera þjóðlegri en að sýna eitthvað sem teng-
ist Íslendingum í gegnum tíðina? Mér hefur allt-
af fundist mikilvægt að kynna önnur tímabil og
aðra menningarheima, en upp á síðkastið höfum
við hér á safninu verið býsna alþjóðleg, ef ekki
hnattræn. Þannig vinnum við afar vítt bæði í
tíma og rými, án þess þó að missa sjónar á okkar
eigin ranni, þ.e. íslenskum samtímalistamönn-
um sem við reynum að sinna jafnhliða.“
Óslitinn þráður í listasögunni
Að sögn Hannesar hefur aldrei verið haldin
sýning á Þjóðminjasafninu í listasafni heldur
aðeins í þjóðminjasöfnun og minjasöfnum.
„Verkin á sýningunni sóma sér afar vel á lista-
safni og hugmyndafræðin var að reyna að sjá
verkin einmitt sem listaverk en ekki bara forn-
muni.“ Aðspurð um samstarfið segir Þóra mjög
ánægjulegt að eitt yngsta og elsta safn landsins
séu að vinna sýningu saman. „Mér finnst mjög
ánægjulegt að skoðuð séu þau listaverk sem
urðu eftir hjá okkur þegar Listasafn Íslands var
skilið frá Þjóðminjasafninu á miðri 20. öldinni.“
Bæði Hannes og Þóra leggja einmitt mikla
áherslu á mikilvægi þess að skoða nánar ís-
lenska listasögu. „Menn eiga því að venjast að
verk frumherjanna séu álitin það elsta í ís-
lenskri myndlist. Oft er miðað við fyrstu sýn-
ingu Þórarins B. Þorlákssonar, um aldamótin
1900, sem upphaf á fagmennsku í íslenskri
myndlist. En íslensk listasaga á sér náttúrlega
mun dýpri rætur og hér gefst einmitt kærkomið
tækifæri til þess að skoða þær,“ segir Hannes.
„Það er að skoða nánar myndlistarsögu okk-
ar, því hún er miklu lengri en fólk gerir sér
grein fyrir. Margir halda að myndlist á Íslandi
hafi ekki orðið til fyrr en um aldamótin 1900,
sem stafar af því að þá fyrst var farið að safna
myndlist. Þess má geta að strax á síðustu öld
byrjuðu bókmenntafræðingar að reyna að
lengja bókmenntasögu okkar. Þá voru það nán-
ast bara handritin og Íslendingasögurnar sem
voru þekktar svo og nútímaskáldskapur. Sig-
urður Nordal skrifaði merkilega grein snemma
á síðustu öld þar sem hann benti á að það væri
beinn þráður frá gullaldarbókmenntum og fram
á okkar daga. Kannski stundum veikur, en samt
alltaf óslitinn. Ég vil meina að það sama gildi í
raun um myndlistina okkar og tími sé til kominn
að skoða það nánar,“ segir Þóra.
Aðspurður um sýninguna segir Hannes ein-
staklega mikið lagt í umgjörðina til þess að
verkin njóti sín sem best. „Í gegnum tíðina höf-
um við gert talsvert af því að umbreyta sölum,
setja upp veggi og mála. Undirbúningurinn
núna er meiri en nokkurn tímann áður og feng-
um við Steinþór Sigurðsson til þess að hanna
alla sýninguna fyrir okkur. Salirnir eru
dökkgráir, málaðir frá gólfi upp í loft, og síðan
eru sérsmíðaðir veggir undir hvert listaverk, en
hver veggur hefur sinn lit sem styður viðkom-
andi listaverk. Þannig að þetta er vægast sagt
mjög glæsilegt og virðulegt.“
Á sýningunni verður til sýnis talsvert af
mannamyndum af bæði veraldlegum höfðingj-
um og andans mönnum, auk ýmissa kirkju-
gripa. „Ég valdi mannamyndir, málverk af Ís-
lendingum fyrri alda og verk eftir þekkta
listamenn íslenska,“ segir Þóra og bætir við:
„Meðal þess sem sjá má er minningartaflan um
Magnús Jónsson sýslumann prúða (1525-1591)
og fjölskyldu hans, en það er elsta málverkið
sem varðveist hefur af veraldlegum höfðingja.
Meðal annarra merkra verka má nefna afar
íslenska útfærslu af Maríu Guðsmóður. „Séra
Hjalti Þorsteinsson, sá mikli listamaður, skar út
mjög fallegt Maríulíkneski fyrir kirkjuna sína í
Vatnsfirði í kringum 1720 og verður hún á sýn-
ingunni. Hjalti hefur kosið að skapa Maríu í líki
íslenskrar sveitastúlku með rjóðar kinnar, í
rauðum kjól með uppsett hárið í hnút. Auk þess
má sjá eftirgerð af Hólaklæðinu, sem er eitt fín-
asta altarisklæði sem við eigum með myndum af
biskupunum þremur sem Íslendingar vildu
setja í dýrlingatölu á miðöldum. En á klæðinu
má sjá Þorlák helga Þórhallsson, Guðmund
góða Arason og Jón helga Ögmundsson og eru
þeir elstu Íslendingarnir sem við eigum myndir
af, þó auðvitað séu það aðeins táknmyndir bisk-
upa. Elstu málverkin eru hins vegar á prédik-
unarstól úr Bræðratungukirkju og eru eftir
Björn Grímsson sýslumann og málara.“
Þóra leggur áherslu á að þar sem einvörð-
ungu auðugir menn hafi haft bolmagn til þess að
láta gera af sér mynd þá sé ekki um neinn þver-
skurð þjóðarinnar að ræða á sýningunni. Auk
þess endurspegli myndirnar og gripir sem varð-
veist hafa ekki endilega listasöguna því margt
hafi glatast í tímans rás. „Líklegt má telja að
ýmsir veraldlegir munir hafi frekar glatast í
tímans rás sökum þess að þeir fengu ekki inni í
kirkjum sem voru í raun eini og besti varð-
veislustaður listaverka sem í boði var. Eitt sem
mér finnst gaman að leggja áherslu á er að það
er engin framþróun í þeim skilningi að verkin
verði betri, listrænt séð, með tímanum.“
Aðspurð um mikilvægi þess fyrir nútímafólk
að skoða fortíðina í gegnum þessi listaverk svar-
ar Þóra því til að ávallt sé gott að sjá hvað fólk á
öldum áður var að gera. „Með því að skoða
gömlu mannamyndirnar tel ég að við fáum betri
tilfinningu fyrir hvernig var búið í þessu landi
og hverjir það voru sem lifðu af. Auk þess er
alltaf gott að vita hvað menn voru að gera áður
listrænt séð, því það er ekkert nýtt undir sól-
inni. Menn skulu ekki halda að listsköpun sé nú-
tímafyrirbæri, það hafa alltaf verið til listamenn
í þessu landi, en svigrúm þeirra hefur verið mis-
mikið. Menn mega ekki halda að listin spretti
fullsköpuð ofan af himnum. Þetta sem við sýn-
um núna er brot af arfinum og mér finnst að Ís-
lendingar eigi að kynna sér hann.“
Gluggi á umheiminn
Aðspurður um stöðu safnsins á afmælisárinu
svarar Hannes því til að hún mætti vissulega
vera betri. Þannig bíður Listasafnið á Akureyri
enn eftir endanlegu húsnæði sínu. „Mér þykir
mjög miður að staða safnsins er nákvæmlega sú
sama og þegar það var stofnað fyrir 10 árum og
hér hefur t.d. ekkert verið gert í húsnæðismál-
um. Þegar safnið var stofnað var því fenginn
staður í núverandi húsi með fyrirheit um að eigi
síðar en á 7 ára afmæli safnsins gætum við flutt
inn á efstu hæð hússins líka, enda er efsta hæðin
kjörin til sýningarhalds og aðalástæða þess að
safnið var staðsett hér. Þar er mikil lofthæð,
einir fjórir og hálfur metri, og engar súlur á
meðan lofthæðin sem við búum við í dag er und-
ir þremur metrum. Sökum lítillar lofthæðar höf-
um við ítrekað lent í því að geta ekki tekið inn
einstök verk, nú síðast í tengslum við sýninguna
Meistarar formsins. En því miður lítur út fyrir
að við þurfum að bíða í a.m.k. 2–3 ár til við-
bótar.“
En húsnæðiseklan hefur að sögn Hannesar
sem betur fer ekki komið niður á aðsókninni á
safnið, því hún hefur næstum því tvöfaldast á
síðustu þremur árum. „Í fyrra voru gestir safns-
ins 23 þúsund manns, en þess ber að geta að Ak-
ureyringar eru 15.600 manns þannig að við náð-
um hverju mannsbarni og gott betur,“ segir
Hannes ánægður og bætir við: „Ég tel að mikill
meirihluti bæjarbúa sé afar jákvæður í garð
Listagilsins og þótt þetta hafi verið ansi um-
deild ákvörðun á sínum tíma var það hárrétt
ákvörðun hjá Akureyrarbæ að breyta þessu
iðnaðargili í listagil,“ segir Hannes og bendir á
að í náinni framtíð sé mikilvægt að fram fari
umræða um framtíð Listagilsins og hvaða fjár-
munir skuli settir í það. „Við hjá Listasafninu
erum búin að gefa góðan tón og sýna hvað hægt
er að gera þrátt fyrir of lítið rekstrarfé sem er í
raun í litlu samræmi við þær sýningar sem safn-
ið hefur boðið upp á. Listasafnið er í dag alþjóð-
legasta stofnunin á Akureyri; þetta er gluggi á
umheiminn. Á umliðnum árum höfum við haft
það fyrir meginreglu að taka frumkvæði að okk-
ar sýningum og fara okkar eigin leiðir. Með því
verður til ákveðin hjámiðja í myndlistarlífinu
sem er holl og góð fyrir alla, ekki síst Reykvík-
inga sem halda að þeir séu í nafla alheimsins.“
Sýningin stendur til 2. nóvember, en safnið er
opið frá kl. 12–17 alla daga nema mánudaga. Í
tilefni af Akureyrarvöku, menningarnótt Akur-
eyringa, verður safnið opið til kl. 23 í kvöld. Boð-
ið verður upp á freyðivín og harðfisk við opn-
unina, en um kvöldið geta gestir og gangandi
gætt sér á kleinum og kaffi í boði Kristjánsbak-
arís og Kaffibrennslu Akureyrar. Þúsund blöðr-
ur með afmælismerki Listasafnsins verða
blásnar upp og getur fólk tekið þær með sér
meðan birgðir endast. Sýningargestum gefst
auk þess kostur á að heyra íslensk þjóðlög í
flutningi Önnu Kristínar Guðbrandsdóttur. Að-
alstyrktaraðili sýningarinnar er Norðurorka hf.
AFMÆLISSÝNING Á
ÞJÓÐLEGU NÓTUNUM
Í Listasafni Akureyrar
verður í dag opnuð sýn-
ingin Þjóð í mótun: Ísland
og Íslendingar fyrri alda
sem unnin er í samvinnu
við Þjóðminjasafn
Íslands. SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR ræddi við
Hannes Sigurðsson, for-
stöðumann listasafnsins,
og Þóru Kristjánsdóttur,
listfræðing hjá
Þjóðminjasafninu.
silja@mbl.is
Á minningartöflu um Magnús Jónsson prúða og fjölskyldu hans stendur letrað: „Hugsa skalt þú
um dauða þinn og dauða Krists, blekkingu heimsins, dýrð himinsins og kvöl vítis.“
Altaristafla frá Grenjaðarstaðarkirkju sem Jón
Hallgrímsson málaði árið 1766.