Lesbók Morgunblaðsins - 04.10.2003, Síða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 04.10.2003, Síða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. OKTÓBER 2003 13 STÓRSVEIT Reykjavíkur hefur nú sitt tólfta starfsár og kennir ýmissa grasa í efnisvalinu í vetur. Fyrst ber að nefna einn fremsta jasstromp- etleikara heimsins, Tim Hagans. Hann mun stýra sveitinni 8. október á Kaffi Reykjavík. Flutt verða verk eftir hann. Hagans hefur leikið með mörgum kunnum stórsveitum, m.a. Stan Kenton, Woody Herman, Thad Jones og Ernie Wilkins. Hann hefur einnig leikið með stórstjörnum nútímans s.s. saxófónleikaran- um Joe Lovano. Hagans er listrænn stjórn- andi Norrbotten stórsveitarinnar í Svíþjóð, en hún er önnur tveggja atvinnustórsveita þar í landi. Hnotubrjóturinn í desember Jazzhátíð Reykjavíkur verður í nóvember. Þá leikur hinn kunni söngkvartett, New York Voices, með Stórsveitinni. Tónleikarnir fara fram í Austurbæ sunnudaginn 9. nóvember og verður efnisskráin í swing stíl. Stórsveitin stendur nú í fyrsta sinn fyrir jólatónleikum og flytur Hnotubrjótinn eftir Tsjajkovskíj í útsetningu Duke Ellington 5. desember. Stjórnandi sveitarinnar verður Vestur-Íslendingurinn Richard Gillis, en hann er aðalstjórnandi The Winnepeg Jazz Orch- estra. Einnig verða fluttar útsetningar á sí- gildum bandarískum jóladægurlögum með einum eða fleiri einsöngvurum. Árleg Stórsveitarveisla Hinn kunni sænski básúnuleikari Nils Landgren verður gestur sveitarinnar í febr- úar. Hann mun leika einleik og stjórna sveit- inni. Landgren er fremstur básúnuleika í sínu heimalandi og starfar mikið á meginlandi Evrópu, meðal annars með Stórsveit norður- þýska útvarpsins. Í mars fagnar stórsveitin sextugsafmæli Þóris Baldurssonar. Þórir mun útsetja og semja heila efnisskrá fyrir sveitina, stjórna og koma fram sem einleikari á Ham- mond B-3 orgelið sitt. Tónleikarnir fara fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Í maí stendur Stórsveitin að vanda fyrir Stórsveitarveislu í Ráðhúsi Reykjavíkur, en undanfarin ár hefur sveitin leitt saman allar starfandi stórsveitir landsins á þessum tón- leikum. Þannig mætir æskublómi íslenskra stórsveita hinum eldri og reyndar. Að jafnaði koma 5–6 sveitir fram á þessum tónleikum. Yngstu þátttakendurnir eru á tólfta ári en hinn elsti fast að áttræðu. FJÖLBREYTTUR VETUR HJÁ STÓRSVEITINNI Stórsveit Reykjavíkur í góðri sveiflu. Margt er framundan hjá henni í vetur. MARGRÉT Sverrisdóttir leikkona var ein sex Íslendinga sem útskrifuðust með B.A. próf í leiklist frá Arts Educational Schools í Lund- únum, eða ArtsEd eins og hann nefnist í dag- legu tali, í lok september. Margrét segir hend- ingu hafa ráðið því að hún sótti um í ArtsEd. „Fyrir algjöra tilviljun rakst ég á pínulitla frétt í Morgunblaðinu þar sem sagt var frá því að útsendarar ArtsEd væru að koma hingað til landsins til að halda prufu. Ég sá fréttina á föstudegi og var þá stödd norður í landi, en prufan átti að fara fram í Reykjavík á laug- ardeginum. Við kærasti minn keyrðum því suður um nóttina og ég mætti ósofin í prufuna. Sem betur fer átti ég tilbúið efni til þess að sýna. Ég tók þetta bara með trukki og komst inn,“ segir Margrét og hlær við tilhugsunina. Að sögn Margrétar var þetta í fyrsta og eina sinn sem ArtsEd hefur haldið prufu hér- lendis. „Þeir voru það hrifnir af Íslending- unum að þeir buðu sjö af þeim tuttugu sem komu í prufuna að koma út og hefja nám við skólann. Þetta átti að vera diplómanám í leik- list en meðan ég var úti við nám var því breytt í B.A. nám. Ég kvarta ekkert, enda ótvíræður kostur að hafa fengið nánast B.A. prófið í kaupbæti.“ Augljóst er að Margréti hefur gengið af- skaplega vel í náminu því hún útskrifaðist með hæstu einkunn. „Í fyrra var bara einn sem fékk hæstu einkunn, en í ár erum við fjög- ur af tæplega þrjátíu manna bekk. Einkunnin byggist að stærstum hluta á frammistöðu okk- ar á leiksviðinu í einni af þeim stóru leiksýn- ingum sem við tökum þátt í á lokaárinu, en auk þess er tekið mið af lokaritgerð sem við urðum að skila. Ég valdi að vinna ritgerðina mína í tengslum við uppsetninguna á Frúnni frá hafinu eftir Henrik Ibsen sem ég lék í og skrifaði ritgerðina í formi nokkurs konar æf- ingadagbókar þar sem ég skrifaði um allt sem ég var að prófa og skoða í tengslum við hlut- verkið.“ Leikhúsið alltaf heillað Aðspurð segir Margrét leikhúsið alltaf hafa heillað sig, þó hún hafi að sögn verið of feimin til þess að sækjast eftir hlutverki hjá Leik- félagi Húsavíkur, þar sem hún er borin og barnfædd. „Mig langaði alltaf en þorði ekki að spyrja hvort ég mætti leika. Þegar ég var sautján ára var ég síðan spurð hvort ég vildi leika og ég sagði strax já og hef verið að síðan. Ég vissi reyndar alltaf að ég myndi enda sem einhvers konar listamaður. Þannig var ég bæði að fikta við ljósmyndun og teikningu þegar ég var yngri, en leiklistin var einfald- lega sú listgrein sem heillaði mig mest. Í flest- um öðrum listgreinum finnst mér listamað- urinn of einangraður í listsköpun sinni. Ég er bara svo mikil hópmanneskja og finnst gaman að leika mér með öðru fólki. Margrét hefur hlaupið í flest þau störf sem vinna þarf fyrir eina sýningu hvort sem það tengist leikmyndinni, búningum, aðstoðarleik- stjórn eða umsjón leikmuna. „Mér finnst ein- faldlega bara gaman að vinna í leikhúsinu, þó mér finnist auðvitað skemmtilegast að leika. Um þessar mundir er að ég æfa nýtt leikrit, Dagbók Önnu, eftir Kristján Hreinsson sem Inga Bjarnason leikstýrir. Þetta er einþátt- ungur skrifaður fyrir tvær konur sem við Bryndís Petra Bragadóttir leikum, en verkið fjallar um stelpu sem þjáist af lystarstoli. Auk þess er ég að vinna í Borgarleikhúsinu þar sem ég hef umsjón með leikmununum í Línu langsokk. Aðaláskorunin þar felst í því að standa upprétt á hringsviðinu, því ég þarf að stökkva inn og út í skiptingum meðan sviðið snýst og er alltaf með báðar hendur fullar.“ Að sögn Margrétar er hún komin heim til að vera, þó vissulega hafi það heillað hana að vera áfram úti. „Ég vildi samt miklu frekar koma heim og skapa mér mín eigin tækifæri hér, gera eitthvað sem mér finnst gaman frek- ar en að vera í harkinu úti. Auk þess var ég orðin leið á að vera útlendingur.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg Margrét Sverrisdóttir leikkona. „GAMAN AÐ LEIKA MÉR MEÐ ÖÐRUM“ silja@mbl.is PÍANÓLEIKARARNIR Ástríður Alda Sig- urðardóttir, Birna Helgadóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson hlutu 500 þús. kr. styrk hver úr Minningarsjóði um Birgi Einarson apótekara. Þetta er í fimmta sinn sem styrkur er veittur úr þessum sjóði. Styrkþegarnir nú hafa áður feng- ið styrk úr sjóðnum, en í ljósi framúrskarandi árangurs í námi og glæsilegs tónleikahalds ákvað stjórn sjóðsins að veita þeim viðbótar- styrk til frekara náms. Ástríður Alda Sigurðardóttir hefur nýlega lokið prófi frá Bloomington-tónlistarháskólan- um í Bandaríkjunum og hyggur nú á framhalds- nám í Evrópu. Hún þreytti nýlega frumraun sína í píanóleik í Salnum í Kópavogi. Fyrir nokkru lék Birna Helgadóttir píanóhlutverkið á tónleikum Gorky Park-tríósins. Þar voru flutt tríó eftir rússnesk og armensk nútímatónskáld. Hún er nú í framhaldsnámi við Sibeliusar Aka- demíuna í Helsinki og lýkur í vor mastersprófi. Víkingur Heiðar Ólafsson þreytti frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir nokkrum dögum, þar sem hann lék Píanókons- ert Jóns Nordal og Píanókonsert nr. 1 eftir Prokovjev. Hann stundar nú framhaldsnám í pí- anóleik hjá Jerome Lowenthal við Juilliard-tón- listarháskólann í New York. Minningarsjóður um Birgi Einarson apótek- ara var stofnaður árið 1995 að frumkvæði eig- inkonu hans, Önnu Egilsdóttur Einarson. For- maður sjóðsins er dóttir Birgis og Önnu, Ingibjörg Ásta Hafstein. Meðstjórnendur eru bróðir hennar, Magnús B. Einarson og Anna Þorgrímsdóttir, Halldór Haraldsson, Ólafur Vignir Albertsson og Snorri Sigfús Birgisson.Píanóleikararnir Víkingur Heiðar Ólafsson, Ástríður Alda Sigurðardóttir og Birna Helgadóttir. ÞRÍR PÍANÓLEIKARAR FÁ VIÐBÓTARSTYRK ENDURMENNTUN HÍ og Þjóðleik- húsið standa nú í október fyrir nám- skeiði í tengslum við sýningu leikhúss- ins á Ríkarði þriðja eftir William Shakespeare. Námskeiðið er í fjórum hlutum, frá 14. til 28. október. Leikstjóri verksins er Rimas Tum- inas, sem þekktur er fyrir persónulega og frumlega nálgun við klassískar leik- bókmenntir. Á námskeiðinu kynna þátttakendur sér leikverkið vel og hlýða á fyrirlestra áður en þeir sjá sýningu Þjóðleikhúss- ins á verkinu. Námskeiðinu lýkur með umræðum með þátttöku aðstoðarleik- stjóra og leikara úr sýningunni, þar sem meðal annars verður gerð grein fyrir hugmyndum og aðferðum leik- stjóra við sýninguna. Einnig verður þátttakendum boðið upp á skoðunar- ferð um leikhúsið og veitt innsýn í starfsemi þess. Breski leikstjórinn og leiklistarkenn- arinn Mark Griffin fjallar um sýning- arsögu Ríkarðs þriðja í samhengi við sýningarsögu leikrita Shakespeares í heimalandi skáldsins. Mark Griffin hef- ur lagt sérstaka áherslu á leikrit Shakespeares í störfum sínum við leik- hús, en hann hefur meðal annars leik- stýrt og kennt við háskóla í Bretlandi, auk þess sem hann hefur starfað í Rússlandi og á Ítalíu. Umsjón með námskeiðinu hefur Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistar- ráðunautur Þjóðleikhússins. Skráning fer fram hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. NÁMSKEIÐ UM RÍKARÐ ÞRIÐJA

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.